Rifs- og sólber
Rifsberjarunni og sólber eru harðgerðir runnar en til þess að fá ríkulega berjauppskeru verða þeir að standa á sólríkum og skjólgóðum stað. Berjarunnar þrífast best í djúpum og vel framræstum jarðvegi. Hæfilegt bil á milli planta er 1,5- 2 metrar.
Árleg áburðarþörf berjarunna er 25-35 gr. á fermetra af garðaáburði. Viðhaldsklipping og grisjun er nauðsynleg til þess að fá birtu og betri loftun um runnana, berin þroskast betur í birtunni, skilyrði fyrir óværu og kvilla verða lakari.
Ungar greinar gefa stærri og fleiri ber og er talið hæfilegt að greinar rifsrunna séu yngdar upp eftir 5-6 ár en sólberjarunna 3-4 ár. Gömlu greinarnar eru þá klipptar alveg niður við rót. Auðvelt er að þekkja gömlu greinarnar frá þeim ungu því þær eldir eru dökkbrúnar eða svartar á litinn með flagnaðan börk en þær yngir ljós gulbrúnar og sléttar.