Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Þakið þarf að festa og það kostar
Mynd / Bbl
Skoðun 30. september 2021

Þakið þarf að festa og það kostar

Höfundur: Kári Gautason, sérfræðingur hjá BÍ

Líklega er skást við mannskepnuna að húmorinn er henni nærtækur jafnvel í alvarlegustu stöðu. Fimmaurabrandarar verða líka til um loftslagsbreytingar: Tvær plánetur hittust á vetrarbrautinni og önnur spurði: Hvernig hefurðu það? – Ég hef það nú heldur skítt, sagði hin, ég er með hinn vitiborna mann. – Oh, blessuð vertu, það líður fljótt hjá!, sagði sú fyrri.

Nýr veruleiki í veðurfari 

Síðustu ár hafa vísindamenn verið spurðir þegar einhverjar veðurfarslegar hamfarir dynja yfir hvort að þær séu af völdum loftslagsbreytinga. Svarið er iðulega hið sama, ekki sé hægt að segja til um hvort einstaka atburðir séu vegna þeirra en almennt séð valdi loftslagsbreytingar öfgum í veðurfari. Það hrannast hins vegar upp sönnunargögnin sem samantekin segja sína sögu. Sé bara litið til síðustu missera þá hefur sumarhiti á Norður- og Austurlandi verið með miklum ólíkindum. Meðalhitinn var mörgum gráðum hærri en vant er á Egilsstöðum og Akureyri bæði  í júlí og ágúst. Þá hefur úrkoma verið svo lítil að það stefnir í hamfarir ef ekki tekur að rigna duglega áður en jörð frystir í haust. Það er álitaefni sem ég reikna með að sveitarfélög og þjóðaröryggisráð séu meðvituð um. Í vetur var svo þvílík úrhellisrigning á Austfjörðum að fjöllin skriðu niður í Seyðisfjörð með tilheyrandi eignatjóni. Mikil mildi að ekki varð mannskaði. Loðnan gufaði upp um tveggja ára skeið. Svona mætti lengi telja.

Veður geta verið válynd á Íslandi eins og við þekkjum. Samt hafa langvarandi þurrkar og vatnsskortur yfirleitt ekki verið vandamál í heilu fjórðungunum. Það er algjörlega nýr veruleiki. Allt eru þetta merki um að þær loftslagsbreytingar sem spáð hefur verið séu að raungerast. Það er ekki ómögulegt að bændur þurfi að bora eftir vatni og verða sér úti um vökvunarbúnað fari svo að reglulega komi þurrkasumur líkt og árið í ár.

Margt hægt að gera strax

Svo maður snúi grænu hliðinni upp þá er margt hægt að gera til þess að sporna við og það þarf að byrja strax. Samstarfsverkefni bænda og stjórnvalda í verkefninu Loftslagsvænn landbúnaður lofar góðu en það þarf að útvíkka. Samhliða því að hefjast handa þarf að afla bættra gagna um aðstæður á Íslandi svo að það losunarbókhald sem stjórnvöld standa skil á sé sem réttast. Grundvallarástæða þessara loftslagsbreytinga er röskun mannsins á hinni löngu kolefnishringrás. Mannkynið hefur grafið upp og kveikt í þvílíkum ókjörum af kolum, olíu og gasi síðustu árhundruðin að væri því öllu safnað í einn haug myndi staflinn verða á stærð við heilu fjallgarðana. Röskun á stuttu kolefnishringrásinni, líkt og breytingar í landnotkun og þess háttar hefur hér minna að segja en skiptir þó máli. Þegar staðan er eins slæm og stefnir í að verði innan tíðar þá skiptir allt máli. Þegar þakið er að fjúka af fjárhúsunum þýðir ekki að segja að það nægi bara að bæta saumi í sums staðar. Það þarf einfaldlega að festa þakið. 

Fram undan er barátta

Íslenskir bændur vilja ekki láta sitt eftir liggja í þessari stóru áskorun. Tækifærin eru fjölmörg. Orkuskipti munu verða í landbúnaði rétt eins og annars staðar. Sjálfkeyrandi rafmagnsknúnar dráttarvélar eru handan við hornið, sem og metandrifnar. Aukin notkun tölvubúnaðar, dróna og gervigreindar bætir alla nýtingu aðfanga og gerir framleiðsluna skilvirkari.  Gæta þarf að því að allur kostnaður sem bætt er við framleiðsluna til þess að ná meiri árangri í umhverfismálum er annaðhvort tekinn af afkomu bænda eða af neytendum í formi hærra matvælaverðs. Því skiptir höfuðmáli að fara í hagkvæmustu aðgerðirnar fyrst. Draga sem mest úr losun án þess að hækka matvælaverð úr hófi fram. Þar koma sjónarmið stjórnvalda við gerð næstu búvörusamninga til leiks. En ef stjórnvöld ætlast til þess að bændur kolefnisjafni greinina án þess að framlög til landbúnaðar verði aukin mun það hafa í för með sér annað af tvennu, versnandi afkoma bænda eða hækkandi matvælaverð. Það er engin leið framhjá þessu samhengi.  Aðgerðir til að bæta árangur í loftslagsmálum munu hækka framleiðslukostnað. Spurningin er þá hvernig á að kosta aðgerðirnar? Og næsta spurning fylgir strax á eftir: Hver verður samkeppnisstaðan við innflutta framleiðslu?  Bjartsýnisfólk gæti kannski svarað þessum spurningum með þeirri fullyrðingu að  þegar hinn vitiborni maður á Íslandi hafi samið frið við sitt land, þá hafi bræður hans og systur annars staðar samið frið við plánetuna með aðgerðum í loftslagsmálum. Þá ætti samkeppnisstaðan ekki að versna hér. En þetta verður ekki af sjálfu sér. Fram undan er barátta, bæði heima og heiman.

 

Kári Gautason,
sérfræðingur hjá BÍ

Lök uppskera á kartöflum og gulrótum á síðasta ári
Fréttir 20. mars 2025

Lök uppskera á kartöflum og gulrótum á síðasta ári

Hagstofan gaf á mánudaginn út uppskerutölur úr grænmetisog salatræktun síðasta á...

Í fremstu röð í þrjátíu ár
Fréttir 20. mars 2025

Í fremstu röð í þrjátíu ár

Bændablaðið hefur í þrjátíu ár stuðlað að upplýsandi umræðu um landbúnað á víðum...

Vanburða innviðir hringrásarhagkerfis
Fréttir 20. mars 2025

Vanburða innviðir hringrásarhagkerfis

Ekkert eftirlit er á Suðurlandi með því að garðyrkjuúrgangur úr íslenskri útiog ...

Þróun á kjötframleiðslu styður ekki við markmið stjórnvalda um aukið fæðuöryggi
Fréttir 17. mars 2025

Þróun á kjötframleiðslu styður ekki við markmið stjórnvalda um aukið fæðuöryggi

Talsvert hefur verið fjallað um mikilvægi fæðuöryggis landsins að undanförnu, bæ...

Upplýsingar uppfærðar um lambakjöt
Fréttir 14. mars 2025

Upplýsingar uppfærðar um lambakjöt

Eitt af þróunarverkefnum búgreina sem nýlega var veittur styrkur úr matvælaráðun...

Tangi besta nautið
Fréttir 14. mars 2025

Tangi besta nautið

Tangi 18024 frá Vestra-Reyni undir Akrafjalli hlaut nafnbótina besta naut fætt á...

Áform dregin til baka
Fréttir 13. mars 2025

Áform dregin til baka

Áform fjármála- og efnahagsráðherra um frumvarp til breytingar á tollalögum, þar...

Kvíaból fyrirmyndarbú ársins
Fréttir 13. mars 2025

Kvíaból fyrirmyndarbú ársins

Kvíaból í Köldukinn var útnefnt fyrirmyndarbú nautgripabænda árið 2025 á deildar...