Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Brynjólfur Ómarsson hjá ÚTÚRKÚ vill nýjungar og ævintýri inn á íslenska súkkulaðimarkaðinn. Hér er hann að salta súkkulaði.
Brynjólfur Ómarsson hjá ÚTÚRKÚ vill nýjungar og ævintýri inn á íslenska súkkulaðimarkaðinn. Hér er hann að salta súkkulaði.
Mynd / Aðsendar
Líf og starf 7. október 2024

Lindifura út úr kú

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Skógarsúkkulaði með lindifuruolíu er nýlunda á íslenskum súkkulaðimarkaði.

Súkkulaðigerðin ÚTÚRKÚ var stofnuð árið 2023 og framleiðir m.a. súkkulaðiplötur og konfekt. Súkkulaðið er allt unnið úr „Fine Flavour Cacao“-baunum frá Suður-Ameríku.

Lindifurusúkkulaði

Fyrsta íslenska skógarsúkkulaðið frá fyrirtækinu er með lindifuruolíu og var sett á markað í mjög takmörkuðu magni í júlí en fæst nú víðar. Um er að ræða handgert mjólkursúkkulaði með íslenskri lindifuruolíu sem eimuð er hjá Hraundísi í Borgarfirði. Olían hefur mildan og sætan ávaxta- og viðarilm og er búin til með því að gufueima nálar lindifuru úr íslenskum skógum. Engin tré eru felld við framleiðsluna heldur er aðeins nýtt það sem til fellur úr skógum við grisjun.

Konfekt ÚTÚRKÚ er sagt innblásið af íslenskri náttúru og hefðum. Í fyrsta konfektkassa fyrirtækisins voru t.a.m. molar með kaffi og kúmeni, bláberjum, blóðbergi og lakkrískaramellu.

Óhrædd við að prófa nýja hluti

Það er Ólafsfirðingurinn Brynjólfur Ómarsson, eigandi ÚTÚRKÚ, sem sér um framleiðslu á súkkulaðinu og daglegan rekstur. Hann hefur unnið í matvælageiranum með allnokkrum hléum frá 2004 og hefur mikla reynslu af markaðssetningu og vöruþróun. Vigdís Vo, konditor og bakarameistari, hefur yfirumsjón með konfektgerðinni.

Um það hvernig samstarfið við Hraundísi kom til segir Brynjólfur að hann hafi verið að leita að skemmtilegu íslensku hráefni til að nota í súkkulaði og á óskalistanum hafi verið hvönn, kerfill og birki.

„Við fundum þá Hraundísi þar sem hún er að framleiða olíur úr alls kyns íslenskum plöntum og fengum sýnishorn hjá henni til að nota í tilraunastarfsemi,“ segir hann og heldur áfram: „Hún benti okkur á lindifuruna sem gæti hugsanlega passað með súkkulaði. Við höfðum nú takmarkaða trú á lindifurunni þar sem við þekktum hana einfaldlega ekki. En svo kom hún mjög skemmtilega út í mjólkursúkkulaði og þegar við fengum viðbrögð frá smakkhópunum okkar þá kom hún best út,“ segir hann.

Hvannarsúkkulaði í vetur

Að sögn Brynjólfs er innan við 1% lindifuruolíu í súkkulaðinu. „Hún er svo bragð- og ilmsterk að ef við settum meira þá yrði bragðið yfirgnæfandi. Við reynum að finna jafnvægi milli súkkulaðisins og lindifurunnar svo að bæði hráefnin njóti sín,“ útskýrir hann.

Innan tveggja mánaða frá því sýnishorn barst af lindifurunni var súkkulaðið komið á markað. „Við vildum ná að framleiða þetta í sumar til að eiga möguleika á að bæta við okkur meira hráefni áður en haustar,“ útskýrir hann.

Von er á fleiri súkkulaðitegundum. „Við munum klárlega koma með fleiri tegundir í vetur. Sennilega kemur hvönnin næst á markað og þá sem hluti af jólasveinasúkkulaðinu okkar. Ætli Giljagaur fái ekki þann heiður að vera fulltrúi hvannarinnar,“ segir Brynjólfur enn fremur.

Vilja hrista upp í markaðinum

ÚTÚRKÚ-vörumerkið mun ekki tilkomið vegna þess að vörur fyrirtækisins innihaldi kúaafurðir enda þýðir orðasambandið út úr kú eitthvað sem þykir fjarstæða. Vörumerkið er fremur sagt standa fyrir að vera óhefðbundið, öðruvísi, með nýstárlegar bragðtegundir og óvenjulegt útlit. „Við erum óhrædd við að fara ótroðnar slóðir, óhrædd við að prófa nýja hluti og að vera álitin algjörlega út úr kú,“ segir Brynjólfur.

„Markmið okkar er að hrista aðeins upp í íslenska súkkulaði- og konfektmarkaðinum. Það er svo margt sem vantar inn á þann markað og sem gömlu og stóru framleiðendurnir eru alls ekki að sinna. Við erum alltaf að bæta við nýjum vörum,“ segir hann að endingu.

Skylt efni: ÚTÚRKÚ

Bláskógabyggð fremst í flokki
Fréttir 12. nóvember 2025

Bláskógabyggð fremst í flokki

Bláskógabyggð hefur verið útnefnd í fyrsta sæti af fjórum „Sveitarfélögum ársins...

Þjónustumiðstöð byggð á Blönduósi
Fréttir 11. nóvember 2025

Þjónustumiðstöð byggð á Blönduósi

Á dögunum voru kynnt áform um opnun þjónustumiðstöðvar, sem Drangar ehf. ætla að...

Nýr verslunarstjóri í Hrísey
Fréttir 11. nóvember 2025

Nýr verslunarstjóri í Hrísey

Ásrún Ýr Gestsdóttir tók í haust við sem verslunarstjóri Hríseyjarbúðarinnar. He...

Kosið um sameiningu Dalabyggðar og Húnaþings
Fréttir 11. nóvember 2025

Kosið um sameiningu Dalabyggðar og Húnaþings

Dalabyggð og Húnaþing vestra eru nú á fullu í sameiningarviðræðum en ákveðið hef...

Lítil ummerki varnarefna í lofti yfir Íslandi
Fréttir 10. nóvember 2025

Lítil ummerki varnarefna í lofti yfir Íslandi

Veðurstofan hefur vaktað ýmis efni í úrkomu og lofti á Stórhöfða í Vestmannaeyju...

Hörð andstaða gegn breytingum í samkeppnisátt
Fréttir 10. nóvember 2025

Hörð andstaða gegn breytingum í samkeppnisátt

Umsagnarferli um umdeild frumvarpsdrög þar sem breyta á búvörulögum, lauk 24. ok...

Raflínunefnd umdeild
Fréttir 10. nóvember 2025

Raflínunefnd umdeild

Sveitarfélög og hagsmunasamtök landeigenda hafa gagnrýnt fyrirhugaða stofnun raf...

Auknar rekstrartekjur RML
Fréttir 10. nóvember 2025

Auknar rekstrartekjur RML

Stjórn Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) hélt ársfund í Borgarnesi til þe...