Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Riða
Leiðari 9. júní 2023

Riða

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir, ritstjóri Bændablaðsins

Í þessu tölublaði Bændablaðsins eru heimsóttir bændur á fjórum bæjum, sem urðu fyrir því áfalli að skera þurfti niður lífsviðurværi þeirra vegna riðu. Frásögn þeirra er sláandi og því eiga orð bændanna þennan dálk:

Guðrún Hulda Pálsdóttir

„Maður upplifir svo mikið varnarleysi, þú hefur ekkert val þegar þú lendir í riðuniðurskurði, þú verður bara að fara að lögum og sitja hljóð hjá þegar bústofninn þinn er sóttur og drepinn – allt það sem þú hefur byggt upp. Þetta er alveg ofboðslegt tilfinningalegt tjón og hrikalegt að lenda í! [...] við vorum öll afar beygð daginn sem bústofninn var sóttur og keyrður burt í síðasta sinn enda áttu allir sínar uppáhaldskindur. Þarna voru í hópnum m.a. Blíða gamla, Flekka, Eik, Bolla & Dísa – bara bless, og við sjáum ykkur ekki aftur. Síðan taka við þessi ár þegar enginn sauðburður er og svo fyrstu göngurnar þegar við eigum enga kind í fjöllunum, það var mjög erfitt. Auðvitað er sauðfjárrækt búin að vera stór þáttur í lífi okkar og lífsstíll,“ segir Fjóla Viktorsdóttir á Syðra-Skörðugili í Skagafirði, en búfjárstofn hennar og eiginmannsins, Elvars Einarssonar, var skorinm niður árið 2021. Hann segir: „Okkur sýnist að allir lendi í því sama, bændur hafa í raun ekkert val og skulu gjöra svo vel að undirgangast ákvæði reglugerðarinnar eins og lög gera ráð fyrir [...] Það var lítið hægt að bæta við eða breyta því sem stendur í reglugerðinni. Þannig að við skrifuðum bara undir og héldum lífinu áfram.“

Gunnar Sigurðsson á Stóru-Ökrum 1 í Skagafirði, sem, ásamt Svanhildi Pálsdóttur, missti allan sinn bústofn vegna riðu árið 2020, segir: „Eins og ljóst má vera af nýlegum málum, til dæmis í Miðfirði, þá er staðreyndin sú að maður getur ekki byrjað á sama stað og maður var á þegar niðurskurðurinn varð. Þú þarft alltaf að borga dálítið mikið með þér. [...] Áfallið hjá mér var fyrst og fremst samfélagslegt, því við vorum á hreinu svæði þar sem hægt var að eiga í viðskiptum með gripi, samgangur var opinn, það voru hrútasýningar og heilmikill félagsskapur í kringum sauðféð. Nú skall allt í lás og ég sá fyrir mér að þetta yrði mikið áfall – sem auðvitað kom á daginn. Ég upplifði þetta þannig að við bændur hættum bara að tala saman.“

Elín Anna Skúladóttir á Bergsstöðum í Miðfirði segir: „Það var hræðilega erfitt að sjá á eftir kindunum sínum sem áttu nokkrar vikur í burð, hlaupa upp á sláturbílinn. Flestar þeirra voru einstakir karakterar og miklir vinir okkar og maður sá í augum þeirra hvað þær voru óttaslegnar á þessari ringulreið.“

Ari G. Guðmundsson, Bergstöðum: „Auðvitað hefur þetta ferli allt verið mjög erfitt, en þó var líðanin verst þessa páskadaga sem við þurftum að gefa fénu sem eftir var – vitandi að það væri að fara. Fyrri hópurinn fór á föstudaginn langa og sá síðari annan í páskum. Og enn verra var reyndar að horfa á eftir fénu frá nágrönnum okkar á Urriðaá.“

Dagbjört Diljá Einþórsdóttir á Urriðaá lýsir upplifun sinni: „Við urðum vitni að því, þegar allt varð stopp með urðunarstaði og hræin voru búin að vera um sólarhring við sláturhúsið á Hvammstanga, að allt í einu sjáum við að það er verið að flytja rollurnar okkar í gámum að flugvellinum á Króksstöðum í Miðfirði. Sá bær blasir við okkur út um stofugluggann. Þá hafði verið ákveðið í skyndi að urða hræin þar án þess að skoða aðstæður almennilega.“

Ólafur Rúnar Ólafsson á Urriðaá segir: „Við náðum einhvern veginn aldrei að syrgja rollurnar fyrr en nokkru seinna. [...] Við vorum svo á kafi í þessu ræktunarstarfi að það er erfitt að útskýra hvað það hafði mikil áhrif á okkur að lenda í þessu – höfðum legið yfir skýrsluhaldinu í Fjárvís til að móta okkar eigin línur í ræktuninni sem hefur tekið allan okkar tíma hér þótt stuttur sé.“

„Það er heldur vonlítið fyrir okkur núna að standa í einhverju stríði um að fá sómasamlegan samning um réttlátar greiðslur fyrir okkar bústofn,“ segir Dagbjört.

Ný nálgun í vörnum gegn dýrasjúkdómum
Fréttir 10. júlí 2025

Ný nálgun í vörnum gegn dýrasjúkdómum

Róttækar breytingar eru að verða á regluverki varna gegn dýrasjúkdómum.

Salmonella á Kvíabóli
Fréttir 10. júlí 2025

Salmonella á Kvíabóli

Matvælastofnun (MAST) hefur sent út tilkynningu um að salmonella hafi greinst á ...

Rekstrarvandi vegna samdráttar í útflutningi
Fréttir 10. júlí 2025

Rekstrarvandi vegna samdráttar í útflutningi

Eftir þungan rekstur síðasta vetur glímir ullarvinnslufyrirtækið Ístex við fjárh...

Tíunda íslenska kýrin til að ná 100 þús. kg æviafurðum
Fréttir 8. júlí 2025

Tíunda íslenska kýrin til að ná 100 þús. kg æviafurðum

Þann 18. júní sl. rauf afrekskýrin Snotra 273 í Villingadal í Eyjafirði 100 þús....

Tíu birkiskógar skuli njóta verndar
Fréttir 4. júlí 2025

Tíu birkiskógar skuli njóta verndar

Land og skógur hefur gefið út fyrstu skrána um sérstæða eða vistfræðilega mikilv...

Súlur 2025 komnar út
Fréttir 4. júlí 2025

Súlur 2025 komnar út

Tímaritið Súlur kom út á dögunum. Súlur er ársrit Sögufélags Eyfirðinga og hefur...

Metfjöldi gesta á Skógardeginum mikla
Fréttir 4. júlí 2025

Metfjöldi gesta á Skógardeginum mikla

Nýr Íslandsmeistari í skógarhöggi og fleiri keppnisgreinum var krýndur í Hallorm...

Útvarp Bændablaðið: Samruni Arla og DMK gefur möguleika á gríðarlegri hagræðingu
Fréttir 4. júlí 2025

Útvarp Bændablaðið: Samruni Arla og DMK gefur möguleika á gríðarlegri hagræðingu

„Kannski sýnir þessi samruni hversu gríðarlega stærðarhagkvæmni er í söfnun og v...