Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Sólsetur í Vopnafirði.
Sólsetur í Vopnafirði.
Mynd / Jessica Auer
Líf og starf 6. október 2021

Sumarið 2021 á Austurlandi fer örugglega í sögubækurnar

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdótttir

„Það er óhætt að fullyrða að þetta sé ein mesta törn sem við höfum upplifað í ferðaþjónustunni á Austurlandi síðustu 20 árin eða svo. Sumarið 2021 á Austurlandi fer örugglega í sögubækurnar,“ segir María Hjálmarsdóttir, verk­efnastjóri í markaðsmálum hjá Austurbrú.

Sumarið var einkar líflegt og mikill fjöldi fólks á ferðinni. Einstök veðurblíða vikum saman dró ferðalanga austur en þar er líka margt að sjá og skoða. Markaðsátakinu Fimm ferðaleiðir var hleypt af stokkunum í byrjun sumars og gaf góða raun.

„Þrátt fyrir kuldakast í upphafi sumars, þar sem einna helst leit út fyrir að ekkert yrði af sumri hér á Austurlandi, er það okkar tilfinning að ferðatíðin hafi farið fyrr af stað en t.d. í fyrrasumar. Íslendingar voru komnir á kreik fyrr en vant er og erlendir ferðamenn fóru strax í byrjun sumars að láta sjá sig á ný. Einmuna veðurblíða tók við eftir kuldakastið og stóð yfir í allt sumar, með sannkallaðri Spánarstemningu, þannig að fyrir sólþyrsta landsmenn var Austurland hinn fullkomni áfangastaður í sumar. Margir sem komu í fyrra komu aftur í sumar og eins voru Austfirðingar sjálfir duglegir að ferðast innan landshlutans,“ segir María.

Kajak á Lagarfljóti. Mynd / Þráinn Kolbeinsson

Fjölda- og tekjumet slegin

Hún segir að þeir sem stundi ferðaþjónustu í fjórðungnum kvarti eðlilega ekki þegar boðið er upp á hitabylgju nánast upp á hvern dag. Sem dæmi hafi öll fjölda- og tekjumet verið slegin hjá baðstaðnum vinsæla Vök Baths. Á tímabilinu frá því seinni hlutann í júní og fram í ágúst hafi öll tjaldsvæði verið full fyrir austan.

„Veður hefur mikið að segja en það er líka fólk á ferðinni til að skoða fjölmarga og fallega staði í náttúrunni og það kemur hvernig sem viðrar,“ segir María. Hún bætir við að vissulega hafi þetta verið mikil vinnutörn fyrir þá sem stunda ferðaþjónustu, yfir vofði óvissa varðandi heimsfaraldurinn og hvert hann myndi leiða. Af þeim völdum var staðan sú að mörgum gekk ekki nægilega vel að ráða inn starfsfólk og eigendur því oft að sinna öllum störfum.

Vitinn í Neskaupstað. Mynd / Jessica Auer

Komum stöðunum og kennileitunum betur á kortið

Í sumar var hleypt af stokkunum markaðsátaki þar sem kynntar voru fimm ferðaleiðir á Austurlandi og var markmiðið að gefa ferðamönnum, íslenskum jafnt sem erlendum, góðar hugmyndir að lengri eða styttri ferðum og dægradvöl í landshlutanum. Leiðirnar eru Fljótsdalshringurinn, Við ysta haf, Flakkað um firði, Austurströndin og Um öræfi og dali, fjölbreyttar leiðir þar sem er að finna eitthvað við allra hæfi.

„Við höfum stundum verið að berjast við það að Austurland sé frekar viðkomustaður en áfangastaður í augum ferðamanna á leiðinni milli Jökulsárlóns og Mývatns. Þessar ferðaleiðir sem við kynntum í sumar eru viðbragð við því og við fengum mjög góð viðbrögð, ferðaleiðakortið okkar var mjög vinsælt og margir greinilega sem nýttu sér að fara þessar leiðir,“ segir María en helstu og þekktustu náttúruperlur Austurlands hafi mikið verið heimsóttar og eins hafi fólk verið tilbúið að kanna nýja staði.

„Þetta er stór landshluti og margir spennandi staðir fyrir ferðamenn að skoða, hvort heldur þeir eru Íslendingar eða útlendingar. Með því að bjóða upp á þessar ferðaleiðir var ætlunin að koma stöðunum og kennileitunum betur á kortið, einfalda ferðalöngum sem leið eiga um landshlutann að finna þá og upplifa.“

Fjölbreyttar gönguleiðir

María segir að haustið líti ágætlega út líka og hafi komið mörgum í ferðaþjónustunni á óvart, einkum í ljósi þeirra samkomutakmarkana sem settar voru í kjölfar fjórðu bylgju faraldursins síðla sumars.

„Það virðist sem bókanir séu fínar fram eftir hausti og við höfum einnig heyrt af auknum áhuga á Austurlandi fyrir svokallaðar hvataferðir og hópeflisferðir af öllu tagi,“ segir hún. Bætir við að haustin séu að margra mati fallegasti árstíminn og veður hafi verið milt fram eftir undanfarin ár. Austurland sé kjörinn áfangastaður fyrir fólk sem vill prófa gönguleiðir af ýmsu tagi, en slíkar skipta tugum ef ekki hundruðum í fjórðungnum.

„Austurland hefur undanfarin ár verið að hasla sér völl sem eitt vinsælasta göngusvæði landsins, þar sem finna má gönguleiðir við allra hæfi, langar, stuttar, léttar og erfiðar, allt eftir því hvað hentar hverjum og einum.“

Á góðri stund í Vallanesi. Mynd / Gunnar Freyr Gunnarsson

Áfangastaður allt árið

María nefnir líka matarauð Austur­lands, sem sé ríkulegur og veitingastaðir hafi verið duglegir að nýta sér þá fjölbreyttu framleiðslu sem finna má í landshlutanum í sína matargerð. Þar má nefna hreindýr, sem er einkennandi fyrir landshlutann, lamb, fisk og villibráð. Náttúran gefi líka ríkulega af sér, berjaspetta hafi til að mynda verið með ólíkindum mikil í haust og vitað að margir hafi nýtt sér það.

„Þegar líður á veturinn opnast möguleikar á útivist í tengslum við skíðamennsku, en við bjóðum upp á tvö frábær skíðasvæði. Einnig eru hjá okkur menningartengdir viðburðir sem draga að sér ferðafólk.

„Það vantar því alls ekki afþrey­ingu á svæðið og Austurland hefur alla burði til að vaxa og dafna sem áfangastaður allt árið um kring,“ segir María.

Skylt efni: austurland

Umfang útiræktunar dregst saman
Fréttir 21. mars 2025

Umfang útiræktunar dregst saman

Matvælaráðuneytið hefur afgreitt jarðræktarstyrki til garðyrkjubænda vegna útiræ...

Fleiri svínum slátrað
Fréttir 21. mars 2025

Fleiri svínum slátrað

Mikil aukning var í svínaslátrun hjá Sláturfélagi Suðurlands árið 2024 en mismik...

Bændablað úr frjóum jarðvegi
Fréttir 21. mars 2025

Bændablað úr frjóum jarðvegi

Áskell Þórisson, blaðamaður og ljósmyndari, varð fyrsti ritstjóri Bændablaðsins ...

Eignast allt Lífland
Fréttir 21. mars 2025

Eignast allt Lífland

Þórir Haraldsson hefur skrifað undir kaup á 50 prósenta hlut í Líflandi ehf. af ...

Landbúnaðartæki verði undanskilin kílómetragjaldi
Fréttir 21. mars 2025

Landbúnaðartæki verði undanskilin kílómetragjaldi

Bændasamtök Íslands kalla eftir því að dráttarvélar og eftirvagnar í landbúnaði ...

Slátrun á Hvammstanga áfram með svipuðu sniði
Fréttir 21. mars 2025

Slátrun á Hvammstanga áfram með svipuðu sniði

Slátrun hjá Sláturhúsi Kaupfélags Vestur-Húnvetninga (SKVH) á Hvammstanga verður...

Lök uppskera á kartöflum og gulrótum á síðasta ári
Fréttir 20. mars 2025

Lök uppskera á kartöflum og gulrótum á síðasta ári

Hagstofan gaf á mánudaginn út uppskerutölur úr grænmetisog salatræktun síðasta á...

Í fremstu röð í þrjátíu ár
Fréttir 20. mars 2025

Í fremstu röð í þrjátíu ár

Bændablaðið hefur í þrjátíu ár stuðlað að upplýsandi umræðu um landbúnað á víðum...