Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Vilmundur Hansen grænmetisgæðingur hreifst af ræktunarhæfileikum Kittyar og heimsótti hana fullur eftirvæntingar í gróðurhúsið. Má segja að með þeirri heimsókn hafi blómgast vináttubönd.
Vilmundur Hansen grænmetisgæðingur hreifst af ræktunarhæfileikum Kittyar og heimsótti hana fullur eftirvæntingar í gróðurhúsið. Má segja að með þeirri heimsókn hafi blómgast vináttubönd.
Líf og starf 22. júlí 2021

Lífsstílslitaðar tískubylgjur eða fordæmi komandi kynslóða?

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Í gegnum tíðina hefur sjálfbærni matvælaframleiðslu jafnan þótt umræðuvert efni. Grenndargarðar Reykjavíkurborgar, kartöflu- garðar í Skammadal, matjurta­garðar kennara í Katlagili svo eitthvað megi nefna, hafa yfir árin verið sjálfsagðir staðir að heimsækja reglulega. Þó ekki alltaf.

En hvernig er staðan í dag? Með flokkun, moltugerð og almennri meðvitund þegar kemur að því að bjarga heiminum – eru hetjur daglegs lífs farnar að sá í moldarbeðin að vori með von um uppskeru að hausti? Eru gróðurhús komin í tísku? Kartöflubeð? Tómatarækt? Eplarækt? Vínber? Ræktar einhver gras? Með þessar brennandi spurningar á vörunum þurfti svör. Hver er framtíðarsýn þeirra sem standa í fæturna?

Viðmælandi minn er ung kona, móðir stúlku á tólfta ári og íbúi í Vesturbænum. Hún hefur í nokkurn tíma haldið úti hóp kölluðum „Adopt a vegetable plant“, á Facebook auk síðunnar #kittysfoodwastetips á instagram og verið iðin við að pósta þar dýrindis réttum úr heimasprottnu góðgæti í bland við grænmeti sem hún verslar á 99 kr. í Krónunni.

Kitty hefur til umráða garðskika bak við heimili sitt, auk stórfenglegs gróðurhúss áföstu við húsið. Þar stígur maður inn í nytjarækt og núvitund eins og hún gerist best. Þegar liðið er á sumarið má sjá vínberjaklasa þekja loftið, kál, kryddjurtir og tómata í hinum fegurstu litum. Má segja að hún sé bæði með nytjahyggju og útsjónarsemi í blóðinu enda fædd og uppalin í sveitinni í Devon á Englandi. Meðal þeirra sem mótuðu lífsviðhorf hennar var fjölskyldan, afi hennar ræktaði mikið af sínu eigin grænmeti á meðan móðir hennar hafði og hefur þá afstöðu að versla einungis beint við slátrara og vörur „beint frá býli“. Kitty minnist ökuferða sem barn til að sækja egg á næstu bæi auk þess að eyða stórum hluta vasapeninga sinna í grænmeti, hvort sem var á nærliggjandi býlum eða við vegkantinn. Þar stunduðu bændur það að setja afgangsvörur í kassa við veginn og máttu gestir og gangandi setja þar framlag og fá sér grænmeti í staðinn.

En fáum nú þessa frábæru konu til að ræða við okkur.

Grænir fingur, grænt hjarta

̶ Að nýta það sem er til, auk þess að rækta sitt eigið verður eitt þeirra grundvallaratriða sem næstu kynslóðir taka sér fyrir hendur. Á hvað hefur þú sem foreldri lagt áherslu , ef eitthvað, í þeim efnum?


„Lilja dóttir mín er mjög meðvituð um nytjahyggju og finnst ekkert eðlilegra en að rækta sér til matar – enda alist upp við að geta gengið í það grænmeti sem ég kem á legg. Þegar hún var yngri rölti hún oft um húsið og tíndi í sig kál, tómata og annað sem ég var að rækta og neytti því mun meira en þeirra fimm skammta á dag sem ráðlagt er. Eftir því sem hún eltist hefur hún oftar en ekki boðið vinum sínum í gróðurhúsið til að smakka (þar sem hún veit að það er bæði betra og ferskara á bragðið) og er ófeimin við að tilkynna að kvöldverðurinn sem var að klárast sé mestmegnis keyptur á 99 kr. í boði Krónunnar. 

Lilja hlustar á og nemur það sem ég fræði hana um, en við eigum góðar stundir saman bæði við garðyrkju og spjall. Um daginn settu hún og vinkona hennar niður kartöflur sem voru farnar að spíra hjá mér, enda tel ég mikilvægt að börn hafi skilning á hvaðan matvæli koma, kunni undirstöðuatriði í ræktun auk þess að fá að upplifa stoltið þegar plönturnar vaxa og dafna.

Allt of oft er einblínt á hve meira spennandi það er að eiga eitthvað tölvutengt, eitthvað nógu dýrt og fínt sem kostar nógu mikla peninga – á þessum aldri þegar manneskjan er hvað móttækilegust. Ég tel hins vegar mun mikilvægara að finna gleði yfir öðrum hlutum, virkja meðvitund og áhuga barna þegar kemur að sjálfbærni, vita að hægt sé að rækta mat og kunna það. Neysluhyggja er nefnilega ekki sjálfbær. – Þetta skiptir máli! Einnig hvetur þetta börn til að smakka á grænmeti sem þau eru ef til vill hikandi við að vilja prófa, en er meira spennandi tilhugsun ef þau rækta það sjálf. Sama á við um fullorðna. Síðan ég stofnaði hópinn „Adopt a vegetable plant“ á Facebook hef ég fengið endalaust af myndum, myndböndum og orðsendingum frá ókunnu fólki – hve stolt og glöð þau eru þegar vel hefur gengið með ræktun. Í gegnum Covid-tímabilið má segja að fólk hafi tvíeflst, fólk sem hafði aldrei ræktað neitt í lífinu var allt í einu komið með nýjan tilgang. Með því að gefa ræktuninni athygli, áhuga og tíma fór eitthvað að vaxa. Bæði bókstaflega og svo innra með þeim – sem er bráðnauðsynlegt öllum. Andlegur ávinningur, fjárhagslegur og nærandi – þessi reynsla er jákvæð á svo margan hátt.“

Trimmað að tómötunum

̶ Nú ert þú ófeimin við að versla matvæli sem sett eru á lægra verð (99 kr.) í verslunum á meðan almenningur hefur gjarnan veigrað sér við því. Þó er þetta að breytast. Viltu meina að fólk sé meðvitaðra en áður?


„Það er áhugavert – fyrst þegar Krónan og aðrar verslanir fóru að bjóða upp á vörur með afslætti þá þótti fólki ekki við hæfi að láta sjá sig nálægt slíku – líkt og þeim þætti það vera að taka niður fyrir sig með því að versla ódýrari vörur. Nú í dag hins vegar liggur við kapphlaupum að 99 kr. tómataboxum og þess háttar varningi. Þannig ég tel að hugsunarhátturinn sé að breytast til hins betra auk þess sem fólk tekur eftir að þetta borgar sig fjárhagslega. Þó er líka áhugavert að Íslendingar hafa í áravís talið fullkomlega í lagi að versla annars flokks ávexti og grænmeti sem send eru til landsins – hálfskemmdu og varla ætluðu til manneldis. Annars þekki ég til fólks sem stundar það sem er kallað „dumpster diving“ (gámagrams á ísl.) en sjálf kýs ég frekar að kaupa vörurnar ef það hvetur verslanir til að bjóða almenningi upp á slíkt – en þannig minnkar einnig kolefnissporið þeirra.“

Urðun óseldrar tísku

̶ Varðandi tískubylgjur almennt. Fyrir nokkrum árum voru varla til nytjaverslanir sem finnast nú víða, vel sóttar af bæði áhrifavöldum jafnt sem hinum almenna borgara sem versla þar og selja grimmt, og má jafnvel við slagsmálum í Barnaloppunni þegar vel lætur! Telur þú að fólk geri sér grein fyrir hver ávinningurinn af endurvinnslu fatnaðar er – eða er þetta einungis móðins akkúrat núna?


„Sem unglingur verslaði ég fötin nær eingöngu í nytjaverslunum, meira til að skapa minn eigin stíl, og það á sjálfsagt einnig við um hluta þeirra sem versla í slíkum búðum. Hvað varðar barnaföt finnst mér eðlileg skynsemi að nýta þau sem mest því börn vaxa mjög hratt upp úr fötum. Verðlag nytjaverslana á Íslandi er því miður enn þá í hærri kantinum og vegna þess þurfa neytendur oft að gera upp við sig hvort þeir kaupi tíu stuttermaboli í HM eða leyfi sér að kaupa flotta 80‘s hettupeysu í búð sem selur notuð föt. Há verðlagning hvetur því miður til „fast fashion“ (skynditíska á ísl.) sem er hugtak yfir fatnað, framleiddan eins fljótt og hægt er, í þeim tilgangi að neytendur geti sem fyrst klætt sig í afurðir tískupallanna. Hugmyndin á bakvið „fast fashion“ er einnig að gera stórum hópi neytenda kleift að klæðast nýjustu tísku á sem lægstu verði – en þeir sem gjalda fyrir slíkt er stór hópur jarðarbúa sem vinnur við að framleiða fötin við ómannúðlegar aðstæður – auk þess sem óseldan fatnað má finna í miklum mæli á urðunarstöðum úti um allan heim. Þetta er ekki sú framtíðarsýn sem ég tel æskilega og eitthvað sem fólk mætti vera meðvitaðra um.“

Leggjum hönd á plóg

̶ Hver er þín framtíðarsýn? Stutt og laggott?


„Ég held að það sé mjög mikilvægt að forsvarsmenn sérhvers iðnaðar, og hver einstaklingur, geri sér raunverulega grein fyrir þeirri staðreynd að fyrirbyggjandi breytinga er þörf. Allir ættu að geta gert minni háttar breytingar sem svo saman hafa áhrif. Það er sorglegt hvað peningar koma mikið við sögu í þessum málefnum. Þeim mun meiri peningum sem fólk eyðir í verslunum sem eru að standa sig í meðvituðum stjórnarháttum, hefur opin augun þegar kemur að matar- sóun eða passar upp á að tryggja rétta framkvæmd framleiðsluferlis yfir höfuð ... þarna er framtíðin, þetta eru fyrirtækin sem fólk á að hafa viðskipti við. Ekkert okkar fer í gegnum lífið alveg á fullkominn hátt, en öll ættum við þó að geta lagt hönd á plóg. Og það er mín framtíðarsýn!“

Þróun á kjötframleiðslu styður ekki við markmið stjórnvalda um aukið fæðuöryggi
Fréttir 17. mars 2025

Þróun á kjötframleiðslu styður ekki við markmið stjórnvalda um aukið fæðuöryggi

Talsvert hefur verið fjallað um mikilvægi fæðuöryggis landsins að undanförnu, bæ...

Upplýsingar uppfærðar um lambakjöt
Fréttir 14. mars 2025

Upplýsingar uppfærðar um lambakjöt

Eitt af þróunarverkefnum búgreina sem nýlega var veittur styrkur úr matvælaráðun...

Tangi besta nautið
Fréttir 14. mars 2025

Tangi besta nautið

Tangi 18024 frá Vestra-Reyni undir Akrafjalli hlaut nafnbótina besta naut fætt á...

Áform dregin til baka
Fréttir 13. mars 2025

Áform dregin til baka

Áform fjármála- og efnahagsráðherra um frumvarp til breytingar á tollalögum, þar...

Kvíaból fyrirmyndarbú ársins
Fréttir 13. mars 2025

Kvíaból fyrirmyndarbú ársins

Kvíaból í Köldukinn var útnefnt fyrirmyndarbú nautgripabænda árið 2025 á deildar...

Lyfta heildinni með samstarfi
Fréttir 12. mars 2025

Lyfta heildinni með samstarfi

Eitt af helstu málunum sem voru rædd á fundi loðdýrabænda var áætlun um dýraskip...

Hrossabændur vilja aðkomu að búvörusamningum
Fréttir 12. mars 2025

Hrossabændur vilja aðkomu að búvörusamningum

Nokkuð fámennt var á fundi hrossabænda á deildarfundi búgreina en þar var rætt u...

Búvélasali nýr formaður FA
Fréttir 12. mars 2025

Búvélasali nýr formaður FA

Friðrik Ingi Friðriksson, forstjóri og eigandi Aflvéla og Burstagerðarinnar, var...