Brot af glötuðum heimi og kennimörk fasismans
Þórhildur Ólafsdóttir sendi fyrr á árinu frá sér bókina Með minnið á heilanum sem hefur að geyma endurminningar hennar frá því hún ólst upp í afskekktri sveit á Vatnsnesi við Húnafjörð.
Þetta er áhugaverð minningabók. Hún er sögð út frá sjónarhorni barnsins sem uppgötvar sitt nánasta umhverfi um eða upp úr miðri síðustu öld og þar með heiminn. Eins og titillinn gefur til kynna er það þó minnið sem stýrir för. Um leið og lesandinn finnur fyrir skeikulleika þess, þá skapar það samhengi í sögunni sem gefur henni víða og jafnvel almenna skírskotun. Þótt lesandinn þekki kannski ekki tíma og stað frásagnarinnar af eigin raun eru í henni þræðir sem auðvelt er að tengja sig við.
Texti Þórhildar, sem hefur gefið út tvö skáldrit (Brot úr spegilflísum, 2020, og Efndir, 2021) auk þess að hafa þýtt þrjú skáldverk, er í senn skáldlegur og hversdagslegur. Hann er ákaflega læsilegur og kallar átakalaust fram heim barnsins og glímuna við hið flæðandi afl minninganna. En textinn geymir líka myndir af liðinni tíð í sveitum landsins, verkum, handbragði, orðalagi og heimssýn. Verkið geymir brot af glötuðum heimi.
Það má hiklaust mæla með lestri á þessari góðu bók.
* * *
Árið 1997 birti ítalski rithöfundurinn og hugvísindamaðurinn Umberto Eco grein sem heitir „Ur-Fascism“. Hún hefur komið út nokkrum sinnum síðan og oftar nú síðustu ár, enda tíminn kallað á það. Hana er meðal annars að finna í bók á ensku sem ber þann grípandi titil, How to Spot a Fascist (2020). Sú bók geymir einnig tvær aðrar greinar eftir Eco sem heita í enskri þýðingu „Censorship and Silence“ og „We Are European“. Allt eru þetta stuttar og skorinortar greinar sem fjalla um uppruna og eðli fasisma í Evrópu. Fyrsta greinin er þeirra frægust en hún inniheldur meðal annars lista yfir fjórtán atriði sem Eco telur einkenna fasisma. Um er að ræða eins konar handbók um það hvernig á að þekkja fasista úr hópi annarra popúlista.
Svo stiklað sé á stóru segir Eco fasista veika fyrir sögulegri hefð sem þeir telja geyma allan sannleikann um það hvernig hlutirnir eiga að vera. Og þar með eru fasistar ekki hrifnir af róttækum og framúrstefnulegum hreyfingum í menningarlífinu á borð við módernisma, sem þeir hötuðust við allt frá því snemma á síðustu öld. Menningar- og menntafólk er heldur ekki hátt skrifað hjá fasistum. Þeir gruna það um að vinna gegn hefðum og viðtekinni þekkingu. Fasistum er illa við háskólafólk og -stofnanir enda segir Eco að gagnrýni og allt andóf gegn ríkjandi stefnu sé til óþurftar, að mati fasista. Þeir óttast sömuleiðis allt sem er öðruvísi og því er rasismi innbyggður í hugsunarháttinn.
Sögulegur fasismi sótti fylgi sitt til vaxandi miðstéttar sem var ósátt við hlutskipti sitt, versnandi stöðu og ásókn fátækra í aukna hagsæld. Nú á dögum, segir Eco, sækir fasisminn fylgi sitt til lægri millistétta sem finnst þær hafa misst af lestinni. Hann sækir einnig fylgi til þeirra sem byggja sjálfsmynd sína á því að tilheyra ákveðnu þjóðerni. Upp úr þeim farvegi spretta samsæriskenningar um þá sem eru utanaðkomandi eða framandi. Fasistar eiga því í samfelldu stríði við það sem kemur að utan.
Þeim er líka illa við hið veika og veikburða og hæða það opinberlega. Fasisminn byggir enda á elítisma sem haldið er að almenningi. Hugmyndin um hinn framúrskarandi einstakling yfirfærist á almenning og fyrir vikið verður til þjóð sem er yfir aðrar þjóðir hafin. Allir geta því orðið hetjur hinnar miklu þjóðar, einkum ef þeir fórna sér fyrir heildina og hugmyndafræðina. Viva la muerte, sögðu falangistarnir. En, já, karlmenn geta fyrst og fremst orðið hetjur, síður konur og hinsegin fólk. Almennt séð hafa einstaklingarnir ekki mikla rödd eða svigrúm í veldi fasismans, segir Eco, vilji fjöldans ræður og foringinn túlkar vilja fjöldans.
Að endingu bendir Eco á að ef stjórnmálamaður efast um réttmæti lýðræðislega skipaðs þings, þá ættu strax að vakna grunsemdir um fasisma. Sömuleiðis er Nýlenska (Newspeak) kennimark fasísks einvalds. Tungumál hans er iðulega einfalt, óvandað og óljóst. Þannig kemst hann hjá gagnrýni.
Þetta er sláandi lesning nú tæplega þrjátíu árum eftir að Eco skrifaði greinina.