Álft
Álft er stærsti fuglinn okkar. Fullorðin álft getur orðið 10 kg og vænghafið 2,2–2,4 metrar. Þó nokkuð af fuglum halda sig hérna allt árið en engu að síður er álftin að mestu farfugl. Þeir fuglar sem yfirgefa landið á haustin halda sig á Bretlandseyjum yfir vetrarmánuðina. Fuglarnir sem þreyja þorrann halda sig á tjörnum, ám og vötnum sem ekki frjósa. Vetursetufuglarnir eru aðallega á Suðurlandi og í Mývatnssveit. Á sumrin er álftin hins vegar dreifð um allt land og sækir helst í vötn og tjarnir í votlendi. Álftin er eini fuglinn af svanaættinni sem verpir hérna á Íslandi og er hún því auðþekkjanleg frá öllum öðrum íslenskum fuglum.