Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Kári 16026 frá Káranesi í Kjós.
Kári 16026 frá Káranesi í Kjós.
Fréttir 21. júlí 2021

Nautaárgangurinn 2016 haslar sér völl

Höfundur: Guðmundur Jóhannesson

Nýtt kynbótamat var keyrt núna í júní að loknu maíuppgjöri og því ekki úr vegi að líta á hvað er í boði, vega og meta nautin og kynna sér kosti þeirra og galla. Fagráð í nautgriparækt ákvað að gera verulegar breytingar á reyndum nautum í dreifingu. Þannig fjölgar þeim nú í nítján talsins enda um að ræða úrval öflugra gripa. Eldri kappar hverfa úr notkun og yngri naut hasla sér nú völl. Meðal þeirra er án efa að finna stjörnunaut, í það minnsta segir hið háa kynbótamat þessara gripa svo vera. Þau naut sem fara úr dreifingu eru Hæll 14008, Hnykkur 14029, Stáli 14050 og Ábóti 15029. Segja má að þeir hafi þjónað hlutverki sínu, séu fullnotaðir og víki nú fyrir nýrri kynslóð. Fram á sjónarsviðið geysast nú af fullum þunga nautin sem fædd voru árið 2016. Við fengum forsmekkinn af þeim í vetur þegar þrjú þeirra komu til dreifingar en nú bætast átta naut í hóp reyndra nauta.
Þau naut sem voru í dreifingu standa mjög vel við fyrra mat og gott betur en það. Við skulum byrja á því að líta aðeins nánar á þau naut sem áfram verða í dreifingu.

Kláus 14031, f. Hjarði 06029, mf. Laski 00010. Kláus gefur sér­lega mjólkurlagnar kýr með góð efnahlutföll í mjólk. Þær eru einnig ákaflega skapgóðar en aðrir þættir liggja nærri meðaltali. Kláus var nautsfaðir og undanfarið hafa verið keyptir kálfar undan honum. Hann styrkti stöðu sína sem slíkur, hækkaði um tvö stig og er með 111 í heildareinkunn.

Bjarki 15011, f. Laufás 08003, mf. Ás 02048. Bjarki hækkar um eitt stig milli keyrslna og stendur nú með 107 í heildareinkunn. Hann fékk mikla notkun eftir að hann kom til dreifingar sem reynt naut þó dregið hafi úr henni undanfarið. Þarna er á ferðinni góður valkostur varðandi mjólkurlagni, góða júgurgerð og úrvalsgóðum mjöltum og skapi.

Risi 15014, f. Laufás 08003, mf. Hjarði 06029. Risi víkur úr hópi nautsfeðra fyrir sér yngri nautum en undan honum verða keyptir kálfar á stöð á næstu misserum. Hann er með jákvætt mat fyrir flesta þætti en hvað öflugastur hvað afurðagetu snertir, einkum mjólkurmagn og fituhlutfall. Þá er júgurgerð dætranna góð, spenar fremur stuttir, mjaltir góðar og skapið framúrskarandi. Dætur Risa eru stórar kýr, nokkuð sem gott er að hafa í huga við notkun hans. Risi stendur við fyrra mat og er með heildareinkunn upp á 108.

Köngull 05019, f. Toppur 07046, mf. Bambi 08049. Köngull er öflugt efnahlutfallanaut, júgurgerð dætra með afbrigðum góð og spenar vel gerðir en stuttir. Köngull lækkar um eitt stig og er með 107 í heildareinkunn.

Steinar 15042, f. Bambi 08049, mf. Gæi 09047. Steinar víkur úr hópi nautsfeðra en vænta má þess að undan honum verði keyptir kálfar á stöð á næstu misserum. Dætur hans flagga stórgóðri júgurgerð, mjög góðum mjöltum og skapi. Aðrir eiginleikar liggja nær meðaltalinu en allir jakvæðu megin línunnar. Benda má á að Steinar gefur hæfilega þykka spena, það er ekki of granna. Steinar er með 110 í heildareinkunn sem fyrr.

Mikki 15043, f. Sandur 07014, mf. Bambi 08049. Mikki er efnahlutfallanaut auk þess sem dætur hans státa af úrvalsgóðri júgurgerð og góðum mjöltum og skapi. Hafa þarf í huga að hann gefur granna spena. Mikki verður áfram nautsfaðir og með 110 í heildareinkunn eftir að lækka um eitt stig.

Sjúss 15048, f. Flekkur 08029, mf. Glæðir 02001. Sjúss er efnahlutfallanaut sem gefur júgurhraustar kýr með góða júgurgerð og stutta spena. Hann er auk þess fjarskyldari afkomendum Laska en mörg önnur hinna reyndu nauta sem eru í notkun. Sjúss er með 107 í heildareinkunn eins og eftir síðustu keyrslu.

Tanni 15065, f. Sandur 07014, mf. Koli 06003. Tanni gefur mjólkurlagnar og ákaflega júgurhraustar kýr með úrvalsgóða júgurgerð en spenar eru langir og grannir. Tanni hækkar um tvö stig og er með 109 í heildareinkunn en hverfur engu að síður úr hópi nautsfeðra. Undan honum verða þó keyptir kálfar á komandi misserum.

Knöttur 16006, f. Bolti 09021, mf. Bambi 08049. Knöttur kom með látum til notkunar sem nautsfaðir í vetur og styrkir stöðu sína enn frekar nú. Knöttur er efnahlutfallanaut auk þess sem dætur hans eru júgurhraustar með úrvalsgóða júgurgerð, góðar mjaltir og gott skap. Knöttur verður áfram notaður sem nautsfaðir og er með 113 í heildareinkunn sem skipar honum í röð alhæstu nauta.

Bikar 16008, f. Bambi 08049, mf. Vindill 05028. Bikar hækkar um tvö stig milli keyrslna og stendur nú með 115 í heildareinkunn. Hann er því efstur allra nauta ásamt föður sínum, Bamba 08049. Dætur Bikars er miklar mjólkurkýr með úrtökugóða júgurgerð og sérlega góðar mjaltir og skap. Það kemur því ekki á óvart að Bikar skipar sér nú í hóp nautsfeðra.

Jarfi 16016, f. Bambi 08049, Stíll 04041. Styrkleikar Jarfa liggja í mikilli júgurhreysti, frábærri júgurgerð, góðum mjöltum og geysigóðu skapi auk þess sem dætur hans skora hátt í gæðaröð. Rétt er að hafa bak við eyrað að spenar eru grannir en gríðarvel settir. Heildareinkunn hans hækkar um tvö stig og stendur nú í 114. Það þýðir að Jarfi er með alhæstu nautum í dag.

Ný reynd naut í notkun

Að þessu sinni var ákveðið að taka átta ný naut til notkunar sem reynd naut og við val þeirra var horft til þess að dreifa faðerni þeirra eins og hægt er. Fagráð ákvað jafnframt að teygja sig eins langt og hægt er út frá fjölda dætra á bak við afkvæmadóminn vitandi það að hann getur tekið breytingum. Þau naut sem valin eru á þeim grunni eru þó það há í mati að þetta þykir réttlætanlegt. Til notkunar koma þrír Gustssynir, einn Góasonur, einn Bambasonur, einn Klettssonur, einn Flekkssonur og einn Keipssonur. Hér verður farið yfir þau og helstu einkenni dætrahópa þeirra.

Álmur 16007 er frá Svertings­stöðum 2 í Eyjafirði undan Kletti 08030 og Lenu 522 Glæðisdóttur 02001. Álmsdætur er miklar mjólkurkýr með góð verðefni í mjólk auk þess sem mjaltir og skap er með því besta sem gerist. Hins vegar er júgurgerð ekki nema meðalgóð þar sem verulega skortir á að júgurband sé nógu greinilegt auk þess sem spenar eru nokkuð gleitt settir. Það þarf því að vanda til pörunar með Álmi en hann hefur kosti sem vert er að sækja í. Heildareinkunn hans er mjög góð eða 109.

Skírnir 16018 er frá Miðfelli 5 í Hrunamannahreppi undan Gusti 09003 og Mánu 384 Síríusdóttur 02032. Þarna er á ferðinni naut sem gefur góðar mjólkurkýr með há efnahlutföll í mjólk, góða júgur- og spenagerð auk mjög góðra mjalta og skaps. Heildareinkunn hans er 111 og því ekki að undra að hann kemur til nota sem nautsfaðir.

Róður 16019 frá Stóra-Dunhaga í Hörgársveit undan Keip 07054 og Þrumu 451 Lykilsdóttur 02003. Róðursdætur eru góðar mjólkurkýr með há efnahlutföll í mjólk, sérstaklega prótein sem er gríðarhátt. Dæturnar skarta prýðisgóðri júgurgerð, fremur stuttum spenum og góðu skapi en mjaltir eru meðalmjaltir. Heildareinkunn Róðurs er 111 og á þeim styrka grunni er hann tekinn í hóp nautsfeðra.

Dalur 16025 er frá Dalbæ í Flóa undan Bamba 08049 og Aðalbjörgu 510 Aðalsdóttur 02039. Dætur Dals eru í góðu meðallagi hvað afurðagetu snertir, júgurgerðin er góð en sérstaklega er júgurbandið greinilegt. Spenar eru vel settir og fremur þykkir, nokkuð sem má notfæra sér gagnvart kúm með granna spena. Þá eru mjaltir og skap úrvalsgott hvoru tveggja. Heildareinkunn Dals er góð eða 109.

Kári 16026 er frá Káranesi í Kjós undan Gusti 09003 og Óreiðu 312 Sandsdóttur 07014. Afurðageta dætra Kára er ekki nema um meðallag en hann er valinn á grunni mikillar júgurhreysti og framúrskarandi júgurgerðar þar sem hann skorar jafnhátt og Tanni og Jarfi. Þá eru mjaltir stórgóðar sem og skapið. Heildareinkunn Kára er allgóð eða 107 en hann býður upp á kosti sem vert er að hafa í huga.

Höttur 16028 er frá Egilsstöðum á Völlum undan Flekk 08029 og Frævu 978 Glæðisdóttur 02001. Dætur Hattar eru miklar mjólkurkýr með próteinhlutfall í mjólk auk þess sem júgurgerðin er úrvalsgóð. Hann gefur nokkuð granna en vel setta spena en skapið er undir meðallagi. Þá verður ekki horft framhjá því að dætur hans eru lágfættar, nokkuð sem hafa verður í huga við notkun hans. Heildareinkunn Hattar er mjög há eða 111.

Jónki 16036 er frá Stóra-Dunhaga í Hörgársveit undan Góa 08037 og Ingveldi 501 Flóadóttur 02029. Þarna er á ferðinni naut sem gefur gríðarmiklar mjólkurkýr með góðar mjaltir en júgurgerð undir meðallagi. Þar skortir einkum á festu og að þau séu nógu vel borin en júgurbandið er greinilegt og það skiptir miklu máli. Jónki breikkar einnig val manna varðandi skyldleika verandi sonur Góa 08037. Heildareinkunn er góð eða 108.

Númi 16038 er frá Gaulverjabæ í Flóa undan Gusti 09003 og Hélu 284 Þollsdóttur 99008. Afurðageta dætra Núma er meðalmikil en þær flagga mikilli júgurhreysti sem og frábærri júgurgerð. Spenar eru hins vegar stuttir og grannir og því hentar Númi tæpast nema á kýr með spena í grófari kantinum. Dætur Núma eru einnig mjög skapgóðar og mjaltir þeirra eru góðar. Heildareinkunn er há eða 110.

Nautsfeður

Að undanförnu hefur Nautastöðin einkum verið að kaupa kálfa undan Pipar 12007, Jörfa 13011, Hálfmána 13022, Ými 13051, Hæl 14008 og Kláusi 14031. Þá er fyrstu synir Risa 15014 komnir í hús. Á næstu misserum verður sjónum einkum beint að kálfum undan Risa 15014, Steinari 15042, Mikka 15043, Tanna 15065 og Knetti 16006. Þeim tilmælum er beint til manna að láta sæða kýr á nautsmæðraskrá og efnilegar kvígur með einhverju eftirtalinna nauta; Mikka 15043, Knetti 16006, Jarfa 16016, Skírni 16018 eða Róðri 16019.

Nautsmæður

Á nautsmæðraskrá í Huppu (með rautt flagg) eru kýr með a.m.k. 107 í heildareinkunn, 90 fyrir fituhlutfall og 100 fyrir mjaltir. Þegar tilkynnt er um nautkálf undan væntanlegri nautsmóður eru aðrir þættir vegnir og metnir svo sem afurðir og frjósemi. Á skrá yfir efnilegar kvígur (með grænt flagg) eru kvígur sem eru með a.m.k. 108 í heildareinkunn, 90 fyrir fituhltfall og 100 fyrir mjaltir. Þegar tilkynnt erum nautkálf undan kvígu eru aðrir þættir skoðaðir og beðið fyrstu mælingar, kýrsýnis og ákveðinnar reynslu áður en ákvörðun um framhaldið er tekin.

Eldri matadorar

Til gamans er rétt að líta aðeins á hvar eldri toppnaut standa eftir þessa kynbótamatskeyrslu. Ef litið er til heildareinkunnar þá trónir Bambi 08049 á toppnum ásamt syni sínum, Bikar 16008, með 115. Næstir í röðinni koma Úlli 10089 og Jörfi 13011 með 114. Eitt mesta kynbótanaut allra tíma, Birtingur 05043, stendur svo með 113 og svo koma þeir Bakkus 12001 og Kambur 06022. Sjarmi 12090 er svo með 112 og þá eru Baldi 06010 og Hálfmáni 13022 með 111 ásamt Kola 06003, Dropa 10077 og Stera 13057. Athyglisvert er að sjá að Fossdal 10040 hefur styrkt sína stöðu og stendur nú sem dæmi jafnfætis jafnaldra sínum Úranusi 10081.

Hæstu naut í nokkrum eiginleikum

Ef litið er á nokkra einstaka eiginleika þá kemur í ljós að fyrir mjólkurafköst er Þytur 09078 langhæstur með 136, fyrir fituhlutfall í mjólk stendur Freri 15003 efstur með 127 en af þeim sem komu til framhaldsnotkunar er það Trölli 98023. Í próteinhlutfalli er Rumur 10006 hæstur með 132 en af nautum sem fóru í framhaldsnotkun eru Núpur 96013 og Lúður 10067 efstir með 128. Fyrir afurðir er svo Eitill 12022 efstur með 131 og honum fylgja Úranus 10081 og Jónki 16036 með 129 og 128.
Ef horft er til júgurgerðar þá er Jörfi 13011 sem fyrr ókrýndur konungur þess eiginleika með 138 og á hæla honum koma Tanni 15065, Kári 16026 og Jarfi 16016 með 136. Hvað spenagerð varðar þá stendur Jarfi 16016 efstur með 130 en honum fylgja Polki 12099 með 127 og svo hver annar en Sorti 90007 með 125. Hvað mjaltir snertir standa þeir Úi 96016 og Úranus 10081 efstir með 132 en Bambi 08049 fylgir þeim eins og skugginn með 130. Varðandi skap þá er Bikar 16008 hæstur með 133, Stokkur 01035 fylgir fast á eftir með 130 og svo kemur Álmur 16007 með 129.

Hvað er fram undan?

Í síðasta nautapistli mínum benti ég á að kynbótastarf í nautgriparækt er langhlaup þar sem gott og vandað skýrsluhald og mikil og góð þátttaka í sæðingum eru undirstaðan. Við vinnum nú að algjörri umbyltingu nautgripakynbóta hérlendis þar sem segja má að við styttum þetta hlaup niður í millivegalengd, jafnvel spretthlaup. Undirstaðan verður eftir sem áður gott og vandað skýrsluhald og þátttaka í starfinu meðal annars með mikilli notkun sæðinga. Núna er hafin vinna við endur­skipu­lagningu á öllu kynbótamati nautgriparæktarinnar hérlendis en slíkt er nauðsyn til þess að nýta sér að fullu þá kosti sem erfðamengisúrval býður upp á. Eitt er að útfæra fræðin, annað að hrinda þeim í framkvæmd. Þarna glímum við nú við hin praktísku úrlausnarefni eins og að samræma allar keyrslur og sjálfvirknivæða svo sem kostur er. Slíkt er nauðsyn þegar horft er til þess hraða sem erfðamengisúrvalið hefur í för með sér en þá verður engan veginn ásættanlegt að geta ekki keyrt kynbótamat nema fjórum sinnum á ári. Á komandi mánuðum þarf að huga að fleiri þáttum. Þar á ég við hluti eins og áframhaldandi sýnatökur til arfgreininga og svo vinnu við nýtt kynbótaskipulag en núverandi kerfi mun verða kollvarpað í fyllingu tímans. Það eru því spennandi tímar fram undan í nautgriparæktinni.

Skylt efni: Kynbótanaut | naut | Kynbótamat

Sumarkomunni fagnað
Fréttir 25. apríl 2024

Sumarkomunni fagnað

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á sumardaginn fyrsta, fim...

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...

Jarðræktarmiðstöðin rís
Fréttir 22. apríl 2024

Jarðræktarmiðstöðin rís

Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands mun verða tilbúin árið 2027 gangi á...