Burt með gerviefnin
Stöðugt rakastig jarðvegs tómataræktar á Ítalíu kom skemmtilega á óvart nú á liðnu ári en þáttur gallabuxnaframleiðanda kom þar sterkur inn.
Samkvæmt upplýsingum frá ítalska gallaefnafyrirtækinu Candiani, unnu hönnuðir þess með samlöndum sínum á efnafræðistofunni Ars Chimica Laboratorio Chimico – með nýtingu denim-afganga sem til féllu við gerð fatnaðar í fyrirtækinu.

Ákveðið var að hefja rannsókn á ræktun tómata í jarðvegi auðguðum með klæðisafskurðum í garðyrkjubúinu Quintosapore sem er staðsett í héraðinu Umbria á Ítalíu.
Gerðar voru athuganir með tilliti til breytinga á efnasamsetningum og heildarheilbrigði jarðvegs í ræktunarferli tómataplantna, allt frá fræi yfir í fullvaxta plöntu og þær bornar saman við ræktun í jarðvegi án klæðisafganga.
Niðurstöður sýndu að þótt afskurði COREVA TM denimdúks væri bætt við jarðveginn breytti það ekki eðlilegri efnasamsetningu hans á neikvæðan hátt heldur ýtti undir stöðugt rakastig moldarinnar – sem bendir til þess að dúkur COREVA TM geti hjálpað til við vökvasöfnun í jarðvegi.
Hringlaga hagkerfi
Eigendur Candiani segja COREVATM denimefnið annars vera sérstaklega hannað með það fyrir augum að geta breyst í moltu á afar stuttum tíma og sundrast án allra skaðlegra eitrunaráhrifa á umhverfið, en efnið er unnið úr bómullarplöntunni Candiani Blue Seed Cotton. Blue Seed-plantan er gerð með stýrðri frævun á milli tveggja valinna „foreldraplantna“ ef svo má segja, en þessi blendingur kallar fram aukna líffræðilega virkni beggja foreldra sinna. Útkoman er því hágæðabómull, sterkar langar plöntur sem eru afar mjúkar. Blue Seed- plantan þarf einnig minna magn af vatni sem veldur því að ræktun getur átt sér stað í þurrara loftslagi.
Áður en rannsóknir tómataræktarinnar hófust höfðu eigendurnir, í samstarfi við Rodale Institute California Organic Center árið 2022, undirbúið lítinn ræktunarblett af bómullarplöntunni með það fyrir augum að gera örlitla tilraun. Efnisleifum COREVA TM denimdúks var blandað í jarðveginn og fylgst var með áhrifum hans á jarðvegsheilbrigði og vöxt plantnanna. Rannsóknin, sem stóð yfir í ár, sýndi engin skaðleg áhrif á umhverfi sitt, heldur þvert á móti aukna jarðvegsöndun og stöðugt rakastig. Þó þarna væri einungis um tilraun að ræða velti hún upp ýmsum möguleikum, þar á meðal hvort hið teygjanlega denimefni hefði jákvæð áhrif á þurran jarðveg – sem gekk svo eftir með tómataræktuninni hjá Quintosapore.

Nýstárleg lausn gegn sóun
Fyrirtækið Candiani Denim hefur einkaleyfi á denimefninu, sem er raunverulegur valkostur við gervitrefjar og er afar teygjanlegt. Nú gætu sumir velt fyrir sér hvort önnur gallaefni úr bómull, t.a.m. á borð við denimefni Levi‘s, brotni ekki niður í náttúrunni og séu því tiltölulega umhverfisvæn ... og svarið er jú, sérstaklega við réttar aðstæður og ef efnið er úr 100% bómull. Talið er að 100% bómullardenim taki um eitt ár að brotna niður í safnhaugi moltugerðar. Hins vegar brotnar denimefni blandað teygjanlegu gerviefni mishratt niður. Bómullarhlutinn tekur um ár á meðan nælonið getur tekið 40 ár og niðurbrot pólýester tekur allt að 200 ár. Fyrir utan allt annað menga þessi gerviefni við förgun og losa eitruð efni út í umhverfið.
Þótt hefðbundin teygjuefni gallabuxna séu allskaðvænleg getur COREVATM brotnað mun hraðar niður, orðið að rotmassa við réttar aðstæður. Hvati hönnuða COREVATM var sá að tískuiðnaðurinn eigi við ofneyslu og offramleiðsluvanda að etja og því hafi markmiðið verið að bjóða tískuiðnaðinum nýstárlega lausn til að berjast gegn sóun.
Þetta eru orð að sönnu og forvitnilegt að vita hvað framtíðin ber í skauti sér. Á hverju ári eru framleiddar milljarðar flíka sem margar hverjar enda lífdaga sína á urðunarstað þar sem mengun er allsráðandi – oft lítið sem ekkert notaðar. Samkvæmt stofnuninni Changing Markets Foundation hefur fjöldi skipta sem fatnaður er notaður fækkað um 36% á síðustu 15 árum þrátt fyrir tvöföldun framleiðslu. Þetta eru sláandi tölur en stofnunin, sem er í samstarfi við frjáls félagasamtök um markaðsmiðaðar herferðir sem afhjúpa óábyrga fyrirtækjahætti, er leiðandi afl þess að knýja fram breytingar í átt að sjálfbærara hagkerfi – og áhugavert að fylgjast með.