Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Stefnir í mjög góða uppskeru eftir gott sumar
Mynd / Margrét Þóra Þórsdóttir
Fréttir 6. október 2014

Stefnir í mjög góða uppskeru eftir gott sumar

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir

 „Við erum rétt aðeins að byrja að taka upp og uppskeran lofar góðu. Mér sýnist að hún muni vera álíka mikil og í fyrrahaust, en þá fengum við mjög góða uppskeru,“ segir Friðjón Þórarinsson, bóndi á Flúðum á Fljótsdalshéraði, en bærinn er skammt norðan Egilsstaða.

Þar stunda Friðjón og Anna Bragadóttir rófnarækt á hálfum ha lands. Þá eru þau með um 230 vetrarfóðraðar kindur, stunda skógrækt á 40 ha, leigja út sumarhús og stunda að auki vinnu utan heimilis.

Safna liði úr röðum vina og vandamanna við upptökuna

Anna og Friðjón stefna að því að hefja upptökustörfin fyrir alvöru um næstu mánaðamót. Þau fá til liðs við sig góðan hóp vina og ættingja og leggjast allir á eitt við rófuupptökuna. „Þetta er fjölskylduvænt verkefni, hingað koma vinir og vandamenn og aðstoða okkur,“ segir Anna. Hún segir að þau reyni að draga upptöku eins lengi og hægt er fram á haustið svo rófurnar geymist betur. Engar vélar eru notaðar við upptöku, allt tekið upp með höndunum „og það gengur mjög vel þegar margir taka þátt“.

Rófurækt hefur verið stunduð á Flúðum um árabil og segir Friðjón að landið henti vel til slíkrar ræktunar. Hins vegar gangi erfiðlega að rækta þar kartöflur þar sem iðulega myndast frostpollur neðan bæjarins. „Við höfum prófað að rækta kartöflur hérna, það gengur ekki, en við erum með lítils háttar kartöflurækt á Setbergi,“ segir hann.

Góð uppskera í fyrra og stefnir í annað eins nú

Friðjón segir fáa bændur á Austurlandi stunda rófnarækt og enginn með mikla ræktun. „Það kom sér vel hversu mikil uppskera varð í fyrrasumar, því lítil rófuuppskera var í öðrum landshlutum vegna vætutíðar.“ Alls fengu þau Anna og Friðjón um 9 tonn af rófum upp úr garði sínum í fyrrahaust sem er með mesta móti. Þau eru rétt að byrja upptöku á þessu hausti og segja uppskeru lofa mjög góðu, hún verði síst lakari en metárið í fyrra. „Rófurnar eru stærri í ár, svo að líkindum gætu tonnin orðið fleiri en í fyrra,“ segir hann.

Uppskeran er að mestu seld á heimamarkaði, í verslanir á Egilsstöðum og þá er mötuneyti álvers Alcoa á Reyðarfirði stór kaupandi. Eins hefur fólk mætt heim á hlað og keypt rófur í poka.

Æ fleiri prófa kornrækt

Friðjón, í félagi við þrjá bændur aðra, var með kornrækt á 8 ha lands á jörðinni Setbergi og á Helgafelli. Búið er að þreskja og var uppskera mjög góð. Áður hefur Friðjón í litlum mæli stundað kornrækt, en hann segir bændur á Austurlandi vera að færa sig upp á skaftið og æ fleiri prófi nú að rækta korn á jörðum sínum. „Þetta er að aukast núna hin síðari ár, en var svo til óþekkt hér áður fyrr,“ segir hann. Einstaklega gott veður frá því í vor og langt fram á haust á sinn þátt í hversu vel bændur austan til á landinu uppskera.

Sauðfé og skógrækt

Anna og Friðjón eru með sauðfé, 230 vetrarfóðraðar kindur á húsi og þá hófu þau snemma skógrækt á vegum Héraðs- og Austurlandsskóga. Riða greindist á bænum fyrir allmörgum árum og í kjölfar niðurskurðar sneru þau sér að skógrækt á hluta jarðarinnar, en hún var fjárlaus um tveggja ára skeið. Alls rækta þau skóg á um 40 ha landi. „Auðvitað má alltaf deila um hvort það land sem tekið er undir skógrækt nýtist ef til vill betur undir eitthvað annað. Skógræktin hefur tekist vel hér og við erum aðeins byrjuð að grisja,“ segir Friðjón.

Nýta allt sem jörðin gefur

Anna bætir við að þau reyni að nýta allt sem jörðin gefur, tínd eru ber og sveppir til heimilis, að auki bjóða þau gistingu í tveimur sumarhúsum. Nýting hefur verið svipuð og undanfarin sumur, en einkum eru það erlendir ferðamenn sem gista að Flúðum. „Það má eiginlega segja að búskapurinn hér sé því mjög blandaður,“ segir hún. Og bætir við að eitt sinn hafi þau rekið handverksmarkað við bæinn og þar hafi einnig í eina tíð verið svín og geitur. „Við höfum prófað ýmislegt,“ segir hún.

Heitt vatn finnst á Ströndum
Fréttir 1. desember 2023

Heitt vatn finnst á Ströndum

Heitt vatn fannst nýlega við borun á Drangsnesi á Ströndum.

Tímamót í baráttunni gegn riðuveiki
Fréttir 1. desember 2023

Tímamót í baráttunni gegn riðuveiki

Tímamót eru í baráttunni gegn riðuveiki í sauðfé með nýrri nálgun stjórnvalda þa...

Birgðir kindakjöts aldrei minni
Fréttir 1. desember 2023

Birgðir kindakjöts aldrei minni

Birgðir kindakjöts í lok ágústmánaðar hafa aldrei verið minni en á þessu ári.

Samningaviðræðum við Miðfjarðarbændur ekki lokið
Fréttir 30. nóvember 2023

Samningaviðræðum við Miðfjarðarbændur ekki lokið

Í umræðum á Alþingi á mánudaginn um riðuveiki í sauðfé og bætur vegna niðurskurð...

Sala sýklalyfja dregst saman
Fréttir 30. nóvember 2023

Sala sýklalyfja dregst saman

Sala sýklalyfja fyrir búfé og eldisfiska í Evrópu dróst saman um 12,7% milli ára...

Stefnir í að tap verði 525 krónur á kílóið
Fréttir 30. nóvember 2023

Stefnir í að tap verði 525 krónur á kílóið

Í nýlegri skýrslu Ráðgjafar­miðstöðvar land­búnaðarins um rekstrarafkomu nautakj...

Kortlagning ræktunarlands
Fréttir 30. nóvember 2023

Kortlagning ræktunarlands

Gert er ráð fyrir að þings­ályktunar­tillaga um nýja lands­skipulagsstefnu til 1...

Fagstaðlaráð í umhverfis- og loftslagsmálum
Fréttir 27. nóvember 2023

Fagstaðlaráð í umhverfis- og loftslagsmálum

Nýtt fagstaðlaráð hefur verið stofnað undir hatti Staðlaráðs Íslands. Það verður...