Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Selma og aðrir bændur í nágrenni við hana geta valið úr nokkrum teymum slátrara til að slátra fyrir sig og jafnframt ýmsa kjötiðnaðarmenn. Hér er hún með kjötiðnaðarmönnunum úr Salmon Creek Meats (Joe og tengdasonur hans, Derek).
Selma og aðrir bændur í nágrenni við hana geta valið úr nokkrum teymum slátrara til að slátra fyrir sig og jafnframt ýmsa kjötiðnaðarmenn. Hér er hún með kjötiðnaðarmönnunum úr Salmon Creek Meats (Joe og tengdasonur hans, Derek).
Líf&Starf 14. nóvember 2019

Lögleg heimaslátrun styður bændur í Bandaríkjunum

Höfundur: Sveinn Margeirsson og Selma Bjarnadóttir

Á vordögum 2019 birtust nokkrar greinar í Bændablaðinu [8., 9., 10. og 12. tbl. 2019] um regluverk og ríkisafskipti af heimaslátrun. Í kjölfarið komst á samband með höfundum þessarar greinar og er rétt að kynna Selmu Bjarnadóttur fyrir lesendum Bændablaðsins. 

Selma er bóndi í Bandaríkjunum sem slátrar heima. Hún er fædd og uppalin á Íslandi en fluttist vestur um haf árið 1987 þegar hún fór í háskóla. Eftir að hafa lokið háskóla flutti hún til baka til Íslands, en vesturströnd Banda­ríkjanna togaði og hún settist þar að 1996, fyrst í Olympia, höfuðborg Washingtonríkis, en síðar á Bone Dry Ridge Farm, þar nærri.

Fyrir slátrun eru lömbin dregin í dilka. Það tekur svo slátrarann Jessie einungis nokkrar sekúndur að slátra 15 lömbum, sem er hefðbundinn fjöldi sem slátrað er í einu. Lömbin standa yfirleitt róleg á meðan. Eftir að lömbunum hefur verið slátrað eru þau skorin á háls, svo kjötið blæði vel. Jessie hefur slátrað með foreldrum sínum síðan hann var 12 ára.

Með brennandi áhuga á búskap og menningu tengt sauðfé að leiðarljósi, ákvað hún að koma sér upp bústofni íslensks fjár. Leit á netinu skilaði sambandi við konu sem átti íslenskan fjárstofn og þar með gat Selma gengið til gegninga sem „íslenskur sauðfjárbóndi“ í Ameríku. Lömbum úr bústofni hennar er slátrað heima á býli Selmu. Skilur það eftir sig góðan arð og styður ýmiss konar smáiðnað í nágrenninu, allt innan ramma þeirrar löggjafar sem um landbúnað gildir í Washington-ríki Bandaríkjanna.

Selma nýtir ull af gærum, enda reyta menn sauðinn sakir ullar. Hún selur ullina til Kaliforníu og Olympia í Washington þar sem hún er nýtt í staðbundna garnframleiðslu. Í Kaliforníu er hún nýtt í ýmiss konar vörur fyrir listamenn og til námskeiðahalds fyrir fólk sem vill læra meira um ull og nýtingu hennar. Selma selur ullina af einni gæru fyrir um 1.800 krónur.

Selma er svína- og nautgripabóndi, auk þess að vera sauðfjárbóndi. Hún selur afurðir sínar beint til neytenda og hefur fengið til liðs við sig slátrara og kjötiðnaðarmann, sem fá starfsleyfi hjá Washington State Department of Agriculture, sem líta má á sem ákveðna hliðstæðu heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga á Íslandi. Starfsleyfin er einfalt að fá og er ekki þörf á því að fá dýralækni til eftirlits við slátrun, sem fram fer heima hjá Selmu. Eftir að hafa greitt fyrir slátrunina og vinnsluna heldur Selma eftir um 45 þúsund krónum fyrir sig (meðalfallþungi árið 2019 var 19 kg).

Á bandarískum neytendamarkaði hefur verið aukin eftirspurn eftir landbúnaðarvörum með jákvæða ímynd, t.d. tengt dýra­velferð, umhverfismálum og uppruna. Selma hefur nýtt sér þessa þróun og miðar sína verðlagningu við Whole Foods Market verslanirnar, sem á margan hátt hafa verið leiðandi varðandi þróunina og fært út kvíarnar samhliða því. Selma selur lambakjöt beint til neytenda í heilum skrokkum, unnið í neytendapakkningar, fyrir 12 dollara pundið (ríflega 3.000 krónur á kg).

Regluverk er umtalsvert ein­fald­ara en íslenskir bændur eiga að venjast og skilningur eftirlitsaðila á aðstæðum minni bænda góður. Þannig er t.d. ekki ríghaldið í orðalag reglugerða, heldur miðað við praktískan raunveruleika bænda.  Í þeim efnum skal þó tekið fram að ekki er gert ráð fyrir að bandarískir bændur slátri miklu magni lamba heima, þó að það séu ekki nein takmörk á fjölda í þeim efnum í regluverkinu. Skilyrði er á hinn bóginn að bóndi selji beint til neytanda. Engin þörf eru talin á því að dýralæknir komi nálægt ferlinu, né heldur að aðstaða sé vottuð af USDA (United States Department of Agriculture) en sláturbíllinn og kjötvinnslustöðin eru vottuð af WSDA (Washington State Department of Agriculture). WSDA vottun er tiltölulega einfalt að fá og má segja að hún sé af öðru sauðahúsi en USDA vottun.

Eftirspurn eftir vörum minni bænda í beinum viðskiptum er mikil og hefur aukist síðustu ár, í takti við aukna meðvitund neytenda fyrir misjöfnum aðstæðum dýra í þauleldi/verksmiðjubúskap og umhverfisáhrifum slíkrar fram­leiðslu. Selma býður viðskiptavinum í heimsókn til hennar, þar sem þeir geta séð aðstæður dýra hennar af eigin raun og ræður slík heimsókn því gjarnan hvort af viðskiptum verður eða ekki. Viðskiptavinirnir greiða svo hluta af kjötinu fyrir fram (down payment) til að tryggja sín kaup, sem hjálpar Selmu við búreksturinn fram að sláturtíð. Bændur í nágrenninu selja gjarnan með svipuðum hætti eða í gegnum svokallað CSA verkefni (Community Supported Agriculture program).

Sveinn Margeirsson
og Selma Bjarnadóttir

7 myndir:

Umfang útiræktunar dregst saman
Fréttir 21. mars 2025

Umfang útiræktunar dregst saman

Matvælaráðuneytið hefur afgreitt jarðræktarstyrki til garðyrkjubænda vegna útiræ...

Fleiri svínum slátrað
Fréttir 21. mars 2025

Fleiri svínum slátrað

Mikil aukning var í svínaslátrun hjá Sláturfélagi Suðurlands árið 2024 en mismik...

Bændablað úr frjóum jarðvegi
Fréttir 21. mars 2025

Bændablað úr frjóum jarðvegi

Áskell Þórisson, blaðamaður og ljósmyndari, varð fyrsti ritstjóri Bændablaðsins ...

Eignast allt Lífland
Fréttir 21. mars 2025

Eignast allt Lífland

Þórir Haraldsson hefur skrifað undir kaup á 50 prósenta hlut í Líflandi ehf. af ...

Landbúnaðartæki verði undanskilin kílómetragjaldi
Fréttir 21. mars 2025

Landbúnaðartæki verði undanskilin kílómetragjaldi

Bændasamtök Íslands kalla eftir því að dráttarvélar og eftirvagnar í landbúnaði ...

Slátrun á Hvammstanga áfram með svipuðu sniði
Fréttir 21. mars 2025

Slátrun á Hvammstanga áfram með svipuðu sniði

Slátrun hjá Sláturhúsi Kaupfélags Vestur-Húnvetninga (SKVH) á Hvammstanga verður...

Lök uppskera á kartöflum og gulrótum á síðasta ári
Fréttir 20. mars 2025

Lök uppskera á kartöflum og gulrótum á síðasta ári

Hagstofan gaf á mánudaginn út uppskerutölur úr grænmetisog salatræktun síðasta á...

Í fremstu röð í þrjátíu ár
Fréttir 20. mars 2025

Í fremstu röð í þrjátíu ár

Bændablaðið hefur í þrjátíu ár stuðlað að upplýsandi umræðu um landbúnað á víðum...