Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Meira er framleitt af sauðfjárafurðum heldur en tekist hefur að selja á góðu verði.
Meira er framleitt af sauðfjárafurðum heldur en tekist hefur að selja á góðu verði.
Mynd / HKr.
Lesendarýni 30. október 2017

Vinnum okkur út úr vandanum

Höfundur: Jóhannes Sveinbjörnsson
Í hverju felst vandi sauðfjárbænda? Hann felst í allt, allt of lágu skilaverði sauðfjárafurða til bænda frá afurðastöð. 
 
Árið 2014 var það 604 kr/kg, sem var um fjórðungi lægra en meðaltal 25 Evrópuríkja (www.saudfe.is;  31. júlí 2015). Þarna var Landssamtökum sauðfjárbænda (LS) nóg boðið og settu fram  tillögu um leiðréttingu á skiptingu afurðaverðs í áföngum á þremur árum upp í 762 kr/kg árið 2017, eða nálægt meðal skilaverði í Evrópu.
 
Hver varð niðurstaðan?
 
Skilaverð til bænda stóð í stað milli áranna 2014 og 2015, lækkaði um allt að 10% árið 2016 og um allt að 35% árið 2017. Samkvæmt samantekt á saudfe.is þann 4. október 2017 er meðalverð  dilkakjöts 360 kr/kg haustið 2017.
 
Fyrir bú sem framleiðir 15 tonn af kjöti árlega, þýðir verðlækkun síðustu tveggja ára samanlagt um 4 milljóna króna tekjusamdrátt. Og ef við berum raunveruleikann saman við áðurgreind markmið LS um verðhækkun til bænda er munurinn tæpar 10 milljónir króna, samanlagt fyrir árin 2015-17.
 
Kemur þjóðinni þetta eitthvað við?
 
Bændur eru sjálfstæðir atvinnurekendur og mundu þá sumir segja að það sé ekki mál þjóðarinnar þó að sú starfsstétt sem lengi hefur búið við hvað lökust kjör hrapi í launum. Þó má nefna nokkrar ástæður fyrir því þjóðinni komi íslensk sauðfjárrækt eitthvað við: matvælaöryggi, fæðuöryggi, byggðamál, atvinnumál, menning.  Af þessum og fleiri ástæðum er í gildi samningur milli ríkis og sauðfjárbænda um starfsskilyrði sauðfjárræktar.  Öðru nafni sauðfjársamningur. 
 
Byggðastefna og sauðfjárrækt
 
Byggðamál vega þungt í stuðningi þjóðarinnar við sauðfjárrækt, m.a. í gegnum sauðfjársamning. Íslendingar vilja flestir hafa landið sitt í byggð, og sauðfjárrækt er atvinnugrein sem byggir á nýtingu lands. Fyrir þjóð sem hefur ekki mjög skýra sýn í byggðamálum hentar vel að hengja byggðastuðning á eina atvinnugrein.  En jafn mikill heiður og það er fyrir sauðfjárræktina að vera sú grein getur þessi tenging orkað tvímælis. 
 
Það er hægt að finna kosti og galla á beingreiðslum, framleiðslutengdum álagsgreiðslum, gripagreiðslum og öðrum stuðningsformum í sauðfjársamningi. Hér er ekki rúm til að reifa það allt. Margt bendir þó til að æskilegt væri að greina á milli byggðastuðnings og sérstaks stuðnings við sauðfjárrækt. Að stuðningur við að halda tilteknum jörðum í byggð sé meira og minna bundinn því að fólk eigi kindur, framleiði lambakjöt, eigi ærgildi: þetta allt veldur erfiðleikum í að halda jafnvægi milli eftirspurnar og framboðs á lambakjöti.
 
Mín skoðun er sú að stuðningur við að sauðfjárrækt eigi að vera þannig að það fari ekkert á milli mála að það er stuðningur við að framleiða sauðfjárafurðir, á hagkvæman en jafnframt sjálfbæran hátt. Ekki síst vegna fæðu- og matvælaöryggis, líkt og stuðningur við aðrar búgreinar hvort sem hann er í formi beins stuðnings eða tollverndar. Það er líka skoðun mín að stuðning við byggð þurfi að skilgreina þannig að hann stuðli að blómlegri byggð  allt árið um kring, sem víðast. Ræktað land sé nytjað, til að rækta gras, korn, grænmeti eða annað. Landgræðsla og skógrækt sé studd og stunduð þannig að landið verði betra fyrir komandi kynslóðir.
 
Hvers vegna er sauðfjárræktin í þessari erfiðu stöðu?
 
Meira er framleitt af sauðfjárafurðum heldur en tekist hefur að selja á góðu verði. Mikilvægir markaðir erlendis hafa tapast og gengi krónunnar er sterkt. Þetta vegur þungt þar sem um þriðjungur framleiðslunnar er fluttur út. Launahækkanir hjá afurðastöðvunum eru væntanlega önnur ástæða. Mikið vantar þó á að sláturleyfishafar hafi gefið fullar skýringar á verðlækkun haustsins.
 
Það sem þó blasir við er að hagsmunir bænda eru að litlu hafðir. Á máli hagfræðinnar kallast þetta kaupendamarkaður: 
 
Framboð er meira en eftirspurn og því hefur kaupandi meira um verðið að segja heldur en seljandi.   
 
Virðiskeðjan
 
Á milli bónda og neytanda eru í það minnsta tveir milliliðir, afurðastöðin og verslunin. Neytandinn getur verið valdamikill í virðiskeðjunni, en því valdi er ekki alltaf beitt með markvissum hætti. Versluninni er í lófa lagið að halda að sér höndum í sölu lambakjöts þangað til í óefni stefnir um birgðir. Þá fara afurðastöðvarnar að afhenda versluninni kjötið á lægra verði til að létta á birgðastöðunni fyrir sláturtíð. Neytendur njóta þessa ástands tímabundið í lægra verði, en þjóðfélagslegu áhrifin af þessari ringulreið eru mjög neikvæð, bæði fyrir ríkissjóð, og lífsgæði stórra þjóðfélagshópa.  Neytendum kæmi til góða stöðugra verð og vöruúrval. Ef varan er vel framsett er virði hennar meira í augum neytenda. Meiri stöðugleiki á markaði með lambakjöt mundi auðvelda vöruþróun og auka endanlegt verðmæti vörunnar. 
 
Útflutningur lambakjöts
 
Sá þriðjungur framleiðslunnar sem fluttur er út er mjög viðkvæmur fyrir sveiflum á gengi og sviptingum á erlendum mörkuðum.  Meðan staðan er þannig eru bændur í mjög erfiðri stöðu til að ná því verði sem þarf. 
 
Fyrstu árin eftir hrun, meðan gengi krónunnar var veikt, kvörtuðu einstakir sláturleyfishafar lítið þó að þeirra hlutdeild í útflutningi væri hærri að tiltölu en annarra sláturleyfishafa. Þegar byrjaði aftur að halla undan fæti breyttist þetta, enda ljóst að þeir sláturleyfishafar sem ekki tóku að marki þátt í útflutningi báru meiri ábyrgð á offramboði á innanlandsmarkaði.  Þá byrjuðu menn að sakna útflutningsskyldunnar, sem var afnumin árið 2007. Útflutningsskyldan var undanþága frá samkeppnislögum sem gerði mögulegt að jafna ábyrgð og kostnaði við útflutning milli sláturleyfishafa. 
 
Plan A – samstarf um útflutning
 
Í apríl síðastliðnum fór LS fram á það við landbúnaðarráðherra að leggja á útflutningsskyldu tímabundið. Því hafnaði ráðherra. Lagði Markaðsráð kindakjöts í kjölfarið fram beiðni til Samkeppniseftirlitsins um undanþágu frá samkeppnislögum vegna samstarfs sláturleyfishafa um útflutning og markaðssetningu íslensks kindakjöts á erlendum mörkuðum. Undanþágan hefur ekki fengist.
 
Þegar mikið þarf að flytja út á lægra verði en fæst innanlands fara sláturleyfishafar að bjóða niður hver fyrir öðrum á innanlandsmarkaði. Vaxandi innflutningur á kjöti bætir ekki stöðuna. Á meðan ekki fæst leyfi frá yfirvöldum til samvinnu sláturleyfishafa á erlendum mörkuðum er ólíklegt að það magn sem selt verður erlendis á góðu verði aukist að marki. 
 
Plan B -Tillögur um fækkun sauðfjár
 
Það varð svo þrautaráð hjá bændum að leggja til aðgerðir til fækkunar sauðfjár á Íslandi um 20%, sbr. tillögur LS og BÍ til landbúnaðarráðherra (Bændablaðið, 24. ágúst 2017, bls.1). Landbúnaðarráðherra kom með sína útfærslu í byrjun september. Þar var öll áhersla á fækkun með þeirri aðferð að hluti bænda legði alfarið niður sauðfjárbúskap. Til þess var bændum boðinn stór hluti af ríkisstuðningi viðkomandi búa til nokkurra ára. Lítill hvati var  til að bændur fækkuðu án þess að hætta alveg.
 
Það er grundvallarmunur á þessum tveimur leiðum til fækkunar. Þeim sjónarmiðum kom undirritaður á framfæri bréflega við stjórn Landssamtaka sauðfjárbænda eftir að umræddar tillögur ráðherra lágu fyrir.  Svipuð sjónarmið komu víðar fram þessa daga. Og einhvern veginn leiddi umræðan til þess að í þeim tillögum ráðherra sem lágu fyrir aukaaðalfundi LS þann 19. september voru áherslur breyttar: 
 
Markmiðið með þessum aðgerðum er að fé verði fækkað um 20% með því að gefa bændum kost á því að draga úr eða hætta sauðfjárframleiðslu en halda hluta af greiðslum samkvæmt sauðfjársamningi í fimm ár, 2018-2022, þ.e. greiðslum samkvæmt 3.-8. grein samningsins, sbr. viðaukatöflu 1 með samningnum. Þeir sem hætta alfarið sauðfjárframleiðslu eiga kost á 80% greiðslna samkvæmt framansögðu en þeir sem fækka fá greiðslur í réttu hlutfalli við fækkun. Greiðslur til hvers bónda miðist við greiðslumark, innlegg, fjárfjölda og aðrar forsendur fyrir greiðslum, eins og þær voru á viðkomandi búi að meðaltali árin 2016 og 2017.
 
Áður en hægt var að taka tillögur ráðherra til afgreiðslu féll ríkisstjórnin og aukaaðalfundur LS mat stöðuna hvað varðaði tillögur ráðherra svo:
 
Fundurinn telur ljóst að framkomnar tillögur landbúnaðarráðherra til að taka á vanda sauðfjárbænda muni ekki ná fram að ganga fyrir kosningar en hvetur stjórnir LS og BÍ að vinna áfram að framgangi þessara mála með stjórnvöldum. Æskilegt væri að niðurstaða fengist í málið fyrir lok árs 2017.
 
Það hefur vafalítið verið rétt mat að frekar en að taka afstöðu til tillagna umboðslauss ráðherra væri rétt að vinna áfram að framgangi þessara mála með stjórnvöldum. En hvaða stjórnvöldum? Og hvenær? Höfum við virkilega tíma til að bíða til loka þessa árs með að fá niðurstöðu?
 
Notum tímann
 
Ef ekki gerast kraftaverk í útflutningi strax nú í vetur, og ef ekki verður umtalsverð fækkun á fé í haust, verður skilaverð til bænda áfram langt undir þolmörkum næsta haust. Kraftaverkum er ekki hægt að reikna með í áætlunum.  
 
Nú þegar kjósendur allra flokka vonast eftir nýrri og betri ríkisstjórn gæti verið freistandi að fara aftur í plan A, samstarf um útflutning eða beina útflutningsskyldu. Það er reyndar ekkert sérstakt sem bendir til að slíkt yrði leyft, þó að erfitt sé að skilja af hverju. Svo er óljóst hvaða vanda það leysir úr því sem komið er. Mögulega mundi útflutningsskylda flýta fyrir því að mest veikburða afurðastöðvarnar  færu á höfuðið. Ef/þegar einhverjar afurðastöðvar leggja upp laupana getur orðið erfitt fyrir innleggjendur þar að fá inni í öðrum afurðastöðvum með sitt fé ef offramboð er til staðar. 
 
Það virðist augljóst að fremur en að bíða óskipulegs hruns sé betra að fara í skipulagða fækkun fjár þar sem bændum verði gert kleift að aðlaga sig breyttum aðstæðum með því að halda stuðningsgreiðslum í tiltekinn tíma. Það má engan tíma missa að útfæra slíkar tillögur betur. Fyrst Alþingi gat í stjórnarkreppu í lok síðasta árs afgreitt fjárlög ætti það að geta afgreitt þessi mál núna strax eftir kosningar jafnvel þó að ekki verði búið að mynda ríkisstjórn. 
 
Að hætta eða fækka er ekki sami hluturinn
 
Kostirnir við að hafa hvata til að bændur geti fækkað um það hlutfall sem hentar fremur en að hætta eru til dæmis: 
  • Eldri bændur sem ekki geta hugsað sér að hætta sauðfjárbúskap gætu margir hverjir hugsað sér að minnka við sig til að draga úr vinnuálagi.
  • Sömuleiðis gætu bændur á ýmsum aldri með blandaða starfsemi séð sér hag í að draga úr sauðfjárbúskap og leggja aukna áherslu á annað.
  • Skuldbinding um fækkun er mun minna fjötrandi aðgerð fyrir framtíð bújarða en skuldbinding um fjárleysi.
  • Fjármagn úr búvörusamningi sem notað yrði í þessa aðgerð væri mun líklegra til að haldast í sveitunum heldur en þegar menn hætta búskap.
  • Eignir sem tilheyra sauðfjárrækt gætu haldið verðgildi sínu þrátt fyrir fækkun en verða mögulega verðlausar ef hætt er alveg.
Hvað næst?
 
Það verður að gera það sem er skást.  Sem að mínu mati væri að bændur hafi á jafnræðisgrundvelli val um að draga eins og hentar úr umfangi sinnar sauðfjárræktar.  
 
Tökum dæmi sem miðast við síðasta tilboð ráðherra (80% af greiðslum í 5 ár): Bóndi með 400 vetrarfóðraðar ær skuldbindur sig til að fækka niður í 300, eða um 25%. Heildargreiðslur áranna 2016 og 2017 skv. liðum 3.-8. í búvörusamningi voru 4 milljónir að meðaltali hvort ár. Bóndinn semur þá um að fá áfram 75% af  greiðslum skv. búvörusamningi, en hin 25%, eða ein milljón á ári er þá færð niður um 20% miðað við fyrrgreint tilboð ráðherrans, þannig að úr verða 800 þúsund á ári sem bóndinn fær 5 næstu árin, eða í einni greiðslu núvirt. 
 
Um greiðslurnar sem þessi bóndi  fær áfram úr sauðfjársamningi gæti þá gilt: Ærgildi sem beingreiðslur greiðast út á færast niður um 25%, í hlutfalli við umsamda fækkun. Aðrar greiðslur (álagsgreiðslur, gripagreiðslur, býlisstuðningur, ullargreiðslur) munu sjálfkrafa minnka í hlutfalli við fækkunina, og ætti ekki að þurfa að setja miklar sérreglur þar um. Það má þá segja að þessi tiltekni bóndi sé 25% í aðlögunarsamningi og 75% í sauðfjársamningnum. Hann hlítir því þá eins og aðrir bændur ef gerðar verða breytingar á sauðfjársamningnum við endurskoðun.
 
Fjármunir sem losna í búvörusamingi
 
Taka þarf ákvörðun um hvað gert verður við þá fjármuni í búvörusamningi sem losnar um við fækkunaraðgerðir. Þeir eru fram til ársins 2026 um 4,4 milljarðar, miðað við síðustu tillögur ráðherrans. Þetta svigrúm mætti nýta til að gera þær breytingar á fyrirkomulagi stuðnings við sauðfjárrækt og byggðir í landinu sem talin verður þörf á að gera eftir gagnrýna umræðu og greiningar á áhrifum stuðnings af ólíku tagi. 
 
Að lokum
 
Frestun vandans eykur hann og því þarf að hefja aðgerðir strax í haust. Sumir hafa bent á að fækkun áa nú í haust leiði til enn meira offramboðs.  Það er rétt ef horft er til eins árs, en alrangt ef horft er lengra.  Hefjumst handa og förum að vinna að því að skapa sauðfjárræktinni eðlileg starfsskilyrði. 
 
Jóhannes Sveinbjörnsson, Heiðarbæ 1, Þingvallasveit
 
Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?
Lesendarýni 17. apríl 2024

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?

Hvaða máli skiptir embætti forseta Íslands fyrir bændur? Þessa spurningu fékk ég...

Beinin í garðinum
Lesendarýni 10. apríl 2024

Beinin í garðinum

Kirkjugarðar, sérstaklega gamlir kirkjugarðar, eru áhugaverðir staðir. Við leggj...

Merk starfsemi við Bodenvatn
Lesendarýni 5. apríl 2024

Merk starfsemi við Bodenvatn

Í vestanverðu Bodenvatni á landamærum Sviss, Þýskalands og Austurríkis er eyja m...

Við og sauðkindin
Lesendarýni 28. mars 2024

Við og sauðkindin

Sauðkindin hefur verið hluti af menningu okkar og gaf okkur margt af því sem þur...

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“
Lesendarýni 27. mars 2024

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“

Þannig mæltist Camillu Cavendish, dálkahöfundi Financial Times (FT), þann 24. fe...

Landbúnaðarandúð
Lesendarýni 26. mars 2024

Landbúnaðarandúð

Fjölþátta ógnir steðja að íslenskri matvælaframleiðslu sem þó koma flestar úr sö...

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting
Lesendarýni 25. mars 2024

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting

Eins langt aftur og Íslandssagan nær hefur landnýting og búskapur verið órofa he...

Girðingar meðfram vegum
Lesendarýni 25. mars 2024

Girðingar meðfram vegum

Oft eru gáfulegar umræður við kaffiborð í sveitum og þá sérstaklega ef kaffið er...