Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Þrá frá Prestsbæ og Þórarinn Eymundsson á Fjórðungsmóti Vesturlands 2021.
Þrá frá Prestsbæ og Þórarinn Eymundsson á Fjórðungsmóti Vesturlands 2021.
Mynd / Gísli Guðjónsson - Eiðfaxi
Fréttir 16. nóvember 2021

Sýningarárið 2021

Höfundur: Elsa Albertsdóttir - ráðunautur í hrossarækt hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins

Alls voru haldnar 16 sýningar um landið á árinu þar sem 1.038 dómar voru felldir og þar af 889 fullnaðardómar. Þetta eru nokkru færri dómar en felldir voru í fyrra, en samanborið við sveiflur í fjölda dóma er þetta á pari við það sem hefur verið á árum milli landsmóta um nokkurt skeið. Tíðni áverka er enn á niðurleið og hlutu nú 11% sýndra hrossa minni háttar áverka á fótum og þar af aðeins 3% alvarlegri áverka. Sama hlutfall hrossa hlutu áverka á munni eins og í fyrra, eða 3,5%, og þau voru öll minni háttar. Þetta er afar ánægjuleg þróun og endurspeglar æ hestvænni sýningar.

Kórónuveirufaraldurinn setti mark sitt á árið með óvissu í skipulagningu sýninga og mótahaldi, eins og gefur að skilja. Smit kom upp á einni kynbótasýningu þannig að hætta þurfti dómum í miðjum klíðum og gera viðeigandi ráðstafanir, en þeim hrossum sem ekki náðist að sýna á áætlaðri sýningu var boðið upp á uppbótasýningu aðra vikuna á eftir eða endurgreiðslu sýningargjalda.

Fjórðungsmót var haldið á Vesturlandi dagana 7.–11. júlí þar sem hross í eigu aðila á Vesturlandi, Vestfjörðum, Húnavatnssýslum eða Skagafirði áttu þátttökurétt. Þátttökurétturinn miðaðist við að um 75% hrossa í hverjum flokki væru valin eftir aðaleinkunn og um 25% hrossa eftir aðaleinkunn án skeiðs. Þetta var gert til að auðvelda bestu klárhrossum með tölti að komast inn á mótið, líkt og gert var á síðasta landsmóti. Alls mættu 52 hross á kynbótasýningu Fjórðungsmóts. Þá var í fyrsta skipti boðið upp á Landssýningu á Fjórðungsmóti þar sem 10 efstu hross í sínum aldurs- og kynjaflokki miðað við aðaleinkunn var boðið að koma fram. Landssýningin var haldin á laugardeginum 10. júlí og tókst vel til. Þetta var skemmtilegur viðburður með góðri mætingu efstu kynbótahrossa landsins eftir vorsýningar sem sýndu listir sínar. Þar sem þetta var ekki landsmótsár var afkvæmahestum ekki boðið að sinni til sýningar með afkvæmum. Félag hrossabænda stóð að viðburð­inum ásamt Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins og Fjórðungsmóti Vesturlands. Viðburðinum var streymt í heild sinni en Alendis sá um þá framkvæmd. Þetta eykur og auðveldar aðgengi áhugafólks hvarvetna og er afar jákvætt og gott framtak.

Almennt um kynbótasýningar

Nokkrar breytingar urðu á dómskerfinu í fyrra þar sem dómsskalinn var uppfærður að hluta, aðaleinkunn var reiknuð á grunni nýrra vægistuðla og kynntar nýjar aðaleinkunnir sem aukaupplýsingar, en það eru hæfileikar án skeiðs og aðaleinkunn án skeiðs. Líkt og hefur áður komið fram í ræðu og riti er viðbúið að það taki tvö til þrjú ár að nýr dómskali fari að virka að fullu, t.d. með þeirri samræmingu dómarahópsins sem þarf til. Í fyrravetur var viðamikil símenntun kynbótadómara í gangi sem hefur sýnt sig skila samræmdari dómstörfum í ár. Hægt er að nálgast slíkt mat með því að bera saman meðaltöl aðaleinkunna og aldursleiðréttar aðaleinkunnir við vænt gildi sem endurspeglast í kynbótamati sýndra gripa. Fylgnin er mjög sterk og hefur farið vaxandi nú síðustu ár. Ótalin umhverfisáhrif geta eðlilega haft áhrif á niðurstöður en á Íslandi eru sýningar alla jafna mjög staðlaðar og faglega staðið að þeim sem auðveldar slíkan samanburð mikið.

Þegar metin eru áhrif undangenginna breytinga þarf að skoða áhrif mismunandi þátta á meðaltölin, en einnig að skoða það í víðara samhengi svo sem hvernig kynbótadómar hafa verið að þróast á síðustu árum. Meðaltöl dæmdra eiginleika á Íslandi hafa heldur verið að hækka síðan 2013 (mynd 1) en notkun á dómsskalanum hefur haldist nokkuð óbreytt á milli ára sem lýsir sér í nánast óbreyttu staðalfráviki og endurspeglar álíka teygni í dómsstörfum milli ára (tafla 2).

Nær sama hækkun er í meðaltali aðaleinkunna og aldursleiðréttrar aðaleinkunna sem endurspeglar að jafngömul hross eru að mæta til dóms að meðaltali, eins og sjá má á töflu 1. Ættbogi þessara sýndu hrossa er sá hinn sami innan þessa tímabils sem og mæting þeirra til dóms og endurkomur, svo ekki er að leita skýringa þar á hækkun meðaltala. Því virðist hér vera um einhverjar áherslubreytingar og/eða breytt umhverfisáhrif að ræða, svo sem sýningar- og vallaraðstæður, undirbúningur og þjálfun hrossa, framsetning þeirra og dómastörf.

Fjöldi dóma að baki þessum meðaltölum er nokkuð svipaður eins og tafla 1 sýnir. Þar sést skýrt hversu stórt hlutfall sýndra hrossa í öllum löndum er á Íslandi. Þegar skoðað er hvað stendur að baki sýndum hrossum er hæsta hlutfall dæmdra foreldra sýndra hrossa á Íslandi, einnig meðaleinkunn þeirra sem og hlutfall foreldra með fyrstu verðlaun. Eðlilega er því meðaltal kynbótamats sýndra hrossa hæst á Íslandi. Hvað heildarúttekt á gæðum ræktunargripa varðar má því segja að Ísland standi vel í samanburði við önnur lönd.

Það hefur dregið aðeins úr fjölda sýndra hrossa en þar ber hins vegar að hafa í huga að fjöldi grunnskráðra folalda hefur einnig minnkað mikið og árið 2016 voru 6000 folöld skráð samanborið við tæplega 8.500 folöld árið 2011.

Tafla 1. Fjöldi fullnaðardóma og hæsti dómur innan árs, tíðni einkunna fyrir skeið (5.0 og 5.5 og 6.0), og meðalaldur sýndra hrossa á Íslandi og í öllum löndum árin 2012 til 2021.

Niðurstöður dóma síðustu ára og áhrif breytinga í dómskerfinu

Eins og áður segir hafa meðaltöl eiginleika verið heldur að hækka á síðastliðnum árum. Í töflu 2 eru borin saman meðatöl eiginleikanna og aðaleinkunnir þeirra árin 2019-2021. Fyrst er að benda á að meðaltöl 2019 og 2021 eru mjög áþekk en nokkuð hærri árið 2020.

Einfaldur samanburður segir þó ekki alla söguna þegar meðaltöl eru borin saman milli ára. Árið 2021 mættu t.a.m. aðeins yngri hross samanborðið við síðustu tvö ár á undan sem gæti að einhverju leyti skýrt lægri meðaltöl en takmarkað þó enda munurinn lítill. Með breyttum dómsskala voru settar upp mismunandi kröfur til hrossa eftir aldri þar sem til dæmis er ekki krafist sama sprettfæris á skeiði og stökki af 4 vetra hrossum samanborið við eldri hross. Enn fremur eru minni kröfur á hægu tölti og tengsl einkunna þess og tölts fyrir yngri hrossin. Markmiðið er að sjálfsögðu að auðvelda yngri hrossum sýningar en afar mikilvægt er að fá í brautina ung hross sem eru tilbúin. Ekki aðeins vegna þess augljósa að umhverfisáhrif á niðurstöðu dóma ættu almennt að vera talsvert minni hjá yngri hrossum en þeim eldri, en einnig vegna þeirrar hagfræðilegu hugsjóna að baki kynbótum og ræktunar. Hluti af ræktunarmarkmiði er að rækta gripi sem eru fljótir til, minni tilkostnaður ætti að vera til þess að gera þá gripir tilbúna og ættu þar af leiðandi að skila ræktendum meiri hagnaði samanborið við hross sem þarfnast lengri og meiri undirbúnings og þjálfunar til að ná sambærilegum afköstum. Breyttar áherslur í sköpulagsdómum eru einmitt útfærðar með þetta í huga, að sköpulag hrossa stuðli enn betur að réttri líkamsbeitingu hrossa, sjálfberandi hestgerð og meiri eðlisgæðum gangtegunda.

Það hefur verið bent á að í breyttum dómsskala gætu auknar kröfur vissulega leitt til þess að hross skili sér æ eldri í brautina. Ýmis ný og krefjandi verkefni eru skilgreind í sýningu hæfileika sem hesturinn á að leysa, sér í lagi varðandi hinar hærri einkunnir gangtegunda. Þar er krafa gerð að hesturinn sýni að hann sé sjálfberandi og búi yfir taktöryggi, jafnvægi og burði. Þetta virðist þó alls ekki raungerast ef meðalaldur sýndra hrossa síðastliðin ár er skoðaður en hann hefur haldist nokkuð stöðugur, alveg frá 1990. Þá er einnig áhugavert að marktæk yngstu hrossin sem mæta til kynbótadóms eru á Íslandi (tafla 1).

Breytt vægi eiginleika

Byrjum á því að kanna áhrif á breytta vægistuðla eiginleikanna á niðurstöðu í meðaltali aðaleinkunna en þau má sjá í næstu töflu (3). Meðaltölin koma fyrir bæði með gildum vægistuðlum á hverjum tíma auk þess sem meðaltöl síðustu tveggja ára eru reiknuð með „gömlu“ vægistuðlunum, þ.e. vægistuðlum sem giltu 2010-2019.

Varðandi sköpulag hefði meðaltalið árið 2021 verið einni kommu lægra (8.11) en raunveruleg niðurstaða (8.12), hefðu gömlu vægistuðlarnir haldið sér. Fyrir hæfileikana skýra vægisbreytingarnar þrjár kommur árið 2021, raunlækkun meðaltalshæfileika að teknu tilliti til vægistuðla er því tvær kommur þ.e. 7,94 árið 2021 miðað við 7,96 árið 2019. Meðaltal aðaleinkunna er þremur kommum lægra árið 2021 miðað við 2019, en með gömlu vægistuðlunum er munur þessara ára enginn. Það er því hægt að álykta sem svo að breytingar á meðaltölum aðaleinkunnanna síðasta árs samanborið við árið 2019 sé einfaldlega að finna í breyttum vægistuðlum eiginleika.

Breyttar vinnureglur

Næst skulum við skyggnast inn í áhrif nýrra vinnureglna varðandi skeið. Frá árinu 2020 þurfa 6 vetra og eldri hross að sýna á yfirliti að lágmarki skeiðgetu upp á 6.5 skv. dómsskala, til þess að hreyfa einkunn fyrir skeið, hafi hross ekki verið sýnt með skeiði í fordómi. En auk þess er horft til þess að hross standi við tölteinkunn sína þegar horft er til hækkunar á skeiðeinkunn á yfirliti. Fordómur og yfirlit eru hluti af sömu sýningu og því mikilvægt að aðaleinkunn endurspegli sannarlega heildargetu hrossins. Árið 2020 var enn fremur tekin upp aðaleinkunn án skeiðs sem getur haft áhrif hvort hross er sýnt með skeiði eða ekki. Varðandi þessar tvær breytingar er athyglisvert að skoða tíðni skeiðeinkunna, sér í í lagi tíðni 5.0, 5.5 og 6.0 (sjá töflu 1).

Tíðni 5.0 fyrir skeið hækkar greinilega á síðustu árum sem er líklegast afleiðing bæði birtingu aðaleinkunnar án skeiðs auk þess að fleiri hross hljóta ekki skeið í fordómi og ná ekki að sýna skeið upp á 6.5 eða meira á yfirliti. Um þriðjungur þeirra hrossa sem sýnd eru í kynbótadómi á Íslandi eru sýnd án skeiðs og allnokkru fleiri ef horft er til allra landa. Lækkun á tíðni 5.5 og 6.0 fyrir skeið árin 2020 og 2021 er án efa afleiðing fyrrnefndrar vinnureglu.

Áhrif þess að hlutfallslega fleiri hross hljóta 5.0 fyrir skeið og hlutfallslega færri hross hljóti 5.5 og 6.0 fyrir skeið getur haft áhrif á aðaleinkunn enda skeið með 10% vægi. Meðaltal skeiðeinkunna á Íslandi er hins vegar mjög stöðug á árunum 2019-2021 (6.80; 6.84; 6.83) sem bendir til þess að fleiri hross hafi fengið hærra fyrir skeið árin 2020 og 2021 samanborið við 2019. Hver endanleg áhrif á aðaleinkunn er svo auðvitað samspil við einkunnir annarra eiginleika, en sýning skeiðs af lélegum gæðum og/eða misheppnaðar skeiðtilraunir getur vissulega haft miður góð áhrif á fegurð í reið og samstarfvilja. Vel er hægt að hugsa sér að framsetning hrossa með takmörkuð skeiðgæði hafi breyst og kannski má greina áhrif þessa í lækkun á tíðni áverka og þar með hestvænni sýningar.

Tafla 2. Meðaltal, staðalfrávik (std), hæsti (max) og lægsti (min) dómur einstakra eiginleika sýndum í kynbótadómi, aðaleinkunn sköpulags, aðaleinkunn hæfileika og aðaleinkunn árin 2019 til 2021. Munur á meðaltölum 2019, 2020 og 2021.

Breyttar áherslur í dómsskala og tíðni einkunna

Að lokum er vert að rýna í áhrif breyttra áherslna í uppfærðum dómsskala á dóma einstakra eiginleika. Í núverandi dómsskala eru breyttar áherslur aðallega fólgnar í því að verðlauna sköpulag og hæfileika eðlisgóðra hrossa. Framtíðarmarkmið er að rækta fram hross sem eru þannig sköpuð að eðlislægir kostir þeirra í sköpulagi stuðli að takthreinum sjálfberandi gæðingum sem öllum er fært að fara vel með. Þau hross ættu líka að vera fljót til og líklegast endingarbetri. Rétt líkamsbeiting hrossa skiptir sköpum fyrir afköst á gangi og sýnt hefur verið fram á tengsl byggingar og hæfileika þar sem forsendur réttrar líkamsbeitingar eru t.a.m. góð yfirlína í hálsi, herðum og bógum, og baki og lend, staðsetning fram- og afturfóta og afstaða og horn beina. Með hliðsjón af þessu er skýr áhersla að aðeins smávægileg frávik mega vera í sköpulagsþáttum s.s. yfirlínu og fótstöðu til þess að hljóta einkunnina 8.0. Varðandi samræmi er hámarkseinkunn 8.0 fyrir hross undir 138 cm á hæð á herðar. Ástæða þessa er m.a. sú að ræktunarmarkmiðið er að rækta hross fyrir alla, hvort sem er börn eða fullorðna. Burðargeta hrossa er nátengd stærð þess og því nauðsynlegt út frá velferðarsjónarmiðum og í alþjóðlegum samanburði að rækta nægilega stór hross. Enn fremur sýna rannsóknir fram á að skreflengd er háð fótahæð en eftir því sem fótahæð er meiri þeim skreflengri geta hrossin verið. Það var því settur þessi þröskuldur fyrir hinar hærri einkunnir að hross þyrftu að ná lágmarkshæð en auk fótahæðar og framhæðar er lagt upp úr fallegri heildarmynd með sterklegum en léttum bol. Hvað gangtegundir varðar er hreinn taktur og rétt líkamsbeiting með óverulegum frávikum grundvallaratriði svo einkunnin 8.0 náist. Fyrir samstarfsvilja má hross ekki sýna leti, taugaveiklun eða óþjálni.

Enn skýrar er tekið á fyrrgreindum þáttum innan eiginleikanna fyrir hinar hærri einkunnir, 9.0 og meira. En þar verða kostirnir að vera skýrir, sköpulagið verður að nýtast í reið og stuðli að sjálfberandi hestgerð sem býr yfir fjaðurmagni, burði og réttri líkamsbeitingu og mismunandi hraðastigum gangtegunda.

Með fyrrnefndum áherslum má greina smávægilega breytingu í tíðni einkunna, t.a.m. aðeins færri níur eru gefnar og nokkuð fleiri 7.5 eru gefnar. Almennt er hægt að greina af dreifingu og tíðni einkunna að gerður er góður greinarmunur á gæðum hrossa. Samspil vægisbreytinga og tíðni einkunna hefur áhrif á meðaltöl en það verður þó að segjast að áhrifin virðast lítil. Nánar er hægt að skyggnast í umfjöllun um tíðni einkunna í ítarlegri grein sem mun birtast á vef Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins.

Lokaorð

Sýningarárið 2021 gekk í heild vel fyrir sig sem og innleiðing uppfærðs dómsskala. Það virðist vera að hrossin sem standa að baki einkunnum séu vel í stakk búin að bregðast við breytingunum.

Afar líklegt er að breyttar áherslur séu í raun þegar búnar að skila sér til sýnenda og aðstandenda sýndra hrossa enda búið að fjalla um gildi þeirra um allnokkurt skeið auk þess sem flestir ræktendur á Íslandi er vel að sér í ræktun. Þetta kemur meðal annars fram í vali á þeim stóðhestum sem feðra sýnd hross síðustu ára og vaxandi hlutfalli sýndra mæðra þeirra. Með þessari stefnu ættu sett markmið um ræktun á vel sköpuðum gæðingi fyrir alla að nást fyrr en ella.

Elsa Albertsdóttir
Ráðunautur í hrossarækt
hjá Ráðgjafarmiðstöð
landbúnaðarins

Skylt efni: Hrossarækt | Hestar

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins
Fréttir 19. apríl 2024

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins

Í maí í fyrra var settur upp umplöntunarróbóti á gróðrarstöðinni Sólskógum í Kja...

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum
Fréttir 19. apríl 2024

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum

Opinn gámur, yfirfullur af dýrahræjum, stóð á dögunum á steyptu bílastæði við in...

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...