Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Tryggjum frumframleiðslu á Íslandi
Mynd / Bbl
Skoðun 23. september 2021

Tryggjum frumframleiðslu á Íslandi

Höfundur: Gunnar Þorgeirsson formaður Bændasamtaka Íslands - gunnar@bondi.is

Nú göngum við að kjörborðinu laugardaginn næstkomandi. Það hefur verið ánægjulegt verkefni hér í Bændahöllinni undanfarnar vikur að taka á móti frambjóðendum frá flestum flokkum sem eru í framboði til Alþingis. Farið hefur verið yfir helstu málefni landbúnaðarins og nauðsyn þess að tryggja frumframleiðslu á Íslandi og sóknarfæri í landbúnaði. Einnig hafa umhverfismálin verið lykilatriði í umræðu um landbúnað á þessum kynningum.

Athyglisvert er að sjá á skoðanakönnunum að helstu áherslur kjósenda fyrir þessar kosningar eru heilbrigðismál og loftslagsmál en landbúnaðarmál í neðstu sætum. Loftslagsmál og landbúnaður eru samofin að mati Bændasamtakanna. Ísland mun ekki ná kolefnishlutleysi nema komi til stórfelld binding og þar gegna bændur lykilhlutverki. Enginn annar hópur hefur yfir að ráða þekkingunni, landinu og getunni til þess að ráðast í bindingarverkefni í þeim skala sem þörf er á á næstu áratugum. Því væri meira um vert að sjá auknar aðgerðir í þeim efnum frá umhverfisráðherra í stað þess að friðlýsa enn eitt svæðið.

Landbúnaðarstefna fyrir Ísland

Það hefur verið viðvarandi vandamál fyrir íslenskan landbúnað að stefnufestu stjórnvalda hefur skort í málaflokknum. Nú hefur verið lögð fram í fyrsta sinn landbúnaðarstefna, unnin af þeim Birni Bjarnasyni og Hlédísi Sveinsdóttur. Það er ánægjuefni að þessi vinna skuli vera komin svona langt á veg. Ég vil hvetja þá sem taka við á hinum pólitíska velli eftir kosningar að þetta skjal fái málefnalega umræðu á Alþingi og verði síðan afgreidd í framhaldinu, til að mynda í formi þingsályktunar sem landbúnaðarstefna fyrir íslenska þjóð.

Það er landbúnaðinum gríðarlega mikilvægt að stefna verði unnin til framtíðar svo frumframleiðendur geti gert sínar áætlanir til lengri tíma á grundvelli stefnu sem Alþingi hefur samþykkt, líkt og gert var með heilbrigðisstefnu til ársins 2030.

Hafi stjórnvöld ekki skýra sýn um framtíð landbúnaðar gæti þróunin orðið sú að Ísland verði eins og landbúnaðarsafn frekar en grundvallaratvinnugrein sem skapar verðmæti í hinum dreifðu byggðum. Stefnan verði eins og lauf í vindi sem feykist til og frá með lyklaskiptum í ráðuneytinu.

Úthlutun tollkvóta

Talsverð umræða hefur átt sér stað undanfarnar vikur um skort á selleríi í verslunum og öðrum vörum þar sem tollar eru lagðir á innflutning yfir ákveðið tímabil. Það sem þar er á ferðinni er að nægjanlegt magn innlendrar vöru er ekki til reiðu og því þarf að flytja inn vöruna erlendis frá á fullum tollum. Skilaboð Alþingis með því að fastsetja tímabil tollverndar voru þau að efla íslenska garðyrkjuframleiðslu. Þannig ætti að vera fyrirsjáanleiki fyrir framleiðendur að rækta tegundir með þeirri fullvissu að hún yrði varin tollum, líkt og önnur sú framleiðsla sem stjórnvöld hafa tekið ákvörðun um að vernda.

Þegar unnið var að tollarömmunum við breytingu búvörulaganna á sínum tíma í tengslum við tolla á grænmeti bentu ellefu hagsmunasamtök á, þ.á m. Bændasamtökin, að vanda þyrfti lagasetningu svo hægt yrði að bregðast við mögulegum frávikum sem kynnu að koma upp í búvöruframleiðslu, sem háð væri íslensku veðurfari og öðrum ytri aðstæðum. Frumvarpið breyttist ekki við meðferð málsins í atvinnuveganefnd heldur lagði nefndin áherslu á að landbúnaðarráðherra myndi „bregðast skjótt og örugglega við með lagasetningu í slíkum tilfellum“ og að ráðherra skyldi endurskoða vörur og tímabil úthlutunar á tveggja ára fresti, sem verður nú þann 23. desember nk. Það verða því ærin verkefni sem nýr landbúnaðarráðherra þarf að bregðast við „með skjótum og öruggum hætti“.  

Vaxtastig skiptir máli 

Miðað við kannanir eru nokkrar líkur á því að snúið verði að mynda ríkisstjórn eftir kosningar. Ljóst er að mörg mikilvæg hagsmunamál bænda verða til umfjöllunar á næsta kjörtímabili. Búvörusamningar, loftslagsmál, endurskoðun tollasamnings við Evrópusambandið og fleiri mál sem nefnd hafa verið til sögunnar.

En eitt stærsta hagsmunamálið er einfaldlega endurreisn efnahagsins eftir kórónukreppuna. Landbúnaður á mikilla hagsmuna að gæta að hagsstjórnin á næstu árum verði hagfelld, þannig að samspil peningastefnu og ríkisfjármála muni hjálpast að við að halda verðbólgu í skefjum og vöxtum lágum. Landbúnaðurinn þarf að fjárfesta mikið á næstu árum til þess að auka verðmætasköpun og þar eru vextir lykilatriði. Því er að mörgu að huga fyrir kjósendur á næstu dögum.

Plastbrúsar framleiddir úr endurunnu rúlluplasti
Fréttir 25. apríl 2025

Plastbrúsar framleiddir úr endurunnu rúlluplasti

Fyrirtækið Pure North í Hveragerði hefur nú náð að loka hringrás endurvinnslu á ...

Reykjavík Open 2025 – Friðriki til heiðurs
Fréttir 25. apríl 2025

Reykjavík Open 2025 – Friðriki til heiðurs

Reykjavík Open, sem hófst miðvikudaginn 9. apríl í Hörpu, hefur fyrir löngu fest...

Málstofa um áburðarmöguleika fiskeldisseyrunnar
Fréttir 24. apríl 2025

Málstofa um áburðarmöguleika fiskeldisseyrunnar

Fiskeldi á landi er vaxandi atvinnugrein, allnokkur stór eldisfyrirtæki eru í up...

Framleiðsla á Hrym í Búðardal
Fréttir 23. apríl 2025

Framleiðsla á Hrym í Búðardal

Fyrirhuguð er stórtæk framleiðsla á lerkiafbrigðinu Hrymi í Dalabyggð á næstu mi...

Skógur alltaf til bóta
Fréttir 22. apríl 2025

Skógur alltaf til bóta

Rannsóknir sýna að áhrif skógræktar á kolefnisforða jarðvegs eru nær alltaf orði...

Fjársjóður fjalla og fjarða
Fréttir 22. apríl 2025

Fjársjóður fjalla og fjarða

Tveggja daga íbúaþing, undir stjórn Sigurborgar Kr. Hannesdóttur, fór fram í Rey...

Er plantað nóg?
Fréttir 16. apríl 2025

Er plantað nóg?

Skógarbændur gegna mikilvægu hlutverki við landgræðslu og skógrækt. Þannig er sk...

Trump skellir í lás
Fréttir 16. apríl 2025

Trump skellir í lás

Alþjóðasamfélagið er skekið eftir tollahækkanir Trumps í þarsíðustu viku.

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f