Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi.
Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi.
Mynd / af vefsíðu
Menning 2. október 2023

Öflugt safnastarf

Höfundur: Elín S. Sigurðardóttir forstöðumaður

Ágætis aðsókn hefur verið á sýningar Heimilisiðnaðarsafnsins í sumar. Nú er hefðbundnum opnunartíma lokið en opnað er sérstaklega fyrir hópa eftir samkomulagi.

Fyrir 20 árum var nýja safnhúsið vígt við hátíðlega athöfn en eins og flestir vita að þá tengist það við litla safnhúsið sem er tileinkað lífi og starfi Halldóru Bjarnadóttur (1873–1981).

Með tilkomu nýja hússins opnaðist gott aðgengi gesta að safninu og munum þess og á hverju ári er opnuð ný sýning textíllistafólks. Þessar sérsýningar hafa verið mjög ólíkar á milli ára en eiga það þó sameiginlegt að gefa innsýn í fjölbreyttan listiðnað og handmennt og eru verk sýninganna gjarnan innblásin af munum safnsins.

Sumarsýning/sérsýning ársins sem opnuð var í vor er fjölbreytt yfirlitssýning á textílverkum Philippe Richart (1952–2021). Philippe var fæddur í Alsír en fluttist ungur til Frakklands þar sem hann ólst upp. Hann kynntist þar íslenskri eiginkonu sinni, Jóhönnu Hálfdánsdóttur, frá Bolungarvík og fluttist með henni til Íslands árið 1979 og bjó hér ævina á enda. Philippe var búfræðingur að mennt en eftir að hann kom til Íslands lærði hann vefnað hjá Guðrúnu Vigfúsdóttur á Ísafirði.

Heillaðist hann af gæðum og eiginleikum íslensku ullarinnar sem varð grunnur að hans listsköpun. Frá 1995 starfaði hann að mestu sem handverks- og listamaður á handverksstofu sinni og kenndi auk þess ýmiss konar listiðn s.s. spjaldvefnað, myndvefnað, leðursaum og tálgun ýsubeina. Þemað í verkum hans tengdist íslenskri náttúru og lagði hann áherslu á að viðhalda íslenskum handverkshefðum og nota íslenskt hráefni.

Þá skal nefnt að mörg undanfarin ár hafa verið haldnir Stofutónleikar í Heimilisiðnaðarsafninu og margt þjóðþekkt fólk stigið þar á svið sem og heimafólk. Rétt eins og með sumarsýningarnar að þá hafa Stofutónleikarnir verið mjög ólíkir á milli ára en skapað sérstakan sess í viððburðum safnsins og menningarlífi héraðsins.

Í sumar var það óperusöngkonan Alexandra Chernyshova sem söng fyrir okkur en um árabil bjó hún ásamt fjölskyldu sinni í Skagafirði og er okkur að góðu kunn. Alexandra hefur ekki aðeins sungið sig inn í hug og hjörtu landsmanna, heldur komið fram víða um heim. Áður en Alexandra fluttist til Íslands var hún fastráðin einsöngvari við óperuna í Kyiv.

Á Stofutónleikum myndast oft mikil og góð stemning enda nálægð flytjenda og tónlistargesta mikil. Hvað viðburði varðar á næstunni að þá er að venju stefnt á góðan fyrirlestur og síðar í haust mun verða haldið námskeið um íslenska þjóðbúninga og þjóðbúningaskart í samstarfi við Byggðasafn Skag- firðinga og Byggðasafn Húnvetninga og Stranda. Þá munum við halda í þá hefð að bjóða upp á Upplestur á aðventu ásamt heitu súkkulaði og smákökum. Þegar haustar að hefst ævinlega vinna við innra starf safnsins, s.s. skráningu og varðveislu á nýjum aðföngum sem og frágangi á rannsóknarverkefnum

Heimilisiðnaðarsafnið er viðurkennt safn en til að hljóta hana þarf að uppfylla fjölmörg skilyrði bæði um sjálfstæði, eignarhald og ábyrgð í rekstri. Safnið hefur hlotið ýmsar viðurkenningar en daglegt þakklæti og hlýja safngesta ásamt fallegum ummælum vegna upplifunar, hughrifa og fróðleiks á sýningum safnsins er það sem stendur uppúr.

Skylt efni: söfnin í landinu

Bláskógabyggð fremst í flokki
Fréttir 12. nóvember 2025

Bláskógabyggð fremst í flokki

Bláskógabyggð hefur verið útnefnd í fyrsta sæti af fjórum „Sveitarfélögum ársins...

Þjónustumiðstöð byggð á Blönduósi
Fréttir 11. nóvember 2025

Þjónustumiðstöð byggð á Blönduósi

Á dögunum voru kynnt áform um opnun þjónustumiðstöðvar, sem Drangar ehf. ætla að...

Nýr verslunarstjóri í Hrísey
Fréttir 11. nóvember 2025

Nýr verslunarstjóri í Hrísey

Ásrún Ýr Gestsdóttir tók í haust við sem verslunarstjóri Hríseyjarbúðarinnar. He...

Kosið um sameiningu Dalabyggðar og Húnaþings
Fréttir 11. nóvember 2025

Kosið um sameiningu Dalabyggðar og Húnaþings

Dalabyggð og Húnaþing vestra eru nú á fullu í sameiningarviðræðum en ákveðið hef...

Lítil ummerki varnarefna í lofti yfir Íslandi
Fréttir 10. nóvember 2025

Lítil ummerki varnarefna í lofti yfir Íslandi

Veðurstofan hefur vaktað ýmis efni í úrkomu og lofti á Stórhöfða í Vestmannaeyju...

Hörð andstaða gegn breytingum í samkeppnisátt
Fréttir 10. nóvember 2025

Hörð andstaða gegn breytingum í samkeppnisátt

Umsagnarferli um umdeild frumvarpsdrög þar sem breyta á búvörulögum, lauk 24. ok...

Raflínunefnd umdeild
Fréttir 10. nóvember 2025

Raflínunefnd umdeild

Sveitarfélög og hagsmunasamtök landeigenda hafa gagnrýnt fyrirhugaða stofnun raf...

Auknar rekstrartekjur RML
Fréttir 10. nóvember 2025

Auknar rekstrartekjur RML

Stjórn Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) hélt ársfund í Borgarnesi til þe...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f