Æfingaprógramm með Proust
Líf og starf 24. júní 2025

Æfingaprógramm með Proust

Höfundur: Þröstur Helgason

Tunglið forlag setti í loftið nýjan bókaflokk undir heitinu Svarthol á Bókmenntahátíð í Reykjavík sem fram fór fyrir skömmu. Út komu þrjár þýðingar á ljóðabókum eftir erlend samtímaskáld. Tvö þeirra eru með sterka tengingu við Ísland, kanadíska skáldkonan Anne Carson, sem hefur verið með annan fótinn hér á landi undanfarin ár og fékk raunar íslenskan ríkisborgararétt árið 2022, og þýska ljóðskáldið Wolfgang Schiffer, sem lengi hefur fengist við þýðingar á íslenskum bókmenntum á þýsku. Þriðja skáldið er einnig frá Þýskalandi, Dinçer Gϋçyeter, en með tyrkneskan bakgrunn.

Svarthol er auðvitað fyrirbæri himingeimsins eins og tunglið en að öðru leyti er erfitt að sjá hvaða tengingu samtímaljóð hafa við þann stað sem sveigir tímarúmið út í hið óendanlega, eða hvað? Kannski má hugsa sér að massi ljóðlistarinnar hafi slík áhrif á heimsmynd okkar. Á hvítum kápum bókanna er að minnsta kosti svartur hringur sem kallar fram hughrif tómsins ógnarlega og er einkennandi fyrir flokkinn sem vonandi á sér framhaldslíf.

Bækur Wolfgangs og Dinçer veita áhugaverða innsýn í þýska samtímaljóðlist. Bók þess fyrrnefnda heitir Ef jörðin skyti út kryppu (útg. 2022) en þess síðarnefnda Prinsinn minn, ég er gettóið (útg. 2021). Skáldin eru af sinni kynslóðinni hvort en umfjöllunarefnin kallast á. Báðir yrkja þeir um uppruna sinn en beina jafnframt sjónum að samtímaástandi. Wolfgang (í þýðingu Sigrúnar Valbergsdóttur) horfir á heim sem er að tortíma sjálfum sér með stríðum, mannvonsku og mengun en Dinçer (í þýðingu Gauta Kristmannssonar) varpar ljósi á tilveru sína sem afkomanda innflytjanda í Þýskalandi, tilveru þess fólks sem samþættir tvo menningarheima í lífi sínu og hugsun hvern dag.

Það er fengur í þessum bókum í okkar litla bókmenntasamfélagi og þakkarvert að það sé verið að fást við þýðingar og útgáfu á erlendri samtímaljóðlist.

Bók Anne Carson hreif mig þó mest. Hún er í senn sérstæðust þessara bóka og aðgengilegust. Um er að ræða eins konar konseptverk – og hugmyndin hefur líklega kostað talsverða yfirlegu. Anne les sig nefnilega í gegnum eitt víðfrægasta og umfangsmesta skáldverk franskra tuttugustu aldar bókmennta, Í leit að glötuðum tíma eftir Marcel Proust, til þess að leita uppi alla staði þar sem minnst er á eina af persónum verksins, Albertine. Titill bókar Anne, Albertine-æfingarnar (The Albertine Workout á frummálinu), vísar öðrum þræði til þess að hér er ráðist í úthaldsverkefni.

Nafn Albertine kemur fyrir hvorki meira né minna en 2.363 sinnum í verki Prousts, oftar en nafn nokkurrar annarrar persónu, eins og segir í ljóði eða yrðingu eða athugun nr. 2 í bókinni og næstu tvær hljóma svona: „3. Sjálf er Albertine viðstödd eða nefnd á nafn á 807 blaðsíðum sögunnar. 4. Á ríflega nítján prósentum þessara blaðsíðna er hún sofandi.“

Þetta byrjar vel. Lesandinn er smám saman leiddur inn í víðáttumikinn sagnaheim Prousts með nákvæmum upplýsingum er varða Albertine. Sjónarhornið virðist takmarkað en fljótlega leiðir það í ljós ýmsa mikilvæga þætti í skáldverki Prousts og tengsl þess við ýmis önnur verk bókmenntasögunnar. Að auki raðast saman mynd af karakter þessa goðsagnakennda höfundar og flóknu sambandi hans við persónu sína, innan verksins sem utan þess. Hér er ráð að gefa ekki of mikið upp því að lestrarnautnin felst í því að uppgötva með höfundinum það verk sem hann er að skoða blaðsíðu fyrir blaðsíðu. Og um leið að taka þátt í þessu æfingaprógrammi skáldkonunnar sem raunar er fornfræðingur að mennt og fyrrverandi háskólakennari í faginu.

Númeruð textabrot (sem kannski er rétta orðið) bókarinnar eru 58 talsins en þá taka við viðaukar sem einnig eru númeraðir (ágæt þýðing Ragnars Helga Ólafssonar inniheldur þá ekki alla sem er galli). Í þeim er kafað lengra ofan í persónu Albertine og samsetningu og merkingu verks Prousts með vísunum til enn annarra höfunda og verka í heimsbókmenntunum. Aðferðin breytist eilítið, verður fræðilegri en missir þó ekki skírskotun sína til almennra þátttakenda í æfingaprógramminu. Markmiðið er að allir verði þjálfaðri í að lesa, túlka og skilja margbrotið verk Prousts, finna lyklana að því, leysa það (ef aftur er vísað í enskan titilinn). Kannski má segja að ljóðskáldið nái markmiði fræðimannsins og kennarans með bókinni. Um leið sprettur hér bókmenntaverk af öðru slíku, margrætt og frumlegt í formi. Og alls ekkert svarthol þótt þyngdarkrafturinn sé mikill.

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 14. júlí 2025

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn á von á ánægjulegum framgangi í málum ástarinnar þar sem vonbiðlarni...

Hátíðir í sumar
Líf og starf 11. júlí 2025

Hátíðir í sumar

Í sumar verður fjöldi hátíða víða um land og auðvitað fjölbreytt dagskrá um sjál...

80 þúsund gestir á síðasta ári
Líf og starf 8. júlí 2025

80 þúsund gestir á síðasta ári

Geosea, eða Sjóböðin á Húsavík, voru opnuð í lok sumars 2018. Í dag eru 12 ársve...

Lesið í fannir
Líf og starf 8. júlí 2025

Lesið í fannir

Kannski er ekkert sumarlegt að fjalla um fannir í júní. Og þó – þegar betur er a...

Greinandi og afhjúpandi rödd Ernaux
Líf og starf 7. júlí 2025

Greinandi og afhjúpandi rödd Ernaux

Enn af þýðingum og aftur kemur Þórhildur Ólafsdóttir við sögu hér í Hriflunni. F...

Kynning á íslenskum mat í Japan
Líf og starf 7. júlí 2025

Kynning á íslenskum mat í Japan

Íslandsstofa ásamt utanríkisþjónustunni og sendiráði Íslands í Japan skipulagði ...

17 impa slys
Líf og starf 7. júlí 2025

17 impa slys

Mikil umræða hefur orðið meðal íslenskra keppnisspilara síðustu vikur hvort drag...

Toga beint upp og mest fjórðung plöntunnar
Líf og starf 4. júlí 2025

Toga beint upp og mest fjórðung plöntunnar

Mikilvægt er að uppskera rabarbara á réttan hátt svo að rótin rotni ekki.