Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Lax, lax, lax og aftur lax
Á faglegum nótum 3. maí 2016

Lax, lax, lax og aftur lax

Höfundur: Vilmundur Hansen

Heitið lax er samheiti yfir ættkvíslir fiska sem tilheyra laxaætt og finnast í Atlants- og Kyrrahafi og fjölda landlukta stöðuvatna á landi. Alls 98% af laxi til manneldis er eldisfiskur og að langmestu leyti Atlantshafslax.

Samkvæmt tölum FAO, Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, nam heimsframleiðsla á eldislaxi árið 2014 tæp 2,2 milljónum tonna. Af því voru rétt rúm tvö milljón tonn Atlantshafslax en tæp 200 þúsund tonn Kyrrahafslax. Til samanburðar var heildarframleiðslan árið 2008 af laxi 1,5 milljónir tonn.

Norðmenn voru afkastamestir í framleiðslu á Atlantshafslaxi árið 2014 og framleiddu um 1,1 milljón tonn, Síle var í öðru sæti með framleiðslu upp á 515 þúsund kíló, Bretlandseyjar, aðallega Skotland, í því þriðja með 155 þúsund tonn og Kanada í því fjórða og framleiddi 115 þúsund tonn.

Síle framleiddi mest af Kyrra­hafslaxi sama ár um 160 þúsund tonn, Nýja-Sjáland tólf þúsund tonn og Japanir átta þúsund tonn.

Noregur er stærsti útflytjandi eldislax í heiminum og hefur útflutningurinn aukist jafnt og þétt undanfarin ár.

Samkvæmt áætlun Matvæla­stofnunar verða framleidd um 8 tonn af laxi hér á landi árið 2016 og er þá miðað við heilan og óslægðan fisk.

Sterklegir fiskar

Fiskar af laxaætt eru langir, þykkvaxnir og sterklegir fiskar með slétt hreistur og veiðiugga á baki.

Bakugginn er miðsvæðis eða rétt framan við miðjuna en raufarugginn aftarlega. Eyr- og kviðuggar eru vel þroskaðir og sporðurinn stór. Fiskar af laxaætt eru kaldsjávarfiskar.

Atlantshafslaxinn getur náð 150 sentímetra lengd og allt að 50 kílóa þyngd. Hann er rennilegur fiskur, hæstur um miðjuna en mjókkar til beggja enda. Hausinn er lítill en kjafturinn hlutfallslega stór og tennurnar sterkar og hvassar. Neðri kjálki hængsins er framteygður og boginn um hrygningartímann.

Göngufiskur við náttúrulegar aðstæður

Laxar eru göngufiskar sem við náttúrulegar aðstæður klekjast út í ferskvatni og alast þar upp fyrstu árin. Seiði á kviðpokastigi lifa í fyrstu á næringu kviðpokans en eftir að þau fara að afla sér fæðu lifa þau aðallega á skordýralirfum. Seiðin dvelja í ám í tvö til fjögur ár eða þar til þau verða 12 til 15 sentímetra löng áður en þau ganga í sjó.

Í sjó dvelja laxar á fæðustöðvum í eitt til fimm ár eftir tegundum. Þeir eru uppsjávarfiskar og lifa aðallega á smáfiskum eins og loðnu og sandsíli auk þess sem þeir éta mikið af rækju og rauðátu.

Við kynþroska ganga laxar aftur í árnar þar sem þeir ólust upp og hrygna þar. Laxar geta skipt um lit þegar þeir ganga til uppeldisstöðvanna og geta verið rauðir, grænir og doppóttir og allt þar á milli.

Ratvísi laxa á uppeldisstöðvarnar hefur lengi verið mönnum ráðgáta. Ein tilgátan er sú að þeir fari eftir segulsviði jarðar en önnur að þeir noti þefskynið og þekki uppeldisstöðvarnar á lyktinni.

Hér á landi hrygna laxarnir á haustin og fyrri hluta vetrar. Laxar grafa rásir í malarbotn áa og hylja hrognin eftir hrygningu. Þau klekjast út að vori.

Flestir laxar drepast vegna ofþreytu og hungurs eftir hrygningu þar sem þeir éta ekkert á leið úr sjó til hrygningarstöðvanna. Laxar sem lifa hrygninguna af leita aftur í sjóinn að vori og eru þar í eitt eða tvö ár þar til þeir sækja aftur til uppeldisstöðvanna.

Salmo og Oncorhynchus

Laxar og silungar í Atlants- og Kyrrahafi tilheyra sömu ætt en tveimur ættkvíslum. Atlantshafslaxar teljast til ættkvíslarinnar Salmo sem er mun tegundaríkari en ættkvíslin Oncorhynchus inniheldur tegundir lax og silunga sem finnast aðallega villtar í norðanverðu Kyrrahafi og í Norður-Ameríku.

Allmargar tegundir Atlants­hafslaxa lifa beggja vegna Atlantsála, við strendur Norður-Ameríku, frá Labrador í Kanada suður til Connecticut í Bandaríkjunum. Þeir finnast við suður- og austurströnd Grænlands, umhverfis Ísland og Færeyjar og við Bretlandseyjar. Atlantshafslax finnst við strendur meginlands Evrópu, frá Portúgal norður á Kólaskaga í Rússlandi. Villtir stofnar af Atlantshafslaxi eru ræktaðir á austurströnd Banda­ríkjanna, syðst í Ástralíu og við Nýja-Sjáland.

Algengast tegundin, Atlants­hafslax, bæði villt og í eldi kallast S. salar á latínu en einfaldlega lax í daglegu máli. Af öðrum tegundum laxa má nefna S. cettii sem er villtur í Miðjarðarhafinu, S, farioides sem er silungur og bundinn við Balkanlöndin, S. schiefermuelleri sem finnst í ám í Austurríki og Svartahafslaxinn S. labrax. Tegundin †S. pallaryi er aftur á móti útdauð.

Elsti þekkti steingervingur laxfisks er 50 milljón ára gamall og fannst í bresku Kólumbíu. Tegundin sú kallast Eosalmo driftwoodensis. Rannsóknir sýna að aðskilnaður Atlantshafs- og Kyrrahafslaxa hafi átt sér stað fyrir um 20 milljón árum.

Fiskar af báðum ættkvíslum eru hraðsyndir og kröftugir ránfiskar. Stærsti lax sem veiðst hefur á stöng var rúm 39 kíló og veiddist í Noregi.

Nytja á laxi

Lax er vinsæll matfiskur og sagður hollur vegna þess að hann inniheldur mikið af Omega-3-fitusýrum. Hann er soðinn, steiktur og grillaður en einnig reyktur eða grafinn. Hann er vinsæll hrár í sushi-rétti.

Laxaroð er notað til að skreyta leðurvörur, fatnað og húsgögn. Ef kýr voru tregar til beiða þótti gott að leggja við þær laxaroð eða sem enn betra var, sporðinn.

Í eina tíð var laxaroð sútað í mannsþvagi.

Trúarbrögð og þjóðtrú

Laxinn skipar veglegan sess í keltneskum trúarbrögðum og tengist oft visku og virðingu. Í einni helgisögn er sagt að sá sem borðar laxinn í sögunni öðlist ótakmarkaða visku. Í annarri sögu er því haldið fram að laxfiskur í ánni Llyn Llyw sé elsta lifandi skepna á Bretlandseyjum.

Bragðarefurinn og hamskiptaguðinn Loki Laufeyjarson er fyrirferðamikill í Norrænni goðafræði. Eftir að æsirnir áttuðu sig á því að Loki hafði blekkt Hörð hinn blinda til að skjóta ör úr mistilteini í Baldur hinn hvíta og drepa hann var Loki svo hræddur að hann faldi sig í á í líki lax. Æsirnir lögðu net fyrir laxinn og veiddu hann í það.

Sagt er að Þór hafi gripið um Loka í laxalíkinu þegar hann reyndi að stökkva úr netinu og kreist hann að öllu afli til að handsama hann og er það ástæðan fyrir því að laxar mjókka aftur á sporð.

Laxar koma víða fyrir í helgi­sögnum Indíána í Kanada og Norður-Ameríku og sögnum frumbyggja við Kyrrahafið.

Í fjölda þjóðsagna og einni frétt í íslenskum fjölmiðli, ef rétt er munað, er fjallað um það að fólk týni eða kasti hring í ár eða vötn og að hringurinn finnist seinna í maga lax sem veiddur er seinna í sömu á eða vatni.

Laxamóðir

Í íslenskum þjóðsögum er laxamóðir sögð gríðarlega stór skepna sem finnst í ám og vötnum víða um land.
„Frá því var mér og sagt,“ segir séra Jón Norðmann, „að í Laxá í Hnappadalssýslu hafi fyrrum verið mikil laxveiði og silungsveiði. Hylur einn var í ánni og jarðhús í, og var þar óvenjan öll af silungi og laxi, en náðist aldrei. Var það þá til bragðs tekið að sel var hleypt í hylinn og haft band á honum, en menn voru fyrir neðan með net. Fældi selurinn svo fyrst fram smásilungana, síðan komu fram laxarnir og veiddu menn hvorutveggja. Loksins komu tvær ógnar stórar skepnur fram úr jarðhúsinu; það voru laxamæðurnar. Ösluðu þær fram ána, rifu öll netin og héldu af út í sjó. Þá er sagt að hafi tekið fyrir veiðina í Laxá.“
Laxar eru einnig vinsælt umfjöllunar efni í skemmti- og nútímaþjóðsögum um þann stóra sem slapp.

Gagnrýni á laxeldi

Eldi á laxi fer að miklu leyti fram í stórum kvíum inni á fjörðum eða lygnum flóum. Áhugamenn um laxveiðar hafa bent á að ef eldislaxar sleppa úr sjókvíum er mikil hætta á að þeir beri með sér sjúkdóma í villta laxastofna og mengi erfðamengi þeirra. 

Neysla á eldislaxi er oft gagnrýnd á þeim forsendum að mikið sé notað af sýklalyfjum í eldinu til að auka vöxt fiskanna. Einnig hefur magn PCB mælst átta sinnum hærra í eldisfiski frá sumum löndum en í villtum laxi. Þrátt fyrir að mælingin sé há er hún sögð langt undir hættumörkum.

Lax- og silungseldi hefur einnig verið gagnrýnd fyrir það að til að framleiða eitt kíló af eldisfiski sé notað fiskimjöl sem framleitt er úr tveimur til fjórum kílóum af villtum fiski.

Bleikur litur á holdi villtra laxa er tilkominn vegna áts þeirra á litlum skeldýrum og krili. Þar sem neytendur vilja hafa laxflökin bleikleit er litarefni sem gerir holdið rautt stundum bætt í fóður eldisfiska.

Umrædd litarefni eru annað hvort kemísk eða búin til úr mulinni rækjuskel.

Laxveiði í Íslandi

Laxveiði hefur verið stunduð á Íslandi frá landnámsöld og fyrr á öldum var laxinn veiddur í net í sjó, ám og vötnum en nú er slíkt víðast bannað. Laxveiði á stöng er aftur á móti vinsæl íþrótt.

Fjöldi laxveiðiáa er allt í kringum landið og fjöldi örnefna teygjast laxi. Má þar nefna Laxá, Laxamýri, Laxárdal, Laxárdalsheiði, Laxárvatn og Laxavog.

Samkvæmt tölum Veiðimála­stofnunar var laxveiði á landinu árið 2015 sú fjórða besta frá upphafi skráninga. Tekjur af lax- og silungsveiðum og tengdri starfsemi eru taldar vera ríflega 20 milljarðar króna á ári.

Margir hafa velt því fyrir sér af hverju laxar bíta á agn veiðimanna þar sem þeir éta ekki á leiðinni til hrygningar. Helsta skýringin er talin vera sú að um árásaratferli sé að ræða sem fær þá til að bíta á.
Stærsti lax sem mælst hefur á Íslandi veiddist árið 1957 og kallast Grímseyjarlax. Fiskurinn var 132 sentímetrar að lengd, um 20 kíló að þyngd og reyndist vera tíu ára gamall við aldursgreiningu. Til er sögn um að á jóladag 1929 hafi fundist dauður lax í Laxá í Aðaldal sem var 133 sentímetrar að lengd en sú mæling er óstaðfest.

„… lastaðu ei laxinn“

Laxi í myndmáli skálda hefur líklega aldrei verið gerð eins góð skil og í síðasta erindi ljóðs Bjarna Thorarensen um Odd Hjaltalín landlækni 1816 til 1820, höfund Íslenzkrar grasafræði sem kom út í Kaupmannahöfn 1830 og fyllibyttu sem drakk sig í hel.

En þú sem undan
ævistraumi
flýtur sofandi
að feigðarósi
lastaðu ei laxinn
sem leitar móti
straumi sterklega
og stiklar fossa!

Ekki má gleyma LP plötunni Lax, lax, lax sem SG hljómplötur gaf úr árið 1969, þar sem Guðmundur Jónsson söng:

Jú víst þykir mér gaman að veiða lax
Ég viðurkenni það strax
En það sem mér háir, þrautin sú
Er þetta sem heyrist nú.

Lax lax lax og aftur lax.

Halla tekur upp Íslenskt staðfest
Fréttir 28. mars 2024

Halla tekur upp Íslenskt staðfest

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjubóndi og eigandi Sólskins grænmetis ...

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands
Fréttir 27. mars 2024

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands

Fjölmörg mál voru til afgreiðslu á nýliðnu Búnaðarþingi 2024, úr fimm nefndum, s...

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025
Fréttir 27. mars 2024

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025

Matvælaráðuneytið hefur tilkynnt um frestun á gildistöku banns við endurnýtingu ...

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi
Fréttir 27. mars 2024

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi

Fyrirkomulag landbúnaðarstuðningskerfis á Íslandi mun taka miklum breytingum ef ...

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst
Fréttir 26. mars 2024

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst

Fyrrverandi sláturhússtjóri á Vopnafirði ætlar ekki að láta deigan síga þrátt fy...

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal
Fréttir 26. mars 2024

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal

Niðurskurður á sauðfé frá bæjunum Eiðsstöðum og Guðlaugsstöðum í Blöndudal fór f...

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga
Fréttir 26. mars 2024

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga

Kornræktarfélag Suðurlands verður endurvakið sem viðskiptavettvangur ræktenda og...

Grípa þarf tækifærin
Fréttir 26. mars 2024

Grípa þarf tækifærin

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, telur að bændur eigi að leyfa sér að hor...