Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Ljúkum afgreiðslu samninga
Mynd / TB
Leiðari 21. júlí 2016

Ljúkum afgreiðslu samninga

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson

Landbúnaður skiptir miklu fyrir íslenskt samfélag. Í fyrsta lagi er hann mikilvæg atvinnugrein sem þúsundir Íslendinga byggja lífsafkomu sína á. Í öðru lagi sér hann íslenskum heimilum fyrir heilnæmum búvörum sem hafa ekki verið framleiddar með mikilli lyfjagjöf eða öðrum hjálparefnum, sem algeng eru í innfluttum landbúnaðarvörum. Í þriðja lagi gegnir landbúnaður lykilhlutverki við að treysta byggð í landinu, sem meðal annars skiptir miklu máli fyrir ferðaþjónustuna. Í fjórða lagi þá er mjög mikilvægt út frá umhverfissjónarmiðum að matvæli séu framleidd sem næst neytendum til þess að hægt sé að lágmarka allan útblástur vegna vöruflutninga sem er mikilvægur liður í því að berjast gegn hlýnun jarðar.

Það er nokkuð árvisst að landbúnaðarmál koma til umræðu á sumrin. Á því varð engin breyting nú, þegar að bæði forsetakjörið og Evrópumótið í knattspyrnu karla voru afstaðin. Þess var að vænta í ljósi þess að enn er ekki ljóst með afgreiðslu Alþingis á búvörusamningum um starfsskilyrði landbúnaðarins. Bændur undirrituðu samningana í febrúar sl. og samþykktu þá með atkvæðagreiðslu í mars. Fyrir hönd ríkisins undirrituðu samningana fjármálaráðherra og þáverandi landbúnaðarráðherra, nú forsætisráðherra. Samningarnir eiga að taka gildi um næstu áramót, en til þess þarf samþykki Alþingis. Umfjöllun um málið hefur síðan blandast umræðu um ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um að leggja að nýju sekt á Mjólkursamsöluna vegna viðskipta á árunum2008–13. Það mál er langt því frá útkljáð. Mjólkuriðnaðurinn og verðlagning á mjólk eru hins vegar aðeins eitt atriði af fjölmörgum í búvörusamningunum. Vissulega hefur MS ákveðna undanþágu frá samkeppnislögum, en á móti þá ræður fyrirtækið hvorki verðinu sem það greiðir bændum fyrir mjólk, eða heildsöluverði helstu framleiðsluvara sinna. Undanþágan er því miklum takmörkunum háð, meðal annars er kaupskylda á mjólk um allt land og skylda til að selja mjólkurafurðir hvert á land sem er á sama verði.

Hvaða tillögur eru aðrar uppi?

Sumir sem um samningana hafa rætt vilja hafna þeim, en leggja fátt til um hvað koma beri í staðinn. Enda er gagnrýnin á ákaflega mismunandi forsendum. Sumir telja að samningarnir gangi alltof skammt. Helst ætti að afleggja allan stuðning við landbúnað, einkum þó tollverndina. Frá hinum vængnum kemur síðan gagnrýni um að það sé ekki nægilega mikil miðstýring. Stýra þurfi hvar ákveðnar búgreinar séu stundaðar og hefja aftur framleiðslustýringu í sauðfjárrækt til að ná því fram að engar sauðfjárafurðir séu fluttar út, sem hafi hugsanlega verið framleiddar með opinberum stuðningi. Þau sjónarmið hafa líka heyrst að fyrirhugaðar breytingar í samningunum séu alltof miklar og ekki sé nægilega stutt við bakið á greinum sem verða harðast fyrir barðinu á afleiðingum tollasamnings Íslands og ESB, sem einnig liggur fyrir Alþingi. Útilokað er að verða við öllum þessum athugasemdum því þær eru ósamrýmanlegar. Samningarnir voru ákveðin niðurstaða sem náðist eftir 42 funda samningalotu sem stóð í nærri hálft ár. Bændur hefðu gjarnan viljað sjá ýmsa hluti öðruvísi og fulltrúar ríkisins örugglega líka. Það er aldrei svo í samningaviðræðum að allir fái sínu framgengt. En bændur standa við þá niðurstöðu sem samið var um og samþykkt hefur verið.

Aðalatriðið fyrir íslenskan landbúnað er að tryggja byggð í landinu, störf í landbúnaði og framboð heilnæmra búvara á sanngjörnu verði. Ef Alþingi hefur hugmyndir um breytingar til að styrkja þessi atriði, getur það alveg verið jákvætt. En sjónarmið eru verulega mismunandi eins og að framan greinir. Ef Alþingi ætlar sér hins vegar að breyta samningunum verulega, þarf að sjálfsögðu að setjast að samningaborðinu á ný. Það sjá það allir í hendi sér að ef annar samningsaðili gjörbreytir samningi eftir undirritun þarf að fara yfir samninginn á ný. Þá þurfa bændur að greiða aftur atkvæði um samninginn, ef hann breytist, því þá er það einfaldlega annar samningur en þeir greiddu atkvæði um.

Framlög til landbúnaðar fara lækkandi

Í lok samningstímans verða framlög ríkisins svipuð upphæð á föstu verðlagi og árið 2016. Miðað við að hagvöxtur verði áfram meiri en verðbólga er ljóst að stuðningur við landbúnað sem hlutfall af landsframleiðslu mun áfram lækka. Væri það hlutfall það sama nú og fyrir 30 árum værum við að tala um 100 milljarða stuðning á ári. Nýir fjármunir koma inn fyrstu árin vegna nýrra verkefna og aukinnar áherslu á almennari stuðning. Á móti kemur 8,1% hagræðingarkrafa á samningstímanum.

Stærstur hluti þeirra fjármuna sem renna úr ríkissjóði vegna búvörusamninganna fara í raun beint í vasa almennings. Framlag ríkisins er niðurgreiðsla sem miðar að því að lækka verð á íslenskum landbúnaðarafurðum til neytenda. Með þessum hætti er íslenskum bændum sköpuð aðstaða til að framleiða heilnæmar landbúnaðarafurðir á sanngjörnu verði.

Samningarnir marka landbúnaðarstefnu

Eitt af meginmarkmiðum í samningagerðinni var að leggja niður kvótakerfi í mjólk og greiðslumarkskerfi í sauðfjárrækt. Tilgangurinn með því er að létta kostnaði við kaup á þessum réttindum af greinunum. Markmiðið er að gera nýliðun og kynslóðaskipti auðveldari og beina þunga stuðningsins til þeirra sem eru að framleiða á hverjum tíma.

Í samningunum er lögð aukin áhersla á lífræna framleiðslu, velferð dýra, umhverfisvernd og sjálfbæra landnýtingu. Sérstakt verkefni kemur inn í samninginn um stuðning við skógar-bændur til að auka virði skógarafurða. Um leið er kveðið á um annað nýtt verkefni um mat á gróðurauðlindum sem ætlað er til frekari rannsókna á landi sem nýtt er til beitar. Jafnframt verða möguleikar á fjárfestingastyrkjum í svínarækt fyrri hluta samningstímans til þess að hraða umbótum sem bæta aðbúnað dýra. Jarðræktarstuðningur er aukinn verulega og gerður almennari. Hægt verður að styðja betur við ræktun, þar með talið ræktun matjurta sem er nýjung. Um leið verður tekinn upp almennur stuðningur á ræktarland sem er ekki bundinn ákveðinni framleiðslu. Þá er stuðningur tekinn upp við geitfjárrækt, sem ekki hefur verið áður.

Í samningunum er kveðið á um endurskoðanir árin 2019 og 2023. Það er gert til að bregðast við þróun og meta hvernig markmið nást. Gangi þau ekki eftir er hægt að bregðast við og stjórnvöld sem verða við völd á hverjum tíma geta lagt fram sínar áherslur. Gert er ráð fyrir að bændur kjósi um niðurstöðu þeirra endurskoðana eins og þeir gerðu fyrr á þessu ári. Það er því ekki búið að læsa neinu í tíu ár, en það er mörkuð ákveðin stefna.

Pylsan og merkið
Leiðari 21. mars 2024

Pylsan og merkið

Upprunamerkið Íslenskt staðfest var mikið rætt á nýafstöðnu Búnaðarþingi. Við se...

Beðið eftir jarðræktarmiðstöð
Leiðari 7. mars 2024

Beðið eftir jarðræktarmiðstöð

Sex ár eru síðan Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands flutti frá Korpu e...

Útflutningsverðmæti
Leiðari 5. mars 2024

Útflutningsverðmæti

Þótt framleiðsla landbúnaðarafurða sé að mestu hugsuð miðað við innlenda þörf er...

Samvinna og kreppa
Leiðari 8. febrúar 2024

Samvinna og kreppa

Áhugaverðar umræður sköpuðust á Alþingi þegar rætt var um mögulega heimild kjöta...

Kerfið
Leiðari 29. janúar 2024

Kerfið

Að vanda kennir ýmissa grasa í þessu tölublaði Bændablaðsins en áherslurnar eru ...

Bitlaust
Leiðari 11. janúar 2024

Bitlaust

Tollvernd er eitt aðalverkfæri stjórnvalda til að stuðla að innlendri framleiðsl...

Peð
Leiðari 14. desember 2023

Peð

Bóndi er ekkert borðleggjandi hugtak. Samkvæmt Íslensku nútímamálsorðabók Árnast...

Landbúnaðarland
Leiðari 30. nóvember 2023

Landbúnaðarland

Jude L. Capper prófessor sagði í erindi sínu á afmælisráðstefnu RML að misvísand...