Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 mánaða.
Dr. Ólafur  R. Dýrmundsson, fyrrverandi ráðunautur hjá Bændasamtökum Íslands, segir að með því að auka lífræna ræktun megi draga stórlega úr notkun tilbúins áburð­ar og lækka þannig kostnað.  Mynd / HKr.
Dr. Ólafur R. Dýrmundsson, fyrrverandi ráðunautur hjá Bændasamtökum Íslands, segir að með því að auka lífræna ræktun megi draga stórlega úr notkun tilbúins áburð­ar og lækka þannig kostnað. Mynd / HKr.
Umhverfismál og landbúnaður 16. febrúar 2022

Bændur í lífrænum búskap ekki háðir tilbúnum áburði

Höfundur: Vilmundur Hansen

Mikil umræða hefur verið meðal bænda um gríðarlega hækkun á verði á tilbúnum áburði og hvernig dreifa eigi styrkjum til bænda til að koma á móts við hækkunina. Dr. Ólafur R. Dýrmundsson, fyrrverandi ráðu­nautur hjá Bænda­samtökum Íslands, segir að með því að auka lífræna ræktun megi draga stórlega úr notkun tilbúins áburð­ar og lækka þannig kostnað.

Tilbúinn áburður hefur hækkað stórlega í verði á stuttum tíma vegna vaxandi orkukostnaðar við framleiðslu hans. Ólafur segir að hægt sé að framleiða landbúnaðarafurðir í stórum stíl án tilbúins áburðar og eiturefna með því að efla lífræna ræktun í landinu og víða sé ríkjandi stefna að efla beri lífræna ræktun.

Hér á landi, sem og víða annars staðar, er sívaxandi eftirspurn eftir lífrænt vottuðum matvælum en innlenda framleiðslan svarar ekki þeirri eftirspurn.

„Í löndum Evrópusambandsins er til dæmis stefnan að þrefalda lífræna ræktun á næstu 10 árum og með þeim hætti er hægt að draga stórlega úr notkun tilbúins áburðar og eiturefna og lækka kostnað.“

Vanmetnir möguleikar til lífræns landbúnaðar

„Hér á landi eru möguleikar líf­ræns landbúnaðar vanmetnir og hafa lítið eða alls ekki verið nefndir í umfjöllunum um áburð­ar­verðshækkanirnar, til dæmis í greinum frá bændum og búvís­indamönnum sem birst hafa í Bænda­blaðinu í vetur eða í öðrum miðlum.

Það er vitað, en lítið fjallað um hérlendis, að aðlögun að lífrænum landbúnaði er ein vænlegasta leiðin til að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði og getur skipt miklu máli við kolefnisbindingu. Mest er talað um skógrækt og endurheimt votlendis í þessu sambandi, en möguleikar lífræns landbúnaðar eru sniðgengnir að mestu,“ segir Ólafur.

Vaxandi eftirspurn eftir lífrænt vottuðum matvælum

Hér á landi, sem og víða annars staðar, er sívaxandi eftirspurn eftir lífrænt vottuðum matvælum en innlenda framleiðslan svarar ekki þeirri eftirspurn og því er mikið flutt inn af slíkum matvælum.

Lífræn vottun Evrópusambandsins.

Ólafur segir að aðeins séu hér á landi um 60 aðilar með vottun og þar af rúmlega 30 með frumframleiðslu í ýmsum greinum.

„Þetta er jaðarstarfsemi, eða það sem kallað er „niche“ en slík framleiðsla þarf að aukast og verða að umtalsverðri framleiðslu eða „main-stream production“ líkt og stefnt er að í ESB, þar sem áform gera ráð fyrir að 25% alls ræktunarlands verði nýtt til lífrænt vottaðrar matvælaframleiðslu fyrir árið 2030.“

Raunhæf markmið

„Að mínum dómi gæti raunhæft markmið fyrir íslenskan landbúnað verið tíföld aukning, 10-földun opinberra framlaga, á 10 árum eða 10-10-10 viðmiðið sem ég hef kynnt meðal annars fyrir VOR – verndun og ræktun, sem er hagsmunafélag framleiðenda sem stunda lífræna ræktun eða fullvinnslu lífrænna íslenskra afurða.“

Ólafur segir að með því að fjölga framleiðendum með lífræna vottun verulega verði vinnsla afurðanna mun hagkvæmari í öllum greinum og þar með munu neytendur fá fjölbreyttari vörur á lægra verði.

„Markaðurinn fyrir lífræna framleiðslu mun því að öllum líkindum eflast eins og hefur gerst í Danmörku.“

Lífræn ylrækt. Mynd / A. Ottesen

Opinber stefna og markmið

„Til að flýta þessari nauðsynlegu þróun þarf að móta opinbera stefnu og setja ákveðin markmið með aðgerðaáætlun fyrir lífræna ræktun en eins og staðan er í dag rekur Ísland lestina miðað við flest Evrópulönd hvað hana varðar.

Landbúnaðarráðherra verður því án tafar að taka til hendinni, meðal annars með hliðsjón af hinum stórfelldu hækkunum á tilbúnum áburði.“

Að sögn Ólafs þurfa bændur sem háðir eru tilbúnum áburði að sjálfsögðu skammtímastuðning til að mæta auknum kostnaði en hann segir einnig að þegar litið sé til lengri tíma þurfi að snúa sér strax að stórfelldri uppbyggingu lífræns landbúnaðar í sveitum landsins.

Eftir hverju er verið að bíða?

„Um leið og markviss stefnumótun liggur fyrir, helst strax í vetur, þarf að treysta innviðina. Vottunar­stofan Tún ehf. er tilbúin það best ég veit og sömuleiðis VOR, en Bændasamtök Íslands, Ráðgjafar­miðstöð land­búnaðarins, Landbúnaðar­háskóli Íslands, matvælaráðuneytið og fleiri aðilar í landbúnaði verða að taka á þessum málum með miklu ákveðnari og markvissari hætti en þau hafa gert til þessa.

Í sumu tilliti þarf hreinlega að koma til hugarfarsbreyting og ný sýn, meðal annars vegna loftslagsmála og sjálfbærni­sjónar­miða. Ég spyr því sömu spurningar og ég var farinn að spyrja, meðal annars í greinum í Bændablaðinu, fyrir nær 30 árum: Eftir hverju er verið að bíða?“

Ný reglugerð ESB um lífræna landbúnaðarframleiðslu

Ný reglugerð ESB um lífræna land­­búnaðar­framleiðslu nr. 848/2018 tók gildi 1. janúar 2022. Reglu­gerðin gildir hér á landi og er vottunarstarfsemi TÚNs innan hennar ramma.

„Í reglugerðinni koma fram mjög skýr markmið fyrir lífræna framleiðslu í Evrópulöndum; sjálf­bærni, verndun líffræðilegs fjöl­breyti­leika, virðing fyrir gróður­­mold­inni, framleiðsla hollra og ómengaðra matvæla, búfjár­fram­leiðsla þar sem velferð dýra er í heiðri höfð, með vandaðri vottun og vörumerkingu séu sjónarmið neytenda vel virt og mikið tillit tekið til loftslagsmálanna.“

Ólafur segir að sem fulltrúi Íslandsdeildar Evrópuhóps Inter­national Federation of Organic Agriculture Movements sé hann nýlega búinn að senda allítarlega skýrslu um störf sín fyrir árin 2020 og 2021 til aðila sem að hópnum standa, VOR og TÚN, en Bændasamtökin gengu úr hópnum í árslok 2019.

Merki alþjóðasamtaka lífrænna land­búnaðar­hreyfinga.

„Að mínu mati er ekki spurning hvort við eflum lífræna framleiðslu í landinu heldur hvenær og því brýnt að mótuð verði ákveðin, opinber stefna með markmiðum og aðgerðaáætlun, því fyrr sem það verður gert því betra,“ segir Ólafur R. Dýrmundsson.

Of snemmt að segja til um áhrif þessara reglna hér á landi

Eygló Björk Ólafsdóttir, formaður VOR, segir of snemmt að segja til um áhrif þessara reglna hér á landi í smáatriðum á þessari stundu því ekki er búið að leggja fram reglugerðina sjálfa hér á Íslandi en unnið er að innleiðingu hennar með breytingu á matvælalögum sem nú liggur fyrir á Alþingi.

Möguleiki á hópvottun

Að sögn Eyglóar ættu Íslendingar að fylgjast vel með reglum um hópvottun sem kemur nýtt inn í reglurnar en í þróunarríkjunum hefur smábændum staðið til boða að standa sameiginlega að einni vottun, með góðum árangri.
„Það eru gerðar kröfur um hámarksstærð búa og umfang, einnig að um sé að ræða fram­leiðendur á skilgreindu land­fræðilegu svæði. Þetta gæti verið tækifæri fyrir einhverjar greinar á Íslandi að taka sig saman og reka sína vottun sameiginlega, jafnvel að stunda sína markaðssetningu saman en eitt af markmiðum reglnanna er ekki síst að stytta dreifileiðir frá framleiðendum í hendur neytenda.“

Eygló Björk Ólafsdóttir, formaður VOR.

Undanþágur afnumdar

„Helstu breytingar sem vekja athygli okkar og kunna að snerta íslenska framleiðendur beint varða til að mynda ræktun í gróðurhúsum. Sú undanþága sem framleiðendur á Norðurlöndum hafa haft um ræktun í gróðurhúsum í afmörkuðum beðum eða pokum verður nú afnumin þar sem hún samrýmist ekki meginprinsippum í lífrænni ræktun. Einungis þeir framleiðendur í Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi sem hófu slíka ræktun fyrir 28. júní 2017 er gefinn aðlögunartími til ársins 2031 til að breyta sínum kerfum. Þá er að sjá tilslakanir um forræktun ungplantna í gróðurhúsum.“

Stefnt að einföldun regluverksins

„Almennt er ESB að reyna að einfalda regluverkið að því leyti að fækka undanþágum og samræma reglur. Styrkja eftirlitskerfið og tryggja traust neytenda. Það er greinilegt að lífræna kerfinu er ætlað að vera leiðarljós við ræktun og matvælaframleiðslu innan sambandsins því markmið reglnanna er ekki síst að að auka umhverfisvernd og tryggja framleiðsluaðferðir í sátt við loftslagsmálin, heilbrigði jarðvegs, langtímafrjósemi hans og auka líffræðilegan fjölbreytileika.“

Eygló segir að í greinargerð ESB sé viðurkennt að lífræn framleiðsla séu bestu aðferðir við landbúnað og matvælaframleiðslu fyrir umhverfi og loftslag, líffræðilega fjölbreytni, varðveislu náttúrulegra gæða og dýravelferð.

„Neytendur gera auknar kröfur um vörur sem eru lausar við tilbúin efni og unnar með náttúrulegum hætti og að í reglugerðinni sé verið að koma á móts við væntingar þeirra. Í reglugerðinni er einnig fjallað um framlag lífræns landbúnaðar til „óeitraðs umhverfis“ en notkun á eiturefnum í löndum sambandsins er langt umfram þau mörk sem sett hafa verið,“ segir Eygló.

Búfé og skilgreining á verksmiðjubúskap

„Hvað búfé varðar er í nýju reglunum gerðar meiri kröfur í hlutföllum heimaaflaðs fóðurs sem gæti gert aðlögun erfiðari í einhverjum búgreinum og enn hvílir á greininni að skilgreiningar er þörf á hugtakinu verksmiðjubúskapur til að samræma reglur um aðgang að búfjáráburði, svo sem af svínum og hænsnum. Slík vinna er hafin í Evrópu og lífræna hreyfingin lætur sitt ekki eftir liggja.“

Hvatt til notkunar lífrænna æxlunar- og erfðaefna

„Með nýju reglugerðinni fjölgar tegundum sem reglurnar ná yfir og má þar meðal annars nefna salt, kork, bývax, maté, vínviðarlauf og pálmakjarna. Einnig eru gerðar viðbótarreglur um kjöt af kanínum og alifuglum og auknar kröfur um innihaldsefni unninna matvara. Einnig er markmið að hvetja til notkunar lífrænna æxlunar- og erfðaefna, auka tegundafjölbreytni og enn sem áður er notkun erfða­breyttra lífvera óheimil með öllu. Matvæli sem inni­halda eða saman­standa af verk­fræðilegu nanó­efni (e. engine­ered nano­­materials) eru úti­lokuð.“

Evrópusambandið hefur sett markið á 25% ræktarlands í lífrænni ræktun fyrir 2030. Í reglunum er nú sú kvöð á löndum innan sambandsins að gera aðgerðaáætlun til að tryggja að á bak við töluleg markmið séu framkvæmdir.
„Aukin áhersla ESB á lífrænan landbúnað er vel rökstudd og nýjar reglur eru þáttur í eðlilegri þróun í átt að markmiðum sem hafa gildi fyrir umhverfi og lýðheilsu, þó heilt yfir feli slíkar breytingar iðulega í sér auknar kröfur til framleiðenda,“ segir Eygló Björk Ólafsdóttir, formaður VOR, að lokum.

Kýr á beit á ræktarlandi.Mynd / Bíóbú

Samstarf IFC & móðurfyrirtækis Tommy Hilfiger
Umhverfismál og landbúnaður 22. júní 2022

Samstarf IFC & móðurfyrirtækis Tommy Hilfiger

Móðurskipið PVH, sem stofnað var á því herrans ári 1881, hefur staðið af sé...

Umhverfisslys í vinnslu
Umhverfismál og landbúnaður 1. mars 2022

Umhverfisslys í vinnslu

Áætlað hefur verið að byggja múr til að girða af landamæri Póllands og Hvíta-Rús...

Hetja undirdjúpanna lætur til sín taka í umhverfismálum
Umhverfismál og landbúnaður 22. febrúar 2022

Hetja undirdjúpanna lætur til sín taka í umhverfismálum

Veganismi, eða að vera hliðhollur helst öllu því sem lifir og andar og forðast n...

Fleiri tegundir trjáa til - en áður var talið
Umhverfismál og landbúnaður 17. febrúar 2022

Fleiri tegundir trjáa til - en áður var talið

Án trjáplantna væri heimurinn heldur snauður, ekki bara af fegurð heldur einnig ...

Bændur í lífrænum búskap ekki háðir tilbúnum áburði
Umhverfismál og landbúnaður 16. febrúar 2022

Bændur í lífrænum búskap ekki háðir tilbúnum áburði

Mikil umræða hefur verið meðal bænda um gríðarlega hækkun á verði á tilbúnum ábu...

Líf og fjör í lotuviku á Reykjum
Umhverfismál og landbúnaður 18. október 2021

Líf og fjör í lotuviku á Reykjum

Nú er nýafstaðin verkefnavika á Garðyrkjuskólanum á Reykjum.

Haustgróðursetning
Umhverfismál og landbúnaður 1. október 2021

Haustgróðursetning

Margir standa í þeirri kolröngu trú að þegar haustar eigi að forðast garðvinnu e...

Krýsi - tryggðablóm - prestafífill
Umhverfismál og landbúnaður 20. september 2021

Krýsi - tryggðablóm - prestafífill

Krýsi er skrýtið orð en það hefur náð að festa sig nokkuð vel í sessi í málinu. ...