Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Grænkál.
Grænkál.
Á faglegum nótum 23. júní 2020

Notum lífræna næringargjafa á matjurtirnar

Höfundur: Ingólfur Guðnason

Garðeigendur sem rækta matjurtir sínar sjálfir hafa nú, eða eru um það bil að ljúka við gróðursetningu þeirra. Margar matjurtir, til dæmis káltegundir og gulrófur eru gráðugar plöntur sem þurfa aðgang að nægri næringu allan vaxtartímann.

Fyrir gróðursetningu er settur áburður í jarðveginn sem plönturnar nýta sér fyrstu vikurnar meðan þær eru að koma sér fyrir í jarðveginum og hefja vöxt. Síðar á vaxtartímanum gengur á þann forða, plönturnar taka upp næringu og hluti hennar skolast út með rigningu. Þá er tilvalið að gefa aukanæringuna með lífrænum næringargjöfum.

Brokkolí.

Jarðvegslíf eykst með lífrænum áburði

Lífrænir næringargjafar eru húsdýraáburður, safnhaugamold, fiskimjöl og þörungamjöl og önnur efni sem hafa næringargildi fyrir plönturnar. Sá grundvallarmunur er á lífrænum og tilbúnum áburði að sá lífræni þarf að brotna niður í jarðveginum til að hann komi plöntunum til góða. Niður­brotsferlið verður fyrir tilstilli smádýra og örvera sem nýta lífræna efnið til að þrífast og skila því að lokum aðgengilegu fyrir plönturæturnar. Með því að nota lífrænan áburð erum við því að stuðla að auknu jarðvegslífi. Tilbúinn áburður er aðgengilegur um leið og hann blotnar og hefur engin, eða jafnvel slæm áhrif á jarðvegslíf og eðliseiginleika jarðvegsins.

Bætt jarðvegsbygging

Lífrænir áburðargjafar eins og safnhaugamold og húsdýraáburður hafa annan ótvíræðan kost í för með sér. Þeir hafa mjög jákvæð áhrif á jarðvegsbygginguna. Með notkun á slíkum næringargjöfum styrkist kornabygging jarðvegsins, hann verður loftríkur og rakastigið verður hentugt fyrir plönturnar. Hæfileg íblöndun með grófu, lífrænu efni er sem sagt til mikilla bóta og á þann hátt er gott að bæta jarðveg sem er orðinn blautur, loftlaus og duftkenndur. Aðrar lífrænar áburðargerðir eins og fiskimjöl og þörungamjöl hafa hátt næringargildi en auka ekki gæði jarðvegsins á sama hátt.

Við notkun húsdýraáburðar er rétt að nota skít sem hefur staðið lengi í haug áður en hann er notaður. Safnhaugamold þarf líka að vera orðin nokkuð gömul til að hún komi að fullum notum.

Notkun

Þegar matjurtaplönturnar eru orðnar nokkuð stálpaðar er ágætt að dreifa á beðin þunnu lagi af lífrænum áburði og klóra hann niður í efsta lag jarðvegsins. Vövkun sér síðan um að færa hann nær rótarkerfi plantnanna og örverur jarðvegsins taka að brjóta hann niður. Hægt er að miða við að dreifa gömlum húsdýraáburði eða safnhaugamold  tvö eða þrjú skipti á vaxtartímanum, nokkurra sentimatra lag í senn í matjurtabeðið eða sem nemur einum lítra á hvern fermetra af vel sigtuðu efni. Salat, gulrætur og aðrar jurtir sem þurfa minni næringu þurfa aðeins helming þess sem td. kálplöntur þurfa. Gæta þarf þess að skola blaðsalat vel eftir dreifingu. Þegar kemur fram í miðjan ágústmánuð er yfirleitt óþarfi að gefa viðbótarnæringu. Mjölkenndur áburður eins og fiskimjöl er notað á sama hátt en í mun minna magni, 50-100 grömm á fermetra í hvert sinn.

Afurðir heimilisjarð­gerðarinnar nýtist í matjurtaræktina

Sjálfsagt er að nota það sem fellur til við jarðgerð garða- og eldhúsúrgangs í matjurtabeðin. Þannig má slá margar flugur í einu höggi, draga úr kostnaði við sorphirðu, fá ljómandi góða næringu í beðin og bæta eðliseiginleika, örveru- og næringar­ástand jarð­vegsins til að auka vöxt og heilbrigði mat­jurtanna. Að sjálfsögðu er svo hægt að nota hráefni jarðgerðarinnar í blómabeð, grasflötina og sem næringu á trjá- og runnabeð.

Heimsmet í skráningum
Fréttir 12. júní 2025

Heimsmet í skráningum

Hið árlega Reykjavíkurmeistaramót Fáks fer fram nú í vikunni í Víðidalnum. Þetta...

Heildarlög um loftslagsmál
Fréttir 12. júní 2025

Heildarlög um loftslagsmál

Drög að frumvarpi til nýrra heildarlaga um loftslagsmál hefur verið birt í Samrá...

Auðhumla sýknuð í máli um umframmjólk
Fréttir 12. júní 2025

Auðhumla sýknuð í máli um umframmjólk

Héraðsdómur Suðurlands sýknaði samvinnufélagið Auðhumlu af kröfum einkahlutaféla...

Landbúnaðarstuðningur ígrundaður
Fréttir 12. júní 2025

Landbúnaðarstuðningur ígrundaður

Í nýrri skýrslu um svæðisbundinn stuðning í íslenskum landbúnaði er nokkrum mögu...

Salmonella í Fellshlíð
Fréttir 12. júní 2025

Salmonella í Fellshlíð

Salmonella hefur greinst á kúabúinu Fellshlíð í Eyjafirði. Matvælastofnun hefur ...

Bændum tryggt svigrúm til hagræðingar
Fréttir 12. júní 2025

Bændum tryggt svigrúm til hagræðingar

Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra segir að vinna standi yfir við nýtt...

Nýtt mælaborð í Jörð
Fréttir 11. júní 2025

Nýtt mælaborð í Jörð

Mælaborði hefur verið bætt í skýrsluhaldskerfið Jörð.is og auðveldar það bændum ...

Lífgúmmí framleitt úr birkiberki
Fréttir 10. júní 2025

Lífgúmmí framleitt úr birkiberki

Gúmmíiðnaðurinn hefur verið að þróast, m.a. í viðleitni til að minnka kolefnisfó...