Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Mynd 1. Staðsetning sauðfjárbýla þar sem vöðvasullur hefur verið staðfestur á Íslandi frá árinu 2014 en þá jókst útbreiðslan eftir áralangt hlé. Útbreiðslusvæði vöðvasulls á 9. áratug 20. aldar er gullitað.
Mynd 1. Staðsetning sauðfjárbýla þar sem vöðvasullur hefur verið staðfestur á Íslandi frá árinu 2014 en þá jókst útbreiðslan eftir áralangt hlé. Útbreiðslusvæði vöðvasulls á 9. áratug 20. aldar er gullitað.
Á faglegum nótum 6. desember 2022

Vöðvasullsbandormurinn finnst á nýjum svæðum 2022

Höfundur: Guðný Rut Pálsdóttir, Kristbjörg Sara Thorarensen og Karl Skírnisson, sníkjudýradeild, Tilraunastöðinni á Keldum.

Það sem af er haustinu 2022 hafa Tilraunastöðinni á Keldum verið send 18 sýni úr sauðfé þar sem grunur vaknaði við heilbrigðisskoðun í sláturhúsi að um sýkingu af völdum vöðvasulls (Taenia ovis) væri að ræða.

Eitt sýnanna reyndist neikvætt, hægt var að staðfesta vöðvasull í 12 sýnanna og sterkur grunur lék á því að vöðvasullur væri einnig á ferðinni í hinum tilfellunum fimm. Hér er um verulega breytingu að ræða frá síðustu árum því undanfarin þrjú haust (2019-2021) voru engin sýni send að Tilraunastöðinni á Keldum þar em grunur var um vöðvasull.

Bæst hafa við útbreiðslusvæði miðað við dreifingu síðustu ára en nokkur af jákvæðum sýnum þetta haustið komu frá svæðum þar sem vöðvasullur hefur ekki greinst síðan á 9. áratugnum eða aldrei greinst áður, sjá meðfylgjandi kort (mynd 1). Þessi aukning á jákvæðum sýnum ásamt nýjum útbreiðslusvæðum er óheillaþróun sem mikilvægt er að bregðast við.

Lífsferill vöðvasullsbandormsins

Lirfustigið, litlar blöðrur í vefjum sauðfjár sem gjarnan eru kallaðar sullir, sjást við kjötskoðun í sláturhúsi. Sullirnir geta sest víða að í líkama sauðfjár, oft eru blöðrurnar mest áberandi í blóðþurftarmiklum líffærum eins og hjarta og þind. Komist hundur í sollin líffæri eða vöðva með lifandi lirfum þroskast hver lirfa um sig í fullorðinn bandorm í hundinum. Gerist það á sex til átta vikum. Bandormurinn getur lifað árum saman í hundinum og framleitt gífurlegan fjölda eggja því talið er að hver bandormur framleiði um 250.000 egg á degi hverjum. Skíti hundur sem smitaður er af vöðva- sullsbandormi á beitarland sauðfjár berast eggin sem loða við gróðurinn niður í sauðféð og verður hvert egg að einni lirfu í kindinni. Lífsferill vöðvasullsbandormsins er sýndur á mynd 2.

Mynd 2. Lífsferill vöðvasullsbandormsins Taenia ovis. Bandormurinn getur orðið hálfs annars metra langur í iðrum hundsins, eggin dreifast út frá hundaskít yfir á beitarlandið og berast með gróðrinum niður í sauðféð. Bandormurinn getur lifað árum saman í hundinum og egg hans lifa mánuðum saman, stundum í tæpt ár, á beitarlandinu.
Varnaraðgerðir gegn smitum

Mikilvægt er að rjúfa lífsferil vöðvasullsbandormsins til að hindra smit. Er það einkum gert með tvennum hætti. Annars vegar með því ormahreinsa hunda reglulega með lyfjum sem drepa bandorma (svo sem Praziquantel) og hins vegar að hindra að hundar smitist með því að éta hráar sauðfjárafurðir. Hingað til hafa rannsóknir ekki bent til þess að refir á Íslandi beri smit en rétt er að ítreka að refir geta smitast af vöðvasullsbandormi líkt og hundar og því mikilvægt að þeir komist ekki í hræ af sauðfé.

Í grein 57 í reglugerð nr. 941/2002 um hollustuhætti er kveðið á um að fyrirbyggja skuli sýkingar af völdum bandorma og spóluorma í hundum með því að gefa hundum sem náð hafa fjögurra mánaða aldri árlega inn ormalyf, lyf sem Lyfjastofnun hefur viðurkennt til þeirra nota. Sérstakur kafli er um hunda þar sem búrekstur er stundaður. Þar skulu hundar ormahreinsaðir að liðinni aðalsláturtíð eða í síðasta lagi í desember ár hvert, nema að annað komi fram í samþykkt hlutaðeigandi sveitarfélags.

Eindregið er lagst gegn því að fóðra hunda á hráum sauðfjárafurðum. Sé ætlunin að nota sauðfjárafurðir til fóðurs þurfa þær annaðhvort að hafa verið soðnar áður, eða þá frystar það lengi að vöðvasullir, sem geta verið í öllum vefjum í líkama sauðfjárins, séu dauðir og þar með ósmithæfir. Til að drepa lirfustig vöðvasullsbandormsins þarf að frysta sauðfjárafurðirnar í a.m.k. tíu stiga frosti í viku. Í desember 2021 birtist grein í Bændablaðinu þar sem hægt er að lesa nánar um sögu vöðvasullsbandormins á Íslandi og lífsferil hans.

Skylt efni: vöðvasullsbandormur

Sölufélagið í góðu lagi
Fréttir 17. júlí 2025

Sölufélagið í góðu lagi

Nú hafa Sölufélag garðyrkjumanna, Báran stéttarfélag og Framsýn stéttarfélag und...

Bændur harka af sér
Fréttir 16. júlí 2025

Bændur harka af sér

Ný rannsókn bendir til þess að fólk sem starfar í landbúnaði sé ólíklegt til að ...

Getur leyst plast af hólmi
Fréttir 16. júlí 2025

Getur leyst plast af hólmi

Frumkvöðlafyrirtækið Marea Iceland hyggst setja á markað umhverfisvænt húðunaref...

Auglýsingar um sveppadropa og -duft ámælisverðar
Fréttir 16. júlí 2025

Auglýsingar um sveppadropa og -duft ámælisverðar

Verslunin Hugur Studio, sem rekin er af Hemmet ehf., hefur verið kærð fyrir afdr...

Átak um öryggi barna í sundi
Fréttir 16. júlí 2025

Átak um öryggi barna í sundi

Rauði krossinn á Íslandi hefur hleypt af stokkunum fræðslu- og forvarnarátaki um...

Pöddur í hundamat
Fréttir 15. júlí 2025

Pöddur í hundamat

Fyrirtæki hafa sett á markað hundamat úr skordýrum. Slíkt fæði hefur minna kolef...

Orkuskipti í Flatey
Fréttir 15. júlí 2025

Orkuskipti í Flatey

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og Elías Jónatans...

Landeldi við Hauganes
Fréttir 15. júlí 2025

Landeldi við Hauganes

Laxós ehf. áformar uppbyggingu og rekstur fiskeldisstöðvar norðan Hauganess, þar...