Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Líður að kosningum
Mynd / smh
Skoðun 12. ágúst 2021

Líður að kosningum

Höfundur: Gunnar Þorgeirsson formaður Bændasamtaka Íslands - gunnar@bondi.is

Nú þegar líður að seinni hluta sumars eru bændur víðast hvar langt komnir með sumarverkin. Enn eru fjölmörg verk óunnin, einn sláttur til, kornuppskera, kartöflur, ásamt því sem líður að göngum og réttum.

Nú fer einnig að draga til tíðinda í stjórnmálunum og langflest framboðin stefna á snarpa kosningabaráttu en kosningar eru þann 25. september næstkomandi. Næstu vikurnar munum við því sjá hvaða stefnu stjórnmálaflokkarnir bera á borð fyrir landsmenn. Fyrir landbúnaðinn mun næsta kjörtímabil skipta miklu.

Fyrirsjáanleiki við gerð samninga

Núgildandi búvörusamningar verða endurskoðaðir á árinu 2023 og væntanlega verður samningagerð fyrir nýja búvörusamninga sem taka við af þeim sem nú gilda frá 1. janúar 2027. Þingmenn sem kosnir verða á þing í haust verða þeir sem munu leggja línurnar í þeirri samningagerð. Engum blöðum er um það að fletta að þeir samningar verða mikilvægir. Á þeim sex árum sem liðin eru frá því að núgildandi samningar voru undirritaðir og staðfestir á Alþingi hefur margt breyst en sumt lítið. Umræða um loftslagsmál og landbúnað hefur farið vaxandi. Bændur hafa sett sér metnaðarfulla umhverfisstefnu sem meðal annars miðar að því að ná kolefnishlutleysi fyrir greinina. Afkoma í sauðfjárrækt hrundi árin 2016-2017 og þó hún hafi batnað síðan þá er hún enn þá óásættanleg.

Viðskiptasamningur við Evrópusambandið hefur gjörbreytt viðskiptakjörum íslensks landbúnaðar, með þeim afleiðingum að afurðaverð á nauta- og svínakjöti hefur lækkað til bænda. Á sama tíma fer lítið fyrir verðlækkunum til neytenda. Frjáls verslun undir þessum formerkjum virðist þýða það að íslenskir bændur eigi að bera minna úr býtum fyrir sig og fjölskyldur sínar. Þennan samning verður að endurskoða með þeim hætti að innlendum hagsmunum sé ekki fórnað fyrir skammtímaávinning fárra.

Fæðuöryggi er þjóðaröryggismál 

Heimsfaraldur kórónaveiru hefur sett umræðu um fæðuöryggi í algjörlega nýjan búning. Þó að matvælakeðjan hafi haldið komu í hana brestir víða um lönd og hér á landi hrikti í stoðunum. Þjóðir heims keppast um að greina hvernig hægt sé að auka fæðuöryggi sitt – enda er það einfaldlega þjóðaröryggismál.

Það er eitt og hálft ár síðan fólk hamstraði matvæli við upphaf kórónaveirufaraldursins á Íslandi. Í skýrslu Landbúnaðarháskólans kom fram að fæðuöryggi er minnst í kornvöru á Íslandi. Þó er það ljóst að hægt er að framleiða talsverðan hluta af því fóðurkorni sem þörf er á í landinu hérlendis. En til þess þarf fjármagnaða aðgerðaráætlun til þess að efla innlenda kornrækt. Sama gildir um grænmetisframleiðslu, þar hafa fyrstu skref þegar verið stigin með nýjum samningi um garðyrkju. En eitt af markmiðum þess samnings er að auka framleiðslu á grænmeti um fjórðung á næstu árum. Betur má ef duga skal.

Bændur treysta á innviði 

Til þess að sveitir landsins geti dafnað á næstu árum og áratugum þarf að treysta flutningskerfi raforku, samgöngur og fjarskipti. Efla þarf nýsköpun þannig að sveitirnar geti skapað verðmæti úr þeim miklu auðlindum sem þar eru. Bæði í formi lands en ekki síst í þeirri staðbundnu þekkingu og kunnáttu sem í fólkinu býr. En fólkið í dreifbýlinu er stærsta auðlindin. Því þarf að tryggja nýliðun í landbúnaði – sem verður best tryggð með því að afkoma í landbúnaði sé góð.

Fjórða iðnbyltingin er löngu hafin í landbúnaði. Umræða um sjálfkeyrandi bíla skýtur upp kollinum annað slagið. En GPS stýring á dráttarvélar hefur verið við lýði í tuttugu ár í landbúnaði og verður sífellt betri. Síritar geta skráð uppskeru af túnum niður á fermetra og þær upplýsingar nýttar til þess að haga áburðargjöf með sem hagkvæmustum hætti. Til þess að íslenskir bændur geti innleitt þessa tækni og dregið úr kostnaði við framleiðslu þarf Landbúnaðarháskólinn og aðrar menntastofnanir að efla möguleika til endurmenntunar.  

Þarf allt að koma beint frá Brussel?

Á sama tíma og þrengt er að íslenskum landbúnaði með því að opna á tollfrjálsan innflutning aukast kröfur frá löggjafanum sífellt. Þessar kröfur koma á færibandi, hvort sem um er að ræða íslensk hugverk eða innflutt í gegnum EES-samninginn. Þessar kröfur eiga það flestar sameiginlegt að auka framleiðslukostnað. Lítil ástæða er að ætla til þess að það færiband tæmist í bráð. En sé vilji til þess að landbúnaðurinn sem heild verði kolefnishlutlaus verður eitthvað að láta undan, því það verkefni mun kosta fjármuni. Peningum verður ekki varið bæði í það að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og byggja dýrari hús.

Munu frambjóðendur standa með landbúnaði? Þrátt fyrir þær mörgu áskoranir sem landbúnaðurinn hefur tekist á við síðustu ár er hljóðið í bændum gott. Það er bjartsýni í búskapnum eftir ágætt sumar víðast hvar. Vorhreingerning í félagsmálum hefur skilað sterkari samtökum með auknum möguleikum á sérhæfingu og þannig öflugri hagsmunagæslu. Búvörumerkið sem verið er að vinna að mun gera neytendum það einfalt að velja íslenska búvöru. Nóg er um blekkjandi merkingar sem eru til þess að nota traust neytenda á íslenskum bændum til þess að geta selt innflutta vöru á hærra verði.

Næstu vikur þurfa bændur að rukka stjórnmálamenn sem ætla að veiða atkvæði í sveitunum um afstöðu til þeirra mála sem ég hef rakið hér og fleiri. Ætla þeir að standa með innlendum landbúnaði með gjörðum? Nóg er komið af fögrum orðum þegar það hentar.

Lök uppskera á kartöflum og gulrótum á síðasta ári
Fréttir 20. mars 2025

Lök uppskera á kartöflum og gulrótum á síðasta ári

Hagstofan gaf á mánudaginn út uppskerutölur úr grænmetisog salatræktun síðasta á...

Í fremstu röð í þrjátíu ár
Fréttir 20. mars 2025

Í fremstu röð í þrjátíu ár

Bændablaðið hefur í þrjátíu ár stuðlað að upplýsandi umræðu um landbúnað á víðum...

Vanburða innviðir hringrásarhagkerfis
Fréttir 20. mars 2025

Vanburða innviðir hringrásarhagkerfis

Ekkert eftirlit er á Suðurlandi með því að garðyrkjuúrgangur úr íslenskri útiog ...

Þróun á kjötframleiðslu styður ekki við markmið stjórnvalda um aukið fæðuöryggi
Fréttir 17. mars 2025

Þróun á kjötframleiðslu styður ekki við markmið stjórnvalda um aukið fæðuöryggi

Talsvert hefur verið fjallað um mikilvægi fæðuöryggis landsins að undanförnu, bæ...

Upplýsingar uppfærðar um lambakjöt
Fréttir 14. mars 2025

Upplýsingar uppfærðar um lambakjöt

Eitt af þróunarverkefnum búgreina sem nýlega var veittur styrkur úr matvælaráðun...

Tangi besta nautið
Fréttir 14. mars 2025

Tangi besta nautið

Tangi 18024 frá Vestra-Reyni undir Akrafjalli hlaut nafnbótina besta naut fætt á...

Áform dregin til baka
Fréttir 13. mars 2025

Áform dregin til baka

Áform fjármála- og efnahagsráðherra um frumvarp til breytingar á tollalögum, þar...

Kvíaból fyrirmyndarbú ársins
Fréttir 13. mars 2025

Kvíaból fyrirmyndarbú ársins

Kvíaból í Köldukinn var útnefnt fyrirmyndarbú nautgripabænda árið 2025 á deildar...