Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Kvenblóm á stafafuru.
Kvenblóm á stafafuru.
Mynd / PH
Á faglegum nótum 18. nóvember 2022

Stafafura (Pinus contorta)

Höfundur: Pétur Halldórsson.

Stafafura er stórvaxin trjátegund sem ætti að geta náð að minnsta kosti þrjátíu metra hæð hérlendis.

Tegundin hefur ýmsa kosti sem henta sérlega vel fyrir nýskógrækt á Íslandi. Hún auðgar rýrt land og býr í haginn fyrir næstu kynslóðir trjáa en gefur líka verðmæti í formi viðarafurða. Á Suður- og V esturlandi er hún eina tiltæka nytjatrjátegundin sem vex bærilega í rýru mólendi. Um allt land er hún sú tegund sem helst er hægt að rækta á flatlendi þar sem frosthætta er mikil. Þá er hún líka vinsælasta íslenska jólatréð. Stafafura er því mjög mikilvæg tegund í skógrækt á Íslandi.

Að vaxtarlagi hneigist stafafura til að verða einstofna tré en krónan getur verið mjög misbreið, bæði eftir aðstæðum og uppruna þess kvæmis sem notað er hverju sinni. Stafafura er svokölluð tveggja nála fura sem þýðir að tvær nálar eru oftast í knippi en iðulega má þó sjá þrjár í knippi líka.

Hérlendis hafa verið reynd kvæmi vítt og breitt af útbreiðslusvæði stafafuru í Norður-Ameríku. Mest hafa verið notuð kvæmi ættuð frá Skagway í Alaska og nágrenni. Þau þola betur útivistina hér en flest önnur og gefa fallegri jólatré. Bestu innanlandskvæmin hafa aftur á móti fíngerðari greinar, eru gjarnan beinvaxnari og því vænlegri sem timburtré. Þau eru helst gróðursett í innsveitum.

Stafafura er ljóselsk tegund og þarf því góða birtu til að vaxa úr grasi. Fyrstu árin vex hún fremur hægt á nýjum svæðum en nær smám saman allhröðum vexti. Hún er að miklu leyti sjálfri sér nóg um næringu enda í öflugu sambýli við sveppi og annað jarðvegslíf. Í stálpuðum furuskógi er gróskan svo mikil að sjálfsánar furur komast mun hraðar í góðan vöxt en þær sem gróðursettar eru sem frumherjar á rýru landi. Gæta þarf vel að rótarkerfi stafafuru og best að
hún komist í jörð áður en rætur ná að vaxa saman í þétt knippi í plöntubakka eða potti. Best rótarkerfi hafa því þær plöntur sem komast fljótt í jörð eða það sem enn betra er, þær sem vaxa upp af fræi úti í náttúrunni. Þá ná trén að skjóta rótum í allar áttir, verða stöðugri í vindi þegar þau stækka og minni hætta á að þau verði völt eða sveigð. Stafafurur eru viðkvæmar fyrir snjóbroti þegar blotasnjór sest í þær, einkum kvæmi með grófar greinar á borð við Skagway.

Með réttri grisjun stafafuru fæst með tímanum bjartur og fallegur skógur sem opnar fyrir fjölskrúðugan gróður á skógarbotni.

Styrkur stafafuru er ekki síst gott frost- og vindþol. Þó er furan viðkvæm fyrir saltákomu, næðingskulda og skaraveðrum á vetrum sem skemma nálar. Þegar vorar þorna nálarnar upp og roðna. Þá geta trén litið mjög illa út en ná sér yfirleitt aftur á strik ef brum eru óskemmd. Stafafura vex sæmilega í rýrum jarðvegi og framleiðir mikinn lífmassa. Þá byrjar hún ung að mynda fræ og er líka fljót að verða fallegt jólatré. Núorðið er hún vinsælasta íslenska jólatréð enda barrheldin, fallega græn og ilmandi.

Stafafura er réttilega ein aðaltegundin í íslenskri skógrækt og ásamt rússalerki ein besta frumherjategundin á rýru landi. Hún er góð fóstra fyrir sitkagreni. Blandskógar furu og grenis hafa gefið góða raun. Þegar kemur að endurnýjun skógar má nýta jarðveginn sem hún hefur bætt fyrir kröfuharðari trjátegundir ellegar rækta nýjan og betri furuskóg á grunni þess gamla.

Nokkuð er talað um ógnir af sjálfsáningu stafafuru á Íslandi. Rannsóknir eru gerðar á dreifingu hennar og eru nú orðnar fastur liður í reglulegum vísindalegum úttektum á skóglendi landsins. Stafafura fellur ekki undir skilgreiningu íslenskra laga á ágengum framandi tegundum og ekkert sem bendir til þess að útbreiðslan sé óviðráðanleg, né að furan ógni líffjölbreytni eða öðrum verðmætum.

Skylt efni: stafafura | Skógrækt

Sölufélagið í góðu lagi
Fréttir 17. júlí 2025

Sölufélagið í góðu lagi

Nú hafa Sölufélag garðyrkjumanna, Báran stéttarfélag og Framsýn stéttarfélag und...

Bændur harka af sér
Fréttir 16. júlí 2025

Bændur harka af sér

Ný rannsókn bendir til þess að fólk sem starfar í landbúnaði sé ólíklegt til að ...

Getur leyst plast af hólmi
Fréttir 16. júlí 2025

Getur leyst plast af hólmi

Frumkvöðlafyrirtækið Marea Iceland hyggst setja á markað umhverfisvænt húðunaref...

Auglýsingar um sveppadropa og -duft ámælisverðar
Fréttir 16. júlí 2025

Auglýsingar um sveppadropa og -duft ámælisverðar

Verslunin Hugur Studio, sem rekin er af Hemmet ehf., hefur verið kærð fyrir afdr...

Átak um öryggi barna í sundi
Fréttir 16. júlí 2025

Átak um öryggi barna í sundi

Rauði krossinn á Íslandi hefur hleypt af stokkunum fræðslu- og forvarnarátaki um...

Pöddur í hundamat
Fréttir 15. júlí 2025

Pöddur í hundamat

Fyrirtæki hafa sett á markað hundamat úr skordýrum. Slíkt fæði hefur minna kolef...

Orkuskipti í Flatey
Fréttir 15. júlí 2025

Orkuskipti í Flatey

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og Elías Jónatans...

Landeldi við Hauganes
Fréttir 15. júlí 2025

Landeldi við Hauganes

Laxós ehf. áformar uppbyggingu og rekstur fiskeldisstöðvar norðan Hauganess, þar...