Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Frá framleiðanda til neytanda − 11. grein
Fréttir 23. febrúar 2016

Frá framleiðanda til neytanda − 11. grein

Höfundur: Ari Trausti Guðmundsson
I
Um daginn vantaði mig 200–300 grömm af fersku nautahakki. Ég er ekki hrifinn af frosnum matvælum. Í stórverslun þar sem ég kem stundum við, á heimleið úr miðbæ Reykjavíkur, blasa við, dag hvern, 20–40 plastbakkar með hakki. Yfir þeim er plastfilma (rautt hakkið verður brúnt ef það snertir hana), allir með nálægt 500 g. Annað er ekki í boði. Iðulega eru bakkar í kæliborðinu með merkingu sem sýnir að síðasti söludagur er mjög nálægur. Ég spurði kjötiðnaðarmann í verluninni af hverju ekki væru búnar til minni pakkningar. Hann sagði marga spyrja að því og eins að hann hefði kannað þetta. Í ljós kemur að kjötið er hakkað fyrir norðan, og flutt pakkað suður. Framleiðandinn ákveður fastlega, vonandi í samvinnu við eigendur verslunarinnar, að svona skuli hakkið tilreitt fyrir kaupendur. Þessi verslun er í útjaðri míns hverfis og ég get valið milli þess að fara þangað, í aðra svipaða verslun í nágrannahverfinu eða í verslunarkjarna í miðju hverfinu. Þarna búa um 20.000 manns og mörg okkar verða að aka (hjóla eða ganga) 2,5–5 km til og frá verslun. Auðvitað má benda á skipulagðari innkaup og fleira til að réttlæta þessa verslunarhætti en það samræmist illa því að búa í borg eða hafa áhuga á sem ferskastri matvöru.
 
II
Til eru fáeinar verslanir á höfuðborgarsvæðinu þar sem unnt er að kaupa ófrosið, óinnpakkað kjöt eftir vigt og það á við um t.d. osta, jurtavörur og unnar kjötvörur eins og pylsur eða álegg. Utan svæðisins eru slíkar verslanir afar sjaldgæfar. Þegar kemur að fiskbúðum er annað upp á teningnum. Þær eru nokkuð margar með sín kæliborð og persónulegu þjónustu. Auðvitað var til fjöldi svokallaðra kjötbúða fyrir nokkrum áratugum, svo ekki sé minnst á alls konar matarbúðir sem hétu því vafasama nafni nýlenduvöruverslanir. Undir formerkjum lægra vöruverðs hófst þá þróun sem hefur skilað okkur óhagstæðu verslunarumhverfi matvæla, ofuráhersluna á stórmarkaði. Þessi þversögn þarfnast umhugsunar.
 
III
Ef grannt er skoðað hylja verslunarhættirnir yfirsýn yfir ferli vörunnar frá framleiðanda til neytandans og einnig yfir verðmyndunina. Svo sannarlega er þá ekki verið að fara fram á að öll landbúnaðarvara verði rekjanleg, heldur aðeins í margfalt meira mæli en nú. Ef grannt er skoðað eykur tilvist stórmarkaða á frystingu og plastpökkun ferskvöru, jafnvel forpökkun kryddaðrar vöru. Gríðarleg plastnotkun fylgir framleiðslunni og sölunni. Þá má ekki gleyma því að margt bendir til þess að snerting t.d. heitrar, eða kryddaðrar, fituríkrar eða sýruríkrar matvöru við mjúkt plast (PET) og frauðplast sé heilsuspillandi. Um það má finna efni á internetinu, þ.e. niðurstöður úr vönduðum rannsóknum. Ef grannt er skoðað er umbúðanotkun við sölu matvæla orðin ævintýralega mikil. Hún er vissulega brýn nauðsyn í mörgum tilvikum en má minnka mikið og færast að stórum hluta úr plasti yfir í öruggari og minna mengandi efni. Ef grannt er skoðað blasir við að mikið af forpökkuninni og mistregri sölu á stórum pöntunum matvæla (eða matvæla sem eru mjög dýr) veldur því að ókjörum af þeim er hent, bæði pökkuðum og ópökkuðum. Ef grannt er skoðað eru fjarlægðir til matarverslana of víða orðnar of langar. Af nógu er að taka í svipuðum dúr.
 
IV
Erfitt reynist að fá áreiðanlegar tölur um hve miklu er hent hér af mat. Samkvæmt upplýsingum af meginlandi Evrópu hendir hver íbúi 90 kg árlega. Magnið á Íslandi gæti verið 20–30.000 tonn. Tölur frá SORPU benda til þess að hærri talan kann að vera nærri lagi. Mest er urðað (og skilur frá sér metan), sumt sett í dýrafóður og enn annað verður að jarðvegsbæti. Ekki má gleyma því að framleiðendur henda líka hluta framleiðslunnar. Svo er skilaréttur á óseldri vöru til birgja. Það veldur því að hún er ekki seld í verslun á niðursettu verði og enn fremur því að birgjar henda vörunni. Ekki skiptir höfuðmáli hve mörg þúsund tonn fara forgörðum heldur hitt að greina verður vandann og taka á honum. Þar koma margir að hitunni: Grunnframleiðendur, matvælafyrirtæki, birgjar, verslanir, skólar, veitingahús, sérfræðistofnanir, almenningur, endurvinnslur og sorpsamlög og auðvitað stjórnvöld. Danir hafa náð að minnka sóun matvæla um fjórðung frá 2010 að telja. 
 
V
Árið 2014 skipaði umhverfis- og auðlindaráðherra starfshóp til að fara í saumana á matarsóun. Skýrslu var skilað í apríl 2015, sem ekki verður greind  hér. (http://www.umhverfisraduneyti.is/media/PDF_skrar/Skyrsla-starfshops-um-matarsoun-22042015.pdf). Á það skal aðeins bent að hópurinn gengur nokkuð skammt í að greina orsakir matvælasóunar, einkanlega þegar kemur að verslunarháttum, en hann leggur fram gagnlegar tillögur í ýmsum efnum. Breytingar á skilarétti til birgja eða dagamerkingum, uppfræðsla almennings og margt annað mun gagnast vel en mestu myndi varða um fjölbreyttari verslunar- og vinnsluhætti. Upp má telja: Meira um ferska vöru í verslunum, fjölbreyttari pakkningar, minni plastnotkun, betri og víðtækari upprunamerkingar, meiri sölu eftir vigt, fleiri og dreifðari sérverslanir, meiri sölu beint frá býli, opna markaði með ferskvöru o.fl. Vinnslufyrirtæki og birgjar eiga að geta lagað sig eftir þessu og viðkvæðið: – Þá verður allt dýrara – verður að gjalda vafans. Benda má á að matarkostnaður snýst líka um hollustu, magninnkaup aðeins þegar það á við, sparnað og umhugsun í innkaupum, umhverfismál, dýravernd og tímasparnað, samanber örsöguna um nautahakkið hér í upphafi.
Halla tekur upp Íslenskt staðfest
Fréttir 28. mars 2024

Halla tekur upp Íslenskt staðfest

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjubóndi og eigandi Sólskins grænmetis ...

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands
Fréttir 27. mars 2024

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands

Fjölmörg mál voru til afgreiðslu á nýliðnu Búnaðarþingi 2024, úr fimm nefndum, s...

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025
Fréttir 27. mars 2024

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025

Matvælaráðuneytið hefur tilkynnt um frestun á gildistöku banns við endurnýtingu ...

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi
Fréttir 27. mars 2024

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi

Fyrirkomulag landbúnaðarstuðningskerfis á Íslandi mun taka miklum breytingum ef ...

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst
Fréttir 26. mars 2024

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst

Fyrrverandi sláturhússtjóri á Vopnafirði ætlar ekki að láta deigan síga þrátt fy...

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal
Fréttir 26. mars 2024

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal

Niðurskurður á sauðfé frá bæjunum Eiðsstöðum og Guðlaugsstöðum í Blöndudal fór f...

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga
Fréttir 26. mars 2024

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga

Kornræktarfélag Suðurlands verður endurvakið sem viðskiptavettvangur ræktenda og...

Grípa þarf tækifærin
Fréttir 26. mars 2024

Grípa þarf tækifærin

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, telur að bændur eigi að leyfa sér að hor...