Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Habenoro-eldpipar.
Habenoro-eldpipar.
Á faglegum nótum 27. janúar 2022

Keppnisandinn og chili-aldin

Höfundur: Habenoro-eldpipar

Fjöldinn allur af chili-yrkjum eru í ræktun víða um heim og fer það eftir matarhefðum hversu sterk eða stórvaxin þau skulu vera. Íslendingar hafa ekki verið sólgnir í hin sterkari afbrigði tegundarinnar lengst af en það hefur breyst þó nokkuð á undanförnum árum.

Nú er allstór hópur áhugamanna um ræktun farinn að stunda ræktun á chili-aldinum í stofuglugganum, í garðgróðurhúsum eða sér­hönn­uðum ræktunartjöldum. Keppast ræktendur um að ná í fræ hinna allra bragðmestu aldina og slá öðrum við.

Chili- krydd varð snemma vinsælt í Nýja heiminum

Chili-plönturnar eru náskyldar papriku. Aðrar tegundir sömu ættar eru til dæmis kartöflur, tóbak og tómatar. Tegundin á sín upphaflegu heimkynni í Suður- og Mið-Ameríku en hefur fyrir löngu dreifst um heiminn. Portúgalskir kaupmangarar áttu mikinn þátt í að dreifa þeim á 16. öld, ekki síst til landa kringum Miðjarðarhafið.

Í N-Afríku, Indlandi, Taílandi og víðar í Asíu náði chili-neysla fljótlega vinsældum eftir að tegundin barst þangað og fjöldi yrkja í ræktun jókst hröðum skrefum.

Scoville-kvarðinn ógurlegi

Styrkur chili-aldina er mældur eftir stöðluðum kvarða sem mælir innihald efnisins kapsaisín. Paprika sem við þekkjum best mælist 0 á svokölluðum Scoville-kvarða. Önnur chili-aldin sem fást í búðum hér á landi eru nokkuð neðarlega á listanum en í augum áhugamanna um sterkari yrki þykja þau fremur daufleg. Enginn keppnismaður í chili-ræktun og -áti lítur við aldini nema það nái upp í 10.000 á kvarðanum. Af mjög sterkum yrkjum er hægt að nefna Cayenne (25-50.000), Habanero (100-350.000), Ghost (750 -1.500.000) og efst á kvarðanum tróna yrki eins og Carolina Reaper sem nær allt að 1.600.000 á kvarðanum.

Sérlegir ákafamenn í kynbótum fullyrða að þeir hafi ræktað aldin sem ná yfir 3.000.000 en það er meiri styrkur en er í piparúða lögreglunnar.


Ræktun chili í garðyrkju- stöðvum og hjá áhugafólki

Hér á landi er ekki mikið framleitt af chili-aldinum en það þekkist þó. Þau aldin eru sem fyrr sagði heldur dauf á bragðið sé miðað við hin ofursterku aldin ofarlega á Scoville-kvarðanum. Ræktunin er nokkuð lík ræktun papriku en plönturnar eru smærri og gefa ekki sérlega mikla uppskeru. Áhugafólk um ræktun chili getur hins vegar leikið sér að því að rækta fáséðari og oftar en ekki hin bragðsterkari yrki. Þau eru ekki erfið í ræktun.

Nú er kominn sá tími árs að hægt er að huga að sáningu. Sáð er í daufa sáðmold og ungu plönturnar smátt og smátt færðar í stærri potta. Plönturnar verða runnakenndar, nema þær séu sérstaklega mótaðar. Sum yrki þurfa stuðning, til dæmis með bambuspriki þegar þær hækka. Fræ er ýmist hægt að fá í garðyrkjuverslunum eða á netinu. Hægt er að taka fræ úr eldri aldinum og sá þeim. Blómin eru hvít á litinn, og úr hverju þeirra myndast eitt aldin ef allt gengur vel. Þau eru látin fullþroskast á plöntunni og ýmist notuð fersk eða þurrkuð. Plönturnar geta haldið áfram að bera ávöxt fram á haust. Þær þurfa að sjálfsögðu næringu á vaxtartímanum, t.d. venjulegan pottaplöntuáburð á nokkurra vikna fresti fram í september. Plöntur sem ræktaðar eru með fremur hóflegri vökvun gefa bragðsterkari aldin en þær sem vaxa við mjög mikla vökvun. Aldrei ætti samt að draga svo mikið úr vökvun að laufin fara að hanga, þá eru mestar líkur á að blóm verði líka fyrir skaða.

Sultur og sósur vinsælar

Íslenskir áhugaræktendur hafa sumir hverjir lagt sig eftir því að útbúa afurðir úr sínum chili-aldinum. Ofursterkar chili-sósur eru í boði í sérverslunum og hver framleiðandi leggur kapp á að framleiða sterkar en bragðgóðar sósur. Aðrir hófsamari neytendur nota chili sem bragðbæti í ýmiss konar sultur og auðvitað í alls kyns matargerð.

Chili-aldin eru meðal fárra matjurta sem hafa verið ræktaðar í Alþjóðlegu geimstöðinni sem hringsólar um jörðina og hefur gengið furðu vel.

Skylt efni: chili

Sölufélagið í góðu lagi
Fréttir 17. júlí 2025

Sölufélagið í góðu lagi

Nú hafa Sölufélag garðyrkjumanna, Báran stéttarfélag og Framsýn stéttarfélag und...

Bændur harka af sér
Fréttir 16. júlí 2025

Bændur harka af sér

Ný rannsókn bendir til þess að fólk sem starfar í landbúnaði sé ólíklegt til að ...

Getur leyst plast af hólmi
Fréttir 16. júlí 2025

Getur leyst plast af hólmi

Frumkvöðlafyrirtækið Marea Iceland hyggst setja á markað umhverfisvænt húðunaref...

Auglýsingar um sveppadropa og -duft ámælisverðar
Fréttir 16. júlí 2025

Auglýsingar um sveppadropa og -duft ámælisverðar

Verslunin Hugur Studio, sem rekin er af Hemmet ehf., hefur verið kærð fyrir afdr...

Átak um öryggi barna í sundi
Fréttir 16. júlí 2025

Átak um öryggi barna í sundi

Rauði krossinn á Íslandi hefur hleypt af stokkunum fræðslu- og forvarnarátaki um...

Pöddur í hundamat
Fréttir 15. júlí 2025

Pöddur í hundamat

Fyrirtæki hafa sett á markað hundamat úr skordýrum. Slíkt fæði hefur minna kolef...

Orkuskipti í Flatey
Fréttir 15. júlí 2025

Orkuskipti í Flatey

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og Elías Jónatans...

Landeldi við Hauganes
Fréttir 15. júlí 2025

Landeldi við Hauganes

Laxós ehf. áformar uppbyggingu og rekstur fiskeldisstöðvar norðan Hauganess, þar...