Þétting byggðar úrelt hugsun og talin heilsufarslega og félagslega skaðleg
Þétting byggðar hefur verið eins konar töfraorð í íslenskri sveitarstjórnarpólitík í fjölmörg ár og einkum þar sem byggð er þéttust fyrir eins og á höfuðborgarsvæðinu. Byggðaþétting hefur átt að leysa úr flestum vanda, eins og húsnæðisvanda, og draga stórlega úr loftmengun og þörfinni á akstri ökutækja.
Þétting byggðar hefur líka sínar neikvæðu hliðar og leiðir óhjákvæmilega til þess að gengið er á græn svæði. Áhugavert er að skoða þetta í ljósi stefnumörkunar úti í hinum stóra heimi á undanförnum árum. Þar hefur þessi umræða blossað upp aftur í skugga Covid-19 þar sem málin eru líka skoðuð út frá faraldsfræðilegum sjónarmiðum.
Fólk farið að flýja úr þéttbýlinu
Velta menn mjög fyrir sér árangrinum, eða öllu heldur göllunum sem fylgja byggðaþéttingarstefnu, m.a. á hækkun húsnæðisverðs, húsaleigu og neikvæð áhrifin á vistvænt umhverfi sem hverfur undir steinsteypu. Einnig á minnkandi loftgæði með minnkandi súrefnismettun inni í byggðinni vegna minni gróðurs.
Bent er á að of lítið sé hugað að því hvaða áhrif byggðaþéttingin hefur á andlega og líkamlega heilsu. Þetta hefur m.a. leitt til fólksflótta úr borgunum. Sama þróun virðist vera að eiga sér stað á Íslandi sé litið til stóraukinnar eftirspurnar eftir húsnæði í minni bæjum í kringum höfuðborgarsvæðið.
Íbúum New York hefur fækkað um 200.000 á fjórum árum
Covid-19 faraldurinn virðist líka hafa haft áhrif á breyttan hugsunarhátt fólks. Íbúum New York borgar fækkaði um 90.000 manns á milli áranna 2019 og 2020, eða um 0,8%. Í heil 10 ár þar á undan hafði íbúum borgarinnar aðeins fjölgað um 61.000. Samkvæmt tölum Census Bureau náði íbúatala New York borgar hámarki árið 2016 í 8.469.000. Hefur íbúum borgarinnar síðan fækkað um rúmlega 200.000 á aðeins fjórum árum.
Þá fækkaði t.d. íbúum San Francisco í Bandaríkjunum um 1,4% á síðasta ári. Í þriðju stærstu borginni, Chicago, fækkaði á síðasta ári um 14.000 manns.
Í Los Angeles, þar sem íbúafjöldinn var 2,68 milljónir, fækkaði íbúum um 0,3%, San Jose um 1,3%, Long Beach um 0,8%, svo einhverjar borgir séu nefndar.
Fækkun íbúa er þó ekki algild um bandarískar borgir. Þannig fjölgaði t.d. lítils háttar í Dallas, eða um 74 einstaklinga, og um 400 í Houston, sem er fjórða stærsta borg Bandaríkjanna með rúmlega 2,3 milljónir íbúa.
Mest aðstreymi fólks var hins vegar í Kirkland, sem er úthverfi í Seattle, þar sem íbúum fjölgaði um 2,6%, en þar kom einmitt upp fyrsta hópsmit Covid-19 í Bandaríkjunum.
Skiptar skoðanir og misvísandi gögn
Vissulega eru þó líka til öfl sem hafa haldið því enn fram að aukin þéttleiki byggðar leiði til aukinnar hagkvæmni og bættrar heilsu þar sem fólk í þéttbýlinu hreyfi sig meira á greiðfærum gangstéttum. Á móti er bent á skýrslur sem sýna að slys á fólki á götum í þéttbýli eru mun algengari en í dreifbýli og léleg loftgæði í borgum valdi líka miklum skaða á öndunarfærum sem stytti lífaldur fólks.
Mikilvægi grænna svæða til að styðja við heilbrigt líf
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, lagði einmitt fram skýrslu árið 2016 um áhrif af grænum svæðum í borgum sem hafa óðum verið að hverfa vegna þéttingar byggðar. Skýrslan heitir „Urban green spacees and health – A review and evidence“. Tekur hún til rannsókna sem gerðar voru á 10 ára tímabili á þessum málum. Þar segir m.a.:
„Nýlega hefur áhugi vaknað á mikilvægi grænna svæða til að styðja við heilbrigt líf í þéttbýli. Tengsl milli grænna svæða og heilsu hafa verið viðurkennd í gegnum tíðina og voru einn af drifkröftunum á bak við þéttbýlisgarðahreyfingu 19. aldar í Evrópu og Norður-Ameríku (Schuyler, 1988).“
Vísað er m.a. til skýrslu WHO um borgarskipulag, umhverfi og heilbrigði sem gefin var út árið 2010. Þar segir að græn svæði geti haft jákvæð áhrif á líkamlega hreyfingu, félagslega og sálræna líðan, bætt loftgæði og dragi úr óþægindum af hávaða.
Þá segir að nýlegar rannsóknir hafi gefið vísbendingar um margvíslegan ávinning af grænu svæði í þéttbýli. Faraldsfræðilegar rannsóknir hafa notað fjölmargar aðferðir til að mæla áhrif framboðs af grænu svæði í þéttbýli og aðgengi að heilsuárangri þátttakenda í rannsóknum. Þá er ekki bara verið að tala um skipulagða garða, heldur einnig ræktun grasbala og trjáa í borgum, einkagarða borgarbúa og fleira. Í niðurstöðum skýrslunnar segir m.a.:
„Gögnin sýna að græn svæði í þéttbýli hafa heilsufarslegan ávinning, sérstaklega fyrir efnahagslega illa stæð samfélög, börn, barnshafandi konur og eldri borgara. Það er því nauðsynlegt að allir íbúar hafa fullnægjandi aðgang að grænum svæðum, með sérstakri forgangsröðun á slíkt í bágstöddum samfélögum. Þó að smáatriði um hönnun og stjórnun grænna svæða í þéttbýli verði að vera í takt við staðbundna landfræðilega þætti og menningarlegar aðstæður, þá er þörfin ótvíræð fyrir græn svæði og gildi þeirra fyrir heilsu og vellíðan.“
SÞ segja að þétt byggð hafi aukið á útbreiðslu Covid-19
Sameinuðu þjóðirnar hafa tekið þessa byggðaþéttingaráráttu á dagskrá og hafa gefið út sérstaka skýrslu sem kynnt var á fundi í Naíróbí 30. mars síðastliðinn og gefin út í maí. Hún heitir Borgir í heimsfaraldri í átt að réttlátari, grænni og heilbrigðari framtíð, eða „Cities and Pandemics: Towards a More Just, Green and Healthy Future“. Skýrslan sýnir hvernig borgir geta dregið úr áhrifum heimsfaraldra og orðið sanngjarnari, heilbrigðari og umhverfisvænni. Þar segir m.a.:
„Smit í þéttbýli hefur verið afgerandi í Covid-19 faraldrinum, en 95 prósent allra tilfella voru skráð í borgum fyrstu mánuðina. Þéttbýlisstaðir stóðu frammi fyrir hröðum breytingum á lýðheilsu ásamt áskorunum í öruggum almenningssamgöngum, aukinni vatns- og hreinlætisþörf, notkun almenningsrýma og efnahagslegum afleiðingum lokunar.“
Þar segir einnig að stjórnendur borga og skipuleggjendur verði að endurskoða hvernig fólk ferðast um í borgum og nýta þann lærdóm sem fengist hefur af Covid-19. Bent hefur verið á mannmergð í almenningssamgöngukerfum í því sambandi. Misskipting, fátækt og mjög þétt byggð hafi einnig verið gegnumgangandi þættir sem aukið hafi á útbreiðslu Covid-19.
Lausnin talin vera í sjálfbærum hverfum
Tillögur Sameinuðu þjóðanna fela í sér aukna áherslu á staðbundnar lausnir í skipulagi hverfa og samfélaga sem eru fjölvirk og skilvirk. Hverfin verði sem sjálfbærust og samanstandi hvert um sig af íbúðarhúsnæði, verslun, þjónustu og opnu almenningsrými ásamt húsnæði á „viðráðanlegu verði“. Það voru einmitt sömu rökin og notuð voru þegar ráðist var í uppbyggingu Breiðholtshverfanna í Reykjavík á sínum tíma og virkaði þá vel. Slíkt getur að mati skýrsluhöfunda SÞ leitt til bættrar lýðheilsu og viðgangs staðbundinna hagkerfa og umhverfis.
Þetta krefst þess að stjórnvöld einbeiti sér að stefnu til að vernda landréttindi, bæta aðgengi að vatni, hreinlætisaðstöðu, almenningssamgöngum, rafmagni, heilbrigðis- og menntunaraðstöðu og tryggja stafræna tengingu án aðgreiningar.
„Við verðum að taka á kerfislægri fátækt og ójöfnuði í borgum og leggja meiri áherslu á húsnæði, grunnþjónustu, sjálfbærni, hreyfanleika og tengimöguleika,“ sagði Maimunah Mohd Sharif, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.
Líka á dagskrá hjá OECD

Efnahagssamvinnu- og þróunarstofnunin OECD gerði líka skýrslu um þessi mál árið 2018. Þar kemur m.a. fram að þróunin frá árinu 2000 sýni að æ fleira fólk leiti nú út úr þéttbýlum miðborgum og í úthverfin þar sem þrengslin eru minni. Þessi þróun var þá samkvæmt skýrslunni að eiga sér stað í að minnsta kosti 20 Evrópulöndum. Yfirvöld á höfuðborgarsvæðinu á Íslandi virðast því vera talsvert langt á eftir tímanum í hugsun og keyra áfram skipulag sem vinnur í þveröfuga átt.
Helstu drifkraftarnir til að gera sókn í dreifðari og heilbrigðari byggð eru að mati OECD knúnir áfram af lýðræðislegum, efnahagslegum, landfræðilegum, félagslegum og tæknilegum þáttum.
Stórfelld uppbygging vegakerfis og bifreiðastyrkir stór þáttur í jákvæðri þróun
Mikilvægustu atriðin að mati OECD til að knýja þessa þróun er m.a. að takmarkanir séu settar á þéttleika byggðar, skattkerfi feli í sér að jafna aðstöðu fólks til að geta búið við betri aðstæður í meira strjálbýli, bifreiðakostnaður sé niðurgreiddur og stórfelld fjárfesting sé viðhöfð í uppbyggingu vegakerfis. Þegar litið er á þróunina á Íslandi hefur greinilega verið unnið af hörku gegn þessari þróun.
Nefndar eru nokkrar borgir þar sem þéttleiki byggðar þykir vel ásættanlegur og mikið lagt upp úr úthverfum. Þar eru borgir eins og Ottawa í Kanada, Bergen í Noregi, Portland í Oregon-ríki í Bandaríkjunum og Darwin í Ástralíu.
Á móti eru nefndar borgir þar sem staðan er afleit hvað þéttleika varðar, eins og Busan í Kóreu, Osaka í Japan og Napólí á Ítalíu svo dæmi séu tekin. Þá hefur verið nefnd skelfileg afleiðing of þéttrar byggðar í indverskum borgum sem sýndi sig vel í mikilli og hraðri úrbreiðslu COVID-19 á undanförnum mánuðum.