Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Sáning, áburðardreifing og jarðvinnsla er unnin að mestu leyti með einni vél.
Sáning, áburðardreifing og jarðvinnsla er unnin að mestu leyti með einni vél.
Mynd / Úr einkasafni
Í deiglunni 26. maí 2023

Nákvæmnisbúskapur skiptir sköpum

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Nákvæmnisbúskapur er að ryðja sér til rúms og íslenskir bændur farnir að nýta sér tækni sem gerir þeim kleift að safna dýrmætri þekkingu og hámarka skilvirkni.

Landbúnaður er með elstu atvinnugreinum og í tímans rás hefur hann þróast og tileinkað sér nýjungar til að létta störfin og bæta gæði og framlegð. Nú á tímum hinnar svokölluðu fjórðu iðnbyltingar, sem sögð er fela í sér tækniframfarir í veldisvexti, hefur landbúnaðurinn ekki farið varhluta af tækniþróun. Nákvæmnisbúskapur (e. Precision Land Management) er ein birtingarmynd þess og á væntanlega eftir að valda straumhvörfum í greininni og er þegar farinn að gera það á íslenskri grund.

Nákvæmnisbúskapur felur í sér upplýsingasöfnun; að kortleggja breytileika í ræktunarlandi til að auka arðsemi ræktunar og draga úr neikvæðum áhrifum á umhverfið. Hann fjallar um GPS-tækni, snjöll farartæki sem búa yfir ýmsum stjórnbúnaði og hugbúnaði fyrir landbúnað. Unnt er að staðsetja vinnu til dæmis dráttarvélar svo varla skeikar sentímetra. Þetta má nýta meðal annars til aukinnar nákvæmni í að plægja og herfa land, í sáningu og uppskeru og samhliða eru reiknuð ýmis skilvirknigögn, svo sem vegalengdir og eldsneytisnotkun á ha/klst. Bændur geta haft fullkomna stýringu á til dæmis sáningu, áveitu og áburði til að hámarka afraksturinn og stjórna nákvæmlega hversu mikið er notað af hverju, hvenær og hvar. Stöðugt er leitast við að draga úr kostnaði og sóun, auka uppskeru en lágmarka álag á umhverfið, að gera meira með minna, enda aðföng bænda svo sem fræ, áburður, orka og vatn oft og tíðum kostnaðarsamir liðir.

Nákvæmnisbúskapur hefur vissulega á ýmsan hátt verið stundaður í allnokkurn tíma en hann er um þessar mundir í hraðri þróun. Á heimsvísu skiptir verulegu máli að um leið og fólki fjölgar sé hægt að nýta tækni með jákvæðum hætti til að hámarka fæðuframleiðslu með bestu nýtingu. Þarna eru bændur í fararbroddi með einhverja verðmætustu auðlindina, jarðveginn.

Björgvin Þór Harðarson, svína- og kornbóndi í Laxárdal. Mynd/ghp

Nýjar aðferðir

Á Íslandi hafa bændur nýtt GPS- tækni í til dæmis áburðardreifingu, safnað er raungögnum um ræktað land, jarðvegsgerð, gróðurþekju, uppskeru, innihald mjólkur, við beiðslisgreiningar og ýmislegt fleira.

Björgvin Þór Harðarson, svína- og kornbóndi og iðnaðartæknifræðingur í Laxárdal í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, hélt á dögunum fyrirlestur á ársfundi Landbúnaðarháskóla Íslands þar sem hann ræddi meðal annars um kornrækt, nákvæmnisbúskap og nauðsyn á samvinnu landbúnaðar- greina. Í Laxárdal er rekið svínabú undir nafninu Korngrís og ræktað bygg, nepja, hveiti, rúgur og hafrar. Svínin eru að mestu leyti alin á íslensku fóðri. Í dag fer öll kornrækt Laxárdals fram í Gunnarsholti, á um 340 ha lands.

Í erindi Björgvins kom fram að nú sé sáning, áburðardreifing og jarðvinnsla unnin að mestu leyti með einni vél sem geri allt og þannig náist svokölluð lágmarksvinnsla. Vélin valti, annist sáningu, á henni sé diskaherfi og hún dreifi áburði, allt í sömu ferðinni. Þessi aðferð sé nú í mjög vaxandi mæli notuð, ekki síst vestanhafs, til þess meðal annars að koma í veg fyrir jarðvegsrof eftir sáningu. Björgvin beitir að vísu aðeins meiri jarðvinnslu, akrarnir eru fyrst herfaðir og vélinni svo beitt sem þýðir að farnar eru tvær ferðir yfir akurinn. Nýja vélin bjóði þannig upp á nýjar aðferðir við jarðvinnsluna.

Þá hafi hann í ár tekið í notkun dráttarvélar sem stýrt sé með GPS og með nákvæmni upp á um 2,5 cm. Stuðst sé við leiðréttingarkerfi sem Landmælingar Íslands reki, það sé grunnþjónusta sem látin sé endurgjaldslaust í té og þannig hægt að nýta hina nýju tækni nákvæmnisbúskaparins. Í ESB- löndunum sé sú stefna að ryðja sér til rúms að allar dráttarvélar sem vinni á ökrum verði GPS-stýrðar, til eftirlits og lágmörkunar og hámarksnýtingar áburðargjafar.

Björgvin tók sem dæmi að traktorinn hans keyri í Gunnarsholti eftir GPS-merki, ekki þurfi að stýra honum og hann keyri sjálfur fram og til baka um akrana. „Við ætlum að gera þetta í kornræktinni, fara beint yfir í þá tækni sem búið er að finna upp núna,“ sagði hann í erindi sínu.

GPS-stýrði traktorinn hans Björgvins keyrir sjálfur um akrana í Gunnarsholti og gerir það sem gera þarf.

Strax í nýjustu tækni

Nýjast í nákvæmnisbúskap séu drónar. „Þú sendir drónann af stað, hann flýgur yfir akur, kortleggur hann með þúsundum mynda, jarðvegsgreinir hann og þú getur fengið út úr því til dæmis hvar illgresið er og hvar steinarnir eru og farið svo og tínt þá upp. Mögulega gætirðu fengið einhverjar myndir af jarðvegsgerðinni á hverjum stað og haft vélar sem taka inn kort af þeim breytilegu áburðarþörfum sem þú vilt mæta, þetta er það nýjasta í þessu,“ sagði Björgvin og bætti við að með þessu væri akurinn betur nýttur, olía og tími sparaðist, vinnslubreiddin á tækinu væri nýtt til hins ýtrasta og gæði vinnslunnar aukin. Björgvin sagði allt byggjast á að landbúnaðurinn ynni saman og að hann þyrfti að verða fjölbreyttari.

Þannig væru ýmis efni sem féllu til í til dæmis jarðrækt, kornrækt, skógrækt, loðdýrarækt, við framleiðslu á mjólk og kjöti, grænmeti og í fiskeldi, sem nýta mætti innbyrðis milli greina.

Heimild: The New Economy og LbhÍ

Sölufélagið í góðu lagi
Fréttir 17. júlí 2025

Sölufélagið í góðu lagi

Nú hafa Sölufélag garðyrkjumanna, Báran stéttarfélag og Framsýn stéttarfélag und...

Bændur harka af sér
Fréttir 16. júlí 2025

Bændur harka af sér

Ný rannsókn bendir til þess að fólk sem starfar í landbúnaði sé ólíklegt til að ...

Getur leyst plast af hólmi
Fréttir 16. júlí 2025

Getur leyst plast af hólmi

Frumkvöðlafyrirtækið Marea Iceland hyggst setja á markað umhverfisvænt húðunaref...

Auglýsingar um sveppadropa og -duft ámælisverðar
Fréttir 16. júlí 2025

Auglýsingar um sveppadropa og -duft ámælisverðar

Verslunin Hugur Studio, sem rekin er af Hemmet ehf., hefur verið kærð fyrir afdr...

Átak um öryggi barna í sundi
Fréttir 16. júlí 2025

Átak um öryggi barna í sundi

Rauði krossinn á Íslandi hefur hleypt af stokkunum fræðslu- og forvarnarátaki um...

Pöddur í hundamat
Fréttir 15. júlí 2025

Pöddur í hundamat

Fyrirtæki hafa sett á markað hundamat úr skordýrum. Slíkt fæði hefur minna kolef...

Orkuskipti í Flatey
Fréttir 15. júlí 2025

Orkuskipti í Flatey

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og Elías Jónatans...

Landeldi við Hauganes
Fréttir 15. júlí 2025

Landeldi við Hauganes

Laxós ehf. áformar uppbyggingu og rekstur fiskeldisstöðvar norðan Hauganess, þar...