Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Rekstrarverkefni kúabúa
Á faglegum nótum 22. mars 2023

Rekstrarverkefni kúabúa

Höfundur: Kristján Ó. Eymundsson og María S. Jónsdóttir, ráðunautar á rekstrar- og umhverfissviði RML.

Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins hefur staðið fyrir rekstrarverkefni meðal kúabænda í ein þrjú ár. Viðbrögð þeirra við þessu verkefni hafa verið vonum framar en þátttakan hefur aukist mikið frá upphafi – á meðan starfandi kúabúum hefur farið fækkandi á landsvísu.

Verið er að leggja lokahönd á skýrslu vegna þátttökuársins 2022 og verður hún aðgengileg á heimasíðu RML nú í mars. Meginmarkmiðið með verkefninu hefur alltaf verið það að bændur fái heildstæða greiningu á sínum rekstri svo að þeir sjái styrkleika og veikleika í eigin rekstri. Árið 2021 er fyrsta rekstrarárið þar sem bændur, sem voru með í verkefninu frá upphafi, gátu nýtt sér rekstrargreininguna til að stýra sínum rekstri með hliðsjón af niðurstöðunum. Því er mjög ánægjulegt að sjá, þegar gerður er samanburður á rekstrarárunum 2019-2021, að víða hafa orðið jákvæð umskipti í búrekstri hjá þátttökubúunum.

Með verkefninu varð til rekstrargrunnur sem nýtist við afkomuvöktun og hagsmunagæslu í greininni. Hér eru birtar helstu niðurstöður úr verkefninu. Um er að ræða samanburð á sömu 154 búunum fyrir öll árin og eru niðurstöður reiknaðar út frá beinum meðaltölum búanna.

Fjöldi og stærð þátttökubúa

Í byrjun voru 90 kúabú með í verkefninu en á síðasta ári voru þau orðin 154. Heildar mjólkurframleiðsla þessara 154 búa var um 38% af heildarinnleggi mjólkur á rekstrarárinu 2021. Bústærð og afurðasemi þátttökubúanna er heldur meiri en hjá meðalbúinu. Þannig var fjöldi árskúa að jafnaði um 59 árskýr á árinu 2021 á meðan landsmeðaltalið var um 50 árskýr. Afurðasemin er jafnframt heldur meiri, eða að jafnaði um 300 ltr eftir hverja árskú.

Framlegð búa

Þegar horft er á þróun í framlegðarstigi afurðatekna hefur það lækkað á tímabilinu, fer úr 53,5% árið 2019 niður í 51,8% árið 2021. Afurðatekjur hafa aukist en hafa ekki náð að halda í við hlutfallslega hækkun á aðföngum og aðkeyptri þjónustu.

Eins og kemur fram í töflu 1 um afurðatekjur og breytilegan kostnað er mikill breytileiki á milli búa. Meðalhagnaður af heildarrekstri búanna eykst aftur á móti á tímabilinu og var kominn í 1.400 þúsund krónur árið 2021.

Tafla 1

Áhrif bústærðar á framlegðarstig og afkomu

Bústærðin hefur verið að aukast að jafnaði um 1 árskú á ári. Út frá gögnum er þó erfitt að sjá mikla stærðarhagkvæmni í rekstri eftir að bústærð er komin yfir 50 árskýr. Ef reiknuð er út fylgni á milli framlegðarstigs afurðatekna og fjölda árskúa kemur í ljós að sambandið er mjög lítið (sjá mynd 1). Aukin bústærð hefur aftur á móti háa jákvæða fylgni (r=0,80) við heildar EBITDA en skilgreining á EBITDA er rekstrarafgangur bús fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta.

Mynd 1

Aukin bústærð hefur mjög jákvæð áhrif á fjárfestingagetu búanna. Aukin skuldsetning og þær fjármögnunarleiðir sem hafa verið í boði við framkvæmdir hefur þó leitt til þess að fyrirhugaður hagrænn ávinningur í rekstrarafkomu hefur oft tapast með auknum fjármagnskostnaði. Einnig hefur aukin skuldsetning haft neikvæð áhrif á launagreiðslugetu úr rekstri, sbr. mynd 2 um laun og skuldahlutfall. Þar er um að ræða meðaltal búa fyrir árin 2019-2021. Eðlilegt er að gera þá kröfu til framleiðsluumhverfisins að bættur aðbúnaður gripa skili sér ekki í lægri launum til bænda.

Mynd 2

Áhrif afurðasemi á framleiðslukostnað

Helstu tækifæri kúabænda liggja í aukinni afurðasemi og lægri breytilegum kostnaði á lítra.

Byggingarkostnaður íslenskra fjósa er mjög hár og fjárbinding mjög mikil. Því er mikilvægt að ná góðri framleiðslunýtingu á hvern bás. Einnig er það mikilvægt til að lækka sótspor framleiðslunnar. Í raun hefur hluti framleiðslustuðningsins virkað öfugt á þessi markmið sbr. gripagreiðslur á mjólkurkýr. Einnig hefur fyrirkomulag á viðskiptum og fjármögnun á greiðslumarki víða hamlað hagræðingu í greininni með tilliti til bættrar nýtingar á framleiðslugripum og framleiðsluaðstöðu.

Eins og kemur fram á mynd 3 um afurðasemi og framleiðslukostnað lækkar breytilegi kostnaðurinn að meðaltali með aukinni afurðasemi. Fjöldi á bak við hverja súlu er 32-33 bú nema í afurðahæsta flokknum en þar eru 24 bú á bak við niðurstöðuna. Búin með afurðasemi 5.500-6.000 ltr eru með hæsta hlutfallið (40%) af fjölda innlagðra geldneyta af árskúm, sem gerir það að verkum að afurðatekjurnar eru þar að reiknast hæstar. Hlutfall innlagðra geldneyta er svipað á milli hinna flokkanna en meðaltalið í gagnasafninu er 31,1%. Afurðahæsti flokkurinn framleiðir svo mestu mjólkina umfram greiðslumark (9%), sem er stærsta skýringin á að afurðaverðið er þar lægst.

Mynd 3

Skuldir

Heildarskuldir búanna aukast á tímabilinu og eru að jafnaði tæplega 122 milljónir króna í lok árs 2021 (sjá töflu 2). Fjármagnskostnaður, sem hlutfall af heildarveltu, hefur þó farið lækkandi. Það skýrist af tveimur meginþáttum. Í fyrsta lagi fór vaxtastig heldur niður á tímabilinu. Miðað við hvernig árið 2022 þróaðist, með hækkandi stýrivöxtum og aukinni verðbólgu, er þó ljóst að allt önnur sviðsmynd verður fyrir það ár.

Önnur meginskýring á hlutfallslega lækkandi fjármagnskostnaði er síðan aukin velta á búunum. Þar er þó ákveðið áhyggjuefni að afurðatekjur hafa verið að lækka sem hlutfall af heildartekjum af rekstri og þá sérstaklega hjá skuldsettari búunum.

Tafla 2

Að lokum

Ef reynt er að rýna í þróun ársins 2022 virðist sem hækkanir á afurðastöðvarverði mjólkur hafi náð að fylgja býsna vel eftir hækkunum á aðföngum og þjónustu. Sömu sögu er þó ekki hægt að segja um vaxtakostnaðinn og því hafa rekstrarskilyrði skuldsettra búa versnað til muna.

Eins og áður hefur komið fram í þessari grein mun það því með beinum eða óbeinum hætti hafa áhrif á laun bænda. Því er mikilvægt að ljúka vinnu við endurskoðun á verðlagsgrundvelli sem fyrst. Vegna mikillar fjármagnsbindingar í rekstri hefur greinin jafnframt mikla þörf fyrir aðgengi að þolinmóðu fjármagni.

Stefnt er á að flýta uppgjöri verkefnisins fyrir árið 2022 og birta milliuppgjör í vor til að meta nánar stöðu greinarinnar.

Sölufélagið í góðu lagi
Fréttir 17. júlí 2025

Sölufélagið í góðu lagi

Nú hafa Sölufélag garðyrkjumanna, Báran stéttarfélag og Framsýn stéttarfélag und...

Bændur harka af sér
Fréttir 16. júlí 2025

Bændur harka af sér

Ný rannsókn bendir til þess að fólk sem starfar í landbúnaði sé ólíklegt til að ...

Getur leyst plast af hólmi
Fréttir 16. júlí 2025

Getur leyst plast af hólmi

Frumkvöðlafyrirtækið Marea Iceland hyggst setja á markað umhverfisvænt húðunaref...

Auglýsingar um sveppadropa og -duft ámælisverðar
Fréttir 16. júlí 2025

Auglýsingar um sveppadropa og -duft ámælisverðar

Verslunin Hugur Studio, sem rekin er af Hemmet ehf., hefur verið kærð fyrir afdr...

Átak um öryggi barna í sundi
Fréttir 16. júlí 2025

Átak um öryggi barna í sundi

Rauði krossinn á Íslandi hefur hleypt af stokkunum fræðslu- og forvarnarátaki um...

Pöddur í hundamat
Fréttir 15. júlí 2025

Pöddur í hundamat

Fyrirtæki hafa sett á markað hundamat úr skordýrum. Slíkt fæði hefur minna kolef...

Orkuskipti í Flatey
Fréttir 15. júlí 2025

Orkuskipti í Flatey

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og Elías Jónatans...

Landeldi við Hauganes
Fréttir 15. júlí 2025

Landeldi við Hauganes

Laxós ehf. áformar uppbyggingu og rekstur fiskeldisstöðvar norðan Hauganess, þar...