Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Hægt er að fjölga íbúðum á markaði á skjótan hátt með einfaldri lagasetningu sem miðar að því að koma í veg fyrir brask með íbúðarhúsnæði fólks.
Hægt er að fjölga íbúðum á markaði á skjótan hátt með einfaldri lagasetningu sem miðar að því að koma í veg fyrir brask með íbúðarhúsnæði fólks.
Mynd / HKr
Skoðun 28. febrúar 2022

Samfélagssóðaskapur

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Húsnæðismarkaðurinn á Íslandi, og þá sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, er kominn í algjört öngstræti og kallar á tafarlausar aðgerðir stjórnvalda.

Það eru svo sem ekki ný sannindi að fasteignamarkaðurinn fari úr böndum, en nú er staðan bara orðin algjörlega óviðunandi og ófyrirgefanlegt ef stjórnvöld grípa ekki þegar í stað inn í og höggva á hnútinn.

Styrkir og stuðningur með peninga­útlátum til kaupenda fasteigna leysir þó ekki þennan vanda, slíkt er fullreynt. Allar tilraunir til að laga stöðu fasteignakaupenda og sérstaklega þeirra sem eru að kaupa í fyrsta sinn og hafa ekki úr miklu að spila, hafa að mestu mistekist. Aðstoð í gegnum skattakerfið, vaxtabótakerfi og annað hefur iðulega verið snarlega rænt af fólki með hækkuðu fasteignaverði. Sama á við um leigumarkaðinn. Leigan hækkar strax sem nemur stuðningi og rúmlega það.

Hækkun fasteignaverðs hefur ótvíræð áhrif á hækkun neysluvísutölu og þar með talið verðbólgu með tilheyrandi keðjuverkunaráhrifum.

Hlutverk Seðlabanka Íslands er m.a. að reyna að hafa áhrif á eftirspurnarhliðina með stýrivaxtaákvörðunum sínum. Reynt er að slá á þenslu með hækkun stýrivaxta. Gallinn er bara sá að aldrei hafa jafn fáar fasteignir verið í boði á markaði og nú. Hækkun stýrivaxta til að hemja íbúðakaup og verðbólgu virkar því miður ekki við þessar aðstæður, hvað sem okkar ágætu sérfræðingarnir segja.

Nú virðist algjört úrræðaleysi ríkjandi um hvað skuli gera, en samt mætti ætla að lausnin sé nokkuð augljós, þ.e. að auka framboð ódýrara húsnæðis á markaði. Áætlað er að íbúðaskorturinn nemi þúsundum íbúða á ári. Spurningin er því hvort menn ætli bara að halda áfram að standa aðgerðarlausir og klóra sér í höfðinu í stað þess að leita lausna sem virka?

Það er hægt að fjölga íbúðum á markaði á skjótan hátt með einfaldri lagasetningu sem miðar að því að koma í veg fyrir brask með íbúðarhúsnæði fólks. Með því yrði losað um mikinn fjölda íbúða sem eru bundnar í þessu fjárhagslega spilavíti. Fólk hlýtur þá að spyrja sig hverjir hafi helst hagsmuni af því að koma í veg fyrir slíka lagasetningu. Þau hagsmunaöfl verða þá að koma fram og færa rök fyrir því að halda áfram því stjórnleysi sem ríkir á markaðnum. Þar dugar ekki einungis að vísa í heilagleika viðskiptafrelsis og eignarréttar. Viðskiptafrelsið og eignarrétturinn eru nefnilega einskis virði ef ekkert samfélag almennings er þar á bak við. Varla mælir nokkur maður gegn því að samfélagsleg ábyrgð vegi þyngra í því samhengi en einkahagsmunir. Allavega ef við ætlum á annað borð að reka ábyrgt samfélag manna á Íslandi, ekki þrælabúðir í þágu stóreignamanna.

  • Af hverju er ekki strax gripið til lagasetningar til að koma böndum á brask með íbúðir?
  • Af hverju eru ekki strax sett lög sem takmarka fjölda íbúða í eigu eignar­halds­félaga sem ekki eru rekin á félags­legum grunni?
  • Af hverju eru ekki strax sett lög sem takmarka eign einstaklinga á fjölda íbúða sem ekki eru til eigin nota?
  • Af hverju eru ekki strax sett lög um hámarksgjald fyrir leigu á íbúðum sem gæti miðast við hlutfall af endur­stofnverði viðkomandi íbúðar miðað við t.d. 40 til 60 ára afskriftartíma?
  • Hvers vegna krefjast verkalýðsfélög þess ekki að strax verði sett lög í þessa veru?
  • Er virkilega einhver glóra í því fyrir íslenskt samfélag að halda núverandi endaleysu áfram?

Skylt efni: Húsnæðismál

Glæsilegt Íslandsmót í hestaíþróttum
Fréttir 11. júlí 2025

Glæsilegt Íslandsmót í hestaíþróttum

Íslandsmót fullorðinna og ungmenna var haldið á Brávöllum á Selfossi dagana 25. ...

Sýklalyfjaónæmar bakteríur í íslenskum svínum
Fréttir 11. júlí 2025

Sýklalyfjaónæmar bakteríur í íslenskum svínum

Matvælastofnun (MAST) greindi frá því í byrjun mánaðar að MÓSA bakteríur hefðu g...

Ársfundi LSB frestað aftur
Fréttir 11. júlí 2025

Ársfundi LSB frestað aftur

Í sumar hefur þurft að fresta ársfundi Lífeyrissjóðs bænda tvisvar.

Þrjár varnarlínur lagðar niður og hólfum fækkað
Fréttir 11. júlí 2025

Þrjár varnarlínur lagðar niður og hólfum fækkað

Þrjár sauðfjárveikivarnarlínur hafa verið lagðar niður og fækkar varnarhólfum um...

Hvíla þarf kartöflugarða í Þykkvabænum í þrjú ár
Fréttir 11. júlí 2025

Hvíla þarf kartöflugarða í Þykkvabænum í þrjú ár

Atvinnuvegaráðuneytið hefur sent kartöflubændunum í Hrauk í Þykkvabænum fyrirmæl...

Ný nálgun í vörnum gegn dýrasjúkdómum
Fréttir 10. júlí 2025

Ný nálgun í vörnum gegn dýrasjúkdómum

Róttækar breytingar eru að verða á regluverki varna gegn dýrasjúkdómum.

Salmonella á Kvíabóli
Fréttir 10. júlí 2025

Salmonella á Kvíabóli

Matvælastofnun (MAST) hefur sent út tilkynningu um að salmonella hafi greinst á ...

Rekstrarvandi vegna samdráttar í útflutningi
Fréttir 10. júlí 2025

Rekstrarvandi vegna samdráttar í útflutningi

Eftir þungan rekstur síðasta vetur glímir ullarvinnslufyrirtækið Ístex við fjárh...