Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Reiknuð mygluhætta út frá veðurgögnum 2022 og dæmi um ráðgjöf vegna úðunar.
Reiknuð mygluhætta út frá veðurgögnum 2022 og dæmi um ráðgjöf vegna úðunar.
Á faglegum nótum 18. maí 2023

Kartöflumygla og mygluspá

Höfundur: Helgi Jóhannesson, ráðunautur í garðyrkju.

Kartöflumygla (Phytophtora infestans) er sveppasjúkdómur sem veldur myglu og rotnun bæði á kartöflugrösum og hnýðum. Í hlýju og röku veðri – hiti yfir 10 °C og rakastig yfir 75% – eru kjöraðstæður fyrir mygluna að breiða úr sér og getur það gerst mjög hratt.

Helgi Jóhannesson.

Myglan getur borist nokkuð langar leiðir með vindi en talið er að virk smitgró geti borist með vindi einhverja tugi kílómetra.

Veðurskilyrði ráða því miklu um útbreiðslu myglunnar en smit þarf líka að vera til staðar.

Smitleiðir

Algengasta smitleiðin er sýkt útsæði. Smit berst þá frá móðurplöntu upp í kartöflugrasið, sveppurinn myndar þar gró sem dreifast í lofti á nærliggjandi plöntur og svo koll af kolli. Smit getur einnig borist frá hnýðum sem hafa orðið eftir í garðinum, lifað af veturinn og spírað upp árið eftir.

Ef smituðum kartöflum er fargað utan dyra er mikilvægt að urða þær vandlega eða hylja með svörtu plasti þannig að smit berist ekki í nærliggjandi kartöflugarða.

Útsæði og kartöflumygla

Mikilvægt er að velja heilbrigt útsæði þegar kartöflur eru settar niður og alls ekki velja útsæði úr sýktum görðum.

Stofnræktun útsæðis fer fram í Eyjafirði og Hornafirði. Þau landsvæði hafa að mestu verið laus við myglu og því ber að forðast að flytja þangað útsæði af ræktunarsvæðum þar sem myglan hefur komið upp. Erlendis má segja að kartöflumygla sé landlæg, en veðurfar ræður þar mestu um útbreiðslu hverju sinni.

Því er alltaf hætta á að innflutt kartöfluútsæði beri með sér myglusmit. Við arfgerðargreiningu á kartöflumyglu árin 2021 og 2022 hafa öll sýnin verið af sama stofninum, EU41A2. Sá stofn var algengur í Danmörku á árunum 2018-2019 og því líklegt að smit hafi borist hingað annaðhvort með dönsku útsæði eða matarkartöflum.

Myglusmit undanfarin ræktunarár

Ef litið er nokkra áratugi aftur í tímann hefur kartöflumygla komið upp á Suðurlandi af og til og valdið mismiklu tjóni. Nú er hins vegar staðan þannig að mygla hefur komið upp á hverju ári frá sumrinu 2019.

Hvort um er að ræða breytt veðurfar, meira smit í umferð, eða hvort tveggja, er umhugsunarefni. Hlýrra veðurfar eykur hættu á kartöflumyglu og því getum við búist við að þurfa að glíma við þennan sjúkdóm á hverju ári. Mikil útbreiðsla varð á myglu sumarið 2021 og skemmdist þá uppskera bæði hjá bændum og í heimilisgörðum víða á Suðurlandi. Við skoðun á útsæði í Þykkvabæ vorið 2022 kom í ljós mikið myglusmit og því líklegt að smit bærist í ræktun bænda þá um sumarið.

Sjálfvirk sólardrifin veðurstöð í Þykkvabæ til mælinga á mygluhættu.

Mygluspá og aðgerðir sumarið 2022

Haustið 2021 var sett í gang verkefni hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins sem miðaði að því að draga úr tjóni af völdum kartöflumyglu og auðvelda bændum að fást við sjúkdóminn. Verkefnið hlaut styrk úr Þróunarsjóði garðyrkju. Markmið verkefnisins var annars vegar að þróa mygluspá byggða á veðurmælingum og hins vegar að fylgjast með myglusmiti, miðla upplýsingum til bænda og veita þeim ráðgjöf við mygluvarnir.

Mygluspárhluti verkefnisins var unninn í samstarfi við Jens Grønbæk Hansen, lektor við Aarhus Universitet. Hann hefur um árabil starfað við rannsóknir á kartöflumyglu og þróun mygluspárkerfa. Ráðgjafarhluti verkefnisins var unninn í samstarfi við Benny Jensen, kartöfluráðunaut hjá BJ-Agro í Danmörku. Sjálfvirk veðurstöð var sett upp í Þykkvabæ og var mygluhættan metin út frá veðurgögnum og veðurspám eftir að kartöflugrös komu upp og út ræktunartímabilið. Fylgst var með ræktuninni og leitað að myglu, og bændur úðuðu með fyrirbyggjandi varnarefnum ef veðurfar benti til mygluskilyrða.

Reynslan sumarið 2022

Fyrstu myglusmitin sáust í Þykkvabæ og í Flóa um 20. júlí. Þar sem bændur voru á varðbergi gagnvart myglu brugðust þeir skjótt við og úðuðu akrana skipulega um leið og myglu varð vart. Myglan náði ekki mikilli útbreiðslu og tjón varð óverulegt.

Samkvæmt veðurmælingum var veruleg mygluhætta fyrir hendi seinni hluta sumarsins 2022 og því ljóst að myglan hefði getað náð mikilli útbreiðslu ef ekki hefði verið brugðist við af festu. Má því segja að árvekni bænda, mygluspáin og ráðgjöf hafi þarna skilað góðum árangri í baráttunni við kartöflumygluna.

Komandi ræktunartímabil

Sumarið 2023 verður framhald á verkefninu frá í fyrra. Haldið verður áfram að þróa mygluspá út frá veðurmælingum. Auk veðurstöðvar í Þykkvabæ verða settar upp veðurstöðvar í Eyjafirði og Hornafirði og mygluhætta metin þar á sama hátt. Bændur geta þá fylgst með mygluhættu út frá veðurfari yfir ræktunartímabilið og ráðgjöf vegna varnaraðgerða verður markvissari. Leitað verður að myglusmiti í samráði við bændur og upplýsingum og ráðgjöf miðlað til bænda til að samræma viðbrögð og varnaraðgerðir. Ef mygla kemur upp verða tekin sýni til arfgerðargreiningar þar sem mjög mikilvægt er að vita hvaða stofna um er að ræða. Stofnarnir eru misskæðir og sumir þeirra hafa þróað mótstöðu gegn ákveðnum varnarefnum.

Lokaorð

Út frá reynslu undanfarinna ára er líklegt að kartöflumygla verði viðvarandi vandamál í kartöfluræktun á Íslandi. Því er mikilvægt að allir sem hlut eiga að máli vinni að því að lágmarka það tjón sem sjúkdómurinn kann að valda. Þó svo að fjármögnun á mygluspárverkefni RML sé tryggð í ár með styrk úr Þróunarsjóði garðyrkju er ljóst að þessi vinna mun taka mörg ár og því þarf að tryggja fjármögnun til lengri tíma. Íslensku kartöfluyrkin Gullauga og Rauðar íslenskar eru sérstaklega viðkvæmar fyrir kartöflumyglu og annaðhvort þarf að kynbæta þessi yrki og efla mótstöðu, eða finna önnur yrki sem þola betur mygluna.

Ef tryggja á framtíð kartöfluræktar á Íslandi þarf því að efla rannsóknarstarf sem bæði er fjárfrekt og kallar á sérfræðiþekkingu. Því miður er hvort tveggja af skornum skammti hér á landi. Kartöflur eru mikilvæg fæða fyrir okkur mannfólkið og kartöfluræktun er því mikilvæg atvinnugrein sem ber að styðja í baráttu við þennan vágest sem kartöflumyglan getur verið.

Glæsilegt Íslandsmót í hestaíþróttum
Fréttir 11. júlí 2025

Glæsilegt Íslandsmót í hestaíþróttum

Íslandsmót fullorðinna og ungmenna var haldið á Brávöllum á Selfossi dagana 25. ...

Sýklalyfjaónæmar bakteríur í íslenskum svínum
Fréttir 11. júlí 2025

Sýklalyfjaónæmar bakteríur í íslenskum svínum

Matvælastofnun (MAST) greindi frá því í byrjun mánaðar að MÓSA bakteríur hefðu g...

Ársfundi LSB frestað aftur
Fréttir 11. júlí 2025

Ársfundi LSB frestað aftur

Í sumar hefur þurft að fresta ársfundi Lífeyrissjóðs bænda tvisvar.

Þrjár varnarlínur lagðar niður og hólfum fækkað
Fréttir 11. júlí 2025

Þrjár varnarlínur lagðar niður og hólfum fækkað

Þrjár sauðfjárveikivarnarlínur hafa verið lagðar niður og fækkar varnarhólfum um...

Hvíla þarf kartöflugarða í Þykkvabænum í þrjú ár
Fréttir 11. júlí 2025

Hvíla þarf kartöflugarða í Þykkvabænum í þrjú ár

Atvinnuvegaráðuneytið hefur sent kartöflubændunum í Hrauk í Þykkvabænum fyrirmæl...

Ný nálgun í vörnum gegn dýrasjúkdómum
Fréttir 10. júlí 2025

Ný nálgun í vörnum gegn dýrasjúkdómum

Róttækar breytingar eru að verða á regluverki varna gegn dýrasjúkdómum.

Salmonella á Kvíabóli
Fréttir 10. júlí 2025

Salmonella á Kvíabóli

Matvælastofnun (MAST) hefur sent út tilkynningu um að salmonella hafi greinst á ...

Rekstrarvandi vegna samdráttar í útflutningi
Fréttir 10. júlí 2025

Rekstrarvandi vegna samdráttar í útflutningi

Eftir þungan rekstur síðasta vetur glímir ullarvinnslufyrirtækið Ístex við fjárh...