Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Að vanda var hægt að sjá marga fallega kynbótagripi á sýningunni.
Að vanda var hægt að sjá marga fallega kynbótagripi á sýningunni.
Á faglegum nótum 2. desember 2022

Margar nýjungar á EuroTier 2022

Höfundur: Snorri Sigurðsson

Hin heimsfræga þýska landbúnaðarsýning, EuroTier, var haldin um miðjan nóvember síðastliðinn en þessi sýning er venjulega haldin annað hvert ár.

Árið 2020 var það þó ekki hægt þar sem heimsfaraldurinn geisaði. Þessi sýning, sem er sérhæfð í búfjárrækt og þá sérstaklega í nautgripa-, svína- og alifuglarækt, er sú stærsta sinnar tegundar í heiminum og þar er aðaláherslan lögð á tækni og þjónustu við búgreinar en einnig eru haldnar hefðbundnar kynbótasýningar á sýningunni. Alls sýndu 1820 fyrirtæki vörur sínar og þjónustu á henni. EuroTier hefur þá sérstöðu meðal landbúnaðarsýninga að flest fyrirtæki í þessum megingeirum landbúnaðarins reyna yfirleitt að nota sýninguna til þess að frumsýna nýjungar í von um að vinna til heiðursverðlauna sýningarinnar. Sýningin í ár stóð svo sannarlega undir nafni og var sérstök fyrir þær sakir að þrjú fyrirtæki fengu gullverðlaun sýningarinnar fyrir heimsfrumsýningu á nýjungum sem þykja skara fram úr. Sýninguna, sem stóð í fjóra daga, sóttu rúmlega 100 þúsund gestir og þar af nokkrir Íslendingar. Að vanda var ótal margt áhugavert sem fyrir augu bar og hér má sjá nokkur dæmi um slíkt.

Að vanda var hægt að sjá marga fallega kynbótagripi á sýningunni.

Eitt spenagúmmí fyrir allar kýr

Ein af framannefndum þrennum gullverðlaunum voru gefin til fyrirtækisins Siliconform Vertriebs fyrir einstaka nýjung en það er spenagúmmí, reyndar úr sílikoni, sem er með sérstaklega hannað op sem gerir það að verkum að það mjólkar allar kýr jafn vel óháð spenastærð. Þetta hefur verið vandamál frá upphafi vélmjalta enda kýr með ólíka spena að stærð og lögun og hafa bændur því þurft að vera með spenagúmmí sem henta flestum kúm en þá eru s.s. alltaf einhverjar kýr sem mjólkast verr vegna þess að þeirra spenar passa í raun ekki almennilega í spenagúmmíið. Þessi nýjung er því einstök og verður einkar fróðlegt að fylgjast með því hvort stóru aðilarnir á markaðinum komi ekki í kjölfarið með einhvers konar nálgun að svipaðri hönnun. Það mun koma í ljós á næstu misserum.

Hin nýja hönnun auðveldar góðar mjaltir fyrir allar kýr óháð spenastærð.

Hin nýja hönnun auðveldar góðar mjaltir fyrir allar kýr óháð spenastærð.

Hreinsar sjálfkrafa útigerðið

Önnur gullverðlaun sýningarinnar féllu í skaut fyrirtækisins Wasserbauer sem kynnti hreint magnaða nýjung en um var að ræða þjarka sem ekur um útigerði hrossa og tekur upp hrossaskít! Þetta undratæki vinnur út frá staðsetningarbúnaði og notkun stafrænna myndavéla sem umlykja útigerði hrossanna. Þessi búnaður „veit“ hvernig hreint gerði lítur út og ef hross skítur úti, þá getur tölvubúnaðurinn staðsett skítinn og sent þjarkann á staðinn. Hann er svo útbúinn þéttriðnum gaffli og mokar hreinlega skítnum upp og setur í sérstakan kassa. Svo keyrir þjarkinn með skítinn á þann stað sem eigandinn vill að skítnum sé ekið til og losar kassann. Eiginlega hálf ótrúleg tækni!

Þjarkinn safnar upp sjálfkrafa hrossaskít í útigerðinu.

Þjarkinn safnar upp sjálfkrafa hrossaskít í útigerðinu.

GEA geldir kýrnar betur upp

Þriðju og síðustu gullverðlaun sýningarinnar féllu svo mjalta- tækjaframleiðandanum GEA í skaut en fyrirtækið hefur hannað sérstakan hugbúnað, fyrir mjaltaþjóna fyrirtækisins, sem geldir kýrnar sjálfkrafa upp með betri hætti en hingað til hefur verið mögulegt. Búnaðurinn sér sjálfur um að mjólka kýrnar að hluta til, þ.e. tekur af þeim áður en þær eru tómar 10 dögum fyrir ætlaðan geldstöðudag og gerir þetta alla daga fram að burði í hlutfalli við ætlaða framleiðslugetu kúnna. Þetta er áhugaverð nýjung sem GEA hefur útbúið þarna en oftar en ekki gelda bændur kýrnar mun hraðar upp en GEA gerir hér og margir hætta hreinlega að mjólka frá einum degi til annars.

Verðlaun sýningar sem ekki varð

Á sýningunni í ár mátti reyndar sjá fleiri verðlaun, svo sem í öðrum flokkum auk þess frá sýningunni sem var frestað. Það ár var verðlaunum úthlutað til nokkurra fyrirtækja, sem sóttu um og kynntu tækni sýna án þess þó að sýningin væri haldin vegna heimsfaraldursins. Þessi fyrirtæki gátu svo í ár kynnt sig sem „verðlaunafyrirtæki“ og eitt þeirra var með áhugaverða tækni en um var að ræða sérstakan búnað sem fylgist með heilsufari kálfa í einstaklingsstíum.

Víða erlendis er mjög algengt að smákálfar séu hafðir í einstaklingsstíum fyrstu vikurnar eftir burð, til þess að gefa þeim færi á að ná styrk og þreki áður en þeir eru færðir í hópstíur. Þetta er einnig gert til þess að auðvelda umsjónarfólki að sinna kálfunum s.s. við mjólkur- og kjarnfóðurgjöf svo dæmi sé tekið. Búnaður fyrirtækisins Futuro Farming felst í því að sérhönnuðum hreyfiskynjara er komið fyrir á framhlið stíunnar og fylgist búnaðurinn með atferli kálfsins, þ.e. hreyfingu og legu. Svo er sérstakur hugbúnaður sem reiknar út fyrir hvern kálf, út frá mældum gögnum, hvort líkur séu á því að kálfurinn sé að veikjast eða ekki. Búnaðurinn þykir einkar nákvæmur og getur fundið merki um slappleika vegna lungnaveiki allt að þremur dögum áður en verulega sýnileg einkenni koma fram. Þá getur búnaðurinn numið merki um að kálfurinn sé að fá skitu allt að 12-24 tímum áður en kálfurinn fær raunverulega skitu. Fyrir vikið er hægt að grípa mun hraðar inn í og beita mótvægisaðgerðum svo draga megi úr veikindunum eða jafnvel koma í veg fyrir þau.

Búnaður Futuro Farming lætur ekki mikið yfir sér en getur þó vaktað atferli kálfsins með miklu öryggi. (Mynd: Futuro Farming)

Alls konar kæling kúa

Þeir sem fara reglulega á fagsýningar vita að þær eru einstaklega góður vettvangur til þess að fylgjast með þróun tækni og búnaðar í landbúnaði. Þannig má nefna sem dæmi þróun velferðarherðakambssláa sem fyrir áratug eða svo var lausn sem einungis eitt fyrirtæki bauð upp á en í dag eru allir framleiðendur innréttinga með svona lausn. Á sýningunni í ár mátti sjá nokkur dæmi um svona þróun og þá sérstaklega á sviði kælinga á kúm. Kýr í hárri nyt innbyrða mikið magn af fóðri og þegar örverurnar í vömb þeirra brjóta það niður myndast mikill umfram hiti sem kýrnar þurfa að losa sig við. Ef úti er kalt er þetta ekkert vandamál en ef útihitastigið er komið vel yfir 20 gráðurnar fer kúnum að líða illa og bitnar það þá beint á bæði mjólkurframleiðslunni og frjósemi þeirra. Vegna þessa þurfa bændur í heitari löndum að velja hvort þeir ætli að vera með lágmjólka kýr, sem þá þarf ekki að kæla, eða hámjólka kýr og þá vera með kælingu fyrir kýrnar.

Á sýningunni núna voru einmitt ótal fyrirtæki með allskonar lausnir til þess að kæla kýrnar, bæði með viftum og vatnsúðakerfum, en á fyrri EuroTier sýningum hefur svona búnaður vart verið sjáanlegur svo nokkru nemi. Skýringin á þessari breytingu núna er bæði hitnandi veðurfar í Evrópu ásamt hækkandi afurðasemi kúnna sem hefur leitt til snaraukinnar eftirspurnar kúabænda eftir lausnum til þess að gera umhverfi kúnna betra.

Ótal fyrirtæki buðu upp á ólíkar leiðir til þess að kæla kýr, bæði viftur, úða- og vökvunarkerfi.

Ótal fyrirtæki buðu upp á ólíkar leiðir til þess að kæla kýr, bæði viftur, úða- og vökvunarkerfi.

Lambafóstrur

Undanfarin ár hafa fleiri og fleiri fyrirtæki komið með áhugaverðar lausnir við mjólkurfóðrun lamba fyrir sauðfjárbændur sem taka lömb undan, t.d. vegna mjólkurframleiðslu, eða vegna fjölda heimalninga. Hver sem skýring er á því að mörg lömb þurfa á sérstakri mjólkurfóðrun að halda þá eru í það minnsta komnar margs konar lambafóstrur á markaðinn en þær eiga það sameiginlegt að halda mjólkinni ferskri og heitri á hverjum tíma, svo lömbin geti fengið sér sopa þegar þau vilja!

Undanfarin ár hefur orðið töluverð þróun á lambafóstrum og á sýningunni voru margar ólíkar útgáfur í boði frá ýmsum framleiðendum.

Undanfarin ár hefur orðið töluverð þróun á lambafóstrum og á sýningunni voru margar ólíkar útgáfur í boði frá ýmsum framleiðendum.

Sjálfvirkni við sauðfjárrag

Það er meira en mjólkurfóðrun lamba sem í dag er hægt að sjálfvirknivæða á sauðfjárbúum og má þar t.d. nefna færibandagarða, þ.e. garða sem er með færiband í botninum sem þá færir fóðrið sjálfkrafa eftir garðanum og því þarf ekki að ganga með fóðrið í fanginu eftir garðanum. En það eru einnig til alls konar hjálpartæki og -tól fyrir sauðfjárrag.

Sjálfvirki búnaðurinn frá Te Pari er einstaklega hraðvirkur og getur numið eyrnamerki á sekúndubroti.

Fyrirtækið Te Pari kynnti m.a. á sýningunni nánast alsjálfvirkan búnað við flokkun og almenna vinnu við fé. Búnaðurinn les sjálfkrafa af eyrnamerki, heftir lömb eða ær sjálfkrafa í þar til gerðum búnaði svo unnt sé í ró og næði að t.d. holdastiga, ómmæla, snyrta klaufir eða hvað það nú er sem til stendur að gera. Eftir að búið er að gera það sem á að gera við ána eða lambið sér búnaðurinn sjálfkrafa um það að senda viðkomandi grip að flokkunarhliði sem getur sent hann í þrjá mismunandi hópa. Áhugavert tæki fyrir margar sakir!

Með Chickenguard getur hænsnaeigandinn fjarstýrt því hvenær kofinn er opinn eða lokaður.
Fjarstýrð hænsnakofaopnun

Þó svo að sýningin sé gríðarlega sterk þegar kemur að alifugla- og svínarækt þá verður greinarhöfundur að viðurkenna að fagþekking hans er of lítil á þessum sviðum landbúnaðar til þess að geta fjallað um nýjungar þar af einhverju viti.

Hins vegar þegar kemur að hænsnarækt í smáum stíl er staðan önnur og var gaman að sjá að þrátt fyrir hina miklu fagmennsku sem ræður ríkjum í alifuglaræktinni á sýningunni þá var líka pláss fyrir áhugamannadeildina, þ.e. fyrir þá sem eru með frá nokkrum hænum og upp í nokkra tugi.

Af mörgum skemmtilegum lausnum var þessi hér valin, en um er að ræða sjálfvirka opnun hænsnakofa svo eigendurnir geti hleypt hænunum út að morgni án þess að þurfa sjálfir að mæta á staðinn.
Sjálfvirki búnaðurinn frá Te Pari er einstaklega hraðvirkur og getur numið eyrnamerki á sekúndubroti.

Með Chickenguard getur hænsnaeigandinn fjarstýrt því hvenær kofinn er opinn eða lokaður.

Ný nálgun í vörnum gegn dýrasjúkdómum
Fréttir 10. júlí 2025

Ný nálgun í vörnum gegn dýrasjúkdómum

Róttækar breytingar eru að verða á regluverki varna gegn dýrasjúkdómum.

Salmonella á Kvíabóli
Fréttir 10. júlí 2025

Salmonella á Kvíabóli

Matvælastofnun (MAST) hefur sent út tilkynningu um að salmonella hafi greinst á ...

Rekstrarvandi vegna samdráttar í útflutningi
Fréttir 10. júlí 2025

Rekstrarvandi vegna samdráttar í útflutningi

Eftir þungan rekstur síðasta vetur glímir ullarvinnslufyrirtækið Ístex við fjárh...

Tíunda íslenska kýrin til að ná 100 þús. kg æviafurðum
Fréttir 8. júlí 2025

Tíunda íslenska kýrin til að ná 100 þús. kg æviafurðum

Þann 18. júní sl. rauf afrekskýrin Snotra 273 í Villingadal í Eyjafirði 100 þús....

Tíu birkiskógar skuli njóta verndar
Fréttir 4. júlí 2025

Tíu birkiskógar skuli njóta verndar

Land og skógur hefur gefið út fyrstu skrána um sérstæða eða vistfræðilega mikilv...

Súlur 2025 komnar út
Fréttir 4. júlí 2025

Súlur 2025 komnar út

Tímaritið Súlur kom út á dögunum. Súlur er ársrit Sögufélags Eyfirðinga og hefur...

Metfjöldi gesta á Skógardeginum mikla
Fréttir 4. júlí 2025

Metfjöldi gesta á Skógardeginum mikla

Nýr Íslandsmeistari í skógarhöggi og fleiri keppnisgreinum var krýndur í Hallorm...

Útvarp Bændablaðið: Samruni Arla og DMK gefur möguleika á gríðarlegri hagræðingu
Fréttir 4. júlí 2025

Útvarp Bændablaðið: Samruni Arla og DMK gefur möguleika á gríðarlegri hagræðingu

„Kannski sýnir þessi samruni hversu gríðarlega stærðarhagkvæmni er í söfnun og v...