Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Sjálfbærni og vísindi
Mynd / smh
Skoðun 7. apríl 2022

Sjálfbærni og vísindi

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Það ætti auðvitað ekki að þurfa að taka það fram að sjálfbærni ætti að vera markmið í öllum rekstri þjóðfélaga. Við höfum hins vegar verið alin upp við það um aldir að hráefni jarðar séu nær óþrjótandi auðlind og því getum við valsað um jörðina okkar í botnlausum sóðaskap eins og enginn sé morgundagurinn.

Það vita allir sem hafa einhvern snefil af skynsemi í kollinum að það eyðist sem af er tekið. Trúlega eru engir meðvitaðri um þetta en einmitt bændur. Þeir gætu ekki lengi stundað sinn búskap ef þeir áttuðu sig ekki á því, að til að halda búfé sínu lifandi yfir veturinn þarf að safna fóðri. Til að hægt sé að safna fóðri þarf að hugsa vel um jörðina. Til að lambfé hafi úr grösugum högum að spila yfir sumartímann, þarf að huga að beitarstýringu og hjálpa landinu þar sem við á með uppgræðslu. Sama á við um garðyrkju af öllu tagi og akuryrkju, það þarf fyrirhyggju í öllum búskap. Þetta er líka lykillinn að því að Íslendingar geti sýnt viðleitni í að bjarga sér sjálfir þegar á reynir og reynt sjálfir að trygga sitt fæðuöryggi, í stað þess að vera þurfalingar í þeim efnum í hörðum heimi.

Því er ekkert skrítið að bændum hafi sárnað sá málflutningur að miklu betra og ódýrara sé að flytja bara inn allar landbúnaðarvörur. Þannig geti þjóðin verið stikkfrí í öllum málum er lúta að landnýtingu. Hér séu engin vandamál sem þurfi að leysa og að við getum velt öllum vandamálum þar að lútandi yfir á aðrar þjóðir.

Það hlýtur að teljast ánægjulegt að bændur standi nú enn meira samstíga en nokkru sinni áður eftir nýafstaðið Búnaðarþing um að stefna ákveðið að enn meiri sjálfbærni íslensks landbúnaðar. Þannig geti þeir sem best tryggt fæðuöryggi þjóðarinnar. Það er samt skrítið að það þurfi stríð í okkar bakgarði til að helstu gagnrýnendur íslensks landbúnaðar í gegnum tíðina opni augun fyrir þeim grundvallargildum sem eru undirstaða fyrir tilvist Íslendinga sem þjóðar. Við höfum nefnilega engan rétt til að vísa okkar vandamálum yfir á aðrar þjóðir, okkur ber að leysa úr þeim sjálf eftir bestu getu.

Íslenskir bændur hafa útvíkkað markmið sín um góða umgengni um jörðina og undirstöðuþætti lífsins. Þar með er vitund um loftslagsmál ört vaxandi þáttur. Það verður þó aldrei hægt að gera á forsendum fullyrðinga og ósannaðra kenninga. Bændur verða þar að reiða sig á raunverulegar rannsóknir og vísindaþekkingu til að átta sig á hvað þurfi að gera til að skapa sem mesta sjálfbærni í loftslagsmálum. Það snertir kannski ekki síst mikilvægi lífrænnar ræktunar og þróunar á því sviði. Í þessum málum þarf að finna hvar rétta jafnvægið liggur í losun og bindingu gastegunda af landnýtingu sem áhrif geta haft á okkar andrúmsloft.

Það er afskaplega dapurt hversu hart hefur verið gengið fram í því að hampa popúlisma í loftslagsmálum um leið og gert hefur verið lítið úr raunvísindum á þeim vettvangi. Flottar kenningar, ágiskanir og fullyrðingar hafa þótt góðar og gildar á sama tíma og ákall eftir vísindalegum rökum hefur verið haft í flimtingum. Þó popúlistar skreyti sig óspart með tilvísun í vísindin þá þykir þeim um leið boðlegt að gera lítið úr þeim vísindamönnum sem kallað hafa eftir gagnrýnni hugsun. Samt er gagnrýnin hugsun einmitt grunnundirstaða allra vísinda og þekkingaröflunar. Þetta höfum við séð hvað gleggst í öfgafullu tali um landnýtingu og búfjárhald á liðnum misserum og árum. Þar virðist vinsældaskor vega miklu þyngra í hugum sumra en leitin að sannleikanum.

– Gleðilega páska!

Hvíla þarf kartöflugarða í Þykkvabænum í þrjú ár
Fréttir 11. júlí 2025

Hvíla þarf kartöflugarða í Þykkvabænum í þrjú ár

Atvinnuvegaráðuneytið hefur sent kartöflubændunum í Hrauk í Þykkvabænum fyrirmæl...

Ný nálgun í vörnum gegn dýrasjúkdómum
Fréttir 10. júlí 2025

Ný nálgun í vörnum gegn dýrasjúkdómum

Róttækar breytingar eru að verða á regluverki varna gegn dýrasjúkdómum.

Salmonella á Kvíabóli
Fréttir 10. júlí 2025

Salmonella á Kvíabóli

Matvælastofnun (MAST) hefur sent út tilkynningu um að salmonella hafi greinst á ...

Rekstrarvandi vegna samdráttar í útflutningi
Fréttir 10. júlí 2025

Rekstrarvandi vegna samdráttar í útflutningi

Eftir þungan rekstur síðasta vetur glímir ullarvinnslufyrirtækið Ístex við fjárh...

Tíunda íslenska kýrin til að ná 100 þús. kg æviafurðum
Fréttir 8. júlí 2025

Tíunda íslenska kýrin til að ná 100 þús. kg æviafurðum

Þann 18. júní sl. rauf afrekskýrin Snotra 273 í Villingadal í Eyjafirði 100 þús....

Tíu birkiskógar skuli njóta verndar
Fréttir 4. júlí 2025

Tíu birkiskógar skuli njóta verndar

Land og skógur hefur gefið út fyrstu skrána um sérstæða eða vistfræðilega mikilv...

Súlur 2025 komnar út
Fréttir 4. júlí 2025

Súlur 2025 komnar út

Tímaritið Súlur kom út á dögunum. Súlur er ársrit Sögufélags Eyfirðinga og hefur...

Metfjöldi gesta á Skógardeginum mikla
Fréttir 4. júlí 2025

Metfjöldi gesta á Skógardeginum mikla

Nýr Íslandsmeistari í skógarhöggi og fleiri keppnisgreinum var krýndur í Hallorm...