Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Framtíðarborgin og viðnám hefðarinnar
Líf og starf 23. maí 2025

Framtíðarborgin og viðnám hefðarinnar

Höfundur: Þröstur Helgason

Feneyjatvíæringurinn í arkitektúr hófst í síðustu viku. Íslendingar taka nú þátt í fyrsta sinn með formlegum hætti.

Arnhildur Pálmadóttir arkitekt sýnir ásamt teymi sínu verk sem hún nefnir Lavaforming en þar er dregin upp mynd af mögulegri framtíðarborg sem byggð er úr rennandi hrauni beint úr jarðskorpunni. Sýningin segir sögu samfélags sem hefur lært að temja hraunflæði, nýta sér það og þannig breytt staðbundinni ógn í tækifæri til sköpunar. Einn af aðstandendum sýningarinnar tengist mér og því ætla ég ekki að fjalla sérstaklega um hana hér, en þó má geta að þessi djarfa hugmynd hefur þegar vakið talsverða athygli og valdi Financial Times íslenska skálann einn af þeim fimm athyglisverðustu í Feneyjum að þessu sinni.

Fenyjatvíæringurinn í arkitektúr er nú haldinn í nítjánda sinn og stendur til 23. nóvember nk. Ítalski arkitektinn og verkfræðingurinn Carlo Ratti er sýningarstjóri og segir umfjöllunarefnið vera hinn brennandi heim: „Og arkitektúr verður að takast á við hann með því að virkja allan sinn sköpunarkraft.“

Þátttökulöndin eru 66 talsins og aðalverðlaun hátíðarinnar að þessu sinni, Gullna ljónið, fær konungsríkið Barein í Persaflóa. Verkefnið er snjöll lausn sem ætlað er að búa til eins konar kuldapolla fyrir fólk á ofurheitum dögum sem eru margir í þessum heimshluta.

Nokkur önnur verkefni fengu sérstök verðlaun en eitt af þeim forvitnilegustu er Canal Café eftir Diller Scofidio + Renfro sem settu upp eins konar kaffihús á sýningarsvæði tvíæringsins í Arsenale. Það sem er óvenjulegt við kaffihúsið er að það notar í kaffið vatn sem unnið er úr síkjunum sem umlykja Feneyjar. Einn vandinn sem Feneyjar standa frammi fyrir er mengunin í sjónum en aðstandendur þessarar sýningar hreinsuðu hann með náttúrulegum aðferðum og leiddu hann svo beint í kaffibolla sýningargesta.

* * *

Af þeim skálum sem ég sá í mínu stutta stoppi í Feneyjum í liðinni viku vöktu einkum tveir sérstaka athygli.

Bandaríski skálinn heitir Porch: An Architecture of Generosity og fjallar, eins og nafnið gefur til kynna, um veröndina sem afl örlætis í bandarískri byggingarlist. Skálinn byggir á rannsókn sem staðið hefur um nokkurn tíma á hlutverki og tákngildi verandarinnar í bandarískum arkitektúr og menningu en sýningin hlýtur að orka á áhorfendur sem ákaflega beitt athugasemd á pólitískt ástand vestanhafs nú þegar Trump hefur tekið völdin í annað sinn.

Veröndin er staður þar sem Bandaríkjamenn hafa um aldir boðið fólk velkomið, átt samtal við granna sína, virt fyrir sér umhverfið um leið og þeir hafa dregið andann, hugleitt, lesið og leikið sér. Hún er staður þar sem heimar mætast, hið kunna og ókunna, byggingin og náttúran, innra og ytra. Sýningin dregur þetta fram með ákaflega fjölbreyttum hætti og sýnir hvernig veröndin hefur mótað bæði veruleika og hugarfar þessarar margbrotnu þjóðar sem hefur allt frá byrjun boðið heiminn velkominn. Þar til nú.

Veröndin sem smíðuð hefur verið í kringum bandaríska skálann í Feneyjum birtist manni sem táknræn yfirlýsing um andstöðu aðstandenda skálans við þá stefnu sem nú ræður ríkjum í Bandaríkjunum.

Norræni skálinn er einnig róttækur en á allt annan hátt. Finnar eru sýningarstjórar skálans að þessu sinni en þeir skiptast á með Svíum og Norðmönnum að sjá um sýningarhaldið í skálanum. Skálinn er módernísk bygging, teiknuð af norska arkitektinum Sverre Fehn og ber af öðrum húsum á sýningarsvæðinu í Giardini. Og segja má að sýningin lýsi átökum við þungan straum módernisma síðustu aldar þegar viðmið nútíma arkitektúrs voru mótuð.

Heiti sýningarinnar er Industry Muscle: Five Scoures for Architecture og rýnir í nútímaarkitektúr út frá sjónarhorni translíkamans. Spurningin er hvernig arkitektúrinn bregst við þegar normin breytast en ef marka má sýninguna er viðnám hefðarinnar sem mótaðist á síðustu öld mikið. Það sem módernisminn skildi eftir sig birtist manni með öðrum orðum sem stórkostleg fagurfræðileg arfleifð í sjálfri skálabyggingunni en á sama tíma afhjúpar sýningin módernismann sem þröngan, óþjálan og takmarkandi ramma sem ekki virðist vera svo auðvelt að brjótast út úr.

* * *

Að síðustu er vert að geta sýningar Eista, sem talaði kannski ekki síst til íslenskra gesta tvíæringsins. Eistar fjalla um vaxandi notkun á álklæðningum í borgarlandslaginu. Verkfræðileg lausn á einangrun húsa hefur breytt ásýnd borga. Álklædd einsleitnin hefur tekið yfir. Við könnumst við þessa þróun hér á landi. Hún hefur átt sér stað án þess að nokkur umræða hafi farið fram um fagurfræðileg áhrif hennar. Ætti sú umræða ekki að eiga sér stað? Hvað þarf til að hún eigi sér stað? Eða hvernig er hægt að binda enda á tímabil álklæðningarinnar? – svo spurt sé beint út. Er von á annarri lausn? Og má þá biðja um eilítinn fagurfræðilegan metnað þegar sú lausn verður þróuð.

80 þúsund gestir á síðasta ári
Líf og starf 8. júlí 2025

80 þúsund gestir á síðasta ári

Geosea, eða Sjóböðin á Húsavík, voru opnuð í lok sumars 2018. Í dag eru 12 ársve...

Lesið í fannir
Líf og starf 8. júlí 2025

Lesið í fannir

Kannski er ekkert sumarlegt að fjalla um fannir í júní. Og þó – þegar betur er a...

Greinandi og afhjúpandi rödd Ernaux
Líf og starf 7. júlí 2025

Greinandi og afhjúpandi rödd Ernaux

Enn af þýðingum og aftur kemur Þórhildur Ólafsdóttir við sögu hér í Hriflunni. F...

Kynning á íslenskum mat í Japan
Líf og starf 7. júlí 2025

Kynning á íslenskum mat í Japan

Íslandsstofa ásamt utanríkisþjónustunni og sendiráði Íslands í Japan skipulagði ...

17 impa slys
Líf og starf 7. júlí 2025

17 impa slys

Mikil umræða hefur orðið meðal íslenskra keppnisspilara síðustu vikur hvort drag...

Toga beint upp og mest fjórðung plöntunnar
Líf og starf 4. júlí 2025

Toga beint upp og mest fjórðung plöntunnar

Mikilvægt er að uppskera rabarbara á réttan hátt svo að rótin rotni ekki.

Feitur maður fótbrotnar
Líf og starf 3. júlí 2025

Feitur maður fótbrotnar

Eitt af svipmeiri stórbýlum landsins er Vallanes á Héraði, eða Vallanes á Völlum...

Góður bíll – punktur!
Líf og starf 3. júlí 2025

Góður bíll – punktur!

Að þessu sinni er tekinn fyrir hinn nýi Kia EV3 rafmagnsbíll. Þetta er fólksbíll...