Sátt í ullargreiðslumálinu
Sátt var gerð í máli Bjarna Sigurjónssonar, sauðfjárbónda á Fornustekkum í Hornafirði, á hendur íslenska ríkinu þar sem krafist var bóta vegna vangreiddra ullargreiðslna.
Málflutningurinn átti að fara fram í Héraðsdómi Reykjavíkur 29. janúar en réttarsátt var gerð milli aðila þannig að munnlegur flutningur málsins féll niður. Helgi Jóhannesson hæstaréttarlögmaður fór með málið fyrir hönd Bjarna. Hann segir að íslenska ríkið hafi fallist á að greiða höfuðstól stefnukröfunnar að viðbættum dráttarvöxtum frá þingfestingardegi til greiðsludags. Þá greiðir íslenska ríkið allan málskostnað einnig. Hann segir að málið sé fordæmisgefandi fyrir rúmlega 1.600 aðra sauðfjárbændur sem einnig fengu of lítið greitt frá ríkinu fyrir ullarinnlegg sitt á árunum 2016-2017. Kröfuupphæðir eru mismunandi eðli málsins samkvæmt, allt frá nokkrum þúsundum króna upp í meira en eina milljón króna á bónda, auk vaxta. Samtals eru þetta yfir 200 milljónir sem um ræðir.
Fjárhagstjón fyrir bændur
Fjallað var um málið hér í blaðinu í júní á síðasta ári þegar það var þingfest. Þar kom fram að málið snérist um bráðabirgðaákvæði sem sett var í reglugerð 17. desember 2017, þar sem uppgjörstímabilinu vegna ullargreiðslna til bænda var breytt. Tímabilið sem áður var frá 1. nóvember til 31. október var þannig lengt til 31. desember 2017, úr 12 mánuðum í 14 mánuði, án þess að fjármunum væri bætt við málaflokkinn af hálfu ríkisins. Af þeim sökum dreifðust fjármunirnir, sem eyrnamerktir voru til málaflokksins á þessu eina tímabili, á meira magn ullar en ella með tilheyrandi fjárhagstjóni fyrir bændur.
Þá var haft eftir Helga að umboðsmaður Alþingis hefði komist að þeirri niðurstöðu í áliti sínu að bráðabirgðaákvæði reglugerðarinnar væri ólögmætt. Að breytingin hafi farið gegn réttmætum væntingum ullarframleiðenda um greiðslur, sem höfðu lagt inn ull á tímabilinu 1. nóvember til 31. desember 2017, auk þess sem í ákvæðinu hafi falist afturvirk reglusetning.
Dómsáttin og jafnræðisregla stjórnsýsluréttarins
Helgi segir að með dómsáttinni nú og eftirfarandi uppgjöri við ullarframleiðendur sé nú loks komin niðurstaða í þetta langvinna deilumál, en ríkið gerði dómsátt við sjö ullarframleiðendur á árinu 2022 á sama grundvelli.
Málalokin nú séu því í samræmi við þau málalok og jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins.
Nýtt Bændablað kom út í dag