Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 mánaða.
Tækifærin blasa við
Leiðari 2. maí 2025

Tækifærin blasa við

Höfundur: Þröstur Helgason, ritstjóri

Tækifærin blasa við í íslenskum landbúnaði. Á síðustu áratugum hefur verið byggð upp frumframleiðsla á matvælum hér á landi sem á sér vart sinn líka í hinum vestræna heimi, bæði hvað varðar heilnæmi, hreinleika og hollustu gagnvart mönnum og umhverfi.

Ef rétt er á haldið er ljóst að á næstu árum verður hægt að auka framleiðslu í ýmsum búgreinum og gera hana sjálfbærari. Innlendur markaður kallar til dæmis á aukna framleiðslu á íslensku grænmeti. Sem stendur nær markaðshlutdeild þess ekki 50% hér á landi. Þarna er augljóst tækifæri til sóknar.

Aukin framleiðsla hjá íslenskum garðyrkjubændum gagnast ekki bara þeim heldur og neytendum og vistkerfinu öllu. Íslenskt grænmeti kemur ferskt á markað, er framleitt með hreinu íslensku vatni, endurnýjanlegri orku, auk þess sem kolefnislosun þess er minni en innflutts grænmetis. Aukin framleiðsla á íslensku grænmeti styrkir þar að auki fæðuöryggi í landinu og skapar fleiri störf vítt og breitt um landið.

Ef þetta á að verða að veruleika þarf umfram allt skýrari stefnumörkun af hálfu ríkisins og aðgerðir sem miða að því að gera garðyrkjubændum kleift að auka framleiðslu og nýsköpun. Tryggja þarf framboð á raforku til bænda á stöðugu verði sem atvinnugreinin ræður við að greiða. Um leið þarf að koma upp gegnsæju og áreiðanlegu styrkjakerfi sem bændur geta sótt í til þess að endurnýja búnað sem sparar orku og lagt út í aðra nýsköpun.

Enn fremur þarf að auðvelda nýliðun í greininni, meðal annars með því að afnema hamlandi reglur á borð við þær að nýliðar megi einungis kaupa bú sem þegar eru í rekstri. Nýjum garðyrkjubændum er með öðrum orðum meinað að starta búum með nýjum húsum og nýjum tækjum og auka þannig líkur á að betri árangur náist í ræktuninni. Óljóst er hverjum þetta fyrirkomulag gagnast.

Þetta eru bara örfá dæmi um það sem mætti gera til þess að auka framleiðslu íslenskra garðyrkjubænda og gera hana hagkvæmari okkur öllum til góða. En tækifærin liggja víðar. Við sjáum þau til dæmis í landeldinu, í aukinni skógrækt og í heilnæmri frumframleiðslu matvæla sem neytendur kalla í æ ríkari mæli á.

Stærsta tækifærið sem blasir við er þó einfaldlega að gera íslenskum bændum kleift að búa betur. Að þeir fái sanngjarnara endurgjald fyrir framleiðslu sína. Að hagnaðurinn af rekstrinum verði ásættanlegur og þeim þar með gert auðveldara fyrir að leggja út í enn frekari nýsköpun og þróun á sínum búskap. Framtíð íslensks landbúnaðar er svo undir því komin að atvinnugreinin verði meira aðlaðandi fyrir ungt fólk sem hefur áhuga á að leggja hana fyrir sig. Á meðan afkoman er ekki betri en raun ber vitni er landbúnaður ekki samkeppnishæf atvinnugrein.

Þetta er auðvitað stóra verkefnið, nú þegar bændur eru að hefja viðræður við ríkið um nýja búvörusamninga. Niðurstaðan verður að vera sú að bændum verði gert kleift að búa betur. Afurðirnar sem þeir skila af sér eru framúrskarandi. Þeir hafa á undanförnum áratugum tekist á við auknar kröfur sem snúa að umhverfis- og loftslagsmálum með góðum árangri. Á sama tíma hafa íslenskir bændur þurft að sýna mikla útsjónarsemi í rekstri enda hefur stuðningur ríkisins við atvinnugreinina dregist saman um ríflega 60% frá árinu 1998, eins og formaður Bændasamtakanna hefur bent á.

Takist að efla hag bænda með nýjum búvörusamningum er augljóst að enn frekari tækifæri munu blasa við í íslenskum landbúnaði.

Bláskógabyggð fremst í flokki
Fréttir 12. nóvember 2025

Bláskógabyggð fremst í flokki

Bláskógabyggð hefur verið útnefnd í fyrsta sæti af fjórum „Sveitarfélögum ársins...

Þjónustumiðstöð byggð á Blönduósi
Fréttir 11. nóvember 2025

Þjónustumiðstöð byggð á Blönduósi

Á dögunum voru kynnt áform um opnun þjónustumiðstöðvar, sem Drangar ehf. ætla að...

Nýr verslunarstjóri í Hrísey
Fréttir 11. nóvember 2025

Nýr verslunarstjóri í Hrísey

Ásrún Ýr Gestsdóttir tók í haust við sem verslunarstjóri Hríseyjarbúðarinnar. He...

Kosið um sameiningu Dalabyggðar og Húnaþings
Fréttir 11. nóvember 2025

Kosið um sameiningu Dalabyggðar og Húnaþings

Dalabyggð og Húnaþing vestra eru nú á fullu í sameiningarviðræðum en ákveðið hef...

Lítil ummerki varnarefna í lofti yfir Íslandi
Fréttir 10. nóvember 2025

Lítil ummerki varnarefna í lofti yfir Íslandi

Veðurstofan hefur vaktað ýmis efni í úrkomu og lofti á Stórhöfða í Vestmannaeyju...

Hörð andstaða gegn breytingum í samkeppnisátt
Fréttir 10. nóvember 2025

Hörð andstaða gegn breytingum í samkeppnisátt

Umsagnarferli um umdeild frumvarpsdrög þar sem breyta á búvörulögum, lauk 24. ok...

Raflínunefnd umdeild
Fréttir 10. nóvember 2025

Raflínunefnd umdeild

Sveitarfélög og hagsmunasamtök landeigenda hafa gagnrýnt fyrirhugaða stofnun raf...

Auknar rekstrartekjur RML
Fréttir 10. nóvember 2025

Auknar rekstrartekjur RML

Stjórn Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) hélt ársfund í Borgarnesi til þe...