Skoðun 25. október 2019

Skoðanakúgun

Hörður Kristjánsson
Bragð er að þá barnið finnur segir máltækið og það þykja orðið tíðindi að vísindamenn skuli yfir höfuð þora að viðra skoðanir sínar í loftslagsumræðunni nú til dags ef þær stemma ekki við viðteknar skoðanir fjöldans. Ástæðan er hrein skoðanakúgun þar sem reynt er að skapa múgsefjun gegn öllum þeim sem hafa uppi einhverja gagnrýni.
 
Frá sjónarhóli vísindamanna, svo ekki sé talað um blaðamanna, er þarna um grafalvarlegt mál að ræða, því höfuðskylda þessara hópa er einmitt að hafa gagnrýna hugsun alltaf að leiðarljósi.
 
Í grein sem Magnús Jónsson veður­fræðingur ritaði og birt var á vefsíðu Kjarnans þann 2. október síðastliðinn, telur hann að við þurfum að hættumeta áhrif hlýnunar sem nú á sér stað á yfirvegaðan hátt og án hræðsluáróðurs og segir m.a:
 
„Talað er um hækkun á hita jarðarinnar sem „mestu ógn mannkynsins“, „hamfara­hlýnun“ og „stórfellda loftslagsvá“ og nú nýlega hefur „neyðarástandi“ verið lýst yfir í nokkrum löndum, jafnvel í Evrópu vegna hennar. [...] Í upphrópunum er talað um að við höfum aðeins fá ár til að koma í veg fyrir frekari hlýnun ef jarðlífið eigi ekki nánast að líða undir lok. Hef ég orðið var við vaxandi hræðslu og álíka tilfinningar hjá börnum og ungu fólki vegna þessarar yfirvofandi „ógnar“ við tilvist okkar og menningu og ég hafði sjálfur fyrir nærri 60 árum. Fjölmiðlar, stjórnmálamenn og margir vísindamenn og embættismenn kyrja þennan hræðsluboðskap sem mér finnst engan veginn vera tilefni til að blása upp í þær hæðir sem gert er. Er engu líkara en að rétt einu sinni sé dómsdagur að renna upp!“
 
Í útvarpsþættinum Sprengisandi þann 20. október sl. ítrekar Magnús þetta og vísar einnig til loftslagsvísindamannsins Lennart Bengtson í Svíþjóð sem beittur hafi verið alvarlegum hótunum ef hann færi ekki að skoðunum fjöldans er varðar loftslagsmálin. Bengtson segist aldrei hafa upplifað innan veðurfræðinnar jafn mikinn „McCarthyisma“ og þarna væri kominn í gang. Fyrir þá sem ekki þekkja til, olli öfgafull kommúnistahræðsla Joseph Raymond McCarthy mikilli múgsefjun og ótrúlegri skoðanakúgun í Bandaríkjunum á árunum eftir síðustu heimsstyrjöld. Þá var saklaust fólk hundelt, fangelsað og líflátið vegna meintrar fylgni við kommúnisma. Með þeirri skoðanakúgun dönsuðu stjórn­málamenn og fjölmargir fjölmiðlar.
 
Skoðanakúgun af þessu tagi, sem helst má líkja við „skoðanafasisma“, er ekki ný af nálinni eins og Magnús bendir á. Á Íslandi var reynt að beita slíkri kúgun grímulaust gegn almenningi í Icesave-málinu eins og frægt er. Þá, eins og nú, beittu menn fyrir sig skoðunum nokkurra vísindamanna, m.a. við Háskóla Íslands, sem beinlínis hótuðu almenningi því að ef ekki væri farið að skoðunum stjórnvalda, þá færi allt efnahagskerfið á Íslandi í rúst og Ísland yrði sannkölluð Kúba norðursins. Sömu aðferðafræði var beitt af mikilli hörku af stjórnvöldum í orkupakkamálinu. 
 
Í loftslagsmálunum, eins og fleiri málum þar sem sumum finnst sæma að beita aðra skoðanakúgun, eru undirliggjandi gríðarlegir fjárhagslegir hagsmunir sem beitt er af fullum þunga. Þar hefur m.a. verið bent á að kolefniskvótar séu orðnir að sérstöku verslunarkerfi sem farið er að braska með þvert á yfirlýstan tilgang. Meira að segja Landsvirkjun tekur þátt í þeim skrípaleik með sölu á hreinleikavottorðum. Þar á nú að hækka orkuverð í heildsölu um 2,5% til smásölufyrirtækja. Gulrótin er, eins og fram kemur á heimasíðu Landsvirkjunar, að orkukaupendur fái í staðinn vottað að hreina rafmagnið okkar sé hreint.  – Allt er þetta svo auðvitað gert í nafni loftslagshlýnunar.