Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Íslensk sauðfjárrækt hefur bein jákvæð áhrif á afkomu og horfur þúsunda Íslendinga.
Íslensk sauðfjárrækt hefur bein jákvæð áhrif á afkomu og horfur þúsunda Íslendinga.
Mynd / SH
Skoðun 24. ágúst 2016

Sérstaða, uppruni og umhverfi

Höfundur: Svavar Halldórsson
Þessa dagana er Alþingi að koma saman aftur eftir sumarhlé. Fyrir því liggur að afgreiða búvörusamningana sem formenn stjórnarflokkanna undirrituðu 19. febrúar. Sauðfjárbændur samþykktu þá afgerandi í atkvæðagreiðslu. Einstaka bændur, stjórnmálamenn í kosningaham, talsmenn heildsala og fleiri hafa hins vegar gagnrýnt þá. Sumir óttast fjölgun fjár, aukið beitarálag, gagnrýna stuðning við grein sem flytur hluta framleiðslunnar úr landi eða kvíða útkomu einstakra svæða. Lesi maður samningana kemur hins vegar fljótlega í ljós að margt af þessari gagnrýni virðist ekki byggja á raunverulegu innihaldi þeirra, misskilningi eða vísvitandi rangtúlkun. 
 
Skýr samningsmarkmið
 
Miklu skiptir að þjóðin geti framleitt sinn eigin mat á heilnæman máta undir ströngu regluverki á fjölskyldubúum og þar sem gætt er að sjálfbærni og dýravelferð. Samninganefnd bænda settist að samningaborði með stjórnvöldum fyrir ári með skýr markmið um nýliðun, grænar áherslur, jafnrétti og aukið virði afurða. Úr varð framsækinn samningur sem felur í sér umfangsmiklar breytingar til að tryggja byggðafestu, ábyrga búskaparhætti og framboð gæðavöru á góðu verði.
Langur samningur
Langtímahugsun við lagasetningu og stjórnsýslu eykur fyrirsjáanleika og gerir rekstur fyrirtækja markvissari. Þetta ýtir undir fjárfestingu og þar með hagvöxt og velmegun. Þessa sér t.d. merki í alþjóðlegum tolla- og viðskiptasamningum sem móta umgjörð viðskiptalífsins til áratuga. Í þessa veru eru meðal annars rök margra gegn gjaldeyrishöftum hér á landi. Það er því holur hljómur í málflutningi ýmissa gagnrýnenda íslensks landbúnaðar sem finna nýjum búvörusamningum það helst til foráttu að þeir bindi hendur stjórnvalda of lengi. Þetta byggir auðvitað á huglægu mati. Sauðfjárrækt er helsta hryggjarstykkið í hinum dreifðu byggðum og mikilvægt að þar gildi skýr og stöðugur lagarammi. Óvissa er vond í þessari grein eins og öðrum. Töfum á afgreiðslu sauðfjársamningsins fylgir óvissa og ótvíræð neikvæð áhrif á nýliðun, fjárfestingu og afurðaverð til bænda.
Sáttmáli bænda og þjóðarinnar
Íslensk sauðfjárrækt hefur bein jákvæð áhrif á afkomu og horfur þúsunda Íslendinga sem vinna við úrvinnslu, sölu, verslun, hönnun, handverk, veitinga- eða ferðaþjónustu. Án sauðfjárræktar yrði menningarlandslagið mun fátæklegra. Miklu skiptir að nýta auðlindir skynsamlega til að skapa störf og velmegun og ríkið leggst því á árarnar með bændum og neytendum. Þannig má tryggja fæðu- og matvælaöryggi. Bændur sjá þjóðinni líka fyrir lambakjöt á hagstæðu verði eins og samanburður við nágrannalöndin sýnir glöggt. Ekki er sjálfgefið að hægt sé að framleiða fyrsta flokks vöru við erfið búskaparskilyrði án þess að nota eiturefni, hormóna eða vaxtarörvandi lyf á sama tíma og ábyrg landnotkun og búskaparhættir eru tryggðir í sessi. Í nýjum búvörusamningi eru gerðar veigamiklar og framsæknar breytingar til að styrkja enn þennan sáttmála bænda og þjóðarinnar.
Eðli opinbers stuðnings
Beinan opinberan stuðning við landbúnað má flokka í tvennt. Stuðning sem hvetur til framleiðslu og stuðning sem gerir það ekki. Núverandi beingreiðslur, býlisstuðningur, gripagreiðslur og fleira af því tagi hvetur ekki sérstaklega til framleiðslu, enda er stuðningurinn óháður eiginlegum afrakstri bús. Kerfisbreytingar sem færa fé á milli þessara flokka eru því ekki framleiðsluhvetjandi. Álagsgreiðslur gæðastýringar eru hins vegar greiddar m.v. framleidd kg og geta því virkað í hina áttina. Við þessu er sérstaklega brugðist í  nýjum sauðfjársamningi með gólfi og þaki á stuðning, tveimur endurskoðunum og alls kyns varnöglum, m.a. sérstökum nýjum fyrirvara um aðgerðir ef fé fjölgar.
Fjárfjöldi og beitarálag
Fé hefur fækkað um hartnær helming undanfarna áratugi og sú þróun heldur áfram. Hverfandi líkur eru á fjölgun fjár með nýjum samningi, m.a. vegna þess hversu stór hluti greiðslnanna er óháður framleiðslu. Meðalaldur sauðfjárbænda er líka hár og líklegt að sumir bregði búi á næstu árum fyrir aldurs sakir. Ótti við offramleiðslu er því ástæðulaus og miklu frekar hætta á því að fé fækki enn meir og fleiri sauðfjárjarðir leggist í eyði. Við þessu er brugðist í nýju samningunum. 300 milljónum kr. er veitt til að kortleggja gróðurauðlindina á Íslandi og koma á sívirku rannsóknar-, mats- og vöktunarkerfi á landi. Þetta mun hjálpa til við skynsamlega beitarstjórnun og sjálfbærni til framtíðar. Í framhaldinu má beina nýliðun í sauðfjárrækt inn á þau svæði sem eru best til þess fallin.
Sjálfbærni og sérstaða
Nær allir íslenskir sauðfjárbændur hafa tekið þátt í landbótaverkefnum og staðið að verndun, landbótum eða uppgræðslu allt að 350 þúsund hektara lands. Uppgræðsla nemur að jafnaði um 6,6 hekturum á dag. Í deiglunni er aukin sókn á sviði uppgræðslu og skógræktar. Íslenskt sauðfé kom hingað með landnámsmönnum árið 874. Vegna einangrunar herja mun færri búfjársjúkdómar á það en önnur kyn. Sérstaða íslenska sauðfjárstofnsins er alþjóðlega viðurkennt. Eðlilega gilda því mun strangari reglur um hormóna- og lyfjagjöf hér en í Evrópu eða Bandaríkjunum.
Gæðastýringin styrkt í sessi
Gæðastýring í sauðfjárrækt er samvinnuverkefni bænda, Matvælastofnunar og Land­græðslunnar og eitt öflugasta sjálfbærniverkefni hér á landi. Tilgangurinn er að tryggja hér búskaparhætti sem byggja á ábyrgri landnýtingu og dýravelferð og tryggja markaðnum vörur sem framleiddar eru á grunni þessara gilda. Um 94% allrar dilkakjötsframleiðslu á Íslandi er þegar undir þessum hatti. Bændur eru vörslumenn landsins og gera sér skýra grein fyrir því að sjálfbær landnýting felur í sér að hver kynslóð skili landi af sér í jafn góðu eða betra ástandi en hún tók við því. Samningurinn styður við sterkari gæðastýringu og viðleitni bænda til að banna erfðabreytt fóður, kortleggja umhverfisfótspor, áframhaldandi uppgræðslu, og nýræktun beitarskóga. 
Kolefnisfótspor
Mun umhverfisvænna er að rækta matvörur í nágrenni við helsta markaðinn en að flytja um langan veg. Ljóst er að kolefnisfótspor íslenskrar sauðfjárræktar er lítið í samanburði en vænta má niðurstaðna af kortlagningu þess á komandi vetri. Það er grundvöllur þess að hægt verði að gera skynsamlegar áætlanir til að draga úr loftslagsáhrifum greinarinnar. Forystumenn sauðfjárbænda gera sér ljósa grein fyrir því að æ fleiri eru tilbúnir að borga fyrir náttúrulegar og sjálfbærar hágæða landbúnaðarvörur sem framleiddar eru undir ströngu regluverki á siðlegan og umhverfisvænan hátt.
Ábyrgð og frumkvæði bænda
Nýr sauðfjársamningur er gerður fyrir neytendur, bændur og samfélagið í heild. Breytingarnar geta komið misjafnlega niður á bændum eftir búsetu, landkostum eða stöðu greiðslumarks. Sérstakt tillit er tekið í samningunum til bænda á þeim svæðum sem háðust eru sauðfjárrækt, m.a. með auknum sértækum stuðningi. Samt sem áður gætu sumir misst lítils háttar af þeim stuðningi sem þeir fá nú. Hvergi er þó útlit fyrir kollsteypu og flökkusagnir um að einstök svæði verði verulega illa úti eiga sér ekki stoð. Bættur hagur sauðfjárbænda felst hins vegar fyrst og fremst í auknu virði afurða. Frá 2007 til 2015 hækkaði raunverð til bænda um 2,25% að meðaltali á ári. Svipuð hækkun á næstu árum þýðir að nánast allir sauðfjárbændur munu koma betur út. Nýr sauðfjársamningur eykur líkur á að svo verði.
Nýliðun og jafnrétti
Þótt framleiðsla á lambakjöti hafi verið gefin frjáls um aldamótin eru leifar gamla kvótakerfisins enn hindrun fyrir nýliðun. Ungir bændur þurfa nú að fjárfesta í landi, húsum, vélum, bústofni og réttinum til að njóta stuðnings. Leggja á greiðslumarkskerfið af í hægum þrepum á samningstímanum og koma í veg fyrir að rétturinn til opinbers stuðnings geti gengið kaupum og sölum. Bændur vilja almennar leikreglur og eyrnamerktum fjármunum verður varið til stuðnings sem styrkir stöðu nýliða, s.s. við jarðrækt, fjárfestingar, lífræna ræktun o.fl., auk sérstakra nýliðunarstyrkja. 
Mikilvægt er fyrir nýliðun að útrýma kerfisbundnu kynjamisrétti í regluverki sauðfjárræktarinnar. Í nýju samningunum er í fyrsta skipti sérstakt jafnréttisákvæði sem tryggir að hjón og sambýlisfólk geta skipt á milli sín stuðningsgreiðslum.
Útflutningur og alþjóðasamningar
Sala á innanlandsmarkaði er í blóma þessi dægrin og vel gengur að vinna með veitingastöðum til að fá erlenda ferðamenn til að smakka þjóðarréttinn. Sala á íslenskum mat til ferðamanna sparar þjóðarbúinu gjaldeyri. Milljarðar koma líka til landsins fyrir útfluttar sauðfjárafurðir sem er mikilvæg stoð fyrir greinina. Um þriðjungur framleiðslunnar er fluttur út. Stór hluti eru hliðarafurðir eins og garnir, vambir og afskurður. Fullnýting dregur úr sóun og eykur sjálfbærni. Ekki er gerður greinarmunur á því hvert dilkar, innmatur eða hlutar lambsins eru seldir þegar almennum stuðningi við byggð og ábyrga búskaparhætti er skipt í gegnum sauðfjársamning. Hann telst ekki vera meðgjöf með útflutningi samkvæmt alþjóðlegum skilgreiningum og er í fullu samræmi við þá viðskipta- og tollasamninga sem við erum aðilar að. Að þessu leyti er engin breyting á gildandi samningi og þeim nýja. Eiginlegar útflutningsbætur voru aflagðar fyrir aldarfjórðungi og ekki stendur til að endurvekja þær.
 
Aukið virði sauðfjárafurða
 
Bændur munu hér eftir sem hingað til hafa í forgangi að sinna heimamarkaði vel. Sóknarfæri íslenskrar sauðfjárræktar liggja í aukinni verðmætasköpun en ekki því að framleiða meira. Með nýju samningunum eru lögð drög að því að grípa ónýtt tækifæri til aukinnar verðmætasköpunar sem felast í fjölgun ferðamanna, aukinni neytenda- og umhverfisvitund og áherslu á gæði og hollustu afurða um allan heim. Grundvöllur þess að sauðfjárrækt verði blómleg atvinnugrein til framtíðar er að bændur og sláturleyfishafar sameini krafta sína í arðsömum útflutningi inn á kröfuhörðustu markaði heims eins og drög eru lögð að í nýja samningnum.
Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum
Skoðun 1. ágúst 2023

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum

Í fréttatilkynningu Hafrannsóknastofnunar og í grein Ragnars Jóhannssonar, ranns...

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu
Skoðun 8. júní 2023

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu

Við lifum á óstöðugustu og hættulegustu tímum síðan síðari heimsstyrjöldinni lau...