Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Á komandi áratug mun hin aukna mjólkurframleiðsla ESB-landanna að stórum hluta fara til ostaframleiðslu.
Á komandi áratug mun hin aukna mjólkurframleiðsla ESB-landanna að stórum hluta fara til ostaframleiðslu.
Á faglegum nótum 13. janúar 2020

Spáð aukinni neyslu mjólkurvara næstu tíu árin

Höfundur: Snorri Sigurðsson - snsig@arlafoods.com
Í desember sl. kom út áhuga­verð skýrsla á vegum Evrópu­sambandsins (ESB), en hún inni­heldur spá um þróun land­búnaðar­mála á helstu mörkuðum aðildarlanda sam-bandsins sem og innan landanna sem standa að sambandinu. Skýrslan nær til næstu tíu ára og í henni er því horft fram til ársins 2030. 
 
Skýrsluhöfundarnir taka við skrif sín tillit til aðgengilegra upplýsinga um þróun hagvaxtar, stjórmála, umhverfismála, neyslubreytinga, veðurfars og þróunar alþjóðlegra viðskipta auk annarra þátta sem kunna að hafa langtímaáhrif á viðskipti með landbúnaðarvörur. Í skýrslunni er víða komið við og er þar býsna margt sem vekur athygli en almennt er því spáð að markað­ur fyrir landbúnaðarvörur muni ekki taka neinum stakkaskiptum á komandi árum. Í skýrslunni er fjallað um allar helstu bú­greinar land­búnaðarins en hér verður einungis gerð grein fyrir því sem snýr að mjólk og kjöti.
 
 
Hægir á framleiðsluaukningu mjólkur
 
Í skýrslunni kemur fram að þess er vænst að nokkuð ör vöxtur mjólkurframleiðslunnar muni hægja á sér á komandi árum vegna hertra reglna varðandi umhverfismál og aukna sjálfbærnikröfu við framleiðsluna. Þá muni neysluhegðun halda áfram að breytast sem muni leiða af sér minni eftirspurn eftir ákveðnum mjólkurvörum en aukna eftirspurn eftir sérstökum mjólkurvörum svo sem mjólkurvörum sem eru lífrænt vottaðar en því er spáð að lífrænt vottuð mjólk muni verða 7% af allri framleiddri mjólk innan ESB landanna árið 2030. Þá er því spáð að mjólk og mjólkurvörur sem hafa hlotið sérstaka vottun, eins og t.d. sótsporslaus mjólk, mjólk sem framleidd er einungis með heygjöf, mjólk frá kúm sem eingöngu er beitt á gras o.s.frv. muni ná aukinni hlutdeild á komandi árum.
 
Mjólkurframleiðslan aukist um 11 milljarða kg
 
Þessar auknu kröfur munu leiða til þess að fram­leiðsla mjólkur mun aukast, en hægar en undanfarin ár, og fara úr alls 168 milljörðum kg árið 2019 í 179 milljarða kg árið 2030 sem er aukning um 0,6% á ári en áratuginn þar á undan jókst framleiðslan að jafnaði um rúmlega 1% á ári.
 
Alls nemur aukningin 6,5% á 10 ára tímabili en þess má geta að þetta er töluvert minni aukning en FAO hefur spáð fyrir um á heimsvísu en talið er að mjólkurframleiðsla heimsins á sama tímabili muni aukast nærri þrefalt á við spá ESB. Skýringin á þessum mun felst í því að þess er vænst að mjólkurframleiðslan í þróunarlöndunum muni vaxa verulega á komandi árum. Þó svo að þessi aukning verði svona hófleg í löndunum sem standa að ESB, þá verða þau þó enn leiðandi þegar kemur að heimsviðskiptum með mjólkurafurðir segir í skýrslunni enda munu þróunar-löndin þurfa mun meiri mjólkurafurðir en þau muni ná að framleiða sjálf á komandi ára-tug. Helstu viðskiptasvæði fyrir útfluttar mjólkurvörur telja skýrsluhöfundar að verði Afríka og Asía.
 
Þrátt fyrir aukna mjólkur­framleiðslu næstu tíu árin spá skýrsluhöfundar því að kúm muni fækka á sama tíma, eða alls um 1,4 milljónir, og verður þá heildarfjöldi kúnna 21,2 milljónir.
 
Veruleg fækkun kúa
 
Þrátt fyrir aukna mjólkur­framleiðslu næstu 10 árin spá skýrsluhöfundar því að kúm muni fækka á sama tíma eða alls um 1,4 milljónir og verður þá heildarfjöldi kúnna 21,2 milljónir. Skýringin á þessari fækkun er auðvitað fólgin í aukinni nyt kúnna. 
 
Undanfarin 10 ár hefur meðanyt kúa aukist að jafnaði meðal landa ESB um 1,9% en skýrslu-höfundar spá því að þessi aukning verði heldur minni á komandi árum eða um 1,2%. Skýringin felst aðallega í framangreindum kröfum um sjálfbærni og umhverfisáherslur sem gera það að verkum að bændur munu líklega auka hlut heimaaflaðs fóðurs á kostnað keypts orkumikils fóðurs.
 
Spá hækkandi afurðastöðvaverði
 
Undanfarin ár hefur verið töluverður verðmunur á ýmsum hráefnum til vinnslu mjólkurafurða svo sem á milli undanrennudufts og smjörs svo dæmi sé tekið. Skýrsluhöfundar telja að þetta verðbil muni minnka á komandi árum en skýringin á þessari spá felst í því að talið er að vinnsluaðilum mjólkurafurða muni takast að bæta enn frekar nýtinguna á mjólkinni og einstökum hráefnum hennar. Fyrir vikið skapist því svigrúm til að greiða hærra afurðastöðvaverð til bænda, sem svo aftur mun leiða til eflingar á framleiðslunni.
 
Ostaframleiðslan mun vaxa mest
 
Á komandi áratug mun hin aukna mjólkurframleiðsla ESB landanna að stórum hluta fara til ostaframleiðslu en spáin gerir ráð fyrir að 24% af mjólkurmagninu fari til þeirrar framleiðslu enda er eftirspurn eftir ostum mikil og vaxandi á útflutningsmörkuðum ESB landanna. 
 
Þess er vænst að heildar­fram­leiðsla ESB á ostum fari úr 10,8 milljón tonnum árið 2019 í 11,5 milljón tonn árið 2030 og að smjörframleiðslan aukist úr 2,5 milljónum tonna í 2,7 milljón tonn. Á sama tíma er því hins vegar spáð að almenn sala á ferskri drykkjarmjólk muni dragast saman um 7 kg á hvern íbúa í ESB löndunum og fara undir 50 kg að meðaltali á næstu 10 árum. Á móti kemur að því er spáð að neysluaukning verði á öðrum ferskum mjólkurvörum s.s. á jógúrti og rjóma.
 
Erfitt að spá fyrir um kjötmálin
 
Svo virðist sem kjöt­framleiðslan á komandi árum geti þróast með nokkuð öðrum hætti en þegar horft er til mjólkurframleiðslunnar. Skýringin er sú að framleiðslugreinin í heild sinni er mun viðkvæmari t.d. vegna sjúkdóma og áhrifum af þeim. Nýlegt dæmi er hröð útbreiðsla á afrísku svínapestinni sem hefur haft mikil áhrif á heimsframleiðslu á svínakjöti á nýliðnu ári og haft áhrif langt út fyrir svínaframleiðsluna sem slíka þar sem neytendur hafa fært kaup sín yfir á aðrar kjöttegundir eða aðrar matvörur. Skýrsluhöfundar telja þó að þróunin verði áfram á þá leið að áfram verði mikill innflutningur á kjöt til Kína sem muni þrýsta kjötverðinu í heiminum upp á við til skamms tíma litið. 
 
Til lengri tíma litið er talið að kínversk kjötframleiðsla muni aukast verulega og þar með muni eftir­spurn eftir umframframleiðslu annarra landa minnka.
 
Spá minni neyslu á kjöti
 
Sé litið til neyslu á kjöti í ESB þá er talið að hún muni minnka örlítið fram til ársins 2030 í samanburði við neyslutölur fyrir árið 2019, en talið er að kjötneyslan dragist þó ekki saman nema um 1,1 kg á hvern íbúa á þessum 10 árum og verði komið í 68,7 kg af kjöti á íbúa á ári árið 2030. Þessi þróun er öfug við heimsspá OECD-FAO þar sem því er spáð að á sama tímabili muni heildarneysla á kjöti á hvern íbúa í heiminum aukast um 1 kg og fara í 35,7 kg að jafnaði. Meðalneysla íbúa heimsins verður því áfram langtum minni en meðalneysla hvers íbúa í ESB löndunum. Það er því talið líklegt að útflutningur á kjöti verði áfram umtalsverður.
 
Aukin neysla á kjúklingakjöti
 
Skýrsluhöfundar spá því að það verði umtalsverð breyting á kjötneyslunni innan ESB á komandi áratug og að bæði svína- og nautgripakjöt muni eiga í vök að verjast en lambakjötsneysla muni nánast standa í stað. Því er spáð að svínakjötsneyslan fari úr 31,3 kg að jafnaði á hvern íbúa ESB í 30,2 kg og úr 10,8 kg af nautgripakjöti í 10,0 kg og því muni neysla á þessum tveimur kjöttegundum minnka um 1,9 kg á hvern íbúa á 10 ára tímabili. Á móti kemur er því spáð að kjúklingakjöt muni verða vinsælla og neysla á því muni aukast að jafnaði um 1 kg á hvern íbúa fram til ársins 2030 og verði að jafnaði 26,6 kg í lok tímabilsins.
 
Breytt framleiðsla
 
Rétt eins og með mjólkur­fram­leiðsluna er því spáð að nautgripum til kjötframleiðslu muni fækka og alls um 9,4% á komandi 10 árum og þá spá skýrsluhöfundar því að aukin eftirspurn verði eftir sérvörum með vottuðum uppruna rétt eins og með mjólkurvörurnar. Neytendur muni ekki einungis kalla eftir staðgönguvörum við kjöt heldur einnig eftir kjöti sem framleitt er í heimahéraði, kjöti sem hefur hlotið lífræna eða vistvæna framleiðsluvottun o.s.frv. Þá er því jafnframt spáð að mögulega muni iðnaðarframleitt „kjöt“, þ.e. „kjöt“ sem er í dag hægt að framleiða á tilraunastofu og án notkunar á búfé, koma inn á markaðinn en það sé þó erfitt að spá fyrir um það.
 
Heimild: EU Agricultural Outlook for markets and income 2019-2030.
Plastbrúsar framleiddir úr endurunnu rúlluplasti
Fréttir 25. apríl 2025

Plastbrúsar framleiddir úr endurunnu rúlluplasti

Fyrirtækið Pure North í Hveragerði hefur nú náð að loka hringrás endurvinnslu á ...

Reykjavík Open 2025 – Friðriki til heiðurs
Fréttir 25. apríl 2025

Reykjavík Open 2025 – Friðriki til heiðurs

Reykjavík Open, sem hófst miðvikudaginn 9. apríl í Hörpu, hefur fyrir löngu fest...

Málstofa um áburðarmöguleika fiskeldisseyrunnar
Fréttir 24. apríl 2025

Málstofa um áburðarmöguleika fiskeldisseyrunnar

Fiskeldi á landi er vaxandi atvinnugrein, allnokkur stór eldisfyrirtæki eru í up...

Framleiðsla á Hrym í Búðardal
Fréttir 23. apríl 2025

Framleiðsla á Hrym í Búðardal

Fyrirhuguð er stórtæk framleiðsla á lerkiafbrigðinu Hrymi í Dalabyggð á næstu mi...

Skógur alltaf til bóta
Fréttir 22. apríl 2025

Skógur alltaf til bóta

Rannsóknir sýna að áhrif skógræktar á kolefnisforða jarðvegs eru nær alltaf orði...

Fjársjóður fjalla og fjarða
Fréttir 22. apríl 2025

Fjársjóður fjalla og fjarða

Tveggja daga íbúaþing, undir stjórn Sigurborgar Kr. Hannesdóttur, fór fram í Rey...

Er plantað nóg?
Fréttir 16. apríl 2025

Er plantað nóg?

Skógarbændur gegna mikilvægu hlutverki við landgræðslu og skógrækt. Þannig er sk...

Trump skellir í lás
Fréttir 16. apríl 2025

Trump skellir í lás

Alþjóðasamfélagið er skekið eftir tollahækkanir Trumps í þarsíðustu viku.