Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 mánaða.
Berjatínur eru bráðnauðsynlegar ef áætlað er að ganga rösklega til verks. Þarna er full skál af blöndu bláberja og aðalbláberja.
Berjatínur eru bráðnauðsynlegar ef áætlað er að ganga rösklega til verks. Þarna er full skál af blöndu bláberja og aðalbláberja.
Mynd / DB
Líf og starf 10. september 2024

Berjaflóra Íslendinga

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Ber eru nú í óðaönn að stinga upp kollinum og alltaf notalegt að fara eins og einu sinni í berjamó ef veður leyfir.

Sólber má nota við saft eða sultugerð en þau eru afar C-vítamínrík.

Við landsmenn eigum ágætis berjaflóru ef vel er að gætt og leynast breiðurnar víðs vegar um landið. Berin þroskast frá júlí fram til septemberloka, eftir því hvernig árferðið er.

Flestir þekkja krækiber, bláber og svo sólber og rifsber, en gaman er að segja frá því að einnig finnast villt jarðarber, hrútaber og skollaber sem vel má nýta í sultur eða með rjóma og sykri – að undanskildum skollaberjunum sem þykja þurr og bragðlítil. Á móti kemur að úr berjum reynitrjáa sem hentug hafa þótt í túttubyssustríðum má gera afar gómsætt hlaup eða sultu þó ekki sé mælt með að neyta þeirra hrárra. Gæta skal þess þó að leggja þau í þriggja daga bleyti fyrst og skipta um vatn daglega til þess að útkoman verði ekki römm.

Sólber má nota við saft eða sultugerð en þau eru afar C-vítamínrík.

Í Tímanum þriðjudaginn 19. september 1939 birtist uppskrift að reyniberjasultu sem ágætt er að reyna. Þykir sumum afar hátíðlegt að gæða sér á henni með jólasteikinni.

„Tiltölulega fáir munu kunna að hagnýta sér reyniber, en úr þeim má þó meðal annars búa til ágæta sultu. Tíminn flytur hér fyrirsögn um tilbúning slíkrar sultu.

Reyniberjasulta.
1⁄2 kg reyniber,
1⁄2 kg sykur,
1 bolli vatn.

Berin eru söxuð og látin í pott ásamt sykrinum og vatninu. Þetta er svo látið standa í nokkra daga (ekki á köldum stað). Síðan soðið við góðan hita í hálfa klukkustund. Lokið er ekki haft á pottinum. Þá er sultan látin í glös eða þau önnur ílát sem hún á að geymast í, en ekki skal loka glösunum fyrr en sultan er orðin köld.“

Krækiberin finnast víðs vegar um land.

Krækiberin eru hvað auðveldust að finna í berjamóum hérlendis enda harðger jurt og ein af þeim algengari á Íslandi. Hafa menn gert úr þeim sultur, saft og áfenga drykki um alllangt skeið sem hressa menn og kæta, en til viðbótar eru þau afar járnrík og þykir neysla þeirra góð við blóðleysi.

Bláber eru ein vinsælustu berin og hafa þótt sælgæti frá því elstu menn muna, enda fátt betra en bláber með sykri og rjóma. Berin þykja að auki góð fyrir sjónina og gegn sykursýki. Þau finnast víða, í mólendi, votlendi og skóglendi.

Náskyld þeim eru svo aðalbláberin sem eru mun dekkri að lit en bláberin. Þau eru algengust á Vestfjörðum og fyrir norðan, til að mynda í Svarfaðardal. Þau þykja góð við bólgum í tannholdi og hálsi og einnig hefur komið í ljós að þau henta betur til víngerðar en hið almenna bláber vegna þess hversu tannínrík þau eru.

Skollaber eru víst óæt þó falleg séu.

Te af laufum beggja tegundanna þykir gott til neyslu enda bakteríudrepandi og bólgueyðandi, þá sérstaklega aðalbláberin sem eiga að þykja góð við ristilbólgum. Hins vegar skal muna að fersk berin örva frekar meltinguna en annað og ráðlegt að gæta hófs í átinu.

Hrútaber una sér best í skóglendi enþauerurauðaðlitogsætoggóð á bragðið. Finnast breiður af þeim á Snæfellsnesi, en annars nokkuð vel á landsvísu. Segir þjóðtrúin að jarðrenglur bersins megi nýta til að fjötra illa vætti og því nefndar skollareipi. Þau eru rík af C-vítamíni, góð til sultugerðar auk þess sem te úr jurtinni þykir gott við lausum hægðum.

Skollaber eru sjaldgæf þótt þeirra sé getið í dagblöðum frá um hundrað árum síðan. Berin, sem eru dökkrauð að lit, má finna bæði á Vestfjörðum, nyrst Eyjafjarðar, á Snæfellsnesi, nyrst á Austfjörðum og jafnvel á Reykjanesskaganum, í þéttum breiðum á litlum blettum í láglendi innan um lyng og kjarr og teljast berin vart sem nytjaplöntur, enda bæði þurr og bragðlítil. En ef til vill þekkir einhver hvernig þau má nýta sem best.

Villt jarðarber eru afar sæt og góð.

Rifsber og sólber finnast helst í byggð, enda vinsælar tegundir í görðum. Eitthvað er þó um að þau vaxi villt, en sjaldnast fjarri mannabyggðum. Sólberin eru afar dökk að lit, svarfjólublá og sérstaklega rík af C-vítamíni. Berin hafa löngum þótt óskaplega góð til saft- og sultugerðar, og jafnvel í te en laufið hefur verið nýtt til lækninga. Rifsberin eru þekkt fyrir að þrífast vel og geta runnarnir borið allt að 8 kg árlega. Líkt og sólberin eru þau rík af C-vítamíni en innihalda einnig K-vítamín sem m.a. hægja á beinhrörnun með því að draga úr kalktapi. Við sultugerð er mælt með því að tína berin með stilkum, en þeir innihalda hleypiefni og nýtast fullkomlega í stað gervihleypiefna sem gjarnan eru notuð við sultugerð.

Villt jarðarber má finna víða um landið þótt sjaldgæf séu. Berin kjósa að snúa móti sólu, eru smágerð og sæt, stútfull af andoxunarefnum, C- og K-vítamínum auk magnesíum og hafa fundist hérlendis a.m.k. frá árinu 1781. Þá var þeirra getið í Grasnytjum síra Björns Halldórssonar frá Sauðlauksdal, en hann mærir berin og segir meðal annars um þau:

„Hrá berin, með sykri, mjólk eða víni, þykja sælgæti og þó halda menn þau hollari með sykri og víni en með feitri mjólk.“

Uppskipun á áburði
Líf og starf 15. apríl 2025

Uppskipun á áburði

Einn af vorboðunum er innflutningur á tilbúnum áburði til túnræktar.

Samspil ljóss og hljóðs veitir vellíðan
Líf og starf 15. apríl 2025

Samspil ljóss og hljóðs veitir vellíðan

Bryndís Bolladóttir vakti fyrst athygli vegna hönnunar sinnar á Kúlunni, hljóðde...

Glæsileg vörn
Líf og starf 15. apríl 2025

Glæsileg vörn

Við sögðum í síðasta briddsþætti frá snjallri sagnvenju á Norðurlandamóti bridds...

Í lok vertíðar
Líf og starf 14. apríl 2025

Í lok vertíðar

Eftir því sem líða fer að sumri ljúka áhugaleikhús landsins sýningum sínum, en a...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 14. apríl 2025

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn gengur nú inn í tímabil þar sem gott er að vinna að nýjum hugmyndum ...

Bæjarnöfn á ská og skjön
Líf og starf 11. apríl 2025

Bæjarnöfn á ská og skjön

Nöfn íslenskra bæja og býla til sveita eru fjölskrúðug, svo ekki sé dýpra í árin...

Prjónavetri lýkur
Líf og starf 10. apríl 2025

Prjónavetri lýkur

Íslenskur prjónaiðnaður hættir aldrei að vera móðins enda hefur Listasafn Sigurj...

Falleg sumarpeysa
Líf og starf 9. apríl 2025

Falleg sumarpeysa

Falleg peysa fyrir sumarið, prjónuð úr DROPS Muskat eða DROPS Belle sem er á 30%...