Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Reynir Hauksson kynnir spænskan flamenco fyrir Íslendingum.
Reynir Hauksson kynnir spænskan flamenco fyrir Íslendingum.
Mynd / TB
Líf og starf 9. ágúst 2018

Borgfirskur gítarleikari í krossferð um Ísland

Höfundur: Tjörvi Bjarnason
Reynir Hauksson er ungur Hvann­eyringur sem hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir flamenco-gítarleik síðustu misseri. Hann er búsettur í vöggu spænskrar gítarmenningar í Granada í Andalúsíu en þar starfar hann sem tónlistarmaður. Í sumar hefur Reynir ferðast um Ísland og komið víða fram á tónleikum en um miðjan ágúst stendur hann fyrir fjórum við­burðum þar sem hann nýtur liðsinnis tveggja Spánverja og dansara sem á rætur að rekja til Mexíkó.
 
Reynir er sonur hjónanna Ingibjargar Jónasdóttur og Hauks Júlíussonar á Hvanneyri og ólst upp í stórum systkinahópi þar sem tónlistin var aldrei langt undan. 
 
„Ég er fæddur á sjúkrahúsinu á Akranesi og alinn upp á Hvanneyri og bjó þar til 16 ára aldurs. Þá flutti ég til Akraness og hóf þar nám við Framhaldsskóla Vesturlands þar sem ég lærði trésmíðar og kláraði sveinspróf. Síðan þá hef ég verið á faraldsfæti má segja. Hef búið á nokkrum stöðum á Íslandi og í Noregi. Núna dvel ég megnið af árinu í Granada á Spáni,“ segir Reynir.
 
Tónlistaruppeldið hófst í Borgarfirði
 
Reynir byrjaði tiltölulega ungur að spila á píanó og það var upphafið að tónlistarferlinum. „Það er stofupíanó heima á Hvanneyri og við systkinin lærðum að spila á það. Síðar lærði ég á píanó hjá Birnu Þorsteinsdóttur í Tónlistarskóla Borgarfjarðar, sem þá hét. Þegar ég var 13 ára færði ég mig yfir á gítar, þótti það aðeins meira kúl. Ég lærði á gítar hjá Gunnari Ringsted í sama skóla.
 
Fyrirkomulagið var þannig að tónlistarkennararnir komu í grunnskólana í héraðinu og kenndu. Í píanónáminu kom Birna alltaf í Andakílsskóla á Hvanneyri og svo þegar ég fór í gagnfræðaskóla á Kleppjárnsreykjum þá kom Gunnar þangað.“ 
 
Reynir spilaði á gítar á unglings­árunum og hefur spilað í  ýmsum hljómsveitum. Það var hins vegar ekki fyrr en upp úr tvítugu að hann hellti sér af alvöru í gítarnámið og þá í Reykjavík. „Þegar þá var komið sögu ákvað ég að taka námið traustataki. Ég lagði fyrir mig að læra þetta almennilega og skráði mig í nám í Tónlistarskóla FÍH þar sem ég lærði á klassískan gítar og rafgítar. Það nám kláraði ég árið 2015 með einleikaraprófi en helsti kennarinn minn þar var Snorri Örn Snorrason gítarleikari. Eftir að ég kláraði námið hérna fluttist ég til Noregs og fór í tónlistarháskóla þar.“ 
 
 
Kynntist flamenco í Noregi 
 
Reynir segist hafa kunnað vel við sig í Noregi en þar var hann bæði við nám og kennslu, fyrst á vesturströndinni en síðar í Osló. „Af öllum stöðum í heiminum þá kynnist ég flamenco-tónlistinni í Noregi. Þar var ég í eitt og hálft ár en á þeim tíma kynnist ég spænskri stelpu, Sofiu Diadié González, sem er kærastan mín í dag. Þá opnuðust dyrnar til Spánar, ef svo má segja. Ég fer að pæla miklu meira í flamenco, sem ég hafði alltaf vitað af, en aldrei gefið almennilegan gaum. Tónamálið í flamenco heillar mig, túlkunin og ryþminn. Tilfinningaskalinn er stór, það er mikill hiti og líka kuldi. Flamenco er í sjálfu sér ekki stíll heldur regnhlífarhugtak yfir marga stíla, sem þó eiga margt sameiginlegt. Þetta eru sígaunasöngvar frá Suður-Spáni fyrst og fremst. Flamencotónlistin á í raun margt skylt við blústónlist, kemur frá fólki sem hefur upplifað þjáningu og hefur lent undir í samfélaginu. Tónlistin er þeirra leið til að takast á við alla erfiðleikana.“ 
 
Gítartímar undir berum himni
 
Reynir segist vera heppinn að hafa fengið að kynnast þeim tónheimi sem flamencoinn er. Í Granada er hann með leiðbeinanda sem kennir honum handtökin. „Ég er með einn „maestro“ sem heitir Alberto Fernández Lopez. Hann er minn helsti kennari en svo læri ég eitt og annað af öðrum. Á flamencosýningum læri ég alltaf eitthvað nýtt. Oft og tíðum þegar ég hitti einhverja gítarleikara, sem ég kolfell fyrir, spyr ég þá hvort það sé möguleiki að hitta þá daginn eftir og taka tíma. Þeir taka vel í það yfirleitt. Einn þeirra heitir Jerónimo Maya sem kemur úr mikilli sígaunafjölskyldu á Spáni og á ættir að rekja til frumkvöðla í flamencogítarleik. Hann hefur kennt mér mikið en tímarnir með honum fara fram undir berum himni hjá gosbrunninum á Plaza Nueva, sem er torg í miðbæ Granada.“ 
 
Reynir spilar fyrst og fremst á tónleikum og ýmsum viðburðum. Hann sinnir líka kennslu og er bæði með nemendur og ýmis námskeið í Granada. Í sumar hefur hann verið duglegur að koma fram hér á landi og haldið einleikskonserta víða um land. „Ég hef verið í eins konar krossferð að kynna þessa tónlist hér á Íslandi. Ég reyni t.d. að útskýra á milli laga það form sem ég er að spila hverju sinni.“
 
Fjórir viðburðir fram undan
 
Um miðjan ágúst dregur til tíðinda þar sem Reynir stendur fyrir fjórum viðburðum þar sem fléttast saman dans og hljóðfæraleikur. Hann mun fá vini sína frá Spáni sem hafa unnið með honum þar en einnig mexíkóskan dansara sem er búsett hér á landi, hana Jade Alejandra. Hún er nokkrum Íslendingum kunn en Jade hefur meðal annars kennt flamencodans í Kramhúsinu í Reykjavík ásamt því að starfa sem tónlistarmaður. 
 
Hverju má fólk eiga von á? „Það má eiga von á flamenco-upplifun! Þegar ég setti saman efnisskrána leitaðist ég við að gefa fólki þversnið af því sem flamenco er. Við höldum fjórar sýningar víðs vegar um Ísland á bilinu 15.–18. ágúst. Við munum spila fjölbreytta stíla og blanda saman því hefðbundna og nútímanum,“ segir Reynir Hauksson.
 
Sýningarnar hefjast kl. 20.00
 
Tjarnarbíó, Reykjavík 15. ágúst 
Gamla Kaupfélagið, Akranesi 16. ágúst 
Hof, Akureyri 17. ágúst
Hjálmaklettur, Borgarnesi 18. ágúst.
 
Nánari upplýsingar um tónleikana er að finna á Facebook-síðunni „Reynir Hauksson – Guitarist“. Forsala á viðburðinn er á miðasöluvefnum www.tix.is
 


 
Metnaðarfullt umhverfi
Líf og starf 8. nóvember 2024

Metnaðarfullt umhverfi

Lífið á garðyrkjustöðinni Espiflöt í Reykholti er litríkt. Næstu daga geta lesen...

Hrafntinna afmælisbarn
Líf og starf 6. nóvember 2024

Hrafntinna afmælisbarn

Nafn: Hrafntinna Ögmundsdóttir.

Mikilvægustu kosningamál bænda
Líf og starf 6. nóvember 2024

Mikilvægustu kosningamál bænda

Þegar líður að kosningum skiptir máli að vita hvaða málefni brenna á bændum. Bæn...

Auðnutittlingur
Líf og starf 6. nóvember 2024

Auðnutittlingur

Auðnutittlingur er lítill og fíngerður fugl af finkuætt. Hann er langalgengasta ...

Bryndís og Rosemary
Líf og starf 5. nóvember 2024

Bryndís og Rosemary

Kunnar briddskempur, Bryndís Þorsteinsdóttir og Rosemary Shaw, eru Íslandsmeista...

Lopi leiðtoganna
Líf og starf 4. nóvember 2024

Lopi leiðtoganna

Íslenska ullin hefur lengi verið aðaluppistaðan í klæðnaði hérlendis og staðið a...

„... smalinn er alkominn heim“
Líf og starf 4. nóvember 2024

„... smalinn er alkominn heim“

Orðsins list kemur að þessu sinni frá Stephan G. Stephanssyni.

Kýrbyrjunin eða Cow opening
Líf og starf 1. nóvember 2024

Kýrbyrjunin eða Cow opening

Í skák eru til mjög margar byrjanir, sem í gegnum tíðina hafa fengið ýmis nöfn. ...