Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Fæðuöryggi
Skoðun 24. september 2018

Fæðuöryggi

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Í Norðvestur-Evrópu hafa menn nú upplifað eitthvert heitasta og þurrasta sumar síðan mælingar hófust. Afleiðingarnar fyrir bændur og matvælamarkaðinn kunna að verða verulegar í vetur og á komandi misserum. 
 
Hvað kemur það okkur Íslendingum við kann einhver að spyrja, enda upplifðu íbúar á sunnan og vestanverðu landinu eitt blautasta sumar síðan mælingar hófust. Gallinn er bara að það hefur líka haft neikvæð áhrif á uppskeru, bæði á fóðri og matjurtum.
 
Í Evrópu hafa kartöflubændur mátt þola 20 til 30% minni uppskeru en í meðalári og svipaða sögu er að segja af hveiti-, korn- og repjuuppskerunni. Það gildir allavega um Bretland, Belgíu, Holland, Þýskaland og Pólland. Í  Danmörku, Noregi, Finnlandi og Svíþjóð var ástandið engu skárra. 
 
Allir vita nú um ásókn norskra bænda í hey á Íslandi í viðleitni til að koma í veg fyrir stórfelldan niðurskurð á nautgripum og öðru búfé. Bændur víða um Evrópu hafa óskað eftir aðstoð yfirvalda til að mæta þeim skaða sem þeir hafa orðið og verða fyrirsjáanlega fyrir. Þannig óskuðu þýskir bændur eftir einum milljarði evra í aðstoð fyrir skömmu, eða sem svarar um 128 milljörðum íslenskra króna. Danskur landbúnaður sér fram á 75 milljarða króna  tjón vegna þurrka.
 
Áhrifin á matvælamarkaðinn geta orðið geigvænleg. Vegna uppskerubrests á dýrafóðri, þá er líklegt að mun meira verði skorið niður af bústofni bænda en ella. Það getur þýtt tímabundið offramboð af vissum kjöttegundum með tilheyrandi lækkun á verði. Það ætti að öllu eðlilegu að vera góð tíðindi  fyrir neytendur, en það veldur því miður aðeins skammtímagleði. Á sama tíma er talið að lítið framboð af hveiti, korni, grænmeti og ýmsu öðru muni valda hækkandi verði á mörkuðum. Þar geta menn ekki svo auðveldlega brugðist við með innflutningi frá Bandaríkjunum, Kanada og Suður-Ameríku, því þar hafa menn líka víða verið að glíma við þurrka,  óvenju mikinn hita og uppskerubrest. 
 
Í ljósi þessa þá segja eflaust einhverjir að matvælamarkaðurinn fleyti sér bara á ódýru kjöti sem væntanlega verði nóg af, alla vega næstu vikur og jafnvel mánuði. Gallinn er bara að þar mun ástandið að öllum líkindum snúast upp í andhverfu sína á næstu misserum. Minni ásetning gripa vegna fóðurskorts í vetur getur leitt til þess að t.d. í nautgripaeldi muni myndast stórt gap í framleiðsluna um nokkurra missera skeið. Í kjölfar offramboðs er því hætt við umtalsverðum skorti á nautakjöti á markaðnum. 
 
Ofan á allt þetta berast svo tíðindi af hraðri útbreiðslu á svínapest í Evrópu. Á síðasta ári þurftu Rússar og sumar Austur-Evrópuþjóðir að glíma við þessa pest og kostaði það slátrun og urðun á gripum í hundruð þúsunda vís. Óttinn við svipaðar afleiðingar í vestanverðri Evrópu er nú mjög mikill. 
 
Allt þetta leiðir hugann að því hversu viðkvæmt fæðuöryggiskerfi þjóðanna í kringum okkur er. Svo ekki sé talað um Ísland. Hér hafa ákveðinn öfl barist fyrir því með kjafti og klóm að markaðsöflin fái alfarið að sjá um okkar matvælamarkað og helst með algjöru tollfrelsi. Þó frelsi sé yfirleitt talið til hins góða, þá er það augljóslega glapræði ef menn samfara því heykjast á að tryggja kerfi sem getur haldið uppi fæðuöryggi þjóðarinnar. Spurningin er hvort það kvikni einhver vitglóra í kolli slíkra snillinga þegar þeir uppgötva að grasið er skrælnað hinum megin við lækinn og þaðan ekki kartöflukvikindi að fá. – Jafnvel þótt veifað sé þykkum seðlabúntum. 
Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum
Skoðun 1. ágúst 2023

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum

Í fréttatilkynningu Hafrannsóknastofnunar og í grein Ragnars Jóhannssonar, ranns...

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu
Skoðun 8. júní 2023

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu

Við lifum á óstöðugustu og hættulegustu tímum síðan síðari heimsstyrjöldinni lau...