Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Oddný Steina Valsdóttir hefur tilkynnt að hún muni ekki gefa kost á sér til að gegna formennsku í Landssamtökum sauðfjárbænda áfram.  Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda verður haldinn í Bændahöllinni dagana 4-5. apríl þar sem kosinn verðu nýr formaður.
Oddný Steina Valsdóttir hefur tilkynnt að hún muni ekki gefa kost á sér til að gegna formennsku í Landssamtökum sauðfjárbænda áfram. Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda verður haldinn í Bændahöllinni dagana 4-5. apríl þar sem kosinn verðu nýr formaður.
Mynd / HKr.
Skoðun 15. febrúar 2019

Hratt flýgur stund

Höfundur: Oddný Steina Valsdóttir
Á aðalfundi Landssamtaka sauðfjárbænda í mars 2017 tók ég við sem formaður samtakanna. Þar á undan var ég varaformaður og formaður Fagráðs í sauðfjárrækt auk þess að sitja sem fulltrúi á Búnaðarþingi. Ég hef nú ákveðið að gefa ekki kost á mér áfram til formennsku í Landssamtökum sauðfjárbænda. 
 
Formannssetan hefur verið krefjandi og skemmtileg. Starfið hefur verið erfitt á köflum enda staða greinarinnar á tímanum grafalvarleg. Við höfum tekist á við fordæmalaust verðhrun á afurðum okkar, þar sem öryggisnet voru nánast engin til staðar. Það er fáránleg og óþolandi staða að framleiða hágæða vöru í krafti einstakra aðstæðna sem frumframleiðendur sjálfir fá algjört hrakvirði fyrir. Í ofanálag orsakast lélegt verð af ytri áhrifum sem bændur höfðu enga möguleika á að afstýra. Horft til baka var þó þungbærast til þess að vita að staðan varðaði velferð fólks í einhverjum tilfellum og jafnvel afdrif heilu samfélaganna. Á sama tíma vorum við einnig að eiga við gjörbreytt og krefjandi umhverfi í fjármögnun samtakanna. Umgjörð um markaðsstarfið hefur verið í hraðri mótun. Þá hafa samningaviðræður við ríkið krafist orku og tíma en eru nú farsællega að baki. 
 
Einhverjum kann að þykja það heldur stutt ending að sitja á formannsstóli í tvö ár. Ég bið þá sömu að hafa hugfast að formannsdrauminn bar ég aldrei í maganum þótt ég hafi fyrir tveimur árum ákveðið að taka þessari áskorun. Þrátt fyrir að kunna ágætlega við embættið þá stendur hugurinn til annarra verkefna á þessum tímapunkti. Ég fer sátt frá borði. 
 
Á þeim tíma sem ég sat sem almennur stjórnarmaður lét ég mig landnýtingarmál talsvert varða. Ég hef á þeim tíma talað fyrir því að koma á vöktunarkerfi á gróðri. Árið 2017 náðist samkomulag við stjórnvöld um mat og vöktun á gróður- og jarðvegsauðlindum Íslands. Verkefnið er að stórum hluta fjármagnað af rammasamningi búvörusamninga. Ef fram heldur sem horfir mun verkefnið byggja upp mikilvæga fagþekkingu á þróun jarðvegs og gróðurfars ásamt áhrifum beitar á úthaga. Sú fagþekking mun styrkja okkur í öllum ákvörðunum um sjálfbæra landnýtingu. Forysta bænda í þessu efni er forsenda sáttar um nýtingu á landi til beitar. Það er því sérstaklega ánægjulegt að sjá þetta verkefni verða að veruleika hjá Landgræðslunni undir faglegri stjórn Bryndísar Marteinsdóttur. 
 
Endurskoðun sauðfjársamnings og þörf á hagræðingu innan afurðageirans
 
Endurskoðun samnings um starfsumhverfi sauðfjárræktarinnar er lokið. Ég tel að þær breytingar sem þar eru lagðar til vera til bóta fyrir greinina og niðurstöðuna mjög ásættanlega miðað við aðstæður. Í samkomulaginu koma inn verkfæri og ferlar til að takast á við sveiflur á mörkuðum. Sagan segir okkur að við eigum áfram eftir að takast á við sveiflur í framboði, eftirspurn og verði. Þá er mikilvægt að geta brugðist fljótt við. 
 
Áfram verður að huga að hagræðingaraðgerðum innan afurðageirans. Um það eru samningsaðilar sammála líkt og kemur fram í bókun samkomulagsins. Það er gríðarlega mikilvægt til að styðja við og tryggja til framtíðar afurðaverðið, okkar mikilvægustu tekjustoð. Það er dregið úr framleiðsluhvata stuðningsgreiðslna við framgang samningsins, þar sem hægt verður á niðurtröppun beingreiðslna. Samhliða því verður stofnsettur markaður fyrir greiðslumark. Markmið okkar með stofnsetningu markaðsins er að jafna stöðu framleiðenda innan greinarinnar og halda niðri verði á greiðslumarkinu. Að mínu mati er markaðurinn mikilvægur til að tryggja meiri sanngirni og sátt um kerfið. Breyting á niðurtröppun greiðslumarks, til ársins 2022, er sett fram í samræmi við ályktun aðalfundar LS en eftir það er lögð til niðurtröppun sem ég tel að eigi að sætta sjónarmið mismunandi hópa sauðfjárbænda.
 
Það er ekkert launungarmál að staða bænda innan kerfisins er misjöfn. Ég tel breytingu endurskoðunarinnar við framgang samningsins vera millilendingu sem að flestir ættu að geta sæst á. Sátt innan greinarinnar er mikilvæg og til að skapa hana verða aðilar af báðum endum að gefa eitthvað eftir.
 
Það er rétt að taka fram að ég hef aldrei staðið ein, stjórn og framkvæmdastjóri hafa unnið saman sem einn maður og hvert eitt einasta þeirra verið frábærir liðsmenn. Þá hafa samtökin notið styrk og liðsinnis Bændasamtakanna, sem skiptir miklu máli. Ég hef sinnt þessu embætti af alefli enda frá fyrsta degi ljóst að það þyrfti til, en hvort það var nóg á líklega tíminn eftir að leiða í ljós. Mig langar að þakka sauðfjárbændum viðkynninguna, samtölin og símtölin sem hafa verið ófá og mörg hver afskaplega uppbyggileg. Einnig þeim fjölmörgu öðrum sem ég hef haft samskipti við vegna starfsins. Samstarfsfólki og samstjórnarfólki mínu í gegnum tíðina þakka ég kærlega samstarfið og góð kynni. 
 
Oddný Steina Valsdóttir
Formaður Landssamtaka sauðfjárbænda
Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum
Skoðun 1. ágúst 2023

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum

Í fréttatilkynningu Hafrannsóknastofnunar og í grein Ragnars Jóhannssonar, ranns...

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu
Skoðun 8. júní 2023

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu

Við lifum á óstöðugustu og hættulegustu tímum síðan síðari heimsstyrjöldinni lau...