Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Úlfaldar – skip eyðimerkurinnar
Á faglegum nótum 13. september 2016

Úlfaldar – skip eyðimerkurinnar

Höfundur: Vilmundur Hansen

Heitið úlfaldi er samheiti yfir kameldýr og drómedara sem flestir þekkja af áberandi hnúð eða hnúðum á baki dýranna. Úlfaldar eru harðgerða burðardýr sem flutt hafa vörur yfir eyðimerkur heimsins í aldaraðir.

Sagt hefur verið um úlfalda að þrátt fyrir að skaparinn hafi tjaslað þeim saman úr afgöngum þegar hann bjó til dýrin þá séu þeir íbúum eyðimerkurinnar það sama og hestar, kindur og kýr. Allt í senn reiðskjóti, mjólkurkýr og uppspretta kjöts.

Fjöldi úlfalda í heiminum árið 2015 var tæplega 28 milljón, samkvæmt tölfræðideild Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, FAOSTAD. 23,5 milljón úlfaldar eru sagðir vera í Afríku, 4,2 í Asíu en það sem upp á vantar er dreift um Evrópu, Ástralíu og Norður-Ameríku.

Sé horft til einstakra landa eru flestir úlfaldar í Sómalíu, tæplega 7,5 milljónir, 5 milljónir í Súdan, 2,6 milljónir í Kenía, 1,8 milljónir í Níger og 1,6 milljónir í Tsjad.

Drómedari og kameldýr

Úlfaldar eru ættkvísl innan úlfaldaættar en til þeirrar ættar teljast einnig lamadýr (Lama glama), gvanadýr (Lama guanicoe), alpakkadýr (Vicugna pacos) og vikúnjadýr (Vicugna vicugna).

Drómedari (Camelus dromedarius) er tegund úlfalda með einn hnúð á bakinu en kameldýr (Camelus bactrianus) eru úlfaldar með tvo hnúða. Úlfaldar með tvo hnúða skiptast í villta og ræktaða sem kallast baktrían kameldýr en drómedarar finnast eingöngu aldir. Hátt í 90% af úlföldum í heiminum eru drómedarar.

Líffræði og aðlögun

Úlfaldar eru vel aðlagaðir að lífinu á heitum svæðum og eyðimörkum. Þeir eru klaufdýr með þykkar klaufir og flata þófa sem varna því að langir fætur þeirra sökkvi í sandinn í eyðimörkunum sem er helsta búsvæði þeirra. Úlfaldar eru með þykkar augnabrýr, löng augnahár og mikið þykkt hár í eyrum og nefi sem varnar því að sandur eyðimerkurinnar fylli vit þeirra.

Líkamshiti úlfalda er breytilegur. Við sólarupprás er hann um 34° á Celsíus en hækkar jafnt og þétt yfir daginn og er um 40° á Celsíus við sólarlag en fellur síðan yfir nóttina niður í 34 °C aftur. Í höfði dýranna er flókið æðakerfi sem heldur jöfnu hitastigi og blóðflæði til heilans. 

Stærstur hluti útgufunar frá úlföldum er tekinn upp í þykkan feldinn og kemur þannig í veg fyrir vökvatap. Feldur úlfalda skiptir litum eftir árstíðum og er ljós og endurkastar ljósi á þeim árstíma sem sólin er hæst á lofti.

Fæða og forðasöfnun

Úlfaldar eru grasbítar og éta nánast allan gróður hvort sem hann er með stórum þyrnum, þakinn salti eða visnað lauf. Þeir jórtra harðgerða fæðuna og hafa þrískiptan en ekki fjórskiptan maga eins og flest jórturdýr. Úlfaldar geta náð 50 ára aldri og fullvaxinn úlfaldi getur verið 1,85 metri á hæð við herðakamb en góðir tveir metrar efst á hnúðinum.

Fullorðinn úlfaldi vegur milli 400 og 600 kíló en holdaúlfaldar sem ræktaðir eru til kjötframleiðslu geta vegið allt að einu tonni.

Hnúðar úlfalda er að mestu fita og forðanæring sem dýrin umbreyta í næringu þegar lítið er um fæðu. Í hverjum hnúð getur verið allt að 36 kíló af fitu, allt eftir stærð dýranna.

Úlfaldar geta drukkið um einn fjórða af þyngd sinni í einu, 100 til 250 lítra eftir þyngd dýranna, og getur vatnið enst dýrinu í marga daga þegar þeir ferðast langar leiðir milli vatnsbóla. Úlfaldar geyma vatn í sekkjum sem liggja út frá maganum. Blóðkorn úlfalda eru ólíkt blóðkornum í öðrum spendýrum, ekki hringlaga heldu sporöskjulaga. Lögun úlfaldablóðkornanna gerir það að verkun að þau geta tekið upp meira vatn en blóðkorn annarra spendýra án þess að rifna.

Úlfaldar geta þolað allt að 30% vatnstap úr líkamanum en fái úlfaldar ekki fæðu og vatn í langan tíma slappast hnúðarnir og lafa ef vatnsbirgðir líkamans klárast.

Nýting úlfalda á vatni í líkamanum er reyndar svo góð að þvag þeirra er eins og þykkt sýróp og skíturinn úr þeim svo þurr að hægt er að nota hann sem eldivið strax eftir losun.

Mökun og burður

Úlfaldar eru hjarðdýr og í hverri hjörð eru mörg kvendýr sem er stjórnað af ríkjandi karldýri. Karldýr sem ekki safna í kringum sig kvendýrum mynda hjarðir piparsveina. Dýr í hjörðum heilsast með því að blása framan í hvert annað.

Í hálsi úlfaldafola er líffæri sem kallast dulla og er sekkur sem karldýrið fyllir af lofti og setur út um munninn þegar það sýnir yfirburði sína gagnvart öðrum karldýrum og karlmennsku gagnvart kvendýrum. Útblásinn dullusekkur fullorðins karldýrs líkist einna helst stórri bleikri og bólginni tungu eða hreðjum sem lafa út um froðufellandi munn dýrsins af karlmennsku og frygð.

Úlfaldadama í látum sest á fjóra fætur á jörðina framan við kavalerinn sem síðan fer á hana, aftanfrá, nánast á fjórum fótum líka. Folinn fær sáðlát þrisvar til fjórum sinnum við hverjar samfarir. Merar úlfalda ganga með í 13 til 14 mánuði og kasta yfirleitt einu folaldi sem verður kynþroska á sjötta ári.

Þolin og spretthröð

Kameldýr eru ekki jafn fljót að hlaupa og drómedarar en á spretti geta þeir náð allt að 65 kílómetra hraða á klukkustund og hlaupið talsverðar vegalengdir á um 40 kílómetra hraða enda eru dýrin skreflöng. Að öllu jöfnu fara drómedarar yfir á 8 til 14 kílómetra á klukkustund og geta hlaupið í 18 klukkustundir samfleytt. Vitað er um drómedara sem hafa hlaupið í 28 klukkustundir á dag í nokkra daga í röð.

Heimkynni

Náttúruleg heimkynni kameldýra eru í Mið-Asíu þar sem þau finnast frá Túrkmenistan austur og norður til Mongólíu. Kameldýrin eru sterkbyggð og harðgerð dýr og mikið notuð sem burðardýr.

Heitið kameldýr er upprunnið úr latínu og grísku, camelus og kamēlos, en á hebresku heita þau gāmāl.

Drómedarar finnast aðallega í norðanverðri Afríku og í Arabíu sem húsdýr og eru nytjar af þeim þær sömu og af kameldýrum. Sagt er að á Arabíuskaga séu notuð um 160 mismunandi orð yfir úlfalda.

Talsvert af drómedörum finnast í óbyggðum Ástralíu þar sem þeir hafa dafnað vel eftir að þeir voru fluttir þangað af mönnum sem burðardýr á 19. öld.

50 milljón ára þróunarsaga

Elstu minjar um úlfalda eru frá Norður-Ameríku og benda til þess að þeir hafi verið komnir fram á sjónarsviðið fyrir um það bil 50 milljón árum. Þessir frumúlfaldar sem kallast Protylopus voru  á stærð við ketti og lifðu í skógum. Beinaleifar benda til að úlfaldar hafi verið á stærð við kindur fyrir um 35 milljón árum. Fyrir þremur til fimm milljón árum náði útbreiðsla norður-amerísku úlfaldanna til Suður-Ameríku og þar hafa þeir þróast í það sem við köllum lama- og gvanadýr í dag.

Útbreiðsla úlfalda náði einnig yfir Beringssund til Asíu og Arabíu þar sem þeir hafa vaxið talsvert á þróunartíma sínum og aðlagast lífi í eyðimörkinni.

Kameldýr í Kanada

Árið 2006 fundust í Kanada bein kameldýra sem varpa nýju ljósi á þróun þeirra. Fram til þessa hefur verið talið að kameldýr (Camelops hesternus) sem lifðu í árdaga í Norður-Ameríku hafi verið náskyld lamadýrum í Suður-Ameríku. Kjarnasýrur úr fyrrnefndum beinum benda aftur á móti til að kameldýrin hafi verið skyldari kameldýrum í Asíu en lamadýrum Suður-Ameríku. Rannsóknir á beinum kanadísku kameldýranna benda til að þau hafi einangrast frá nútíma ættingjum sínum í Asíu fyrir um 10 milljón árum og þróast á sinn hátt.

Tamdir úlfaldar

Stærstur hluti úlfalda í heiminum í dag er taminn og þeir fáu, 1.400 dýr, sem eftir eru og teljast villtir er að finna í Góbí-eyðimörkinni.

Fornleifarannsóknir benda til að úlfaldar hafi verið nýttir til matar frá því á tíundu öld fyrir Krist en að ekki hafi verið farið nota þá sem reiðskjóta og burðardýr fyrr en 3.000 árum fyrir okkar tímatal. Talið er að drómedarar hafi fyrst verið tamdir í Sómalíu og á suðurodda Arabíu. Aftur á móti er talið að fyrstu kameldýrin hafi verið tamin í Mið-Asíu og Íran.

Úlfaldar hafa í í aldaraðir verið burðardýr og flutt varning eins og krydd og reykelsi frá hinu dularfulla austri til Vesturlanda. Oftar en ekki lá leið úlfaldalestanna um verslunarleiðir eyðimarka og skipti fjöldi dýra í hverri lest oft hundruðum og jafnvel þúsundum. Úlfaldalestir eru stundum kallaðar skip eyðimerkurinnar.

Vegna styrkleika síns hafa úlfaldar allt fram á okkar dag verið notaðir í hernaði og heilu riddaraliðssveitirnar í Afríku og Mið-Austurlöndum hafa riðið úlföldum.

Rómverjar beittu úlfaldasveitum við landvinninga sína bæði sem reið- og burðardýrum. Úlfaldar eru stærri og sterkari en hestar þannig að hestar sem lentu saman við úlfalda í bardaga fældust auðveldlega.

Á meðan breska heimsveldið var og hét og inn í heimsstyrjöldina fyrri héldu Bretar úti varðsveitum hermanna á úlföldum í Palestínu, Egyptalandi og á Síaníaskaga. Á seinni hluta nítjándu aldar var innann Bandaríkjahers sérþjálfuð úlfaldahersveit sem hafði aðsetur í Kaliforníu og landamæraverðir á Indlandi ríða enn úlföldum á eftirlitsferðum.

Mjólk, kjöt og húðir

Úlfaldamerar eru mjólkaðar og mjólkin höfð til drykkjar og búin til úr henni jógúrt. Mjólkin strokkast illa til smjörgerðar og nýtist illa við ostagerð en úr henni má búa til ágætan ís. Mjólkin er svo þykk að hún er stundum kölluð fljótandi kjöt. Hún er næringarrík og inniheldur minna af fitu og laktósa en kúamjólk.

Vegna stærðar sinnar gefur skrokkur af fullvöxnum úlfalda af sér talsvert magn af kjöti, 250 til 400 kg, sem þykir herramanns matur. Kjöt af stórum holdaúlfalda getur verið hátt í 800 kíló. Eftirsóttustu bitarnir eru framparturinn, rifin og lundirnar. Fitan í hnúðinum þykir einnig lostæti. Kjöt af gömlum úlföldum er sagt vera ólseigt en mýkist við suðu. Blóðið er járnríkt og stundum drukkið hrært saman við mjólk.

Hamborgarar úr úlfaldakjöti eru vinsælir á skyndibitastöðum í heimalöndum úlfaldanna og í Ástralíu er það haft í lasanja. Húðir úlfalda eru sniðnar í tjöld, töskur, klæði og skæði og hárið er nýtt til vefnaðar.

Úlfaldar í trúarbrögðum og alþýðuspeki

Eins og gefur að skilja tengjast úlfaldar trúarbrögðum í Mið-Austurlöndum á ýmsan hátt. Úlfaldakjöt er halal sem sem þýðir að þeir sem fylgja íslam að máli mega neyta þess. Gyðingar líta aftur á móti ekki á úlfaldaafurðir sem kósher og því ekki hæft til neyslu.

Samkvæmt fornri lækningaspeki á Arabíuskaga er úlfaldaþvag sagt hafa lækningamátt. Í sérverslunum sem gera út á alþýðulækningar er það sums staðar selt sem lyf og drukkið gegn sjúkdómum eins krabbameini og astma og til að auka kynorkuna. Einnig er það sagt gott til hárþvotta, ekki ólíkt því sem var sagt um kúahland hér á landi.

Í Markúsarguðspjalli 10:25 segir og haft eftir Jesús: „Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki. Þetta er svo endurtekið í Mattheus 19:24 og einnig haft eftir Jesú: „Sannlega segi ég yður: Torvelt verður auðmanni inn að ganga í himnaríki. Enn segi ég: Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki.“

Ekki má heldur gleyma því að fólk er oftar en ekki tilbúið að búa til úlfalda úr mýflugu að óþörfu.

Skógarfura í Varmahlíð föngulegust
Fréttir 4. október 2024

Skógarfura í Varmahlíð föngulegust

Skógræktarfélag Íslands hefur valið skógarfuru í Varmahlíð tré ársins 2024.

Þrír forstjórar skipaðir fyrir nýjar ríkisstofnanir
Fréttir 4. október 2024

Þrír forstjórar skipaðir fyrir nýjar ríkisstofnanir

Nýlega voru skipaði þrír forstjórar fyrir nýjar ríkisstofnanir sem urðu til með ...

Eftirlíking af hálfri kú
Fréttir 4. október 2024

Eftirlíking af hálfri kú

Nautastöð Bændasamtaka Íslands tók á dögunum í notkun eftirlíkingu af kú sem er ...

Gagnrýna nýjar reglur um hollustuhætti
Fréttir 3. október 2024

Gagnrýna nýjar reglur um hollustuhætti

Heilbrigðisnefndir kringum landið hafa gagnrýnt skort á kynningu á nýrri regluge...

Aðgerðaáætlun gefin út
Fréttir 3. október 2024

Aðgerðaáætlun gefin út

Matvælaráðherra, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, hefur gefið út aðgerðaáætlun fyrir...

Grasrótin gaumgæfir atvinnulíf og nýsköpun
Fréttir 3. október 2024

Grasrótin gaumgæfir atvinnulíf og nýsköpun

Verkefnið Vatnaskil á Austurlandi miðar að því að efla nýsköpun og stuðla að fjö...

Áburðarverkefni í uppnámi
Fréttir 3. október 2024

Áburðarverkefni í uppnámi

Áburðarverkefni í Syðra-Holti í Svarfaðardal, sem gengur út á moltugerð úr nærsa...

Aukinn innflutningur á lægri tollum
Fréttir 2. október 2024

Aukinn innflutningur á lægri tollum

Ekki er hægt að fá uppgefna þá aðila sem standa að baki innflutningi á landbúnað...