Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Ráðherra fór yfir stöðu varðandi riðu í Skagafirði
Fréttir 30. október 2020

Ráðherra fór yfir stöðu varðandi riðu í Skagafirði

Höfundur: Vilmundur Hansen

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, gerði á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun grein fyrir stöðunni vegna staðfestrar riðuveiki í Skagafirði. Rannsóknir hafa leitt í ljós að riðuveiki er staðfest á fjórum sauðfjárbúum í Skagafirði, þ.e. Stóru-Ökrum 1, Syðri-Hofdölum, Grænumýri og Hofi í Hjaltadal.

Á vef Stjórnarráðsins segir að ráðherra hafi  fundinum gert grein fyrir stöðunni og þeim verkefnum sem við blasa. Fulltrúar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar áttu sameiginlegan fund um málið eftir hádegi í gær, meðal annars til að ræða mögulegar lausnir við förgun.

 Eftir fundin í morgun var haft eftir Kristjáni Þór Júlíussyni: „Ég hef lagt ríka áherslu á að það verði allt gert til að styðja við bændur á svæðinu í gegnum þetta áfall. Bæði fjárhagslega en um leið að allir þær ráðstafanir sem grípa þarf til verði framkvæmdar í samráði við bændur og af virðingu við þá skelfilegu stöðu sem þeir standa nú frammi fyrir. Í öllu þessi máli hefur verið mjög öflugt samstarf milli ráðuneyta og stofnanna og allir að róa í sömu átt.“