Smitsjúkdómurinn „refavanki“ greinist í kanínum
Matvælastofnun barst nýlega tilkynning frá Dýraspítalanum í Víðidal um að sníkjudýrið Encephalitozoon cuniculi hafi greinst í tveimur kanínum með mótefnamælingum í blóði. Er það fyrsta staðfesta smit af þessari tegund í kanínum hér á landi.
Matvælastofnun vill vekja athygli dýraeigenda og dýralækna á þessu, svo aðilar verði vakandi fyrir sjúkdómseinkennum og leiti mögulega eftir greiningu á sjúkdómnum ef það á við. Þar sem þekkt er að þetta sníkjudýr finnst nú þegar víða um land í villtum dýrum, verður ekki gripið neinna aðgerða af hálfu yfirvalda til að reyna takmarka frekari dreifingu þess.
Hér á landi greindist E. cuniculi í refum á níunda áratug síðustu aldar, og einnig í minkum og músum. Hefur sjúkdómurinn sem einfrumungurinn veldur verið kallaður „refavanki“ á íslensku, en erlendis gengur hann undir nafninu nosematosis eða encephalitozoonosis. Engin skimun hefur farið fram í kanínum hér á landi, svo umfang smits af þessu tagi í þeim er óþekkt.
Samkvæmt reglugerð um tilkynningar- og skráningarskylda sjúkdóma er skylt að tilkynna grun eða staðfestingu á Encephalitozoon cuniculi til Matvælastofnunar.