Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Baldur Helgi Benjamínsson, Jóhann Nikulásson og Sigurður Loftsson.
Baldur Helgi Benjamínsson, Jóhann Nikulásson og Sigurður Loftsson.
Lesendarýni 14. mars 2019

Til móts við nýja tíma

Höfundur: Baldur Helgi Benjamínsson, Jóhann Nikulásson og Sigurður Loftsson
Á yfirstandandi ári stendur fyrir dyrum að hefja fyrri endurskoðun Samnings um starfsumhverfi nautgriparæktar. Þegar hefur verið framkvæmd skoðanakönnun meðal mjólkurframleiðenda um hvort þeir vilji viðhalda óbreyttu kvótakerfi og þó að verulegur misbrestur hafi verið á undirbúningi við valkostagreiningu vegna atkvæðagreiðslunnar, var niðurstaðan afgerandi, kvótanum í vil. Það skýrist svo í framhaldinu hver afstaða ríkisvaldsins verður í þessu efni. 
 
Hvað sem því líður, er nauðsynlegt að horfa til þess í þessari endurskoðun hvernig stuðningskerfið getur best staðið við greinina og þá sem hana stunda á tímum nýrra áskorana. Í því efni þarf að horfa til þess hvar greinin vill vera í lok samnings og hvaða viðhorfum hún muni mæta á komandi árum. Reyndar er núverandi samningur á margan hátt vel útfærður hvað þetta varðar og því ætti þessi endurskoðun fyrst og fremst að snúast um að fínstilla meginlínur hans. En fyrst „að fortíð skal hyggja þegar framtíð skal byggja“.
 
70% fækkun á 33 árum
 
Ekki þarf að fjölyrða um þá miklu samþjöppun sem orðið hefur í íslenskri mjólkurframleiðslu síðustu áratugi. Sem dæmi má nefna, að við stofnun Landssambands kúabænda árið 1986 voru hér á landi 1820 mjólkurframleiðendur, sem framleiddu um 110 milljónir lítra, meðalnyt íslenskra kúa var þá 3.936 kíló mjólkur og meðal búið um 60 þúsund lítrar. Um síðustu áramót voru framleiðendur orðnir 558, framleiddu þeir um 152 milljónir lítra á ársgrundvelli, meðalnyt árskúa var komin í 6.516 kg og meðalbúið er um 270 þúsund lítrar. Á aldarþriðjungi hefur búunum fækkað um tæp 70%, bústærðin rúmlega fjórfaldast og meðalnytin aukist um 65% á hverja árskú. Þessar miklu breytingar í fjölda framleiðenda hafa fyrst og fremst verið drifnar áfram með kvótaviðskiptum þar sem kaupendur hafa, auk forgangs að innanlandsmarkaði, náð um leið til sín samsvarandi hluta stuðningsgreiðslanna, enda hafa þær lengst af verið beint tengdar kvótanum. Sú stefna sem birst hefur í samningum við ríkið hefur reyndar líka verið nokkuð eintóna, stuðlað skuli að aukini hagkvæmni og samkeppnishæfni. 
 
Aukin samkeppnishæfni?
  
Enginn vafi er á því að framangreind þróun hefur skilað öflugum búum með mun betri aðbúnaði og vinnuaðstöðu. Uppbyggingunni og tilheyrandi greiðslumarkskaupum hefur þó fylgt mikil skuldsetning og ef tekið er mið af niðurstöðum ársreikninga sumra af stærstu búunum er efnahagur þeirra á engann hátt sjálfbær og má þar lítið út af bregða, ef nokkuð. Þó að greining á niðurstöðum búreikninga hafi verið í fullkomnu skötulíki undanfarin ár, má ætla að mjólkurframleiðslunni hafi miðað lítt fram á veg í að auka samkeppnishæfni sína, ef tekið er mið af mun á afurðaverði hér og í nálægum löndum. 
 
Samfélagið hlýtur að gera þá kröfu að aukin samþjöppun skili sér í hagkvæmari búrekstri og lægra afurðaverði. Samhliða þessari miklu samþjöppun, hefur orðið veruleg aukning á hlutfalli innfluttra aðfanga til mjólkurframleiðslunnar. Fyrir um 20 árum var kjarnfóðurgjöf um 5-700 kg á árskú. Í dag er hún nálægt því að vera 2.000 kg á árskú að jafnaði. Eftir því sem best verður séð nemur innflutningur kúafóðurs um 50.000 tonnum á ári. Ef notuð er gömul þumalputtaregla má gera ráð fyrir að 2 kg mjólkur fáist fyrir hvert kíló kjarnfóðurs. Samkvæmt því er einungis þriðjungur hérlendrar mjólkur framleidd á innlendu fóðri, það sem útaf stendur á því uppruna sinn á ökrum bænda í fjarlægum löndum.
 
Það er afar brýnt að snúa þessari óheillaþróun við og nýta betur okkar gjöfula ræktunarland. Í þeim efnum geta breyttar áherslur í stuðningskerfi greinarinnar gegnt lykilhlutverki og mikilvægt að þess sjái stað við þessa endurskoðun. Umræða um nautgriparækt í nágrannalöndunum snýst að verulegu leyti um aukna sjálfbærni og nýtingu innlendra aðfanga, litið er á slíkt sem grundvöll áframhaldandi velvildar í garð greinarinnar. Það sama hlýtur að eiga við hér á landi.
 
570 milljónir til 17 stærstu
 
Í fróðlegu erindi Jóns Baldurs Lorange, forstöðumanns Búnaðar­stofu, sem flutt var á aðalfundi Félags kúabænda á Suðurlandi fyrir skömmu, var birt yfirlit yfir skiptingu stuðningsgreiðslna til mjólkurframleiðenda, eftir bústærð. Á árinu 2019 nema þær alls 6.898 milljónum kr. samkvæmt fjárlögum yfirstandandi árs. 
 
Í erindinu kom fram að 17 stærstu framleiðendurnir fá um rúmlega 8% af stuðningsgreiðslum samningsins og af þessu má ennfremur ráða að stærsti framleiðandinn fái 4 milljónir kr á mánuði í stuðningsgreiðslur – sem er við 0,7% þakið sem skilgreint er í samningnum sem hámark á stuðningi á sama aðila. Nútíma tækni eykur mjög stærðarhagkvæmni í mjólkurframleiðslu og því varla óeðlilegt að þess sjáist stað í stuðningsgreiðslum ríkisins. 
 
Ógnanir og tækifæri í umhverfismálum
 
Undanfarin 25 ár hefur yfirgnæfandi meirihluti af heyfeng landsmanna verið verkaður í plastpakkaðar rúllur. Á skömmum tíma hefur umræða um umhverfismál um allan heim snúist mjög öndverð gegn plasti og plastnotkun sem einni mestu umhverfisvá samtímans. Bændur hér á landi nota um 1.700 tonn af rúlluplasti árlega og ekki er vafi á því að draga verður stórlega úr þeirri notkun á komandi árum. Lesendur þessa pistils hafa eflaust orðið varir við breyttar áherslur verslunarinnar, varðandi poka þá sem viðskiptavinir setja vörur sínar í við búðarborðið. Til samanburðar þá var plastnotkun til þess arna rúmlega 1/10 hluti þess sem bændur nota utan um heyfeng sinn. Tillaga um aðgerðaráætlun um samdrátt í plastnotkun var samþykkt á aðalfundi Búnaðarsambands Eyjafjarðar á dögunum og hliðstæð tillaga liggur fyrir aðalfundi LK. Breytt heyverkunartækni mun kalla á miklar fjárfestingar og í okkar huga er ljóst að stuðningskerfi landbúnaðarins verður hafa burði til að taka á því mikilvæga verkefni. Um mitt þetta ár verða síðan liðin fjögur ár frá því að undanþáguákvæði frá 6 mánaða lágmarks geymslurými fyrir búfjáráburð, sem var að finna í reglugerð nr. 804/1999 um varnir gegn mengun vatns af völdum köfnunarefnissambanda frá landbúnaði og öðrum atvinnurekstri, féll endanlega úr gildi. Bætt nýting búfjáráburðar er mikilvægt hagsmuna-, umhverfis- og ímyndarmál greinarinnar, en nauðsynlegar úrbætur í þeim efnum munu einnig kalla á umtalsverðar fjárfestingar á næstunni.  
 
Nýir tímar, ný hugsun
 
Í ljósi þess sem að framan greinir er eðlilegt að horft verði til eftirtalinna atriða við komandi endurskoðun nautgripasamningsins:
  • Niðurtröppun „Greiðslna út á greiðslumark“ (A-greiðslur) haldi sér eins og samningurinn gerir ráð fyrir. Þannig verði horfið að fullu frá framseljanlegum stuðningi í íslenskri nautgriparækt á samningstímanum.
  • Sett verði ákveðið hámark þess sem hver framleiðandi getur notið af „Greiðslum út á innvegna mjólk“ (B-greiðslur), t.d. allt að 40.000 lítrar á mánuði eða að hámarki 480.000 lítrar á ári. Þannig verði með mun ákveðnari hætti takmarkað hversu mikinn stuðning hver einstakur framleiðandi getur fengið af samningnum og stærðarhagvæmni búana komi þannig fram í ríkari mæli. Jafnframt verði sú aukning fjármuna sem samningurinn gerir ráð fyrir inná þennan lið endurskoðuð í samræmi við breyttar tilfærslur milli einstakra liða. 
  • Gripagreiðslur verði auknar árið 2020 eins og samningurinn gerir ráð fyrir, en standi síðan að stofni til í stað.
  • Auknir fjármunir verði látnir renna í Framleiðslujafnvægislið samningsins samhliða niður­tröppun A-greiðslna, einkum á seinnihluta samnings­tímans og þau tæki sem hann innifelur útfærð:
  • Útfærðar leiðir til að efla markaðsstarf í mjólk og nautakjöti
  • Útfærðar skilvirkar leiðir til að grípa inn í til að haga gripafjölda í landinu eftir markaðsaðstæðum hverju sinni. Reynist framleiðsla meiri en þörf er á, má til dæmis greiða ásættanlegar sláturuppbætur á kýr á 2. og 3. mjaltaskeiði sem komnar eru innan við 150 daga frá síðasta burði. 
  • Útfærðir verði aðlögunar­samningar sem kúabændum býðst, kjósi þeir að hverfa úr framleiðslu nautgripaafurða og hefja annarskonar starfsemi á jörðum sínum.
  • Útfærðar verði leiðir til að greiða stuðning beint til kúabænda óháð framleiðslumagni.
  • Framlög vegna kynbótastarfs verði að stofni til óbreytt.
  • Fjárfestingastuðningur verði aukinn og jafnframt opnað fyrir styrkveitingar til uppbyggingar á hagkvæmari og umhverfisvænni aðstöðu til fóðuröflunar á kúabúum. Þar verði m.a. horft til þess að draga úr plastnotkun og stuðla að aukinni hlutdeild heimaflaðs fóðurs. Þá verði reglur um hámarksstuðning af þessum lið endurskoðaðar, þannig að jafnræðis verði betur gætt en nú er. 
  • Stuðningur við nautakjöts­framleiðslu verði aukinn, samhliða endurskoðun úthlutunarreglna. Þar verði í auknum mæli horft til þess hvort um sé að ræða graðneyti, uxa eða kvígu, auk samspils þunga/lífaldurs við slátrun, með það að markmiði að fá gripina yngri til slátrunar en nú er.

Þakbrún við svörð
 
„Samningur um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu“, sem samþykktur var á fyrri hluta árs 2004 og gilti með framlengingum til ársloka 2016, fól í sér all nokkrar breytingar frá því sem áður var á forsendum þess heildarstuðnings sem greinin naut. Grunn upphæðir voru settar fastar og þær verðtryggðar, en með 1% árlegri hagræðingarkröfu eða svo kölluðum „skúrhalla“. Var þar vísað til þakhalla á sögufrægri byggingu er stóð í hlaði á æskuheimili þáverandi landbúnaðarráðherra, sem hagræðingin skyldi miðast við. Þó 1% hagræðing á ári hafi ekki vegið þungt við upphaf samningsins, þá vinnur tímans niður þar sem annarstaðar. Hefði verið byggt við þennan merka skúr með sama þakhalla og sem nemur komandi framtíð, hefði glögglega mátt sjá hvert þakbrúnin stefndi áður en yfir lyki. Því fordæmi sem þarna var komið á, hefur því miður reynst erfitt hnekkja. 
 
Í núverandi samningum náðist þó nokkur árangur til mótvægis þeim skerðingum sem orðið hafa á starfsskilyrðum landbúnaðarins árin þar á undan. Hvað nautgriparæktina varðaði, fengust nýir fjármunir til stuðnings við nautakjötsframleiðslu og í Rammasamning um landbúnað kom m.a. nýr flokkur landgreiðslna, sem nýtast kúabændum ekki hvað síst. Í þessu efni þarf að horfa vítt yfir sviðið. Sterk rök hníga með því að auka þróunarfé nautgriparæktar í rammasamningi, t.d. með því að greinin hækki sitt tillag úr 13-15 milljónum kr á ári í 50 milljónir, gegn því að ríkið komi með sömu upphæð á móti þannig að heildar potturinn verði 100 milljónir árlega. Knýjandi er að auka rannsóknir í greininni, ekki síst á sviði fóðrunar og fóðurverkunar, enda er fóðurverkunin mikilvægasti drifkraftur nautgriparæktarinnar til framtíðar litið. Þá verði horft til þess að fjármunum til átaks í kolefnisbindingu verði fundinn farvegur í Rammasamningi land­búnaðarins.
 
Stigið fram á við
 
„Það vel skal vanda, sem lengi skal standa“ er stundum sagt. Það er erfitt að sjá fyrir sér að landbúnaður verði stundaður hér á landi næstu áratugi án atbeina hins opinbera. Því er afar mikilvægt að vilji almennings á Íslandi til að styðja við landbúnað sé varðveittur og forsvarsmenn landbúnaðarins umgangist hann af virðingu. Það er bjargföst sannfæring okkar að verslun og viðskipti með stuðningsgreiðslur ríkisins séu vísasta leiðin til að eyðileggja þann vilja. Framsal stuðningsgreiðslna verður því að stöðva. Sama gildir um vatnshallann, haldi hann áfram verður samningurinn á endanum lítils virði. 
 
Starfsskilyrði þessarar langstærstu greinar íslensks landbúnaðar verður að þróa og útfæra þannig að nautgriparæktin geti mætt fjölbreyttum áskorunum í nútíð og framtíð. Næsta endurskoðun skal fara fram árið 2023 og þá skulu jafnframt lögð drög að næsta samningi, sem vonandi tekur gildi 1. janúar 2027. Þangað til eru sjö ár og sex mánuðir, sem verða liðin áður en við vitum af. Því er mikilvægt að með endurskoðuninni nú verði tekin stór og ákveðin skref til móts við nýja tíma. 
 
Baldur Helgi Benjamínsson
Jóhann Nikulásson
Sigurður Loftsson
Við og sauðkindin
Lesendarýni 28. mars 2024

Við og sauðkindin

Sauðkindin hefur verið hluti af menningu okkar og gaf okkur margt af því sem þur...

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“
Lesendarýni 27. mars 2024

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“

Þannig mæltist Camillu Cavendish, dálkahöfundi Financial Times (FT), þann 24. fe...

Landbúnaðarandúð
Lesendarýni 26. mars 2024

Landbúnaðarandúð

Fjölþátta ógnir steðja að íslenskri matvælaframleiðslu sem þó koma flestar úr sö...

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting
Lesendarýni 25. mars 2024

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting

Eins langt aftur og Íslandssagan nær hefur landnýting og búskapur verið órofa he...

Girðingar meðfram vegum
Lesendarýni 25. mars 2024

Girðingar meðfram vegum

Oft eru gáfulegar umræður við kaffiborð í sveitum og þá sérstaklega ef kaffið er...

Hvernig stóð á kúfi dauðsfalla eftir að veiran var að mestu horfin?
Lesendarýni 20. mars 2024

Hvernig stóð á kúfi dauðsfalla eftir að veiran var að mestu horfin?

Mikill fjöldi ótímabærra dauðsfalla á síðustu misserum hefur ekki farið fram hjá...

Þjóðlendukröfur í eyjar og sker
Lesendarýni 14. mars 2024

Þjóðlendukröfur í eyjar og sker

Óbyggðanefnd tók til meðferðarsvæði 12, með því að fjármálaráðuneytinu var tilky...

Eignaupptaka í nafni sjálfbærrar landnýtingar?
Lesendarýni 13. mars 2024

Eignaupptaka í nafni sjálfbærrar landnýtingar?

Í Samráðsgátt stjórnvalda lágu fyrir skemmstu til umsagnar drög að reglugerð um ...