Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Tjaldfjós getur í raun litið út líkt og hefðbundið fjós eins og sjá má.
Tjaldfjós getur í raun litið út líkt og hefðbundið fjós eins og sjá má.
Á faglegum nótum 18. október 2021

Tjaldfjós með trjákurli

Höfundur: Snorri Sigurðsson - snsig@arlafoods.com

Hönnun fjósa hefur tekið miklum breytingum á undanförnum áratugum en frekar litlar breytingar hafa þó orðið á því hvernig fjósin eru byggð. Langoftast hafa fjós bæði hér á landi og víða í norðurhluta Evrópu verið annaðhvort staðsteypt eða einhvers konar form af yleiningahúsum og þá oftast annaðhvort límtrés- eða stálgrindahús.

Fyrir nokkrum árum fór að bera á meiri fjölbreytileika við byggingu fjósa erlendis og þannig eru til í dag fjós sem eru í raun í grunninn byggð sem gróðurhús, þ.e. með glerþaki, svo dæmi sé tekið, en slík hönnun bygginga er nokkuð ódýrari en gerist og gengur um fjósbyggingar. Nýverið var svo byggt áhugavert fjós í Svíþjóð, en það er klætt með dúk og var sú lausn valin þar sem hún var mun hagkvæmari en aðrar lausnir. En það er meira en byggingin sem slík sem er áhugaverð við þetta fjós, því í fjósinu er notað trjákurl í allar stíur en ekki hálmur eins og oft er gert.

Það fer sérlega vel um kýr sem liggja á undirlagi sem þessu eins og sjá má.

Kanadísk hönnun

Þessi tegund bygginga er hönnuð í Kanada og er í dag notuð í raun víða sem gripahús fyrir bæði nautgripi og annað búfé og byggingarnar eru afar bjartar enda kemst dagsbirta í gegnum dúkinn sem gefur einstakt umhverfi fyrir búféð.

Þessar byggingar, sem eru auðvitað óeinangraðar, eru oft einnig án allra veggeininga þ.e. ekki með fasta útveggi heldur bara dúk alveg niður að jörð. Dúkurinn sem er á hlið fjósanna er svo upprúllanlegur og þegar og ef heitt er í veðri má opna hliðarnar alveg sem gerir nærumhverfi nautgripanna enn betra.

Vegna þess hve dúkurinn er léttur, er þakbyggingin einnig léttbyggð.

Steypa álagsstaði

Þó svo að þessi fjósgerð sé nánast laus við alla steypu þá sleppa bændur ekki alveg svo vel því bæði þarf að steypa sökkuleiningar sem stoðirnar festast við sem og þar sem álagssvæði gripanna eru eins og t.d. fóðurgang og mögulega gangsvæði í og við mjaltaþjóna svo dæmi sé tekið auk þess sem setja þarf steypta palla undir drykkjarsvæði svo ekki sé hætta á því að vatn sullist niður í undirlagið.

Trjákurl

Trjákurl er aukaafurð sem fellur til við skógrækt og framleiðsla á því mun einungis vaxa á Íslandi á komandi árum. Þetta gæti því verið einkar áhugavert fyrir búfjáreigendur að kynna sér frekar. Þegar búnar eru til stíur fyrir trjákurlsmottur eru þær í raun gerðar eins og hálmstíur, þ.e. djúpar stíur sem kurlið er sett í og svo unnið með og bætt við jafnt og þétt þar til stían er tæmd og byrjað upp á nýtt.

Í Svíþjóð má byggja fjós án þess að vera með botn í þeim ef jarðvegurinn undir er leirskotinn og sparast því mikið magn af steypu. Rétt er að taka fram að til þess að fá slíkt leyfi í Svíþjóð þarf þó að taka jarðvegssýni reglulega til að sýna fram á að það renni ekki vökvi frá undirburðinum og niður í jarðveginn. Reynslan sýnir þó að frárennsli frá svona trjákurlsmottu er næsta óþekkt.

Bættu við hrossaskít

Þegar þetta sænska fjós, sem er fyrst sinnar tegundar í Svíþjóð, var tekið í notkun var byrjað á því að keyra inn í það 800 rúmmetrum af trjákurli frá grenitrjám. Síðan var hrossaskít blandað saman við en það var gert til þess að fá gerjun í gang í trjákurlsmottunni, sem er nauðsynlegt svo hún þurrki sig sjálf vegna hitamyndunar.

Loftun mikilvæg

Trjákurlsmottu þarf að viðhalda vel og það er oftast gert með því að nota sérstakar loftlagnir sem eru settar í gólfið undir mottunni. Þetta þarf að gera með trjákurl vegna þeirrar gerjunar sem á sér stað og til að halda henni þurri en ekki síst til þess að halda sýrustiginu réttu.

Þegar trjákurl byrjar að gerjast og brotna niður lækkar sýrustigið í mottunni og getur orðið skeinuhætt gripunum en sé mottan loftuð vel gerist það ekki. Til þess að tryggja það er oftast dælt lofti nokkrum sinnum á dag í gegnum mottuna og fyrir vikið verður hún hæfilega þurr og hentar fyrir nautgripi. Í þessu sænska fjósi var þó farin önnur leið, enda ekki steyptur botn undir mottunni og því erfitt að vera með lagnir þar. Þess í stað er mottan herfuð tvisvar á dag og næst þá að lofta hana vel, halda rakastiginu heppilegu og sýra sem gæti myndast herfast þá líka niður.

Trjákurl þarf að meðhöndla rétt svo það henti sem undirlag fyrir nautgripi.

Skylt efni: fjósbygging | tjaldfjós | Fjós

Umfang útiræktunar dregst saman
Fréttir 21. mars 2025

Umfang útiræktunar dregst saman

Matvælaráðuneytið hefur afgreitt jarðræktarstyrki til garðyrkjubænda vegna útiræ...

Fleiri svínum slátrað
Fréttir 21. mars 2025

Fleiri svínum slátrað

Mikil aukning var í svínaslátrun hjá Sláturfélagi Suðurlands árið 2024 en mismik...

Bændablað úr frjóum jarðvegi
Fréttir 21. mars 2025

Bændablað úr frjóum jarðvegi

Áskell Þórisson, blaðamaður og ljósmyndari, varð fyrsti ritstjóri Bændablaðsins ...

Eignast allt Lífland
Fréttir 21. mars 2025

Eignast allt Lífland

Þórir Haraldsson hefur skrifað undir kaup á 50 prósenta hlut í Líflandi ehf. af ...

Landbúnaðartæki verði undanskilin kílómetragjaldi
Fréttir 21. mars 2025

Landbúnaðartæki verði undanskilin kílómetragjaldi

Bændasamtök Íslands kalla eftir því að dráttarvélar og eftirvagnar í landbúnaði ...

Slátrun á Hvammstanga áfram með svipuðu sniði
Fréttir 21. mars 2025

Slátrun á Hvammstanga áfram með svipuðu sniði

Slátrun hjá Sláturhúsi Kaupfélags Vestur-Húnvetninga (SKVH) á Hvammstanga verður...

Lök uppskera á kartöflum og gulrótum á síðasta ári
Fréttir 20. mars 2025

Lök uppskera á kartöflum og gulrótum á síðasta ári

Hagstofan gaf á mánudaginn út uppskerutölur úr grænmetisog salatræktun síðasta á...

Í fremstu röð í þrjátíu ár
Fréttir 20. mars 2025

Í fremstu röð í þrjátíu ár

Bændablaðið hefur í þrjátíu ár stuðlað að upplýsandi umræðu um landbúnað á víðum...