Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Bær var fyrst reistur í Sænautaseli árið 1843, endurbyggður 1992 og að hluta 2010. Á sumrin er þar drjúg umferð gesta.
Bær var fyrst reistur í Sænautaseli árið 1843, endurbyggður 1992 og að hluta 2010. Á sumrin er þar drjúg umferð gesta.
Mynd / SÁ
Líf og starf 18. maí 2023

Senn lifnar yfir Sænautaseli

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Í Sænautaseli á Jökuldalsheiði hefur um árabil verið rekin ferðaþjónusta yfir sumartímann.

Á þessu gamla heiðabýli hafa gestir og gangandi getað gengið um torfhlaðin bæjarhúsin með sínum gildu röftum og séð ýmis amboð og búsmuni sveitabúskapar frá byrjun tuttugustu aldar, auk húsdýra, svo sem kýr, kinda, hesta, hæna, katta og hunda. Í gömlu fjárhúsi er rekin veitingastofa þar sem meðal annars kaffi og lummur eru á boðstólum.

Náttúrufegurðin og kyrrðin á heiðinni er einstök og útsýn víð, auk þess sem Sænautavatn skammt frá bænum er fallegt heiðarvatn, með stærri vötnum á Jökuldalsheiði og 23 m djúpt, þar sem veiðist silungur. Að jafnaði er Sænautasel opið frá byrjun júní og fram í september.

Lilja Hafdís Ólafsdóttir, bóndi á Merki á Efri-Jökuldal, rak ferðaþjónustuna í Sænautaseli nær sleitulaust í þrjátíu ár, eða allt frá því að húsin voru endurbyggð. Síðasta sumarið hennar sem rekstraraðili var í fyrra en eftir það lagði hún hið metnaðarfulla uppbyggingarverkefni í hendur nýs aðila og tekur sá við góðu búi, enda langur vegur frá því er Lilja bjó fyrstu sumrin í gamla torfbænum, var með kú í torffjósinu og vaskaði upp í læknum.

Iðulega er tekið á móti hópum í Sænautaseli og þá jafnvel slegið upp matarveislu þar sem boðið er upp á nýveiddan silung úr vatninu við bæinn.

Sænautasel samt við sig

Björn Hallur Stefánsson, einnig búsettur í Merki, tók við rekstri Sænautasels í fyrrahaust. Hann er ekki ókunnugur rekstrinum því hann hafði verið Lilju til aðstoðar frá 1997. Björn Hallur segir að ferðaþjónustan í sumar verði með hefðbundnum hætti „Jú, þetta verður haft í sama hefðbundna stílnum, hann hefur reynst vel,“ segir hann. Boðið verði upp á gistingu í gamla bænum, tjaldsvæði án rafmagns, leiðsögn um bæjarhúsin og tekið á móti hópum í veitingar í fjárhúsinu ef pantað er fyrir fram. Þar séu á boðstólum lummur, kaffi og kakó og jafnvel eldaður silungur úr vatninu ofan í hópa. Gestir geta keypt veiðileyfi í Sænautavatn og hægt er að leika sér á hjólabátum á Kílnum þegar þannig viðrar. Björn Hallur segist halda að opnað verði fyrir ferðafólk að Sænautaseli um eða eftir miðjan júní. „Við opnum þegar vegurinn hefur þornað og búið er að hefla hann,“ og er bjartsýnn fyrir komandi sumri.

Ferðamenn og heimafólk leggja gjarnan leið sína í Sænautasel á Jökuldalsheiði til að skoða gamla búskaparhætti heiðabýlisins. Áætlað er að opna laust eftir miðjan júní.

Fyrirmynd Bjarts

Sænautasel stendur í 525 m.y.s. og var byggt árið 1843 úr landi Hákonarstaða. Þar var búið í um öld og var um tíma búseta á allt að sextán bæjum á Jökuldalsheiðinni. Byggð eyddist að mestu leyti í Öskjugosi 1875 og Sænautasel stóð þá autt um fimm ára skeið. Síðasta fólkið flutti þaðan 1943.

Sænautasel var endurbyggt árið 1992 og aftur að hluta 2010. Bærinn er um fimm kílómetra frá gömlu þjóðleiðinni um Möðrudalsöræfi og Jökuldalsheiði.

Ýmsir munu kannast við að fyrirmynd Bjarts í Sumarhúsum í skáldsögu Halldórs Kiljan Laxness, Sjálfstæðu fólki, hefur verið talin komin frá Sænautaseli en Kiljan gisti þar á ferð sinni um Austurland haustið 1926. Er skáldsagan talin spanna tímabilið 1899 til 1921. Fleiri skáld rituðu um heiðabúskapinn svokallaða, svo sem Gunnar Gunnarsson og Jón Trausti.

Sölufélagið í góðu lagi
Fréttir 17. júlí 2025

Sölufélagið í góðu lagi

Nú hafa Sölufélag garðyrkjumanna, Báran stéttarfélag og Framsýn stéttarfélag und...

Bændur harka af sér
Fréttir 16. júlí 2025

Bændur harka af sér

Ný rannsókn bendir til þess að fólk sem starfar í landbúnaði sé ólíklegt til að ...

Getur leyst plast af hólmi
Fréttir 16. júlí 2025

Getur leyst plast af hólmi

Frumkvöðlafyrirtækið Marea Iceland hyggst setja á markað umhverfisvænt húðunaref...

Auglýsingar um sveppadropa og -duft ámælisverðar
Fréttir 16. júlí 2025

Auglýsingar um sveppadropa og -duft ámælisverðar

Verslunin Hugur Studio, sem rekin er af Hemmet ehf., hefur verið kærð fyrir afdr...

Átak um öryggi barna í sundi
Fréttir 16. júlí 2025

Átak um öryggi barna í sundi

Rauði krossinn á Íslandi hefur hleypt af stokkunum fræðslu- og forvarnarátaki um...

Pöddur í hundamat
Fréttir 15. júlí 2025

Pöddur í hundamat

Fyrirtæki hafa sett á markað hundamat úr skordýrum. Slíkt fæði hefur minna kolef...

Orkuskipti í Flatey
Fréttir 15. júlí 2025

Orkuskipti í Flatey

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og Elías Jónatans...

Landeldi við Hauganes
Fréttir 15. júlí 2025

Landeldi við Hauganes

Laxós ehf. áformar uppbyggingu og rekstur fiskeldisstöðvar norðan Hauganess, þar...