Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Square Turn-traktorinn
Á faglegum nótum 18. júlí 2018

Square Turn-traktorinn

Höfundur: Vilmundur Hansen

Square Turn dráttar­vélarnar þóttu byltingar­­kenndar á sínum tíma enda einstakir traktorar sem áttu sér enga líka. Dráttarvélin var gríðarstór á síns tíma mælikvarða og með rúmlega tveggja metra bili milli stórra járn­hjólanna.

Hugmyndafræðing­arnir á bakvið og hönnuðir Square Turn dráttarvélanna voru báðir frá Nebraska-ríki í Bandaríkjum Norður-Ameríku sem hétu A.T. Kenney og  A.J. Colwell.

Kenney var bóndi og Colwell yfirmaður byggingaframkvæmda hjá járnbrautafyrirtæki áður en þeir sneru sér að hönnun og framleiðslu dráttarvéla. Colwell sá um lausn tæknimála í samstarfinu en Kenney var með landbúnaðarreynsluna.

Á punktinum

Sagan segir að tvíeykið hafi smíðað frumtýpu Square Turn dráttarvélarinnar í þröngri og hrörlegri skemmu. Hugmyndin var meðal annars að snúningspunktur traktorsins yrði eins lítill og hægt væri og að vélin bæri plóg undir sér en væri ekki með hann í eftirdragi. Kenney og Colwell tókst ætlunarverk sitt því Square Turn dráttarvélin gat í orðsins fyllstu merkingu snúið við á punktinum.

Framleiðslan fór hægt af stað en tekið var við fyrstu pöntunum árið 1914 og fyrsta vélin afhent sama ár.

Stór og öflugur vinnuhestur

Drif dráttarvélarinnar gerði það að verkum að hægt var að vinna með vélina í tvær áttir, aftur á bak og áfram, að jöfnu. Eina sem þurfti að gera var að færa ökumannssætið hinum megin við miðlægt stýrið og skipta um drif.

Í auglýsingu um traktorinn sagði að hann væri svo byltingarkenndur að hönnun hans og smíð félli undir átta einkaleyfi og að með honum afkastaði einn maður á við átta menn með átta hesta með átta plóga í eftirdragi. Einnig var sagt að hann væri einstaklega auðveldur í notkun og að viðhaldið væri lítið sem ekkert.

Square Turn var með 510 rúmsentímetra og fjögurra strokka vél af gerðinni Climax. Dráttargetan var sögð 18 hestöfl sem gerði traktorinn að einni öflugustu dráttarvélum síns tíma. Vélin gekk hvort sem var fyrir steinolíu eða gasi. Auk plógsins sem fylgdi traktornum mátti tengja hann og láta knýja sem dæmi þreskivélar og sögunarmyllur.

Eigendaskipti

Þrátt fyrir að Square turn dráttarvélunum hafi verið vel tekið höfðu Kenney og Colwell ekki fjárhagslegt bolmagn til að anna eftirspurn. Tveimur árum eftir sölu fyrsta traktorsins neyddust þeir til að selja einkaleyfi sín og framleiðsluna til Albaugh-Dover Co. í Chicago.

Nýir eigendur voru stórhuga. Hlutafé var stóraukið og gerð var áætlun um framleiðslu á 2000 vélum á næstu fjórum árum.

Þátttaka Bandaríkjanna í fyrri heimsstyrjöldinni leiddi af sér skömmtun á hráefni, meðal annars stáli, og það reyndist framleiðanda Square Turn dráttarvélanna erfiður biti að kyngja. Í kjölfarið dróst framleiðsla vélanna verulega saman og fjöldi pantana var dreginn til baka. 

Framhaldið var fyrirtækinu erfitt og það framleiddi einungis 50 dráttarvélar árið 1921 og var lýst gjaldþrota 1925.

Skylt efni: Gamli traktorinn

Nautakjöt og egg hækka mikið í verði
Fréttir 13. júní 2025

Nautakjöt og egg hækka mikið í verði

Samkvæmt verðlagseftirliti ASÍ hefur verðlag á matvöru almennt hækkað ört á síðu...

Bændur sem kusu Trump sitja nú í súpunni
Fréttir 13. júní 2025

Bændur sem kusu Trump sitja nú í súpunni

Enginn deilir um það að Donald Trump vann kosningasigur í nóvember 2024 í flestu...

Vorhretið vægara en í fyrra
Fréttir 13. júní 2025

Vorhretið vægara en í fyrra

Tjón varð víða á Norðurlandi í norðanáhlaupi í byrjun júní. Annað árið í röð þur...

Framleiðsluvirði landbúnaðarins jókst um 4% árið 2024
Fréttir 13. júní 2025

Framleiðsluvirði landbúnaðarins jókst um 4% árið 2024

Heildarframleiðsluvirði landbúnaðarins árið 2024 er áætlað 93 milljarðar sem er ...

Heimsmet í skráningum
Fréttir 12. júní 2025

Heimsmet í skráningum

Hið árlega Reykjavíkurmeistaramót Fáks fer fram nú í vikunni í Víðidalnum. Þetta...

Heildarlög um loftslagsmál
Fréttir 12. júní 2025

Heildarlög um loftslagsmál

Drög að frumvarpi til nýrra heildarlaga um loftslagsmál hefur verið birt í Samrá...

Auðhumla sýknuð í máli um umframmjólk
Fréttir 12. júní 2025

Auðhumla sýknuð í máli um umframmjólk

Héraðsdómur Suðurlands sýknaði samvinnufélagið Auðhumlu af kröfum einkahlutaféla...

Landbúnaðarstuðningur ígrundaður
Fréttir 12. júní 2025

Landbúnaðarstuðningur ígrundaður

Í nýrri skýrslu um svæðisbundinn stuðning í íslenskum landbúnaði er nokkrum mögu...